Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 16. desember 1999 kl. 23:31

ÆVINTÝRALEGT LÍF Á GRÆNLANDI

veiðir hreindýr og sauðnaut sér til matar Þó svo að Grænland liggi nálægt Íslandi landfræðilega séð, þá vita Íslendingar almennt ekki mikið um Grænlendinga og daglegt líf þar í landi. Fólk sér jafnvel fyrir sér ísbirni, mörgæsir, ísjaka, dökkt fólk og litrík hús þegar minnst er á Grænland. Keflvíkingurinn Sigurjón Guðleifsson hefur verið búsettur á Grænlandi s.l. 20 ár og er giftur grænlenskri konu. Hann er sonur Guðleifs Sigurjónssonar „Grasa-Leifa„ og Ástríðar Hjartardóttur. Systkini Sigurjóns eru flest búsett í Keflavík, en þau heita Hjörtur, Ásta, Ragnar, Magga og Siggi, sem býr í Reykjavík. Vildi prófa eitthvað nýtt Sigurjón segist hafa verið nýskilinn þegar hann lagði land undir fót og hann hafi viljað fara erlendis og prófa eitthvað nýtt. Hrein tilviljun hafi síðan ráðið því að hann endaði á Grænlandi. „Ég sá auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem óskað var eftir járnamönnum og múrurum, en ég er múrari að mennt. Ég sótti um og fékk vinnuna“, segir Sigurjón en undanfarin ár hefur hann unnið við að keyra hjólaskóflur og vörubíla. Hann rak líka eigið fyrirtæki á tímabilinu 1988-1993 og var m.a. með innflutning á vörum frá Sjóklæðagerðinni og ASIACO. Sigurjón viðurkennir að hann hafi í upphafi bara ætlað að vera á Grænlandi í sex mánuði og að það hafi verið mikil viðbrigði í fyrstu að koma þangað. „Mér fannst allt vera svo langt á eftir hér á Grænlandi, lífið og hugsunarhátturinn. Hér var ekkert stress á fólki eins og heima. Nú er þetta að breytast en hér hefur þróunin verið mjög hröð á undanförnum 30-35 árum“, segir Sigurjón og bætir við að það sé nóg að gera hjá iðnaðarmönnum á Grænalandi eins og er. Rennandi vatn og kamrar Sigurjón býr ásamt eiginkonu sinni í litlum bæ, Maniitsoq, sem er næsti bær norðan við höfuðstaðinn Nuuk. Kuluk, eiginkona Sigurjóns vinnur sem skrifstofustjóri á bifreiðaverkstæði og hjá byggingaverktaka. Sigurjón segir að Grænlendingar séu ekki síður tæknivæddir en Íslendingar því annar hver maður eigi orðið gemsa og tölvu. „Það er rennandi vatn í öllum húsunum hérna í bænum en það er einungis holræsi í fjölbýlishúsum og nokkrum af nýjustu húsunum. Í eldri húsunum er eins konar kamrar, en þá eru plastpokar settir ofan í fötur og ákveðnir menn sem sjá um að tæma þessa poka 3var í viku. Það er mjög erfitt að leggja holræsakerfi hér vegna þess að bærinn stendur á klettum og hér er frost í jörðu, undir einum metra, næstum allt árið.“ Góð veðrátta „Veðráttan hér er mjög góð. Á sumrin fer hitinn uppí 25-30 gráður, en sumarið hjá okkur er frá júní til ágúst eins og á Íslandi. Frostið getur hins vegar farið niður í -30 til -35 gráður en maður finnur ekki mikið fyrir kuldanum því loftið er mjög þurrt hérna. Þegar hitinn fer niður í -20 gráður þá er það svipað og -5 gráður á Íslandi því þar er mun meiri loftraki. Yfirleitt er logn þegar kuldinn fer niður í -20 gráður en við fáum stundum storm sem getur staðið yfir í 5-6 daga. Þá er ekkert flug og bara hægt að komast hingað á skipi, en Maniitsoq er á eyju sem er helmingi stærri en Heimaey“, segir Sigurjón. Erfitt tungumál Grænlenskan er óskiljanleg í eyrum flestra Íslendinga og Sigurjón segir að hana vera mjög erfitt tungumál. Hann segist þó geta talað grænlensku við börnin en annars tali hann dönsku. „Ég get fylgst með þegar tveir menn tala saman en danskan gengur alveg hér því um 90% íbúa tala hana.“ Danir líta niður á Grænlendinga Sigurjón segir að Grænlendingar séu mjög opnir og auðvelt að umgangast þá. „Mér finnst þeir vera mjög líkir Íslendingum að mörgu leiti og þeir hafa alltaf komið vel fram við mig. Ég hef reyndar orðið var við ríg á milli Dana og Grænlendinga vegna þess að Danir eiga það til að líta niður á heimamenn. Það hefur oft komið til slagsmála þeirra á milli af þessum sökum. Danirnir fá þá að vita að Grænlendingar standa saman og hefur það oft komið fyrir að Danirnir fari með fyrstu vél heim til Danmerkur.“ Veiðir sjálfur sauðnaut og hreindýr Á Grænlandi fara menn ekki útí í stórmarkað til að kaupa sér góða steik þegar frystikistan er orðin tóm (jú, kannski nauta- og svínakjöt). Sigurjón segir að ef hann vilji fá góða steik þá þurfi hann að sækja hana, en hann fer á hverju hausti á veiðar. Þá er farið á 2-3 bátum og eru 2-4 menn á hverjum bát. „Við borðum mikið af fiski, hreindýrakjöti og sauðnautakjöti, sem er herramannsmatur.“ Sigurjón segir að sauðnautakjötið sé svona mitt á milli lamba- og kálfakjöts. „Það tekur allt að 5 tímum að sigla á veiðislóðirnar sem eru inní fjarðarbotninum. Þegar þangað er komið sláum við upp tjaldbúðum en sumir kjósa að búa í bátunum. Ef við erum heppnir þá eru dýrin nálægt okkur en það getur líka tekið 4-5 tíma að komast að dýrunum og þegar við erum búin að verka dýrin þarf að bera þau að tjaldbúðunum“, segir Sigurjón. Það er greinilega ekki fyrir hvern sem er að standa í slíku ævintýri því Sigurjón segir að meðal hreindýr vegi um 50 kg þegar búið er að verka það og að sauðnaut geti vegið allt að 300 kg. Þessar veiðiferðir hljóma ævintýralega og þegar Sigurjón nefnir að hann hyggist flytja heim til Keflavíkur á næsta ári, vaknar sú spurning hvort hann eigi ekki eftir að sakna veiðiferðanna. „Ég held ég muni ekki sakna þess að búa á Grænlandi en ef mig langar að fara á veiðar þá get ég alltaf komið hingað á skitterí“, segir Sigurjón múrari og veiðimaður með meiru.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024