Öðruvísi mér áður brá
Það verður seint sagt um Suðurnesjamenn að þeir séu metnaðarlausir eða að þeir sætti sig við neðstu sætin eða meðalmennskuna yfirleitt. Því eins og alþjóð veit erum við mestir og bestir í flestu og eigum okkar góðu stuðningsmenn og klapplið sem fagnar og baular þegar það á við. Stolt héldum við heim á leið eftir velheppnaða og glæsilega Ljósahátið.Við vissum að við vorum fjandi góð. Þvílík menningarhátíð, já hér er sko ekki fiskur undir steini eða hvað? Nei aldeilis ekki – við erum sigurvegarar. Við erum bestir! Eigum Hljóma, Gullaldarliðið, nýuppgerða Hafnargötuna með flottustu bílana og svo öll fínu húsin í bænum.
Við höldum keppnir í öllu mögulegu og höfum verið þekkt fyrir að ríða á vaðið með ýmsar tegundir keppnisgreina t.d. í hnefaleikum og jólaljósaskreytingum. Í lífsgæðakeppninni höfum við verið á verðlaunapalli. Sumir segja að þar séum við á sannkölluðum “heiðurslista”. Hvort sem sá listi hefur verið birtur opinberlega skýrt og skorinort eða ekki. Þá er það bara þannig. En öll höfum við okkar Akkilesarhæl og á undanförum árum höfum við Suðurnesjamenn þurft að horfast í augu við það ítrekað að í samanburði við aðra staði á landinu hafa grunnskólanem-endur okkar verið aftarlega á merinni hvað námsárangur á samræmdum prófum varðar. Þessu er erfitt að kyngja og sú staðreynd hefur hleypt kappi í suma en aðrir neita að trúa. Bara ef prófað væri í íþróttum eða tónlist á samræmdu prófunum, þá værum við sko bestir. Yfirvöld hafa lagt ríka áherslu á skólamálin og hafa sýnt vilja til að bæta ástandið.
„Best greidda hárið”
Á þessu kjörtímabili hafa skólamál enn verið í brennidepli og ekki síst fyrir tilstuðlan núverandi bæjarstjóra Árna Sigfússonar en hann er jafnframt formaður fræðsluráðs. Árni hefur sýnt skólamálum og samstarfi heimila og skóla mikla alúð og hvatt til aukinnar skólaumræðu. Ég þori að fullyrða að með heitum máltíðum í öllum grunnskólum bæjarins og nú síðast með tilkomu frístundskólans, í þeirri mynd sem hann er hér, stöndum við skrefi framar en önnur bæjarfélög svona ef við höfum þörf fyrir þann samanburð. Við getum líka státað af góðu skólahúsnæði og nú síðast höfum við tekið sérstaklega fyrir öryggismál skólabarna í umferðinni. Samstarf heimila og skóla er til fyrirmyndar hér og ekki síst fyrir þann stuðning sem fræðsluyfirvöld hafa sýnt því. Fólk er hvatt til að rýna til gagns og kom með tillögur að úrbótum. Á fundum með foreldrum grunnskóla-nema hefur bæjarstjóri kallað eftir ábendingum um það sem betur má fara. Ekki hefur fólk þar lagt mikið til málanna og því er nú Bleik brugðið þegar allt ætlar vitlaust að verða vegna birtingar heiðurslista yfir þá nemendur sem skarað hafa framúr í grunnskólum bæjarins sem er tilraun til að hvetja nemendur til dáða og bæta námsárangur, sem er eitt af því sem við virkilega þurfum að einbeita okkur að.
Sigurjón Kjartansson ryðst fram á völlin og spyr hvaða brenglun sé komin í skólastjórnendur og hvort ekki eigi að keppa líka um “flottustu skóna” og “best greidda hárið”. Höfum við ekki gert nóg af því hér suður með sjó kæri Sigurjón og þurfum við ekki að skoða það nánar frá uppeldislegu sjónarmiði? Við erum þekkt fyrir fegurðarsamkeppnir okkar, útlit og skreytingar. Sigurjón talar einnig um hugarfarið að baki slíkum heiðurslista sem hann telur eiga skylt við einelti. Hvernig hefði þá konu einni átt að líða þegar fyrir misskilning heimilisfang hennar var birt í staðarblöðunum yfir kandidata í jólaljósasamkeppninni og hún sem skreytir ekki. Átti þá öllum hinum sem ekki fengu nafnbirtingu í jólaljósasamkeppninni að finnst þeir búa í hreysum og finnast þeim refsað að ósekju?
Ég skora hér með á Sigurjón að kynna sér einelti í grunnskólum bæjarins og bendi ég honum á Olweusverkefnið sem nú fer fram t.d. í Njarðvíkurskóla og Heiðarskóla því einelti varðar okkur öll og mættu fleiri láta málið til sín taka.
