Eru ekki vítin til að varast þau?
– Guðbrandur Einarsson, frambjóðandi hjá Beinni leið, skrifar
Árið 2002 mynduðust sterkir meirihlutar í tveimur sveitarfélögum á Suðvesturhorninu. Annar þeirra var hreinn meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og hinn var hreinn meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Þessir meirihlutar fóru nokkuð svipaða leið í rekstri, þ.e. fjárfestu í gegnum ótengd félög og skuldbundu sveitarfélögin rekstrarlega áratugi fram í tímann. Þetta þótti vera heppileg leið til þess að fela skuldastöðu sveitarfélaganna, en við síðari breytingar á sveitarstjórnarlögunum kom eiginleg skuldastaða þessara sveitarfélaga í ljós.
Árið 2002 skuldaði Hafnarfjörður 13,6 milljarða en árið 2012 skuldaði hann hins vegar 48 milljarða þrátt fyrir að hafa selt eignahlut sinn í HS Orku fyrir 7 milljarða.
Reykjanesbær skuldaði 8,3 milljarða árið 2002. Skv. ársreikningi ársins 2012 skuldaði Reykjanesbær hins vegar 37,5 milljarða þrátt fyrir eignasölu sem slagar hátt í tuttugu milljarða á tímabilinu.
Að minni hyggju hefur það ekki skilað þessum sveitarfélögum neinum ávinningi að einn flokkur skyldi fá alræðisvald við stjórnun þessara tveggja sveitarfélaga nema að síður sé. Þó að flokkurinn hafi verið sitt hvor þá er niðurstaðan sú sama.
Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og skv. skoðanakönunnum sem gerðar hafa verið í Hafnarfirði telja íbúar þar að nú sé komið nóg og tími til kominn að gera breytingar.
Þeirra hreini meirihluti dugði reyndar ekki nema tvö kjörtímabil en í Reykjanesbæ hefur meirihlutinn setið í þrjú.
Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir íbúa Reykjanesbæjar hvort rétt sé að veita einu stjórnmálaafli alræðisvald eitt kjörtímabilið enn. Er árangurinn slíkur að rétt sé að halda áfram með sama hætti? Eru ekki vítin til að varast þau?
Guðbrandur Einarsson,
frambjóðandi hjá Beinni leið