Morgunmatur
Tvær brauðsneiðar með súkkulaðismjöri eða sultu, osti eða skinku. Eitt glas af appelsínusafa eða mjólk. Múslí með rúsínum, kasjúhnetum, ananas og papaja. Eftirréttur er banani, bláberjasafi eða pera. Verði ykkur að góðu.
Það er mikilvægt að hefja daginn á góðum morgunverði til þess að fá orku fyrir daginn. Sérstaklega er mikilvægt að skólafólkið okkar borði hollan og góðan morgunmat en fari ekki með tóman maga og orkulaus í skólann. Ágæt regla fyrir yngri skólabörn er að þau taki þátt í að undirbúa morgunmatinn. Þau geta m.a. tekið þátt í undirbúningi með því að leggja á borð fyrir morgunverðinn að kvöldi áður en þau fara að sofa. Þannig taka þau þátt í að undirbúa fyrstu samverustund fjölskyldunnar þegar fjölskyldumeðlimir borða eina mikilvægustu máltíð dagsins.
Næringarefni
Almennar reglur um næringu snúast um að borða nóg af jurtaríkum mat, minna af dýraafurðum og lítið af fituríkum mat. Aldurstengdir dagskammtar af hitaeiningum þurfa að fara upp í 90% af orkuþörf líkamans. Börn á aldrinum 10 til 12 ára ættu að fá um það bil 2150 hitaeiningar á dag, stúlkur á aldrinum 13 til 14 ættu að fá 2200 hitaeiningar og strákar á sama aldri um 2700 hitaeiningar. Stúlkur frá 15 til 18 ára ættu að fá 2500 hitaeiningar daglega en drengir hins vegar 3100. Um 55% allrar orku líkamans kemur úr kolvetnum, korni, kartöflum, núðlum og ávöxtum. Fita er um það bil 30% orkunnar en hún er fengin úr olíu, smjörlíki og smjöri. Hin 15% orkunnar koma úr próteini, mjólk, kjöti, fiski og eggjum. Ekki er hægt að segja að einhver næringarefni séu hollari en önnur. Hvaða næring sem er getur í raun flokkast sem „hollusta“. Börn vita nákvæmlega hvað þau vilja borða og hvað ekki. Ráðlegt er að taka þau með út í búð að versla til að kanna hvað verður fyrir valinu hjá þeim. Stundum má líka fá sér hamborgara sem inniheldur að vísu mikið af hitaeiningum og fitu en það má borða hann með grænmeti eða salati og fá sér til dæmis ávexti eftir á.
Einnig er ráðlegt að fá sér lítinn skammt af hráu fæði, til dæmis ferskt salat eða ávexti fyrir hverja máltíð. Það hefur góð áhrif á starfsemi þarma og getur dregið úr hægðatregðu. Einn þriðji daglegrar næringar ætti að vera hráfæði. Þarmarnir geta tekist á við ýmislegt misjafnt en ekki of mikið á heilli mannsævi.
Góð þarmahreinsun fæst meðal annars með því að borða ferska og þurrkaða ávexti, hrátt grænmeti, hörfræ og sólblómafræ. Draga má úr uppþembu í maga og þörmum með neyslu á belgávöxtum, lauk, hvítkáli, blómkáli, rauðkáli, geri, nýbökuðu brauði og drykkjum sem innihalda kolsýru. Fæða sem hefur herpandi áhrif á þarmastarfsemi eru bananar, hnetur, möndlur, kókosmjöl, þurr ostur og ekki síst súkkulaði. Lyktarmyndandi fæðuvörur eru egg, fiskur, kjöt, laukur og hvítlaukur en trönuberjasafi, jógúrt og steinselja draga úr lykt.
Birgitta Jónsdóttir Klasen