Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 17. október 2000 kl. 16:26

Þurfum að eyða þekkingarskorti og fordómum

Kristín Njálsdóttir, forstöðumaður miðstöðvar nýbúa í Reykjavík hélt erindi á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldin var sl. helgi í samkomuhúsinu í Garði. Hvað Suðurnesin varðar þá búa flestir útlendingar í Reykjanesbæ en hæst hlutfall þeirra er í Garði, eða 8,5% af íbúafjölda. Pólverjar fjölmennastir Í erindi Kristínar kom fram að Pólverjar væru fjölmennasti innflytjendahópurinn á Íslandi og að gríðarleg aukning hafi orðið á umsóknum um íslenskt ríkisfang á undanförnum misserum. Hún lagði áherslu á að þessar breytingar kölluðu á gagnkvæma aðlögun Íslendinga og nýbúa. „Sá misskilningur er algengur að flestir innflytjendur séu asískir en sú er ekki raunin. Stærsti hópurinn kemur frá Evrópu, og langflestir frá Póllandi, en það fólk er fremur líkt okkur í útlit og sker sig síður úr hópnum“, sagði Kristín. Útlendingum fjölgar á Íslandi Á tímabilinu 1998-1999 fjölgaði útlendingum um 12% en það stefnir í að það verði 15-16%, aukning erlendra ríkisborgara 1999-2000. Pólverjum fjölgar mest, en einnig Tælendingum og Filippseyingum. Flestir útlendingar búa á höfuðborgarsvæðinu en Pólverjarnir skera sig úr hvað það varðar því algengast er að þeir búi utan höfuðborgarinnar og vinni í fiski. Flestir búa í Reykjanesbæ Suðurnesin eru yfir landsmeðaltali varðandi hlutfall útlendinga á svæðinu, en það er 4,5%, alls 616 manns. Flestir útlendingar eru í Reykjanesbæ, 294 sem er 2,8% hlutafall af íbúafjölda. Í Garðinum búa um hundrað útlendingar en hlutfall af íbúafjölda er hæst þar, eða 8,5%. Sandgerði er einnig með hátt hlutfall útlendinga, 5,8% eða 76 einstaklinga. Í Grindavík búa rúmlega hundrað útlendingar sem er 4,6% hlutfall af íbúafjölda bæjarins. Á Vatnsleysuströnd búa 43 útlendingar, eða 5,9% af íbúafjölda. Af 616 útlendingum á Suðurnesjum er rúmlega þriðjungur Pólverjar. Næstfjölmennasti hópurinn kemur frá Danmörku, Færeyjum og Grænlandi, eða 81 einstaklingur. Bandaríkjamenn eru 63, Tælendingar 41 og frá Júgóslavíu koma 34 einstaklingar og sömuleiðis frá Filippseyjum. Þarf að leiðrétta launamun Kristín benti á að meðallaun útlendinga væru mun lægri heldur en Íslendinga í sömu störfum, þrátt fyrir að útlendingar væru yfirleitt í láglaunastörfum. „Þetta er athugunarvert og ég tel að vinnuveitendur og verkalýðshreyfingin ætti að skoða þetta mál mjög alvarlega“, sagði Kristín og bætti við að nauðsynlegt væri að eyða fordómum og þekkingarskorti gagnvart útlendingum sem hér búa. „Það er mikilvægt að nýbúar nái tökum á íslenskri tungu en margir eiga erfitt með að læra tungumálið, því verður að mæta þessu fólki af skilningi. Fólk getur orðið mjög einangrað þegar það getur ekki tjáð sig og þá reynir á hæfni og umburðarlyndi á báða bóga, gagnkvæm aðlögun útlendinga og Íslendinga“, sagði Kristín. Þurfum á erlendu vinnuafli að halda Að sögn Kristínar hefur fjölgun útlendinga á Íslandi verið í takt við aukna þenslu í þjóðfélaginu þar sem Íslendingar hafa ekki haft nægilegt vinnuafl til að mæta þenslunni. „Íslenskt samfélag verður háðara erlendu vinnuafli á næstu árum. Eins og staðan er í dag er skortur á heildstæðri stefnu stjórnvalda gagnvart útlendingum, þ.e. reglur og löggjafir stangast á gagnvart þessum hópi. Þetta verður að laga. Stjórnvöld verða að móta sér ákveðna stefnu því þetta fólk á að geta tekið virkan þátt í samfélaginu, óháð uppruna.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024