Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nú segi mínar farir ekki sléttar
Sunnudagur 7. apríl 2013 kl. 12:44

Nú segi mínar farir ekki sléttar

- nei raunar eru þær frekar krumpaðar

Hér áður fyrr voru bankar fyrirmynd annara stofnana hvað varðaði traust og skilvirkni. Allt stóð eins og stafur á bók sem bankinn lét frá sér fara. Ef maður þurfti að fara til bankastjóra til að fá einhverja smá upphæð lánaða, var eins gott að maður hafði gilda og góða ástæðu til að taka lánið. Einnig þurfti maður að hafa það alveg á hreinu hvernig maður ætlaði að borga lánið tilbaka. Og best var að biðja um helmingi hærri upphæð en þurfti, vegna þess að bankastjórinn var vanur að lána manni helming af því sem beðið var um. Maður gat treyst því að að fá skjóta afgreiðslu hver sem niðurstaðan var.

Svo liðu árin og allt breyttist. Allt var tölvuvætt og í stað bankastjórana komu þjónustufulltrúar til að sinna litlu viðskiptavinunum. Bankastjórarnir sinna bara stóru hákörlunum þ.e. ríka fólkinu og atvinnurekendum. Minn banki var Sparisjóðurinn í Keflavík og undi ég hag mínum bara vel þar. Svo kom góðærið og kreppan. Þá kom í ljós að bankinn hafði verið rændur innan frá, af einhverjum starfsmönnum og einkavinum þeirra. Ríkið tók bankann yfir og seldi hann síðan til Landsbankans.

Þetta gerðist yfir nótt og ég var orðinn viðskiptavinur Landsbankans. Enginn spurði mig hvað ég vildi. Af ástæðum sem ég ætla ekki að tíunda hér, þá sá ég mér ekki fært að vera í viðskiptum við Landsbankann. Þjónustufulltrúinn minn í Sparisjóðnum réði sig hjá Byr þegar Landsbankinn tók Sparisjóðinn yfir og ég ákvað að fylgja henni eftir. Færði ég öll mín viðskipti yfir í Byr nema séreignarlífeyrissjóðinn sem var í Lífsval. Ástæðan fyrir því að ég færði ekki lífeyrissjóðinn yfir var eiginlega tæknileg. Fólkið hjá Byr var að stofna nýtt útibú og kannski ekki allir hlutir á hreinu og tafðist málið þess vegna. Og einn góðan veðurdag fékk ég bréf þess efnis að Íslandsbanki væri búinn að yfirtaka Byr og ég var orðinn viðskiptavinur hans. Ég lét mér þetta lynda, þó að ég vissi ekki lengur hvort ég væri að koma eða fara, ég fylgdi bara þjónustufulltrúanum mínum sem nú var orðinn starfsmaður Íslandsbanka.

Hinn 7.des síðast liðinn fór ég í viðskiptabankann minn sem er Íslandsbanki og fór fram á það við þjónustufulltrúann minn að hún stofnaði viðbótarlífeyrisreikning í bankanum fyrir mig. Einnig bað ég hana að segja upp lífeyrissparnaðinum mínum hjá Lífsval. Ég skrifaði undir samning þess efnis og taldi að þetta mundi ganga fljótt og snuðrulaust fyrir sig. En það var of gott til að vera satt. Eftir að hafa farið á milli Pontíusar og Pílatusar og talað við þjónustufulltrúa bæði í Íslandsbanka og Landsbanka auk þess sem ég fór á fund útibússtjóra Landsbankans í Keflavík voru aurarnir loks millifærðir hinn 22 mars. 106 dögum eftir að ég fór á stað með málið. Þegar mig var farið að lengja eftir peningunum og ég bað um útskýringu hvers vegna hlutirnir gengu svona hægt fyrir sig, þá var mér sagt að bankarnir hefðu 2 mánuði til að ganga frá svona málum. Og þar sem að lífeyririnn minn hafði verið fluttur úr Lífsvali yfir í Lífeyrisbók Landsbankans,(án þess að ég væri spurður og ég látinn vita 70 dögum eftir gerninginn) þá sagðist Landsbankinn hafa 2 mánuði í viðbót til að millifæra peningana. Upphæðin sem um er að ræða var 898.361.

Nú gæti einhver spurt. „Hvaða læti eru þetta nú í karlinum út af einhverju sem skiptir engu máli?“ Vissulega er þetta ekki sú upphæð að það skipti mig eða bankann einhverju megin máli. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna þetta þurfti að taka svona langan tíma. Enginn hefur gefið mér neina útskýringu . Ég hef heyrt ýmsar tilgátur og mis gáfulegar. Ein er sú að aurinn hafi verið geymdur í helli þar sem að eldspúandi dreki passaði upp á hann. Og þar sem að Merlín eini núlifandi drekaþjálfarinn er í orlofi hafi verið erfitt að ná í hann. Önnur kenningin er sú að Landsbankinn í Keflavík hafi þurft að fara í ódýrara húsnæði til að losa pening. En þeir voru eimitt að skipta um húsnæði um daginn. Þetta eru svo sem eins góðar ástæður og hvað annað. Alla vega tekur það mig ekki nema 5 mínútur að millifæra á netinu , en það virðist taka banka 106 daga að gera sama hlutinn.

Ég hét því að segja frá þessu opinberlega og ég reyni yfirleitt að standa við það sem ég segi. Ég er búinn að fá mig fullsaddan á því að bankar eru að henda mér á milli sín án þess að ég sé með í ráðum. Þeir ráðgast með lífeyrinn minn án þess að spyrja mig hvað ég vil og láta svo vita 70 dögum eftir gerninginn. Er það ekki þjófnaður? Hver á eiginlega lífeyrinn? Eru það bankarnir eða fólkið sem leggur peningana inn? Annars geri ég engan greinarmun á bönkunum eða lífeyrissjóðunum. Menn hafa verið að leggja það til að taka af verðtrygginguna. En það strandar allt á lífeyrissjóðunum. Menn hafa líka verið að tala um að færa niður húsnæðislán en aftur strandar allt á lífeyrissjóðunum. Forsvarsmenn þeirra segja að þeir hafi ekki leyfi til að taka þær ákvarðanir sem rýrt geti réttindi lífeyrisþega. En það er ekkert sem bannar þeim að haga sér eins og spilasjúklinga í Las Vegas þegar kemur að því að fjárfesta í mis gáfulegum fjárfestingum eins og gerðist á góðæris árunum. Ekki höfðu þeir miklar áhyggjur á afleiðingum gerða sinna þá. Og nú eru þeir komnir í samninga um að kaupa Arionbanka og Íslandsbanka. Voru lífeyrisþegarnir spurðir hvort þeir vildu þetta eða ekki? Þetta þjóðfélag er orðið hálf rotið. Öllum fjármunum er stefnt inn á einhverja bankareikninga. Það er ekki hægt að fá útborgað fyrir vinnuna sína nema hafa bankareining. Meðal Jóninn á allt sitt inn á banka hvort sem honum líkar betur eða verr og þeir sem ráða ríkjum þar eru í Matador og það skiptir þá engu máli hvort að gangi vel eða illa hjá þessum fjármála fyrirtækjum, reikningurinn á sukkinu lendir hjá almúganum. Ég vil að breyting verði á þessu og að hinn venjulegi maður fái að ráða hvort hann skipti við banka eða lífeyrissjóð. Í dag er ekkert val.

Gunnar Jóhannesson
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024