Bæjarstjóri með sálfræðiáhuga
Sigrún Árnadóttir var í sumar ráðin bæjarstjóri í Sandgerði eftir að Sigurður Valur Ásbjarnarson lét af störfum í kjölfar dramatískra sveitarstjórnarkosninga í vor þar sem meirihlutinn féll. Í fyrsta skipti í 18 ár fá Sandgerðingar því nýjan bæjarstjóra. En hver er þessi kona? Sigrún Árnadóttir er fædd 1960 og er með meistarapróf í sálfræði. VF innti hana eftir því af hverju hún hefði valið sálfræði?
„Það kom nú m.a. til af því að ég vann lengi hjá Rauða krossinum og var með bakgrunn í félagsfræði. Ákvað að fara í sálfræðina fyrir nokkrum árum því það vakti forvitni mína að vita meira um manneskjuna, hvað hvetur hana og hvað gerir hvern og einn eins og hann er, hvað hefur áhrif á okkur og mótar okkur. Ég hef alltaf haft þennan áhuga á einstaklingnum og samfélagi fólks, hvernig einstaklingurinn og samfélagið nær að dafna og vaxa á uppbyggjandi hátt. Ég lagði áherslu á vinnusálfræði og það sem kallast jákvæð sálfræði sem ég tók í meistaranámi í New York. Eftir það tók ég eins árs nám í svokallaðri markþjálfun þar sem áhersla er lögð á fyrirtæki og leiðtoga,“ svarar Sigrún.
Hún starfaði í 15 ár hjá Rauða krossi Íslands, þar af 13 ár sem framkvæmdastjóri. Segir þann tíma hafa verið mjög skemmtilegan enda hafi hún kynnst fjölda fólks bæði hér heima og erlendis og fengist við fjölbreytt verkefni. Segir þetta hafi verið ágætan undirbúning fyrir sveitarstjórnarmálin.
„Ég hef ekki beinlínis fengist við sveitarstjórnarmál áður en í gegnum Rauða krossinn var ég í heilmikilli samvinnu við mörg bæjarfélög víða um landið út af ýmsum samvinnuverkefnum og ráðuneytin sömuleiðis. Í gegnum það fékkst ágæt innsýn í þessi mál,“ segir Sigrún
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að söðla um?
„Ég var búin að vera lengi hjá Rauða krossinum og fannst kominn tími til að breyta til enda langaði mig að fara í framhaldsnám. Svo ég ákvað að gera það og kom heim í byrjun þessa árs. Ákvað að sækja um þetta starf þegar ég sá það auglýst og er mjög ánægð með þá ákvörðun. Líklega höfðaði Sandgerði sérstaklega til mín vegna þess að ég kem utan af landi og þekki lífið í sjávarplássi. Þar er önnur stemmning og meiri nálægð við mannlífið sem mér finnst mjög gefandi. Í minni sveitarfélögum er eins og hver og einn skipti meira máli. Ég hóf störf þegar Sandgerðisdagar voru settir og hefði vart getað hugsað mér skemmtilegri tímapunkt því ég hitti svo marga bæjarbúa á þeim dögum. Veðrið var yndislegt og allir í góðu skapi þannig að þetta var einstaklega gott upphaf í starfi.“
Hvað segirðu mér um áhugamálin þín?
„Ég les mikið. Svo hef ég lengi stundað yoga þannig að ég var mjög ánægð þegar ég uppgötvaði að hér í Sandgerði væri hægt að stunda það. Ég byrja á því að fara í yoga á morgnana sem er mjög góður undirbúningur fyrir dagsins önn. Held því reyndar fram að með því að stunda yoga fáist ákveðin lífsfylling.
Mér finnst gaman að rýna í matreiðslubækur og elda góðan mat. Einnig hef ég lengi haft áhuga á útivist. Ástundunin var ekki mikil á meðan ég var erlendis í námi en mig langar að bæta úr því enda hafa Suðurnesin að geyma margar skemmtilegar gönguleiðir og áhugaverða náttúru sem væri gaman að kanna. Ég er reyndar ekki alls ókunnug hér á svæðinu því ég bjó í Grindavík fyrir 25 árum og starfaði þar sem kennari. Svo vann ég tvö sumur í Tollinum á Keflavíkurflugvelli.
Undanfarið hef ég verið að lesa mikið af fræðibókum tengdum stjórnun og sálfræði. Maður getur alltaf bætt við sig af fræðum. Svo er ég reyndar með eitthvað af matreiðslubókum á náttborðinu. Það eru líka skemmtileg fræði.“