Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8.,9. og 10. bekk í Reykjanesbæ 2009
Miðvikudagur 29. júlí 2009 kl. 10:41

Niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8.,9. og 10. bekk í Reykjanesbæ 2009


Reykjanesbær hefur undanfarin ár fengið samkvæmt samningi við Rannsókn og greiningu ehf.  niðurstöður rannsókna á vímuefnaneyslu í efstu bekkjum grunnskólanna og á högum og líðan ungmenna í  5. – 7. bekk.  Með styrki úr forvarnarsjóði var í ár einnig keypt niðurstaða rannsóknar á högum og líðan nemenda á unglingastigi. Þessar upplýsingar eru hagnýtar í allri forvarnarvinnu í sveitarfélaginu og í stefnumótun og áætlunargerð bæjaryfirvalda í málefnum barna og unglinga.

Grunnskólinn að verða reyklaus
Það er ánægjulegt að sjá í nýjustu skýrslu Rannsóknar og greiningar  að vímuefnaneysla unglinga heldur áfram að dragast saman í Reykjanesbæ. 90% nemenda í 10. bekk reykja ekki daglega og er þetta hlutfall  97% í 9. bekk og  99% í 8. bekk.  Með sama árangri er ekki langt í að vinnustaður barnanna, grunnskólinn verði reyklaus.
Neysla unglinga á áfengi , þ.e. ölvunardrykkja unglinga í 8., 9. og 10. bekk dregst einnig saman og kæru nemendur, í annað sinn á síðastliðnum 5 árum er árangur ykkar betri en jafnaldranna á höfuðborgarsvæðinu og landsmeðaltalið en það er sá samanburður sem tekinn er á hverju ári.


Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna
87% nemenda í 10. bekk höfðu ekki orðið ölvaðir síðustu 30 dagana áður en rannsóknin var gerð. Það sama átti við um 96% unglinga í 9. bekk og 99% unglinga í 8. bekk. 
Í rannsókninni eru þeir 10. bekkingar sem höfðu orðið ölvaðir spurðir hvar þeir drykkju.  Algengast er að það sé heima hjá öðrum og  sýnir það okkur mikilvægi þess að foreldrar/forsjármenn barna axli þá ábyrgð að leyfa ekki eftirlitslaus partý .  Einnig sýna rannsóknir að unglingar sem fá áfengi heima hjá sér, frá foreldrum sínum eða forráðamönnum, eru líklegri til að drekka meira og verða oftar ölvaðir en þeir unglingar sem njóta stuðnings og aðstoðar foreldra sinna við að halda sig frá áfengi og öðrum vímuefnum.  Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og þegar nemendur í  9. og 10. bekk eru greindir eftir spurningunni“ hvort foreldrar þeirra drekki þannig að þau verði drukkin“ kemur í ljós að aðeins 6% nemenda sem telja foreldra sína aldrei drekka áfengi  hafa orðið ölvaðir einu sinni eða oftar sl. 30 daga. Þetta hlutfall hækkar samhliða neyslu foreldranna og meira telji nemandi móður sína drekka áfengi þannig að hún verði drukkin.

Örfáir hafa prófað hass
Hassneysla nemenda dregst áfram saman sem er mjög ánægjulegt og eru það aðeins örfáir nemendur í  9. og 10. bekk sem hafa skv. niðurstöðum rannsóknarinnar prófað hass eða önnur ólögleg vímuefni.  Sérstaklega ánægjulegt er að sjá að nemendur í  8. bekk á síðasta skólaári hafa ekki notað slíkt vímuefni.  Nemendur eru almennt mjög meðvitaðir um skaðsemi  vímuefna og eru því væntanlega aðrir þættir, s.s. andleg líðan og félagsleg staða að hafa áhrif á þau ungmenni sem leiðast út í fíkt á þessum efnum. Mikilvægt er því að grípa inní  snemma og vera vakandi  ekki bara um líkamlega heilsu, heldur einnig andlega líðan og félagslega velferð barna og ungmenna.  Samvera foreldra og barna er mikilvægur þáttur í forvörnum  og  því er ánægjulegt að sjá að samvera foreldra og barna í 9. og 10. bekk eykst milli ára, jafnt virka daga sem helgar og vonandi heldur sú þróun áfram.  Eins og fram kemur á heimasíðu  Samanhópsins , http://www.samanhopurinn.is, þá hafa niðurstöður rannsókna sýnt að börn vilja vera meira með foreldrum sínum, við matarborðið og í frítímum og það sama hefur komið í ljós hjá foreldrum þegar þeir hafa verið spurðir, þeir vilja meiri tíma með börnunum sínum.  Með hliðsjón af þessu þurfa foreldrar að gefa sér tíma og skipuleggja heimilislífið þannig að þessi markmið náist.  Í sveitarfélaginu okkar eru margt hægt að gera til að efla samveruna án mikils tilkostnaðar fyrir fjölskylduna. Eins og margt annað er eftirlit og stuðningur foreldra börnunum mikilvægur.  Það er hluti af ábyrgð og uppeldishlutverki foreldra að setja börnum sínum skýrar reglur, fara eftir lögum um útivistartíma barna,  fylgjast  með  hverjum börnin eru og hvar þau eru. Með því að þekkja vini og kunningja barnanna geta foreldrar orðið virkari þátttakendur í daglegu lífi þeirra.  Margt fleira áhugavert kemur fram í niðurstöðum Rannsóknar og greiningar og hvet ég bæjarbúa til að kynna sér innihald skýrslunnar nánar á vefsíðu Reykjanesbæjar, http://reykjanesbaer.is

Hera Ósk Einarsdóttir, félagsráðgjafi og verkefnastjóri forvarna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024