Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hitaveitan á villigötum?
Fimmtudagur 10. maí 2007 kl. 23:33

Hitaveitan á villigötum?

Stofnun Hitaveitu Suðurnesja var frábært framtak á símum tíma. Sveitarfélögin á Suðurnesjum komu í sameiningu upp fyrirtæki til að nýta jarðvarma byggðarlögunum hér til hagsbóta. Árangurinn varð sá að fljótlega varð kyndingarkosnaður á Suðurnesjum með því lægsta sem gerðist á landinu og rafmagnið lækkaði líka í verði. Samt skilaði fyrirtækið nægum arði til að byggja upp og stækka orkuver og dreifikerfi og greiða niður skuldir auk þess að styrkja ýmsa aðra starfsemi á svæðinu. Um leið varð til afar verðmæt þekking á virkjun jarðhita sem við flytjum nú út til annarra þjóða.

Hitaveitan var klárlega okkar þjónustufyrirtæki, afsprengi samvinnu sveitarfélaganna og rekið af þeim. Markmið þess var að þjóna fólkinu á Suðurnesjum sem best – og það gekk eftir. Jafnframt fékk Hitaveitan það orðspor að ganga vel um auðlindina og umhverfið. Engum einstæðum náttúruperlum var fórnað.

Draumfarir miklar
Fyrir áratug síðan ríkti atvinnuleysi á svæðinu og sveitarfélögin ákváðu að beita þessu öfluga sameignarfyrirtæki sínu til atvinnuuppbyggingar í fleiri greinum en að útvega fólki heitt vatn og rafmagn á góðu verði. Ýmis verkefni voru styrkt og sum skiluðu árangri, önnur ekki, eins og gengur. En ráðamenn fyrirtækisins fór að dreyma stóra drauma - um mikla magnesíumverksmiðju. Henni hefði fylgt mikil megnun og umhverfisspjöll en erlend samstarfsfyrirtæki skáru Hitaveituna niður úr snörunni og er Magnesíumverksmiðja úr sögunni. En þá fengu stjórnendur fyrirtækisins öllu meiri draumfarir sem kalla mætti martröð. Það var að virkja allar helstu náttúruperlur Reykjanesskagans og selja raforku ódýrt til langs tíma til erlendrar stóriðju.

Ógæfuspor?
Fyrir nokkrum árum var hitaveitunni breytt í hlutafélag. Þá strax hvarf jafnræði sveitarfélaganna og stærsti eigandinn, Reykjanesbær, fékk tögl og haldir í stjórninni. Nú er einkavæðing hafin með sölu ríkisins á 15% hlut sínum. Þá kemur í ljós mikill áhugi einkafjármagnsins að eignast þessa mjólkurkú okkar Suðurnesjabúa. Við þennan áhuga einan margfaldast ímyndað verðgildi Hitaveitunnar og skuldsett sveitarfélög geta skuldsett sig enn meira. Menn þyrstir í arð af  því að virkja allar helstu náttúruperlurnar á Reykjanesskaga og reikna með að fá þær fyrir lítið eða ekki neitt. Við kjósendur höfum nú tækifæri til að koma í veg fyrir að svo verði.
Ég held það hafi verið ógæfuspor að há-effa Hitaveituna og steypa henni út í stóriðjustrauminn. Ég óttast að hún gangi okkur úr greipum og þjónusta við allt aðra hagsmuni verði ofaná. Ég held að virkjun orku fyrir almenning og stóriðju fari ekki vel saman.

Einokun á veitum er glapræði
Veitumannvirki eru í eðli sínu einokun og verða því að lúta stjórn almennings. Lítið vit er í því að leggja margar veitur hlið við hlið. Því er ekki hægt að koma við raunverulegri samkeppni og afleitt ef veiturnar lenda í klóm gróðapunga. Hitaveita Suðurnesja rekur nú rafveitu, hitaveitu og vatnsveitu í nokkrum sveitarfélögum og stendur jafnvel til að hún reki einnig fráveitur. Með sama áframhaldi getum við íbúar þessara sveitarfélaga lent í því að verða að greiða fyrir noktun allra nauðsynlegra veitna á uppsprengdu verði og hafa engin völd yfir rekstri þeirra eða þróun.

Vinstri græn eru eini flokkurinn sem berst fyrir því að veitur verði áfram í almannaeigu. Einnig ætlum við að tryggja að ferskvatnsauðlindirnar verði ekki einkavæddar, ekki frekar en andrúmsloftið!

Hólmar Tryggvason, í 5. sæti Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þorvaldur Örn Árnason,  formaður VG á Suðurnesjum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024