"Græni málmurinn"-goðsögn eða staðreynd?
Einn er sá málmur sem ber enska viðurnefnið “green metal”, á íslensku “græni málmurinn”. Hann hefur leyst af hólmi aðra málma og efni með því að vera mun umhverfisvænni, sveigjanlegri í nýtingu og auðveldari í endurvinnslu, Miðað við umræðuna hér á landi ætti mörgum að koma á óvart að “græni málmurinn” heitir “ál”
Minni koltvísýringur
Álið hefur tekið við hlutverki þyngri og endingarminni málma sem meiri mengun hlýst af. Nærri lætur að flestallt sem unnið er úr áli sé endurvinnanlegt og ekki dregur úr gæðum málmsins við endurvinnslu. Ætla má að um þriðjungur þess áls sem nú er í notkun sé endurunnið.
Ál er nýtt í heimilisvörur, s.s. matvælaumbúðir og rafeindabúnað. Vegna léttleika og styrks er efnið stöðugt meira notað í ýmsar byggingarvörur og samgöngutæki á landi, sjó og lofti. Því er haldið fram að þar sem álið er t.d. notað í stað stáls leiði það til 20 sinnum minni koltvísýringsframleiðslu en ella. Með því að auka notkun áls í bílum, járnbrautum, flugvélum og skipum er talið að minnka megi losun gróðurhúsalofttegunda um 9% af heildarlosun í heiminum.
Þrátt fyrir að álið sé mun betri lausn til að draga úr upphitun jarðar en þau efni sem það leysir af hólmi, er framleiðsla þess ekki laus við losun koltvísýrings. Álverin sjálft og jarðeldsneytið, sem oftast er notað til framleiðslu á orku í álverin, valda umtalsverðri losun á koltvísýringi. Ef vatns- eða gufuaflsvirkjanir eru á hinn bóginn nýttar við orkuframleiðsluna, fer níu sinum minni koltvísýringur út í andrúmsloftið í samanburði við kola- eða olíuknúið álver. Þess vegna er auðvelt að halda því fram að Ísland með alla “grænu orkuna” sé kjörstaður til að framleiða “græna málminn”
Hærri meðallaun
Könnun á atvinnutekjum á Suðurnesjum sýnir að meðallaun í álveri eru tvöfalt hærri en t.d. meðallaun í ferðaþjónustu. Aðeins orkugeirinn býður hér hærri meðallaun, aðallega vegna sölu á orku til álvers. Starfsmenn njóta þess í launum. Góð laun starfsfólks og örugg störf eru því enn ein ástæða þess að menn sameinast um verkefnið hér.
Hvers vegna er þá ráðist að álverum á Íslandi?
Hvers vegna er þá ráðist að álverum á Íslandi?
Samkvæmt stórum hluta íslenskrar fjölmiðlaumræðu ætti framansagt að vera hrein ósannindi!. Almenningur fylgist með einhæfum mótmælum við nánast öllu sem viðkemur álverum og fáeinar raddir heyrast andmæla þeim, oftast upplýsingafulltrúar álveranna! Starfsheiti þeirra er notað til að andmæla þeim og gera málstað þeirra ótrúverðugan. Viðbrögð andstæðinga álvera í blaðagreinum eða á bloggsíðum eru oft fyllt háði eða ofstopa, svo fáir treysta sér til að andmæla.
Kredduviðhorf gegn álverum slæva fullgild sjónarmið fólks sem vill upplýsta umræðu um náttúruvernd og byggir áhyggjur sínar á rökum.
Þrír grunnar að gagnrýni
Kredduviðhorf gegn álverum slæva fullgild sjónarmið fólks sem vill upplýsta umræðu um náttúruvernd og byggir áhyggjur sínar á rökum.
Þrír grunnar að gagnrýni
Í umræðu og gagnrýni upplýstra umhverfisverndarsinna er gjarnan rætt út frá þremur grunnum:
1. Framleiðsla áls kallar á gríðarlega orku og fleiri virkjanir. Vatnsaflsvirkjanir kalla á uppistöðulón sem flæða yfir náttúru landsins. Jarðgufuvirkjanir eru gagnrýndar vegna lyktar frá gufunni og fyrir að setja mark sitt á náttúruna. Línu- og pípulagnirnar sæta gagnrýni, vegna sjónmengunar.
2. Álver eru stórbyggingar og margir taka mið af einu myndinni sem þeir þekkja, ferlíki rétt við Reykjanesbrautina. Í upphafi voru mengunarvarnir í álverinu ófullkomnar, umhverfið bar þess merki.
3. Þrátt fyrir að álið skapi minni gróðurhúsaáhrif en þeir málmar sem það leysir af hólmi skapast enn mikil losun koltvísýrings vegna álvera.
Þrír grunnar lausna
Þessi þrír grunnar í umræðu eiga fullan rétt á sér. En við þeim eru til lausnir sem ber að virkja:
1. Það á að taka tillit til umhverfisins í virkjunum á vatnsafli og jarðgufu. Setja kröfur um umgengni við landið sem virkjað er og frágang línulagna. Verkfræðisjónarmið hafa of oft yfirgnæft fegurðarsjónarmið sem þó geta kallað fram nýjar lausnir í verkfræði.
2. Ásýnd álvera er að sjálfsögðu hægt að stjórna. Byggingar- og umhverfislist þarf að verða virkari í mótun álvera en verið hefur. Af hverju skyldu tónlistarhallir og skólar reistir af skattfé vera einu byggingarnar sem kalla á útlitssjónarmið, umfram kerskála í álverum sem mala gull?
3. Hugsum hnattrænt. Álið er endurvinnalegt og varningur gerður úr áli hefur í för með sér minni losun gróðurhúsalofttegunda en þeir málmar sem álið leysir af hólmi. Með framleiðslu á áli hér á landi, með vistvænni orku, er enn frekar dregið úr neikvæðum hnattrænum áhrifum framleiðslunnar. Þróun til að draga úr koltvísýringsmyndun í álverunum tengist breyttri tækni í bræðslukerum ásamt tækni til að hefta koltvísýringinn í útblæstrinum. Við getum leitt rannsóknir og tilraunir til að binda koltvísýring m.a. frá álverum, bundið hann í jarðlögum eða skapað úr honum endurvinnanlega afurð. Það er tækifæri til að yfirfæra tæknina á útblástur koltvísýrings frá öðrum atvinnurekstri um allan heim og gjörbylta stöðu heimsins í útblæstri koltvísýrings. Á Reykjanesi er þegar í undirbúningi slík vinna með samstarfi við fyrirtækið Carbon Recycling International. Eitt mikilvægasta umhverfisverkefni ríkisstjórna um allan heim ætti að vera að stuðla að slíkum rannsóknum og tilraunum.
Upplýst umræða – við eigum samleið
Ef markmið okkar er að skapa betri heim, skapa fólki betra lífsviðurværi í nútíð og framtíð, þá eigum við samleið. Ég bið upplýsta umhverfisverndarsinna að taka höndum saman um að vinna að lausnum sem virða kosti græna málmsins um leið og leitað er bestu leiða til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum við framleiðslu hans.
Árni Sigfússon,
Árni Sigfússon,
bæjarstjóri í Reykjanesbæ og formaður stjórnar Hitaveitu Suðurnesja hf.