Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Það er gott vatn í Suðurnesjabæ
Sunnudagur 13. október 2024 kl. 06:08

Það er gott vatn í Suðurnesjabæ

Bestu þakkir fyrir góð viðbrögð við pistli mínum „Sandgerði, fallega Sandgerði“ í Víkur-fréttum 25. september sl. Ekki voru allir sammála mér um að Sandgerði væri fallegasti bær á Íslandi, enda hefur hver sinn smekk. Hafi ég rangt fyrir mér, þá er ég viss um að með samstilltu átaki á ýmsum sviðum og frumkvæði bæjaryfirvalda ætti Suðurnesjabær góða möguleika til að vinna fegurðar- og umhverfissamkeppni bæjarfélaga innan fárra ára. Vonandi er umhverfisfulltrúi bæjarins sammála mér um þetta. Kannski meira um það síðar.

Ég fékk líka þakkir fyrir spurningar til stjórnenda bæjarins og svör við þeim. Mörgum var brugðið þegar álagning fasteignagjalda fyrir árið 2024 lá fyrir, en fyrir marga var hækkunin milli ára þá mjög veruleg og íþyngjandi. Vonandi mun bæjarstjórn sýna meiri mildi þegar álagning fyrir árið 2025 verður ákveðin. Að þessu sinni ætla ég að fjalla um innheimtu vatnsskatts í Suðurnesjabæ sem hefur lagst misþungt á bæjarbúa eftir búsetu. Ég sendi stjórnendum bæjarins spurningar um málið.

Bæjarstjórar og fulltrúar HS Veitna skálum fyrir varavatnsbóli fyrir neysluvatn við Árnarétt í Garði í Suðurnesjabæ í upphafi árs.

Spurningar vegna álagningar og innheimtu vatnsskatts.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir liggur að fasteignaeigendur í Garði greiða um það bil helmingi lægri vatnsskatt en fasteignaeigendur í Sandgerði. Skýringin er sú að HS Veitur eiga vatnsveituna í Garði og rukka fasteignaeigendur þar samkvæmt gjaldskrá, en bærinn á vatnsveituna í Sandgerði og kaupir vatn af HS veitum við dælustöð og selur til fasteignaeigenda í Sandgerði sem hlutfall af fasteignamati, óháð notkunarmagni. Þannig hefur þetta verið frá sameiningunni 2018 og ljóst að eigendum fasteigna í bæjarfélaginu er mismunað.  Þetta er í andstöðu við gefin fyrirheit fyrir sameiningu eins og lesa má á upplýsingasíðu vegna kosninga um sameiningu Sandgerðis og Garðs.

Spurningarnar eru eftirfarandi:

1. Ef þetta fyrirkomulag er eins og lýst er hér að framan, hvers vegna hefur þetta ekki verið lagað og samræmt á milli byggðakjarnanna í þau um sex ár sem liðin eru frá sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018? 

2. Liggur fyrir lögfræðiálit um hvort heimilt sé að mismuna bæjarbúum eins og gert er í þessu máli?

3. Er miklu dýrara fyrir Suðurnesjabæ að reka eigin vatnsveitu í Sandgerði, en fyrir HS Veitur hf. að reka vatnsveituna í Garði?  Ef svo er, í hverju liggur sá munur?

4. Með vísan til þeirra upplýsinga og fyrirheita sem gefin voru í aðdraganda sameiningar Sandgerðis og Garðs um að óheimilt sé að mismuna íbúum varðandi innheimtu gjalda og skatta, vil ég spyrja, hvenær fasteignaeigendur í Sandgerði geta átt von á endurgreiðslu vegna oftekins vatnsskatts síðastliðin sex ár?

