Aðeins verið tvo daga frá vinnu
Bæjarritari Reykjanesbæjar mun kveðja sáttur eftir nærri þrjátíu ára starf.
Hjörtur Zakaríasson hefur sinnt hlutverki staðgengils bæjarstjóra síðan Árni Sigfússon hætti um miðjan júní. Sjálfur stefnir Hjörtur að því að láta af störfum sem bæjarritari um næstu áramót en því starfi hefur hann gegnt frá árinu 1986 en þáverandi meirihluti Alþýðuflokks réði þennan fyrrverandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna. Olga Björt hitti Hjört á skrifstofu Reykjanesbæjar og ræddi við hann um starfið, pólitíkina og heilsuna.
Næstum verið áhugamál
„Ég sit núna bæjarráðs- og bæjarstjórnarfundi og er í raun sá aðili sem er til svara þagnað til nýr bæjarstjóri er ráðinn. Ég mun svo líka koma nýjum bæjarstjóra inn í það hlutverk,“ segir Hjörtur, en hann hefur verið bæjarritari Keflavíkur og Reykjanesbæjar síðan árið 1986. Hann var í bæjarstjórn á árunum 1982-1986, sem bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna. „Ég hætti afskiptum af pólitík að því leyti til en hafði í staðinn meiri afskipti af bæjarfélaginu en sem bæjarfulltrúi. Það var vegna áhuga af sveitarstjórnarmálum sem ég sóttist eftir þessu og er búinn að starfa með mörgum bæjarstjórum. Ég hef haft ánægju af því og þetta hefur næstum verið áhugamál hjá mér að gera það besta fyrir bæjarfélagið.“
Minni áhrif sem bæjarfulltrúi
Hjörtur var formaður æskulýðsráðs 18 ára og hefur alltaf verið virkur í félagsmálum. Hann segir þann áhuga alltaf hafa blundað í sér. „Mér fannst ég hafa meiri áhrif sem bæjarritari en bæjarfulltrúi. Þá er maður kominn inn í innsta hring. Ég er í raun ópólitískur bæjarritari, ráðinn af krötum á sínum tíma,“ segir Hjörtur og brosir þegar hann rifjar upp liðnar stundir. Hann segir allir bæjarstjóra sem hann hefur unnið með hafa verið minnisstæða á sinn hátt. „Ég átti góðan vin, Vilhjálm Ketilsson, sem stoppaði alltof stutt, en hann var tvö ár sem bæjarstjóri. Ég þekkti hann af öðrum sökum vegna vinskapar. En sá bæjarstjóri sem ég vann nánast með var Ellert Eiríksson og ég held enn í dag mjög góðu sambandi við hann. Auðvitað eru bæjarstjórar eins og aðrir með það að velja sér samstarfsfólk sem það veit hvernig starfar. Hér hefur ágætasta fólk verið bæjarstjórar. Eina konan sem hefur setið í stól bæjarstjóra í Reykjanesbæ sat hér í mánuð, Drífa Sigfúsdóttir. Þá var of mikið álag fyrir mig að vera staðgengill bæjarstjóra því ég var aðal maðurinn í að skipuleggja flutning bæjarskrifstofunnar yfir á Tjarnargötuna. Þetta var inni í málefnasamningi þeirra þá. En maður gerir sjálfsagt ekkert mikið í einum mánuði sem bæjarstjóri,“ segir Hjörtur.
Hjörtur með fundarundarhamarinn góða sem brotnaði í fyrra í fjöri á bæjarstjórnarfundi.
Fyrrum bæjarstjóri duglegur
„Það eru margir sem þekkja mig en svo eru margir sem hafa ekki hugmynd um hver ég er eða hvað ég geri. Ég hef ekki verið áberandi, það er bæjarstjórans að vera andlit bæjarins. Ég hef viljað halda mér til hlés og skyggja ekki á hann,“ segir Hjörtur og bætir við í því samhengi að Árni Sigfússon hafi verið bæjarstjóri í tólf ár og mjög áberandi sem slíkur. „Árni er mjög duglegur í vinnu og því hefur mætt minna á mér. Hann tók starfið alvarlega og fannst hann ekki geta sleppt hendinni af okkur hinum sem vinnum hjá honum. En ein af breytingunum sem einnig hafa þróast frá því áður er að framkvæmdastjórar eru yfir hverju sviði, sem heyra svo beint undir bæjarstjórann.“
Skemmtilegast við starfið hafi í gegnum tíðina verið að umgangast gott fólk. „Þegar maður var yngri var maður ekkert að velta því mikið fyrir sér, heldur koma upp heimili og leggja á sig mikla vinnu. Svo þegar börnin eru farin að heiman horfir maður aðeins öðruvísi á þetta. Leika sér meira í golfi og fara upp í sveit um helgar. Það eru nokkrir hér sem ég hef starfað með hér frá byrjun og svo kemur alltaf nýtt fólk sem maður hefur ekki dagleg afskipti af og man því ekki öll nöfn.“ Vel á sjötta tug manns starfar í ráðhúsinu og Hjörtur segir að um sé að ræða gott starfsfólk og því hafi samstarf gengið vel og hann heppinn með að hafa ekki verið í neinum átökum.
