Í tilefni af ritdómi og „svartri sögu“ Keflavíkur
Í ritdómi Inga Freys Vilhjálmssonar um bók Jón Kalmans Stefánssonar „Fiskarnir hafa engar fætur á dv.is með fyrirsögninni Svarta saga Keflavíkur segir að höfundinum sé ekkert sérstaklega hlýtt til Keflavíkur. Þegar fjallað er um Keflavík þarf að hafa í huga hlutverk bæjarins og stöðu landsins í heild. Ekki mörgum áratugum áður en fólksfjölgunin hófst í Keflavík á millistríðsárunum hafði það viðgengist víða um land að bjóða niður börn. Að bjóða niður börn var það kallað að afhenda fátæklinga lægstbjóðenda.
Þegar síðan var hægt var að fá störf hjá Kananum bauðst fólki á landsbyggðinni sem áður bjó við atvinnuleysi og við kröpp kjör að fá launaða vinnu. Áður höfðu fjölskyldufeður komið einir á vertíð en nú gátu þeir komið með fjölskylduna og sest hér að. Sögur fóru af fólki sem þegið hafði bætur í sinni heimabyggð að nú þyrfti það að flytja til Keflavíkur til að fá vinnu. Fólk sem ekki gat lifað á sínum æskuslóðum fann sér þar lífvænlegri stað. Fólk kom og vann hér í lengri eða styttri tíma. Til að létta á húsnæðisvandanum lét Verkalýðsfélag Keflavíkur hólfa niður bíósalinn í Félagsbíó og kojur á alla veggi. Það leysti vanda fjölda manns. Þetta var gert af myndarskap. Þetta fólk greiddi enginn gjöld hér í bæ. Segja má að þetta fyrirkomulag sé enn við lýði sem birtist í því að byggðarstefna sé mörkuð með það að leiðarljósi að fólk sem ekki nær ákveðnum tekjum er útilokað frá sumum sveitarfélögum. Aftur skerpist staða Suðurnesjanna sem vin þeirra sem minna mega sín þegar að Kaninn fer og eftir verður íbúðarhúsnæði sem hafði verið vel við haldið. Ungt fólk sem ekki hafði haft þau skilyrði sem þarf til að afla sér menntunar bauðst húsnæði og menntun við þær aðstæður sem það réði við.
Fyrir komu bandaríska hersins kom breski herinn til Íslands. Áhrifin af komu eitt hundrað þúsund hermanna í lítið land, langflestir á giftingaraldri þar sem fimm þúsund konur á giftingaraldri bjuggu, voru afgerandi. Algengara var að börn fæddust utan hjónabands hér á landi á fimmta áratug aldarinnar en í löndunum sem við berum okkur saman við. Það var veikasti hlekkur samfélagsins þá og afleiðingar eru veikasti hlekkurinn nú. Í dag er vitað að börn okkar eru yngri þegar að þau byrja að lifa kynlífi sem hefur m.a. þær afleiðingar að börn verða foreldrar hér á landi í miklum mæli.
Undirritaður hefur helgað sig vinnu við snemmtækar forvarnir. Vinnan gengur annarsvegar út á að í samstarfi við grunnskóla víða um land annast unglingar ungbarnahermi sem gefur þeim innsýn í þarfir ungbarna. Vart er á færi unglinga að sinna ungbörnum. Börn ungra foreldra og ungar mæður eru í meiri áhættu að verða fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þessu til viðbótar má nefna áhættuþætti eins og auknar líkur á að mjög ungir foreldrar lendi í fátæktargildru þar sem svigrúm til að sækja sér menntun eða vinnu minnkar og börn unglinga eru í aukinn hættu á námserfiðleikum. Í sumum af þeim sextíu löndum sem nota ungbarnaherminn eru unglingaþunganir teknar mjög alvarlega og hið opinbera tryggir að einn árgangur taki þátt í verkefninu á hverju ári. Hér á landi tryggja skólastjórar, starfsfólk og foreldrafélög tæplega 10% árgangs þátttöku á hverju ári. Þó mikið hafi úr því dregið eru enn margir mjög ungir og óþroskaðir foreldrar á Íslandi.
Hinsvegar vinn ég í samstarfi við aðra að undirbúa verðandi og nýja foreldra til að takast á við foreldrahlutverkið þannig að barnið verði félagslega og tilfinningalega heilbrigt.
Á sama hátt og að Suðurnesin tóku forðum að sér þá sem höllum fæti stóðu þarf að sækja fram til og tryggja að sem flest börn fæðist í faðm fólks sem getur sinnt þörfum þeirra með alúð og umhyggju.
Undirritaður tilheyrir þeim stóra og glæsilega hópi sem er sérstaklega hlýtt til Keflavíkur.
Ólafur Grétar Gunnarsson