Svar frá bænum var eftirfarandi:

Ein og sama gjaldskrá Suðurnesjabæjar gildir fyrir alla íbúa bæjarins og í henni felst engin mismunun eftir búsetu íbúanna. Gjaldskrár sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar voru samræmdar strax eftir sameiningu og svo hefur verið síðan. Einn liður í gjaldskránni er vatnsgjald og hún gildir fyrir alla þá sem nýta vatnsveitu bæjarins. Samkvæmt lögum um vatnsveitur ber gjaldskrá að skila tekjum til að standa undir kostnaði við rekstur og fjárfestingar og miðast gjaldskrá vatnsveitunnar við það. Hins vegar er ekki heimilt samkvæmt sömu lögum að reka vatnsveitur með halla, en því miður hefur það verið reyndin með vatnsveitu bæjarins og sem dæmi hefur fallið til mikill kostnaður vegna viðhalds veitunnar undanfarin ár. Eins og réttilega kemur fram hjá fyrirspyrjanda, þá reka HS veitur vatnsveituna í Garði og innheimta vatnsgjald samkvæmt sinni gjaldskrá, en bærinn rekur vatnsveituna í Sandgerði og þannig hefur málum verið háttað um árabil. Suðurnesjabær þekkir ekki rekstur HS veitna til þess að svara því til hver sé munur á rekstri og gjaldskrám vatnsveitnanna. Samkvæmt framansögðu eru engar forsendur fyrir því að vatnsveita bæjarins endurgreiði vatnsskatt til íbúa í Sandgerði, enda felst engin mismunun í gjaldskrá Suðurnesjabæjar eftir búsetu íbúanna og því engin rök fyrir því að um oftekinn vatnsskatt sé að ræða. (Vísað var í fréttir á heimasíðu bæjarins um álagningu gjalda)

Athugasemdir sem ég gerði við svar bæjarins:

Ég var ósáttur við þetta svar sem mér fannst að hluta til vera útúrsnúningur þar sem ég hafði ekki gert athugasemdir um að bæjarbúum væri mismunað samkvæmt gjaldskrá bæjarins. Hins vegar er ljóst að bæjarbúum hefur verið mismunað varðandi innheimtu vatnsskatts og ástæðan liggur fyrir.

Spurning er, af hverju bæjarstjórn hefur látið þetta fyrirkomulag viðgangast. Það kom ekki svar við því. Það kom heldur ekki svar um hvort lögfræðiálit liggi fyrir um málið, eða af hverju rekstur vatnsveitu bæjarins er u.þ.b. helmingi dýrari en rekstur vatnsveitu HS veitna sem er hlutafélag með arðsemissjónarmið að leiðarljósi.

Hefur þessi mikli mismunur á rekstrarkostnaði veitnanna verið kannaður? Væri ekki bara eðlilegt að sýna okkur bæjarbúum hvernig rekstrarkostnaður vatnsveitu bæjarins skiptist og er reiknaður? Eru íbúar í eldri hverfum til dæmis að greiða stofnframlög vegna lagna í nýjum hverfum? Forsendur útreikninga skipta máli. Almennt er sveitarfélögum ekki heimilt að innheimta hærri þjónustugjöld en sem nemur kostnaði við þjónustuna. Það á ekki bara við vatnsskatt, heldur öll önnur þjónustugjöld. Skýrt dæmi um brot á þessu til margra ára er rekstur og fjárfestingar hafnarinnar í Sandgerði. Þar hefur bæjarsjóður þurft að brúa bilið til fjölda ára. Í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna kom skýrt fram að óheimilt væri að mismuna íbúum varðandi innheimtu gjalda og skatta. Samt hefur það verið gert. Eins og sjá má í svari bæjarins, er það sjónarmið að engar forsendur séu fyrir endurgreiðslu oftekins vatnsskatts til íbúa í Sandgerði. Spurning hvort einhverjir mundu vilja kanna rétt sinn þar?

Vonandi verður breyting til hins betra.

Ég tel að það sé vilji hjá stjórnendum bæjarins að finna lausn og málið hefur fengið nokkra umræðu. Vonandi þróast málið í þá veru að jafnræði finnist til greiðslu vatnsskatts milli fasteignaeigenda í Garði og Sandgerði áður en fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 liggur fyrir. Eigum við ekki bara að vona það besta.

Bestu kveðjur,
Jón Norðfjörð,
[email protected]