Þurfti að snapa pening fyrir laununum
Fyrstu árin í starfi segir Hjörtur hafa verið gríðarlega vinnu og öðruvísi en nú tíðkast. „Þá var maður að handleika peninga og ávísanahefti. Nú er þetta allt á rafrænu formi. Maður þurfti að snapa peningum fyrir launum en núna kemur útsvarið bara sjálfkrafa inn. Ég þurfti áður fyrr að hringja í stóra vinnuveitendur og spyrja hvort þeir ætluðu ekki að borga svo við ættum fyrir laununum. Elíft vesen. Tölvubúnaður var heldur ekki eins flottur og í dag og maður var kannski bara meira í vinnunni. Núna reynir maður bara að klára verkin sín fljótt og fara svo heim. Ég er með síma sem er opinn allan sólarhringinn og ég er þannig alltaf til staðar,“ segir Hjörtur. Bæjarritari hafi upphaflega fyrst og fremst verið skrifstofustjóri og borið ábyrgð á rekstri bæjarsjóðs að mörgu leyti. „Þegar ég hóf störf 1982 voru bæjarbúar á milli fimm og sex þúsund en svo breytist það mikið þegar fjöldinn var kominn í 15000. Miklu meira bákn. Ég var t.d. áður með öll starfsmannamál á minni könnu en eftir sameiningu var nauðsynlegt að ráða starfsþróunarstjóra eða starfsmannastjóra. Þá tók ég að mér að reka fasteignir bæjarins og er ennþá með það á minni könnu. Áður fyrr var bæjarritari fjármálastjóri líka. Þegar þetta stækkar verður að dreifa verkefnunum. Þannig að maður er búinn að prófa ýmislegt,“ segir Hjörtur.
Lætur brátt af störfum
Hjörtur segir að komið sé að því að stíga til hliðar. „Ég er ákveðinn í að hætta störfum og auglýst verður eftir nýjum bæjarritara. Vegna aðstæðna sleppi ég sumarfríinu mínu og get því ekki alveg sagt lokadaginn. Ætlaði að hafa hann á gamlársdag en kannski linast ég eitthvað við það og verð lengur.“ Hirti finnst þó alveg kominn tími til að sleppa takinu. „Ég hef engar áhyggjur af því að hafa ekki neitt að gera. Á fullt af barnabörnum og svona,“ segir hann og brosir breitt. Einnig hafi hann ákveðnar skoðanir á því hvernig næsti bæjarritari á að hafa hlutina. „En það verður að koma í ljós í haust þegar búið er að búa til nýjar starfsreglur sem verið er að vinna að. Eflaust koma tillögur að breytingum á hinu og þessu og einhverjar breytingar á starfi bæjarritara. Kannski verður úttektin í mínum anda eða ekki. Í raun er hlutverk bæjarritara dálítið að vera ráðgjafi og aðstoða hin sviðin við ráðgjöf og ákvarðanatökur. Ef menn eru ekki vissir er stundum gott að leita til bæjarritara. Stundum,“ segir Hjörtur og glottir stríðnislega.
Bað um orðið en mátti ekki
Hjörtur er ánægður á margan hátt með hvernig starf hans hefur þróast í tímans rás. Tími hans fari meira í að tala við fólk en að grúska í pappírum. „Það er líka miklu skemmtilegra því ég á þægilegt með samskipti við fólk í dag. Kannski var ég órabelgur hér áður. Ég er sífellt að hlusta á skoðanir og viðhorf en verð stundum að steinþegja. Það var mjög erfitt þegar ég var nýtekinn við. Ég stóð mig stundum að því að biðja um orðið - sem ég mátti ekki. Þá hafði ég miklar skoðanir og mikið að segja. Ég hef lært að mínar skoðanir skipta ekki eins miklu máli og að betra sé að eiga þær út af fyrir mig,“ segir Hjörtur kíminn.
Almenningur horfir öðruvísi á bæjarstjórann
Sem bæjarritari segist Hjörtur þurfa að vera hlutlaus aðili en bæjarstjóri geti aftur á móti verið pólitískur. „Ef við erum með ópólitískan bæjarstjóra þá er hann dálítið háður þessu pólitíska valdi og sigla á milli þriggja flokka. Aftur á móti getur stundum verið erfitt fyrir pólitískan bæjarstjóra að ná eins vel til bæjarbúa þegar þeir standa annars staðar í pólitík. Það er kannski síður erfitt fyrir þann ópólitíska. Almenningur mun kannski horfa á þetta aðeins öðruvísi.“ Hjörtur bætir við að töluverðar breytingar verði á skrifstofuhaldinu þegar nýr bæjarstjóri tekur við, líklega upp úr miðjum ágúst.
Keppi aðeins við sjálfan mig
„Við erum með lykilfólk sem er einnig komið á aldur. Þar með fer mikil reynsla en einnig verður endurnýjun. Spurður um hvaða eiginlegar hans hafi blómstrað í starfi bæjarritara segir Hjörtur að upphaflega hafi hann verið mikill keppnismaður. „Ég er alinn upp við það og kepptist því við að gera góða hluti. Var miklu villtari og brýndi raustina kannski einum of oft. En það eldist af manni.“ Hjörtur er enn kappsfullur og segist fá útrás með því að þjálfa í hádeginu. „Ég hef alltaf verið íþróttatengdur; hef alltaf synt, hjólað eða eitthvað. Líkamlegt ástand skiptir öllu máli. Aldrei vesen með vöðvabólgu vegna mikillar setu. Ég held ég hafi aðeins misst tvo daga úr vinnu vegna brjósklosaðgerðar en þá var ég fljótur að jafna mig vegna þess að ég var í góðu formi.“ Hann sé samt ekki neinn öfgamaður. „Ég er hættur að keppa við aðra en sjálfan mig og geri þetta til að halda góðri heilsu. Ég hef komist vel frá starfi mínu sem bæjarritari og mun hætta mjög sáttur,“ segir Hjörtur að endingu.
VF/Olga Björt