Bjuggum til ný áramót
Steinþór Jónsson ýtti Ljósanæturhátíðinni úr vör fyrir 15 árum.
„Ég er mjög þakklátur bæjarbúum að taka hrárri hugmynd svona vel og langflestir unnu að henni með mér í sjálfboðavinnu. Enginn trúði því sem myndi verða, ekki einu sinni ég. Þessi svarti steinveggur sem lýstur var upp um aldamótin skilaði mikilli útgeislun til samfélagsins sem við búum nú við í dag,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri og upphafsmaður Ljósanæturhátíðarinnar.
Bergið varð okkar „Esja“
„Ég er starfandi hótelstjóri, hef rekið fyrirtæki í bænum í 30 ár og hef alltaf þótt mjög vænt um bæinn okkar. Sem atvinnurekandi í ferðaþjónustu verður maður alltaf að líta í kringum sig og hugsa hvað hægt sé að bjóða upp á. Hvað gæti verið okkar „Esja“ eða „Gullfoss“ Þá sá ég Bergið,“ segir Steinþór en í kjölfarið vaknaði hugmyndin að því að lýsa klettavegginn upp. „Ég hafði þó vit á að segja engum frá því strax og fékk ítalska hönnuði til að hanna lýsinguna með mér og gerði tölvumynd. Það þarf ekki stórar hugmyndir til þess að einhver tali þær niður. Þetta hjálpaði til að klára málið og fyriræki tóku sig saman og gáfu bænum þetta umhverfislistaverk sem minnir okkur á á hve fallegum stað við búum sem hefur mikið upp á að bjóða,“ segir Steinþór.
Upplýst Bergið.
„Var þetta öll lýsingin?“
2. september árið 2000 var kveikt á ljósunum í berginu. Ljósanæturhátíðin var sett samhliða en á laugardegi með skemmtidagskrá frá hádegi til miðnættis. Yfir tíu þúsund manns mættu og fylgdust með. Steinþór segir svæðið fyrir neðan Hafnargötuna vera heppilegt fyrir fólk til að koma saman. „Bergið er flottasti skotpallur sem hægt er að ímynda sér og að sjá lýsinguna magnast undir á sama tíma gerir þetta svo einstakt. Hann rifjar hlæjandi upp atvik þegar Björgunarsveitin Suðurnes var að setja eldfoss á Bergið áður en það var lýst upp í fyrsta sinn. „Fossinn varði í eina eða tvær sekúndur en þá slitnaði bandið og blysin duttu í sjóinn. Þá heyrðist í eldri konu sem stóð fyrir framan mig: „Ja hérna, var þetta öll lýsingin?“ Steinþór stýrði undirbúningi Ljósanætur í tíu ár. „Þetta var mest gefandi sjálfboðavinna því mér finnst mjög gaman að framkvæma. Öll árin hafði ég með mér gott og drífandi fólk í liði með mér, en án þeirra væri hátíðin ekki sú sem hún er í dag,“ segir Steinþór.
Smitandi framkvæmdagleði
Steinþór segir Ljósanótt vera einstaka hátíð vegna þess að samfélagið á Suðurnesjum var að leita að uppákomu sem yrði fastur liður og myndi sameina íbúana. „Sumir höfðu ekki trú á að við gætum þetta og þess vegna var svo gaman að þetta heppnaðist svona vel. Einnig var hátíðin sett þannig upp að einhver stórframkvæmd fylgdi henni á hverju ári. „Fyrst var það lýsing Bergsins, síðan voru ýmis listaverk vígð, Íslendingur kom í heimahöfn o.s.frv. Þá kom pressa á að klára hitt og þetta fyrir Ljósanótt. Við bjuggum í raun til ný áramót. Framkvæmdagleðin smitaðist til íbúanna sem kláruðu hitt og þetta fyrir hátíðina,“ segir Steinþór. Þá sé Ljósanótt einnig fjölskylduhátíð því gamlir Reyknesingar, ættingjar og vinir, sæki hátíðina. „Fólk býður ættingjum í mat og gistingu, sérstaklega eftir að hún varð fjögurra daga hátíð. Einnig er þetta menningarhátíð með listviðburðum um allan bæ. Blanda af öllu þessu gerir Ljósanótt einstaka,“ segir Steinþór.
Tímasetningin engin tilviljun
Það er engin tilviljun að fyrsta helgin í september var valin fyrir Ljósanótt. „Ég talaði við Ellert Eiríksson bæjarstjóra á sínum tíma og stakk upp á þessari helgi vegna þess að norðanáttir koma oft á haustin og veðrið því gott. Einnig voru skólarnir byrjaðir og allir komnir heim úr sumarfríum,“ segir Steinþór og bætir við að spáð hafi brjáluðu veðri í veðurfréttunum daginn áður. „Ég var staddur í beinni útsendingu og stoppaði veðurfræðinginn af og sagði að það yrði gott veður á Ljósanótt. Það stóð svona vel því að á hádegi á laugardeginum kom þetta fallega haustveður. Síðan var umtalað að ég hefði stjórnað veðrinu. Það var svo gott start og mikilvægt að fá svona gott veður,“ segir Steinþór.
Ljósanótt lengir sumarið
Árgangagangan er einn af hápunktum Ljósanæturhátíðarinnar í dag. Hugmyndin að henni kviknaði þegar Magnús, bróðir Steinþórs, sem býr úti á landi, kvartaði við hann að fá ekki tækifæri til að hitta skólafélaga sína úr Keflavík. „Ég sagði honum að það væru ekki til samkomuhús í bænum fyrir alla árgangana. Einn daginn ók ég Hafnargötuna og horfði á húsnúmerin, hringdi í Magnús og lagði til að útfæra hugmynd hans þannig að fólk gæti hist þar, hver árgangur við hús með sama númeri og fæðingarárið,“ segir Steinþór. Honum finnst gaman að sjá hversu góðar og eðlilegar breytingar hafa orðið á hátíðinni þessi 15 ár. Hún sé fjölbreytt og alltaf er leitað eftir nýjungum. „Það var gott fólk sem tók við af mér. Ég ætla að verða 102 ára og ég held að í framtíðinni muni Ljósanóttin lifa mig og ég vona að við höldum áfram að vera frumleg og skemmtileg. Samstaða fólks skiptir svo miklu máli og að íbúar og gestir skemmti sér vel. Ljósanótt lengir sumarið,“ segir Steinþór og óskar bæjarbúum gleðilegrar hátíðar.
VF/Olga Björt