Samstaða skilar árangri
Óhætt er að segja að jákvæður tónn hafi verið sleginn í umræðuna um brýnar úrbætur í atvinnumálum á Suðurnesjum í kjölfar fundar þingmannanna Kristjáns Möller og Oddnýjar Harðardóttur í Garðinum á dögunum. Samstaða um stærstu verkefnin er nú leiðarljósið. Hættum að deila um hvað er hvers og stöndum saman t.d. um að koma álverinu í Helguvík yfir lokahjallann. Þetta er rétti andinn og ef við náum upp samstöðu er ég sannfærður um að hún muni skila okkur því að áformin um álver í Helguvík gangi eftir.
Til að vinna á þessum nótum er farinn af stað undirbúningur að stofnun óformlegs samráðshóps um álver í Helguvík. Samráðs sem er ætlað að stilla saman strengi þingmanna, sveitarstjórnarmanna og fulltrúa úr verkalýðshreyfingu og atvinnulífi til að vinna álverinu brautargengi.
Fyrir liggur að áformin stoppuðu á deilum nýrra eigenda HS Orku og Norðuráls um orkusöluna. Ágreiningur sem nú er fyrir gerðardómi í Svíþjóð. Vonandi kemur afgerandi niðurstaða úr honum sem allra fyrst, en hann er væntanlegur næstu vikurnar. Sá úrskurður skiptir sköpum upp á framvindu álversáforma.
Til að skila því alla leið að álverið í Helguvík rísi þurfa Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur einnig að koma að verkefninu með umtalsverða orku. Því er mikilvægt að Landsvirkjun og Norðurál semji um raforku í áföngum næstu árin. Áríðandi er að slíkir samningar náist sem fyrst til að Norðurál geti farið á fulla ferð í framkvæmdir.
Þegar við nokkur tókum fyrstu skóflustunguna að álverinu í Helguvík vorið 2008 sagði ég í ávarpi mínu á samkomunni að við gætum rökrætt lengi um með hvaða hætti við nýtum raforkuna á hverju svæði fyrir sig. En þegar heimamenn og stjórnvöld hafa komist að niðurstöðu um hvað gera skuli skiptir samstaðan um ákvörðunina öllu máli. Annars verður ekki neitt úr neinu.
Núna þremur árum síðar og við nálgumst krossgötur í málinu blasir þessi staðreynd við. Á Alþingi tókum við fjárfestingarsamning á milli ríkis og Norðuráls í gegnum þingið vorið 2009 með góðum meirihluta. Síðan hafa áformin lent í vanda vegna ágreiningsins áður nefnda. Því skiptir miklu nú að mynda órofa samstöðu um álversáformin og skila þeim alla leið.
Samtímis þarf að efla menntun á svæðinu. Rót langtíma atvinnuleysis liggur í lágu menntunarstigi. Hátt í 80% atvinnulausra eru með styttri formlega skólagöngu en framhaldsskólapróf. Sú staðreynd að annar hver 19 ára piltur á svæðinu er utan skóla án þess að ljúka námi segir meira en mörg orð um inntak verkefnisins sem við er að eiga. Til að vinna gegn brottfallinu skiptir sú ákvörðun stjórnvalda miklu að allir 25 ára og yngri sem um sækja fá vist í framhaldsskóla.
Um leið og við eflum verulega menntunarúrræðin, t.d. með því að styrkja Keili og FS, þarf að rjúfa kyrrstöðuna með stórframkvæmdum á borð við gagnaverinu á Ásbrú, kísilverksmiðjunni sem er að fara í útboð og álveri í Helguvík. Þannig sköpum við fjölbreytt atvinnulíf og vel launuð störf til framtíðar, byggð á þekkingu og framleiðslu útflutningsverðmæta.
Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.