Ókeypis fyrirlestrar í Íþróttaakademíunni
Nú er nýtt ár gengið í garð og margir hafa strengt sér það heit að setja heilsuna í forgang á nýju ári. Í haust hóf Íþróttaakademían að bjóða uppá ókeypis fyrirlestra um heilsu fyrsta þriðjudagskvöldið í hverjum mánuði. Fyrirlestrarnir voru mjög fjölbreyttir og skemmtilegir og í ár verður ekkert lát á. Við byrjum aftur næstkomandi þriðjudag 9.janúar og þá verður Haraldur Magnússon osteópati hjá okkur með mjög spennandi fyrirlestur sem vakið hefur mikla athygli á höfuðborgarsvæðinu.
Sætuefnið Aspartam - Er Diet kók betra en venjulegt kók?
Sætuefnið Aspartam er án efa umdeildasta aukaefni sem til er. Greinar birtast reglulega í fjölmiðlum þar sem óhefðbundnir meðferðaaðilar og næringþerapistar segja að þetta sé stórskaðlegt eitur á meðan næringafræðingar og umhverfisstofnun segja að það sé ekkert athugavert við þetta efni.
Hver er sannleikurinn?
Farið verður í flesta þá þætti sem varpa ljósi á þetta mál. Hvernig var þetta efni leyft, hvað er þetta efni og hver eru áhrif þess á líkama okkur? Er það satt að hægt sé að fá MS, sykursýki eða höfuðverki við að drekka diet kók? Hvað með þessa tilraun sem sýndi að vefjagigt fer ef viðkomandi hættir að drekka diet kók? Þeir sem hafa setið þennan fyrirlestur segja að hann sé sjokkerandi og við viljum sérstaklega hvetja þá sem vinna með heilsu fólks til að mæta.
6. febrúar mun Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti kenna okkur að breyta mataræðinu til batnaðar á einfaldan máta og öðlast þannig meiri orku, vellíðan og heilbrigði. Hún fer á einfaldan og auðskiljanlegan hátt yfir, hvernig er hægt að koma stjórn á blóðsykurinn og hvernig við verðum okkur út um þau næringarefni sem líkaminn þarfnast.
6. mars kemur til okkar íþróttafræðingur og mun hann fjalla um áhrif hreyfingar og mikilvægi hennar fyrir heilsu og líðan. Farið verður yfir grunnatriði þol-, styrktar- og liðleikaþjálfunar, uppsetning æfingaáætlunar og markmiðssetning.
6. apríl verður næringarfræðingur með fyrirlestur sem kallast ,,Hvað leynist undir umbúðunum”. Þar mun hann kenna okkur að lesa á umbúðir matvæla, meta innihald og greina auglýsingar. Hvað er lífrænt fæði og hvað ekki? Hvaða merkingum á að leita eftir og svo framvegis.
Skráning er á alla fyrirlestrana í síma 420-5500 eða á [email protected]. Einnig er hægt að óska eftir því að láta minna sig á fyrirlestrana.
Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir
Verkefnastjóri
Íþróttaakademían