„Langaði að gera eitthvað fyrir sjálfa mig og bara ákvað þetta!“
Úr viðtali við nemanda í Menntastoðum MSS
Það getur verið stórt skref að hefja nám á fullorðinsárum og því er áhugavert að skoða áhrifin sem nám hefur á líf og starf einstaklinga. Hólmfríður Karlsdóttir hefur undanfarið verið í vettvangsnámi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum en hún stundar nám í Uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Í vettvangsnáminu voru verkefni hennar meðal annars að taka viðtöl við nokkra nemendur sem ýmist eru í námi eða hafa lokið námi í Menntastoðum og fá innsýn í upplifun þeirra á náminu. Hólmfríður var sjálf nemandi í Menntastoðum árið 2010 – 2011 og þekkir því leiðina vel. Særún Rósa Ástþórsdóttir, verkefnastjóri hjá MSS hafði umsjón með vettvangsnáminu og saman unnu þær úr niðurstöðum viðtala.
Af hverju Menntastoðir?
Menntastoðir eru undirbúningsnám fyrir frumgreinadeildir. Markmið með námsleiðinni er m.a. að veita fullorðnum námsmönnum tækifæri til að ljúka almennum bóklegum greinum á stuttum tíma og taka þannig fyrstu skrefin að frekara námi. Rúmlega 300 nemendur hafa lokið námsleiðinni hjá MSS og hefur stór hluti nemenda haldið áfram í meira nám. Menntastoðir hafa reynst mörgum fullorðnum námsmönnum stuðningur og hvati til þess að halda áfram í námi, t.d. á háskólabrú Keilis og svo í háskólanámi. Í viðtölum við nemendur kom í ljós að helstu ástæðurnar fyrir því að þeir völdu að fara í Menntastoðir var möguleikinn á að stunda nám með fólki á þeirra aldri. Vert er að taka fram að nemendahópur Menntastoða er fjölbreyttur, nemendur eru frá 20 ára og uppúr en meðalaldur nemenda er ca. 34 ár.
Aukin trú á eigin getu
Í viðtölum við nemendur kom skýrt fram að í upphafi náms hafi trú þeirra á eigin getu ekki verið til staðar. Þegar leið á, kom í ljós að þeir gátu fullvel lært, sem kom þeim mikið á óvart. Eftir stutta viðveru í náminu jókst sjálfstraustið mikið en einn nemandi komst svo að orði: þetta bara eykur sjálfstraustið, já og sýnir manni að það geta allir lært. Eitt sameiginlegt einkenni fullorðinna námsmanna, samkvæmt kenningum um nám fullorðinna getur verið lítið sjálfstraust í upphafi náms. Þá eru nemendur oft óöruggir og hafa misgóða reynslu af skólagöngu á yngri árum sem litar svo upplifun þeirra af námi á fullorðinsárum. Rannsóknir benda einnig til að fullorðnir nemendur lendi í einhverjum tilfellum í hindrunum þegar þeir ákveða að fara í nám. Algengastar virðast þó hindranir hugans (dispositional barriers) þar sem viðkomandi einstaklingar trúa því ekki að þeir geti lært og að þeim sé í raun ekki ætlað að mennta sig.
,,Aldrei einn með sjálfum sér“
Nemendur voru sammála um að stuðningur kennara hafi verið ómetanlegur, og á það líka við nemendur í fjar- eða dreifinámi sem töldu sig hafa gott aðgengi að kennurum. Einn nemandi sagði: maður hafði alveg rosalega góðan aðgang að kennaranum í gegnum mail og þannig, maður var aldrei einn með sjálfum sér og átti bara að bjarga sér. Að lokum hafði einn fyrrum nemandi þetta að segja um Menntastoðir: mér finnst bara að ef fólk er að hugsa um að fara í nám, að þá byrja þarna. Þú færð svo mikinn grunn, þú lærir að skrifa ritgerðir og margt annað sem nýtist vel.
Aldrei of seint að byrja
Þessi innsýn í hugarheim nemenda gefur vísbendingu um að það ætti að vera flestum fullorðnum fært að hefja nám á nýju og fyrri reynsla segir ekki alla söguna um gengi í framtíðinni. Aukið sjálfstraust og trú á eigin getu er helsti ávinningur þess að fara aftur í nám. Það er því tilvalið að taka af skarið því ef þú þráir eitthvað nógu heitt þá finnurðu lausnina, annars finnurðu bara afsökunina.
Hólmfríður Karlsdóttir, nemi í Háskóla Íslands
Særún Rósa Ástþórsdóttir, verkefnastjóri hjá MSS