Guðbrandur Einarsson: Að ganga í takt
Ég velti því fyrir mér þegar ég las yfirlýsingu frá stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, sem birtist í Víkurfréttum sl. þriðjudag, vegna úrsagnar minnar úr flokknum, hvort tilgangurinn með birtingu hennar hafi verið að þakka mér störf mín í þágu flokksins eða gera lítið úr mér. Ég hef ákveðið að velja síðari kostinn því að ég náði ekki að skynja þetta þakklæti þegar ég las í gegnum þessa yfirlýsingu.
Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ taldi það nauðsynlegt í þessu „þakkarskeyti“ að koma ákveðnum atriðum á framfæri vegna þeirra raka sem ég lagði til grundvallar úrsögn minni úr flokknum. Ég finn mig knúinn til að bregðast við tveimur þeirra þ.e byggingu hjúkrunarheimilis og breytingu á skipan í stjórn HS Veitna, ekki vegna þess að ég hafi einhvern sérstakan áhuga á að agnúast eitthvað frekar út í fólk sem ég hef ákveðið að eiga ekki frekara samstarf við, heldur vegna þess að í þessari yfirlýsingu eru atriði sem ég tel vega að heiðri mínum og hann mun ég verja.
Hvað varðar málefni hjúkrunarheimils lítur stjórnin svo á að nauðsynlegt sé fyrir íbúa að vita að fyrir þeim hafi vakað „að tryggja vandaða og góða stjórnsýslu“. Ekkert vantraust á mig auðvitað, nema bara það að aðeins var verið að hugsa um „hag sveitarfélagsins og aldraðra“. Þetta hefði ég auðvitað vitað ef að ég hefði bara mætt á fundi til að meðtaka boðskapinn. ?En um hvað var ég þá að hugsa? Hverra hagsmuni var ég að verja? Hvaða hagsmuni hef ég reynt að verja frá því að ég hóf þátttöku í pólitík? Eru það ekki hagsmunir sveitarfélagsins og aldraðra að eyða biðlista eftir hjúkrunarrými á skömmum tíma? Þjónar það ekki hagmunum byggðarlagsins að skapa hér umönnunarstörf fyrir á fimmta tug einstaklinga eins fjótt og kostur er? Eru það ekki hagsmunir sveitarfélagsins og aldraðra að hægt er að byggja dagdeild fyrir heilabilaða einstaklinga fyrir þann mismun sem sparast við að breyta fyrirliggjandi húsnæði í stað þess að byggja frá grunni? Þessi skýri vilji Samfylkingarinnar er mjög óljós í mínum huga. Formaður FEB (Félags eldri borgara) sem einnig er samfylkingarmaður og rótgróinn í flokksstarfi, lýsti þeirri skoðun sinni við mig að hann væri sammála þeirri aðferðarfræði að nýta þann húsakost sem fyrir er, til þess að koma starfsemi hjúkrunarheimilis af stað eins fljótt og hægt væri. Hann hefur kannski ekki heldur mætt á fundi til þess að meðtaka boðskapinn?
Stjórnarmennirnir halda því auðmjúkir fram að aðeins sé verið að framfylgja þeirri stefnu, sem ég sjálfur hafi mótað sem oddviti árið 2007, þegar sú ákvörðun var tekin að skipta mér út úr stjórn HS Veitna. Vegna þess vil ég segja þetta: ?Þegar ég kom inn í stjórnina á sínum tíma loguðu eldar vegna deilna um Hitaveitu Suðurnesja og bæjarfulltrúar A-listans háðu harða baráttu við að reyna að koma í veg fyrir það sem síðar varð, þ.e að selja hluti í Hitaveitunni til einkaaðila og skipta henni síðan upp eins og raunin hefur orðið. Það þótti eðlilegt að þeir sem stóðu í þessari baráttu hefðu mögulega aðkomu að öllum þeim stofnunum sem fjölluðu um þessi mál. Á þessum tíma var hins vegar ekkert ljóst að þetta stjórnarsæti félli í hlut Samfylkingarinnar. Flokkurinn sem á þeim tíma var í samstarfi við Framsóknarflokkinn í A-listanum hafði undirritað samkomulag um jafna skiptingu í nefndir. Þegar þetta sæti losnaði gerðu framsóknarmenn tilkall til þessa sætis til þess að viðhalda jafnri nefndarskiptingu milli flokkanna. Niðurstaðan varð hins vegar sú ég tók stæti í stjórn og Eysteinn Jónsson, oddviti þeirra framsóknarmanna tók sæti varamanns. Það voru einnig fleiri ástæður fyrir þessum breytingum sem ég nefni ekki hér en formaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ hefur fulla vitneskju um. Engu að síður velur hann að leggja fram þessa yfirlýsingu f.h. stjórnar sem ég sé ekki að hafi nokkurn annan tilgang en að gera lítið úr þeim rökum sem ég lagði til grundvallar úrsögn minni úr flokknum. Forveri minn í stjórn Hitaveitunnar hafði setið þar á annan áratug og þessar breytingar á sínum tíma voru gerðar með samþykki í fullu samráði við hann. Samfylkingin er að sjálfsögðu í fullum rétti til þess að gera allar þær breytingar sem hún kýs þegar kemur að nefndarsetu fyrir flokkinn en þeir sem þar stjórna hefðu einnig mátt tileinka sér slík vinnubrögð. Það er auðvitað merkilegt að frétta um breytingar á högum sínum frá pólitískum andstæðingum en ekki þeim sem maður hefur hingað til talið til samherja sinna í pólitík.
Þýlindi er löstur sem ég hef reynt að forðast og það hefur kannski komið mér í koll. En ég kýs frekar það hlutskipti heldur en að undirgangast alla mögulega og ómögulega hluti þegar að ég innst inni er ekki sáttur og það er kannski áðstæðan fyrir því að ég geng ekki alltaf í takt. En mér þykir hins vegar sárt að horfa til margra minna félaga sem hafa ákveðið að láta sig hafa það að ganga bara í takt.
Guðbrandur Einarsson.