Aðalþörf barnanna er öryggi
Er meira með viðtöl vegna líðan nemenda en vegna náms- og starfsráðgjafar.
Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta og tekin verður fyrir næstu vikur.
Námsráðgjöf í Grunnskólanum í Sandgerði
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir lauk námi í náms- og starfsráðgjöf vorið 2010 en hafði unnið við ráðgjöf samhliða kennslu í nokkur ár á undan við Grunnskólann í Sandgerði. Hún starfar meira nú við námsráðgjöfina auk þess að kenna dönsku á unglingastigi.
Fleiri viðtöl vegna líðan
Nemendur koma til hennar með milligöngu umsjónarkennara, skólastjórnenda og eða að beiðni forráðamanna eða nemendanna sjálfra. Hún segir starfið hafa breyst mikið síðustu misseri og vera meira tengt líðan, hegðun og starfskynningum. „Ég er meira með viðtöl vegna líðan nemenda en vegna náms- og starfsráðgjafar. Þau sem leita til mín eru yngri börn en áður þegar þetta var einungis bundið við unglingastigið.“
Eru sýnilegri og samfélagið opnara
Ragnhildur telur eina af ástæðum þess að þetta hefur breyst geta verið þá að námsráðgjafar séu orðnir sýnilegri. Þeir kynni hlutverk sitt í bekkjum. „Yngri börnin eru opnari og biðja kennarann eða ritara um að fá að koma í eitt skipti. Ef það þarf meira til þá þarf beiðni í samráði við forráðamenn. Unglingar eru þó einnig opnari en áður og fljótari að ræða hlutina ef þeim finnst þeir þurfa þess.“ Einnig segir Ragnhildur samfélagið vera opnara, en slíkt sé samt vandamál varðandi samfélagsmiðla og síma. „Oft hugsa ég með mér hvort verið sé að taka upp kennslustundina mína. En ég sé samt fleiri kosti en galla við opnara samfélag,“ segir Ragnhildur.
Kvíði áberandi eftir hrun
Frá hruni segir Ragnhildur að mikill tími hafi farið í viðtöl þar sem fram hefur komið kvíði og þess háttar óöryggi. „Mjög slæmt ástand hefur verið á Suðurnesjum, fyrst vegna atvinnuleysis en nú sé komið meira jafnvægi í þeim málum. Börn þeirra sem voru svona sæmilega settir fengu kannski fleiri gæðastundir með foreldrum. Börn þeirra sem höfðu það svo slæmt fjárhagslega að þeir misstu húsnæði sitt voru óörugg. Húsaleigumarkaðurinn er hruninn og maður hleypur ekkert í húsnæði.“
Brotið á réttindum barna
Hún segir að sum börn þurfi oft að skipta um skóla vegna þess að ekki fæst húsnæði fyrir þau í heimabyggð. „Þetta veldur miklu álagi á börn og þau eru með meiri kvíða en áður. Þau eru neydd til að skipta um skóla, vini og umhverfi vegna aðstæðna sem þau ráða ekki við. Geta ekki tekið þátt í íþróttastarfi eins og áður og hegðun þeirra og líðan endurspegla stundum líðan foreldra. Það er ábyrgðarhluti stjórnvalda í hverju sveitarfélagi, bankakerfinu og ríkisstjórn á Íslandi að taka þessa þætti til greina. Þetta er brot á réttindum barna, hreint og beint,“ segir Ragnhildur.
Félagsleg staða kemur í ljós
Að sögn Ragnhildar kemur líðan barna og félagsleg staða þeirra oft í ljós þegar þau dragast aftur úr í námi, eru ekki eins dugleg að vinna heimavinnu eða fá ekki stuðning eða hvatningu heiman frá. Einnig þegar rætt sé við þau geti þau ekki einbeitt sér. „Þegar við skoðuðum skólapúlsinn í apríl og aftur í október var 0,5% aukning á kvíða, sem er ekki mikil en þó marktæk aukning og segir að þeim líður verr. Einnig sáum við að kvíði hefur aukist og þau eiga erfitt með einbeitingu, vinnubrögð og þrautseigju.“ Þá sé sjálfsmynd stúlkna líka umhugsunarefni.
Þarf allt samfélagið til
Ragnhildur segir erfitt að meta hverjar séu orsakir. Líklega sé um að ræða blöndu af þáttum innan skólans og ytri þáttum. Verið sé að skoða það sem snúi að grunnskólunum. „Það þarf samt samfélagið allt til, ekki bara skólana. Nemendur hafa stundum átt erfitt með að fóta sig eftir að grunnskóla lýkur. Þau eru í raun komin út í djúpu laugina. Reynt er að finna hvaða tækifæri og bjargir fást á vegum sveitarfélaga á Suðurnesjum.“
Suðurnesin sterk heild
Erfiðustu málin sem Ragnhildur kemur að eru að hennar sögn þegar kvíði nemanda er orðinn meiri en það sem snýr að náminu. Einhvers konar öryggisleysi sem komi út í hegðun. Þá þurfi að koma til aðstoðar utanaðkomandi, t.d. sálfræðings. „Það er gott að vinna með sálfræðingum. Einnig að fá leiðbeiningar og aðstoð. Suðurnesin eru svæði sem vinnur orðið mikið saman í svona málum. Við erum sterk heild svo að það sem gerist á einum stað gerist yfirleitt líka annars staðar.“ Ragnhildur hefur heyrt að ofbeldi og vanræksla hafi komið upp víða á Suðurnesjum. Þá byrji börn á því að sýna ákveðna hegðun og séu komin í strand í námi sínu. Þá ræði kennari við þau og oft komi í ljós það sem hamlar. Hún tekur fram að hún telji foreldra samvinnuþýða og að þeir taki þátt í því þegar taka þurfi á málum.
Aðalþörfin er öryggi
Í uppeldisstefnu Grunnskólans í Sandgerði, Uppeldi til ábyrgðar, eru tilgreindir þættir í lífi barna sem byggjast á þörfum. „Það eru þörf fyrir ást og umhyggju, gleði, að hafa stjórn og frelsi. Aðalþörfin er þó fyrir öryggi. Ef hún er ekki til staðar er ekki hægt að uppfylla hinar. Þess vegna skiptir máli að vel sé haldið utan um allt sem gert er fyrir börnin. Og alltaf í samráði fyrir forráðamenn,“ segir Ragnhildur að lokum.
VF/Olga Björt