Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Engar Grýlur og Leppalúðar þarna niðri
    Hraunhellar eru margir hverjir afar litríkir. Þessi mynd er tekin í Arnarkeri í Leitarhrauni.
  • Engar Grýlur og Leppalúðar þarna niðri
    Dropasteinar eru meðal viðkvæmustu djásna í íslenskri náttúru. Þeir eru friðlýstir en hafa því miður oft orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum. En þú sérð svona, ekki snerta – bara horfa.
Sunnudagur 12. júlí 2015 kl. 08:00

Engar Grýlur og Leppalúðar þarna niðri

Ellert Grétarsson þekkir „undirheima“ Reykjanessins betur en flestir.

Fáir hafa sérhæft sig í hellaljósmyndun á Íslandi. Keflvíski ljósmyndarinn Ellert Grétarsson þekkir líklega Reykjanesið neðanjarðar best flestra og hefur vakið athygli fyrir hrífandi hellamyndir og ýmsar myndir af fallegum andartökum í náttúrunni, enda er svæðið eitt mesta hellasvæði landsins. Ellert segir hellana misskilda sem hættulega staði. Þeir hafi staðið af sér fjölda jarðskjálfta og þar búi hvorki forynjur né myrkraverur. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hraun getur tekið á sig hreint ótrúlegar myndir. Þetta fallega rósamynstur er að finna í helli einum upp í Bláfjöllum. 

Ellert eignaðist sína fyrstu myndvél fyrir um það bil 40 árum þegar hann var í sveit norður í Kelduhverfi. „Pabbi sendi mér Kodak Instamatic í sveitina en því miður eru myndirnar sem ég tók á hana glataðar. Segja má að ljósmyndunin hafi verið hluti af lífi mínu æ síðan, með einhverjum hléum að vísu,“ segir Ellert, sem starfaði að hluta til sem blaðaljósmyndari um árabil en fyrir nokkrum árum ákvað hann að afmarka sig eingöngu við náttúruljósmyndun. Hans stærsta verkefni á því sviði hefur verið að ljósmynda náttúruperlur Reykjanesskagans í ótal gönguferðum í nærfellt áratug. 

Síðla vetrar eru tilkomumiklar ísmyndanir í mörgum hellum. Þessi mynd er tekin í Raufarhálshelli snemma í vor.

 
Reykjanes eitt mesta hellasvæði landsins 

Fyrir nokkrum misserum hóf Ellert svo að ljósmynda þá náttúru skagans sem flestum er hulin, sjálfa hraunhellana, en Reykjanesskaginn er eitt mesta hellasvæði landsins. „Mér fannst þetta góð viðbót við verkefnið en tilgangur minn með því var að undirstrika vægi og gildi náttúruverndar á svæðinu. Ég hef beitt mér talsvert í náttúruverndarbaráttunni undanfarin ár og þar hefur myndmálið haft mikla þýðingu. Í þessu skyni langaði mig að sýna fólki heildarmyndina af þeirri stórkostlegu náttúru sem Reykjanesskaginn hefur að geyma, ofan- og neðanjarðar,“ segir Ellert. Eftir allan þennan tíma á hann orðið mjög heilstætt og umfangsmikið myndasafn af náttúru skagans. 

Fjölmörg dæmi eru um mannvistarleifar í hellum. Í Húshelli eru fornar hleðslur sem talið er að geti verið eftir útilegumenn sem þarna hafa fundið sér skjól. Í hellinum er einnig að finna dýrabein, m.a. úr hreindýri en þau höfðust við á Reykjaneskaga um miðja 18. öldina. 
 

Stiklaði á stórgrýti í 6 tíma

Ellert segir hellaljósmyndunina vera skemmtilega og gefandi vegna þess að hellarnir komi sífellt á óvart. „Þarna niðri sér maður stundum svo magnaðar hraunmyndanir að maður hreinlega gapir af undrun. Hraunið getur tekið á sig svo ótrúlegar myndir. Í hellunum er algjört myrkur og engin náttúruleg skíma. Lýsingin ræðst því algjörlega af þeim ljósgjafa sem maður tekur með sér niður í hellana og maður hefur hana algjörlega í hendi sér. Það er því hægt að leika sér með lýsinguna eins og maður vill, sem getur verið bæði skemmtilegt og skapandi.“ 

Eins og gefur að skilja er þessi tegund ljósmyndunar einnig afar krefjandi og reynir gríðarlega mikið á bæði mann og tæki. „Oft þarf að skríða og bogra með tækin langar leiðir en auk myndavélar þarf maður að hafa öflugan ljósabúnað og aðra fylgihluti. Nýlega fór ég í leiðangur í einn af lengri hraunhellum Reykjanesskagans þar sem ég þurfti að stikla á stórgrýti og ís í sex klukkustundir með græjurnar hangandi utan á mér. Ég var algjörlega örmagna þegar ég kom upp á yfirborðið aftur. Þannig að núna er markmiðið að klára að ljósmynda sem flesta hellanna áður en ég verð of gamall í þetta,“ segir Ellert kíminn.

Brosandi hellisbúi. 

Hundruð og þúsund ára hellar

Ellert varð þess fljótt áskynja að fólk hrífst mjög af þeirri náttúru og undaveröld sem það sér í myndunum en segir að mörgum finnist það samt sem áður ógnvænleg tilhugsun að skríða niður í myrkrið. „Ég er oft spurður að því hvort ég sé ekki hræddur um að hellarnir hrynji saman ef það kæmi t.d jarðskjálfti. Staðreyndin er sú að þessar hellar hafa verið þarna í mörg hundruð og jafnvel þúsundir ára og staðið af sér alla jarðskjálfta. Við erum líka alin upp við það að hellar séu vondir og hættulegir staðir. Við erum alin upp við sögur af alls konar illþýði sem býr í hellum, t.d. Grýla og Leppalúði. Við þekkjum það líka í kvikmyndasögunni að ef einhver hættir sér inn í helli er viðkomandi yfirleitt kominn í mikil vandræði. Þar búi alls kyns forynjur, skrímsli, púkar og aðrar myrkraverur. Hellaferðir geta einungis verið hættulegar ef maður gætir ekki öryggis.“ Ellert segist til dæmis aldrei fara einn í hellaferð því hann sé algjörlega sambandslaus þarna niðri ef eitthvað kemur upp á. „Maður sér ekki margar góðar hellamyndir í umferð enda fáir sem hafa sérhæft sig í hellaljósmyndun hér á landi. Það er því gaman að fara fáfarnar slóðir á sviði ljósmyndunar og gera eitthvað öðruvísi. Það skemmir heldur ekki að ég hef mikinn áhuga á jarðfræði,“ segir Ellert að lokum. 

 Í mörgum hellum er viðkvæmt skraut sem auðveldlega getur eyðilagst ef ekki er farið varlega. 

VF/Olga Björt