Eru þetta eðlileg viðskipti?
HS Veitur er afsprengi þeirra lagabreytinga er gerðar voru til að auka samkeppni á orkumarkaði. Framleiðsla orku skyldi undanskilin dreifingunni. Samkeppni um hvort heldur framleiðslu eða dreifingu skyldi leiða til lækkaðs verðs til neytenda. Sett voru skýr ákvæði um að veitustofnanir skyldu vera í meirihluta opinberra aðila. Með því að Reykjanesbær afsalar sér meirihlutavaldinu er jafnframt verið að afsala sér ákvörðunarvaldi sem sett voru í lögin til þess að tryggja hagsmuni almennings.
HS Veitur eiga hvorki rafmagn né vatn, en sjá um að dreifa í gegn um veitukerfi sitt sem byggt var upp sameiginlega af þeim sveitarfélögum sem saman stóðu að stofnun Hitaveitu Suðurnesja, auk þess að sjá um veitustarfsemi bæði í Árborg og Vestmannaeyjum. Breytingar á verði gjaldskrár skal bera undir Orkustofnun til samþykktar. Þannig er komið í veg fyrir að verð dreifingarinnar geti hækkað án góðra og gildra ástæðna.
Reykjanesbær undir forsæti meirihluta sjálstæðismanna og með stuðningi framsóknarflokks hafa nú ákveðið að selja 15% af hlut sínum, en eiga þó meirihlutann. Jafnframt því að halda meirihlutanum, eins og lög kveða á um afsala þeir sér meirihlutavaldinu til fjárfestis sem fjármagnar fjárfestingu sína að mestu í gegnum lífeyrissjóði landsmanna. Lífeyrissjóðirnir sem borga að mestu fjárfestinguna, sjá ekki ástæðu til að hafa eftirlit með þeirri fjárfestingu heldur treysta á getu fjárfestisins. Er það þannig sem við viljum sjá samfélagslega ábyrga fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna til framtíðar eða á einkvæða þá líka?
Slæm staða Reykjanesbæjar kallar á aðgerðir. Að greitt sé af þeim skuldum sem meirihlutanum hefur tekist að safna á undanförnum árum. Salan á 15% hlutnum í HS Veitum er liður í því. Það er síðasta seljanlega eign bæjarins eftir valdatíma meirihlutans. En er ekki hægt að selja hlutinn á því sem flestir myndu kalla eðlileg viðskipti og í anda þeirra laga sem sett hafa verið um veitustofnanir, að bæði meirihlutinn og meirihlutavaldið sé á forræði þeirra opinberu aðila er gæta eiga hagsmuna almennings?
Með bestu kveðju og ósk um gleðilegt nýtt ár.
Hannes Friðriksson.