Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Lífið eftir sameiningu
Sunnudagur 18. september 2005 kl. 17:56

Lífið eftir sameiningu

Hafnahreppur sameinaðist Njarðvík og Keflavík í Reykjanesbæ 1994. Um þá sameiningu var kosið. Sú kosning var, að margra mati, málamyndagerningur því gera mátti ráð fyrir því að 130 íbúa sveitarfélag á borð við Hafnir yrði, að öðrum kosti, sameinað öðru stærra með lögum. Vegna breyttra forsendna upp úr 1990, sem ekki verða tíundaðar hér, er álitamál hvort Hafnir hefðu getað haldið áfram sem sjáfstætt sveitarfélag.

En það er ýmislegt sem breytist þegar lítið sveitarfélag, sem lengi hefur ráðið sér sjálft án þess að rasa um ráð fram, verður fámenn jaðarbyggð í stóru sveitarfélagi. Ég tala hér einungis fyrir mig persónulega en ekki aðra íbúa Hafna þótt ég telji næsta víst að margir þeirra myndu telja reynslu sína af sameiningunni svipaða minni.

Undanfarin ár hafa íbúar í Höfnum mátt búa við síversnandi neysluvatn. Kvörtunum var ekki sinnt hvorki á meðan Reykjanesbær fór með vatnsveitumálin né eftir að Hitaveita Suðurnesja tók við þeim árið 2003. Þegar engin viðbrögð voru merkjanleg af hálfu HS fór málið til Umhverfisstofnunar sem krafðist skýringar á því hverjar fyrirætlanir HS væru. Umhverfisstofnun barst svar þar sem HS óskar eftir undanþágu og fresti til að ráðast í úrbætur - því, eins og sagði í svari HS: ,,Í fjárhagsáætlun HS fyrir 2007, verður stefnt að fjárveitingu í borun, virkjun og tengingu á nýju vatnsbóli fyrir Hafnir." (ég vek athygli á orðalaginu ,,verður stefnt að"). Hvarflar að nokkrum manni að HS hefði svarað sams konar erindi um óneysluhæft vatn hefði íbúðarhverfið verið í Keflavík eða Njarðvík?

Hafnir er eina íbúðarhverfið í Reykjanesbæ sem býr við úrelt símkerfi, símkerfi sem ekki býður upp á ADSL-tengingu eins og nú þykir sjálfsögð forsenda þess að fólk geti stundað fjarvinnslu, fjarnám eða notað Netið til tekjuöflunar. Þar að auki er ástand símkerfisins slíkt að sífellt erfiðara og dýrara er að nota það til netsamskipta. Skýringar sem ,,innlimuð og sameinuð" jaðarbyggð á borð við Hafnir fá hjá Reykjanesbæ er að ADSL-tenging fyrir Hafnir sé of dýr (húseigendur í Höfnum greiða sömu fasteignagjöld af matsverði húseigna eins og aðrir íbúar Reykjanesbæjar). Jafnvel hesthúsaeigendur í Keflavík myndu ekki sætta sig við slíka mismunun.

Bygging stórvirkjunar er komin vel á veg á Reykjanesi. Stórflutningar efnis og tækjabúnaðar heillar virkjunar eru látnir fara um eina af íbúðargötum Hafna. Auk flutninganna fylgir a.m.k. hundraðfaldur umferðarþungi um þessa íbúðargötu vegna byggingar virkjunarinnar og daglegra umsvifa. Starfsmenn Reykjanesbæjar komu með skilti sem á stendur ,,Börn að leik" hengdu það upp öfugu megin við götuna. Vegagerðarmenn hengdu upp skilti um 30 km hámarkshraða. Ekkert eftirlit hefur verið með því að hraðatakmörkunum sé fylgt. Hraðahindranir voru settar upp þannig að þær tefðu virkjunarmenn sem minnst.

Þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir, kröfur og óskir foreldra barna við götuna um aðgerðir til að draga úr slysahættu vegna margfaldrar umferðar og ofsaaksturs ökunýðinga, hafa stjórnendur Reykjanesbæjar hvorki hreyft legg né lið. Mér er sem ég sæi viðbrögð bæjarstjórnar hefðu þessir flutningar átt að fara um Heiðarberg í Keflavík en ekki um Nesveg í Höfnum.

Leó M. Jónsson
iðnaðar- og vélatæknifræðingur
Höfnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024