Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Viljum gera lestur að lífsstíl íbúa Reykjanesbæjar
Föstudagur 22. júní 2012 kl. 09:04

Viljum gera lestur að lífsstíl íbúa Reykjanesbæjar



Lestur er undirstaða allrar virkni og þátttöku í samfélaginu. Það hefur lengi verið vitað og mikið rætt, ekki síst á undanförnum árum, þar sem framboð afþreyingar hefur aukist. Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) nefnir örvun og styrkingu lestrarvenja barna frá unga aldri sem fyrsta lykilmarkmið í kjarnaþjónustu almenningsbókasafna.
Hlutverk almenningsbókasafna er skýrt út frá lögum um almenningsbókasöfn (1997 nr. 36 16. maí), sem kveða m.a. á um að þau skuli:
- veita fólki, börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öðrum miðlunargögnum.
- efla frjálsan og óheftan aðgang almennings að upplýsingum og þekkingarmiðlum.
- efla íslenska tungu, stuðla að símenntun og örva lestraráhuga.
Með þetta að leiðarljósi vill starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar stuðla að því að lestur verði lífsstíll allra íbúa bæjarfélagsins.

„Þeir sem lesa mikið á barnsaldri hafa fjölbreyttari áhugamál en fólk sem les lítið í æsku.“ -Úr rannsókn Ágústu Pálsdóttur bókasafnsfræðings á lestri í íslenskum fjölskyldum.

Sumarlestur
Sumarlestur fyrir grunnskólabörn hófst 1. júní sl. og stendur til 31. ágúst. Sumarlesturinn er unninn í samstarfi við grunnskólana enda leggja skólarnir áherslu á lestrareflingu og yndislestur, líkt og Bókasafnið. Í sumar eru læs börn á leið í grunnskóla sérstaklega boðin velkomin. Leikskólarnir vinna með læsi, stærðfræðihugtök og talnaskilning í leik og starfi samkvæmt framtíðarsýn Reykjanesbæjar í skólamálum og mörg elstu barnanna orðin læs.

Sögustundir
Þessi sömu leikskólabörn koma í heimsóknir á Bókasafnið yfir veturinn og fá þannig góð kynni af sínu almenningsbókasafni. Lesið er fyrir börnin í sögustundum og rabbað um bækurnar, þau fá kynningu á safninu og fróðleik um meðferð bóka.

Listsýningar leikskólabarna
Á safninu fá þessir ungu gestir okkar gagnkvæma virðingu sem birtist m.a. í því að leikskólabörnum er boðið að sýna afrakstur vetrarstarfsins í mynd- og handmennt innan veggja safnsins. Allir leikskólarnir 10 sýna í sumar, 2 vikur í senn, frá 7. maí til 21. september.

Bókakoffort í leikskólum
Útibú frá Bókasafninu er staðsett í 9 leikskólum í Reykjanesbæ. Koffort fullt af bókum fer á milli deilda í hverjum skólanna 9 og auðvelda börnum og foreldrum aðgengi að fjölbreyttum bókakosti. Rúmlega 100 bókatitlar eru í hverju kofforti til útláns og þeim fjölgar í haust. Þá er fjölmenningarverkefni einnig starfandi í 9 leikskólunum en það inniheldur bækur með upplestri til að hluta á samhliða skoðun bóka, en það auðveldar tvítyngdum börnum að læra íslensku.



Sögupokar
Sögupokaverkefni Bókasafnsins hefur vakið mikla athygli víða um land, en sögupoki er taupoki með bók og hlutum/dóti sem tengjast sögunni. Verkefnið miðar að því að auka lesskilning barna og víkka út lestrarupplifun þeirra í gegnum lestur og leik með foreldrum eða forráðamönnum. Sögupokar eru í hnokkadeild alla opnunardaga.

Fjölbreyttur bókakostur fyrir alla
Eftir að Bóksafnið tók þátt í samstarfsverkefni nokkurra almenningsbókasafna, „Bækur og móðurmál“ sem hafði það að markmiði að efla bókakost fyrir almenning sem átti annað móðurmál en íslensku, á safnið gott úrval af bókum á ensku og pólsku.

Kynningar á safninu
Starfsfólk bókasafnsins notar ýmsar leiðir til þess að kynna fjölbreytta þjónustu safnsins og safnkost. Skólabörn koma í heimsóknir, almenningur fær leiðsögn um safnið og starfsfólk nýtir samfélagsmiðilinn Facebook og veraldarvefinn í þessu efni. Vefslóð safnsins er reykjanesbaer.is/bokasafn og safnið er skráð sem Bókasafn Reykjanesbæjar á Facebook.

Notendafræðsla
Lánþegum stendur til boða að fá kennslu í upplýsingalæsi og heimildaleit í gagnagrunnum á Bókasafninu yfir vetrarmánuðina. Þjónustan, sem er gjaldfrjáls, hefur það að markmiði að bæta notendur í upplýsingalæsi og heimildaleit.

Upplýsingaþjónusta
Sérhæft starfsfólk Bókasafnsins starfar við upplýsingaþjónustu safnsins. Lánþegar sem þurfa á sérhæfðu efni að halda fá aðstoð frá bókasafns- og upplýsingafræðingum við efnisöflun og heimildarleit.

Tölvur og þráðlaust net
Almenningi gefst kostur á að nota tölvukost safnsins sem staðsettur er í almenningsrými. Þar er bæði hægt að komast á veraldarvefinn og vinna í Office forritum. Þá er þráðlaust net á safninu fyrir fólk með eigin tölvur. Allir sem eiga gild bókasafnskort á Bókasafni Reykjanesbæjar fá þjónustuna endurgjaldslaust, annars þarf að greiða fyrir hana.

Heimsendingar, eldri borgarar og sjúkir
Þeir lánþegar sem ekki eiga að heiman gengt geta fengið safngögn send heim. Þá þjónustar starfsfólk einnig eldri borgara á Nesvöllum og Hlévangi og sjúka á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Spjall, grúsk og bókmenntaarfur
Yfir vetrarmánuðina er starfandi bókaspjall á safninu. Þar er rabbað um bækur sem þátttakendur Bókaspjalls hafa verið að lesa. Einnig er boðið upp á bókmenntanámskeið undir liðnum „Kynning á bókmenntaarfinum.“ Í haust ætlar Þorvaldur Sigurðsson, bókmennta- og íslenskukennari að fjalla um Njálu. Að lokum má geta þess að aðstaða á safninu hefur verið nýtt fyrir fleiri áhugahópa, t.d. ættfræðigrúskara sem hittast þar reglulega við sína iðju.

Hulda Björk Þorkelsdóttir forstöðumaður
Svanhildur Eiríksdóttir deildastjóri


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024