Vondur veiðiskattur
Veiðigjald ríkisstjórnarinnar leggst á útgerð frá og með 1. september í haust. Veiðigjaldið mun nema um 1 til 1,5 milljörðum árlega og á að renna beint í hítina miklu sem sífellt bólgnar út, ávallt skilar halla, og heitir ríkissjóður. Þetta er ranglát gjaldtaka sem er ekkert annað en auka skattlagning á sjávarútveginn. Skattur sem veikir fyrirtækin og skerðir samkeppnistöðu þeirra.
Fylgjendur þessa gjalds tala um að það feli í sér sátt um fiskveiðimál þjóðarinnar. Þetta er alrangt því veiðigjaldið tekur hvergi á helstu göllum kvótakerfisins.
Grein í skuldafeni
Það er ómögulegt að fallast á það að sjávarútvegurinn skuli greiða sértækan skatt. Slíkir skattar heyra fortíð til og það á að hlífa atvinnuvegum landsmanna við þeim. Sjávarútvegurinn stendur að mörgu leyti höllum fæti, ekki síst vegna gríðarlegrar skuldasöfnunar á undanförnum árum sem löngu er komin úr böndunum. Sennilega nálgast heildarskuldirnar nú 250 milljarða króna.
Fyrir ári voru þær 190 milljarðar, samkvæmt tölum Samtaka fiskvinnslustöðva. Það er athyglisvert að skoða að heildarskuldir eru svipaðar og heildartekjur á hverju ári á öllu tímabilinu frá 1988 til 1995, en þá er eins og flóðgátt bresti og á síðasta ári voru skuldirnar sem sagt rétt tæpir 200 milljarðar á meðan tekjurnar voru tæpir 120 milljarðar.
Þetta er mjög alvarlegt umhugsunarefni. Þessi skuldaaukning stafar að verulegu leyti af því að menn hafa verið að versla sín á milli með óveiddann fiskinn í sjónum. Í ljósi þessa skyldi maður ætla að nú væri áríðandi að sjávarútvegurinn yki tekjur sínar og að áhersla yrði lögð á að greiða niður skuldir. Hinn nýi veiðiskattur Árna Mathiesen hjálpar mönnum ekki við það. Hann bætir frekar gráu ofan á svart þegar greinin þarf að glíma við hækkandi olíuverð og lækkandi afurðaverð.
Ekki leið til sátta
Leið til aukinna sátta um sjávarútveginn fellst í allt öðru en að leggja aukaskatt á greinina. Það er engin lausn þegar ríkisstjórnarflokkarnir ætla nú að hegða sér eins og þjóðvegaræningjar á krossgötum. Stilla greininni upp við vegg og heimta að hún borgi einhvers konar ímyndaða höfuðlausn frá þeim deilum um kvótakerfið sem tröllriðið hafa þjóðfélaginu í 20 ár. Kvótakerfið byggir á vitlausri hugmyndafræði, og árangursleysi þess er mikil vonbrigði.
Vilji stjórnvöld aukna sátt um kvótakerfið þá ber þeim að slaka á lamandi kló þess. Taka má ýmsar tegundir úr kvóta. Hér má nefna ýsu, ufsa, keilu, löngu, skötusel og kolmunna. Engin haldbær fiskifræðileg rök mæla með því að reynt sé að stýra veiðum úr þessum stofnum með kvótasetningum. Þetta myndi veita tækifæri þeim til handa sem í dag eiga enga eða litla kvóta. Það drægi úr brottkasti og myndi leiða til aukinnar tekjuöflunar fyrir sjávarútveginn. Slík aðgerð yrði áfangi á leið til sátta. Ekki þessi vondi veiðiskattur.
Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.
Fylgjendur þessa gjalds tala um að það feli í sér sátt um fiskveiðimál þjóðarinnar. Þetta er alrangt því veiðigjaldið tekur hvergi á helstu göllum kvótakerfisins.
Grein í skuldafeni
Það er ómögulegt að fallast á það að sjávarútvegurinn skuli greiða sértækan skatt. Slíkir skattar heyra fortíð til og það á að hlífa atvinnuvegum landsmanna við þeim. Sjávarútvegurinn stendur að mörgu leyti höllum fæti, ekki síst vegna gríðarlegrar skuldasöfnunar á undanförnum árum sem löngu er komin úr böndunum. Sennilega nálgast heildarskuldirnar nú 250 milljarða króna.
Fyrir ári voru þær 190 milljarðar, samkvæmt tölum Samtaka fiskvinnslustöðva. Það er athyglisvert að skoða að heildarskuldir eru svipaðar og heildartekjur á hverju ári á öllu tímabilinu frá 1988 til 1995, en þá er eins og flóðgátt bresti og á síðasta ári voru skuldirnar sem sagt rétt tæpir 200 milljarðar á meðan tekjurnar voru tæpir 120 milljarðar.
Þetta er mjög alvarlegt umhugsunarefni. Þessi skuldaaukning stafar að verulegu leyti af því að menn hafa verið að versla sín á milli með óveiddann fiskinn í sjónum. Í ljósi þessa skyldi maður ætla að nú væri áríðandi að sjávarútvegurinn yki tekjur sínar og að áhersla yrði lögð á að greiða niður skuldir. Hinn nýi veiðiskattur Árna Mathiesen hjálpar mönnum ekki við það. Hann bætir frekar gráu ofan á svart þegar greinin þarf að glíma við hækkandi olíuverð og lækkandi afurðaverð.
Ekki leið til sátta
Leið til aukinna sátta um sjávarútveginn fellst í allt öðru en að leggja aukaskatt á greinina. Það er engin lausn þegar ríkisstjórnarflokkarnir ætla nú að hegða sér eins og þjóðvegaræningjar á krossgötum. Stilla greininni upp við vegg og heimta að hún borgi einhvers konar ímyndaða höfuðlausn frá þeim deilum um kvótakerfið sem tröllriðið hafa þjóðfélaginu í 20 ár. Kvótakerfið byggir á vitlausri hugmyndafræði, og árangursleysi þess er mikil vonbrigði.
Vilji stjórnvöld aukna sátt um kvótakerfið þá ber þeim að slaka á lamandi kló þess. Taka má ýmsar tegundir úr kvóta. Hér má nefna ýsu, ufsa, keilu, löngu, skötusel og kolmunna. Engin haldbær fiskifræðileg rök mæla með því að reynt sé að stýra veiðum úr þessum stofnum með kvótasetningum. Þetta myndi veita tækifæri þeim til handa sem í dag eiga enga eða litla kvóta. Það drægi úr brottkasti og myndi leiða til aukinnar tekjuöflunar fyrir sjávarútveginn. Slík aðgerð yrði áfangi á leið til sátta. Ekki þessi vondi veiðiskattur.
Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.