Ég held að það leiki ekki nokkur vafi á því að hugmyndin að baki þessum lista er hvatning en ekki tilraun til að flokka börn og refsa þeim að ósekju, eins og Sigurjón heldur fram. Vitaskuld er allt slíkt mat vandmeðfarið og vísa ég á grein Árna Sigfússonar í síðasta tbl. Vf. Ég hvet Sigurjón til að setja fram sínar hugmyndir um það hvernig við getum bætt líðan barna í skólum, árangur á samræmdum prófum og hvernig við getum spornað við því brottfalli sem er hjá ungu fólki á framhaldsskólastigi eða var ekki skólasókn ungmenna á aldrinum 16 – 29 ára áberandi slökust á Suðurnesjum skv. tölum Hagstofu árið 2001?
Hæfileg samkeppni, hvatning og jákvæð umbun.
Í skólastefnu Reykjanesbæjar segir: “ Leggja ber rækt við afburðahæfileika á sem flestum sviðum með einstaklingsmiðuðu námi. Hæfileg samkeppni, hvatning og jákvæð umbun, er af hinu góða, án þess að ýtt sé undir meting og oflæti. Hrós og jákvæðar strokur er eitthvað sem allir þurfa á að halda og í vinnusamfélagi nútímans skipar sá þáttur sífellt stærri sess. Umbun eða viðurkenningar eru taldar sjálfsagðar og nú síðast veittum við verðlaun til tveggja fjölskylduvænna fyrirtækja í Reykjanesbæ. Við heyrum talað um mannauð, hvetjandi starfsumhverfi og hámarks árangur í fyrirtækjum. Hvers vegna skyldi þessi siður ekki ná til námsárangurs í skólum? Höfum við ekki stærðfræðikeppni, upplestrarkeppni, ljóðasamkeppni og þess háttar sem tengist námi barna okkar?
Uppalendur og þeir sem vinna með börnum gegna miklu ábyrgðarhlutverki og vissulega er erfitt og vandmeðfarið að meta námsárangur. Að baki liggur sú siðferðilega spurning út frá hverju eigi að meta nemendur og hvað er yfirhöfuð nám og hver sé hinn raunverulegi árangur nemenda sem ekki eru fullþroska og auðvitað skal aðgát höfð sérstaklega hjá yngstu nemendunum hvað samanburð varðar.
Í skólum hefur lengi vel verið lögð mikil áhersla á bóklegt nám. Þó hefur sú nýbreytni orðið að nú er prófað í fleiri fögum en íslensku, stærðfræði og tungumálum á samræmdum prófum. Sumir skólar hafa einnig um árabil veitt sérstakar viðurkenningar fyrir mestu framfarir, góða ástundun, íþróttir og ýmsar sérgreinar. Með innleiðingu ÞORS gefst ungu fólki nú kostur á árangursvottun í félagsmiðstöðvarstörfum og er það vel að börn sem taka þátt í félagsstarfi í skólum fái það metið. Kannski mættum við taka þær þjóðir til fyrirmyndar sem leggja ekki svo mikið upp úr prófum á fyrstu árum grunnskólans en til þess þurfum við að breyta grunnskólalögunum. Miðað við það fall sem nú er í ýmsum deildum á háskólastigi hér á landi er það þó viss undirbúningur að læra að taka mótlæti í skólakerfinu. Við erum jú að undirbúa börnin undir lífið eða nám fyrir lífið að loknum grunnskóla og framhaldsskóla.
Að fara holu í höggi
Það er allra hagur að börnunum líði vel í skólunum og velgengni barna kemur okkur öllum við. Í raun ættu allir nemendur grunnskólanna að vera á heiðurslista og hafa forgang sem slík í lífi fullorðina. Við ættum líka að geta gengið út frá því vísu að börn fái þá uppörvun og hvatningu sem þau þurfa bæði frá foreldrum sínum, umsjónarkennara og öðrum sem hafa með þau að gera. Við gætum líka tekið það upp að birta heiðurslista kennara! Það var um tíma við lýði a.m.k. í einhverjum skólum að nemendur völdu besta kennarann í lok skólaársins. Mér finnst hugmyndin að heiðurslistunum góð en alltaf má gott bæta.
Væri ekki jákvætt að stefna einnig að því að á heiðurslistum skólanna verði nemendur sem tekið hafa framförum bæði hvað varðar bóklegt nám, ýmsar sérgreinar og ekki hvað síst í því sem við köllum lífsleikni. Þeir sem vinna vel í hópi, þeir sem sýna hjálpsemi eða hvatningu. Þeir sem eru jákvæðir, kurteisir. Þeir sem geta tjáð tilfinningar sínar og hafa skapandi hugsun. Þeir sem hafa gagnrýna hugsun en ekki síst þeir sem leggja sig fram og hafa unnið sigur á sjálfum sér. Ég hvet skólafólkið okkar til að finna góða leið til tryggja að allir nemendur fái þá tilfinningu að þeir séu á heiðurslista og fái að njóta sín áður en þeir ljúka grunnskólanámi. Sumir telja að mikilvægasta veganestið úr grunnskólanum ætti að vera heilbrigð sjálfsmynd eða hvernig er að fá allar sínar óskir uppfylltar einn á eyðieyju eða vera einn á golfvellinum þegar við förum holu í höggi. Maðurinn er ekki eyland og það sannast hið fornkveðna að maður er manns gaman.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson.