Byggð og þróun Vatnsleysustrandar
Ég er alinn upp á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd og bjó þar yfir 26 ár með fjölskyldu minni áður en ég keypti mína fyrstu íbúð í Vogum. Þannig að ég þekki það vel hvernig er að búa þar og ætlun mín mun alltaf vera að flytja þangað aftur. Fyrir mér er það algjör draumur að búa á Ströndinni, maður býr í friði og ró út í sveit en samt er maður ekki meira en 20 mínútur að komast á höfuðborgarsvæðið með bíl. En þetta er ekki bara paradís því það eru nefnilega ýmis vandamál við að búa þar. Má þar nefna lélegt internetsamband á Ströndinni en væntanlega mun það breytast í haust með tilkomu ljósleiðara, sem vegna þrýstings íbúa náðist loksins í gegn. Þá loksins ákvað sveitarfélagið á seinustu stundu að sækja um styrk til ljósleiðaravæðingar. Á Ströndinni eru engar almenningssamgöngur í boði fyrir utan skólabíl en hann fer þó ekki í Hvassahraun þrátt fyrir að það sé innan sveitarfélagsins. Það mætti vel bæta samgöngumálin til dæmis með því að Vogastrætó sæki fólk á vissum tímum og keyri það inn í Voga ef þess er óskað, það væri góð þjónusta fyrir eldra fólk og börn. En stærsta málið er það að það liggur engin hitaveita né kalt vatn um megin hluta Strandarinnar, sem þýðir að þeir sem búa á Ströndinni frá Nesbú og í átt að höfuðborgarsvæðinu fá hvorki heitt né kalt vatn nema þá að bora eftir því sjálfir og hita vatnið með rafmagni. Eins og er eru engin plön hjá sveitarfélaginu að þessu verði breytt. Ég verð að segja það að þetta er mikil mismunun eftir búsetu fólks og slæmt að sveitarfélagið hafi ekki klárað hitaveituna út alla Ströndina. Á sínum tíma seldi sveitarfélagið sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja á yfir milljarð króna en ekki ein einasta króna hvorki þá né síðan hefur farið í það að reyna að klára hitaveitumálin í sveitarfélaginu. Ég tel að nú sé tími til kominn að gera eitthvað í þessum málum og koma heitu og köldu vatni á alla bæi á Vatnsleysuströndinni sem fyrst sem myndi stöðva mismunum á íbúum sveitarfélagsins í þessum málum og auðvelda þeim fyrir sem vilja bæði byggja og búa á Ströndinni.
Eitt af stefnumálum Sjálfstæðismanna og óháðra hér í Sveitarfélaginu Vogum er að styðja við uppbyggingu og framþróun dreifbýlis hér í sveitarfélaginu, ég mun beita mér eins og ég get í þeim málum því ég vill að sveitarfélagið styðji við það fólk sem hefur tök á að byggja og búa á Ströndinni. Því er það ekki síður mikilvægt að sveitarfélagið kaupi þær jarðir sem gætu staðið til boða, til dæmis Flekkuvík, og hafa það á skipulagi sem byggingarland til íbúðabyggðar, þá sérstaklega í ljósi þess að sveitarfélagið á lítið sem ekkert land í kringum Voga til uppbyggingar. Að eiga land á Vatnsleysuströndinni gæti leyst það vandamál þegar stækka á byggð enn frekar hér í sveitarfélaginu seinna meir. Einnig þætti mér það góður kostur að sveitarfélagið gæti boðið fólki sem býr hér þann valkost að búa í þéttbýli eða dreifbýli. Það eru ekki mörg sveitarfélög sem geta boðið upp á það og stækkar það markhóp fólks sem myndi vilja flytja hingað.
Annað af þeim málum sem ég vill beita mér fyrir er að ná sáttum og samvinnu með landeigendum jarða í sveitarfélaginu. Allt of mörg mál tefjast eða falla niður vegna deilna við landeigendur og ég held að hluti af sökinni sé nálgun sveitarfélagsins í þeim málum. Eitt af stóru málunum sem hefur verið í gangi seinustu ár er Suðurnesjalína 2 sem Landsnet hf. vill leggja, en það er háspennulína sem mun fara í gegnum endilangt sveitarfélagið. Margir landeigendur vildu ekki að línan færi í gegnum jarðir þeirra sem loftlína heldur að hún yrði annað hvort lögð í jörðu eða færð ofar í heiðina. Sveitarstjórn síðustu ára gerði ekkert til að hjálpa landeigendum í sinni baráttu um það heldur unnu gegn þeim í því. Mín skoðun er sú að landeigendur voru að vinna fyrir hag íbúa sveitarfélagsins og landsmanna allra. Ég held að risastór möstur með loftlínum fyrir ofan Reykjanesbraut sé eitthvað sem á ekki heima í nútímanum því þegar litið er á málið þá hlýtur það að verða krafa í framtíðinni að á landinu verði rafmagnslínur lagðar í jörð. Ég held að jarðstrengur sé framtíðarsýn, af honum er engin sjónmengun og minna fer til spillis til uppbyggingar. Landsnet og sveitarfélagið tapaði dómsmáli gegn landeigendum því framkvæmdarleyfið fyrir loftlínunni var dæmt ógilt í Hæstarétti vegna þess að ákvörðun sveitarfélagsins hafi ekki verið byggð á hlutlægum og málefnalegum grunni. Mín skoðun er sú að sveitarfélagið ætti að taka þessa framtíðarsýn upp á sína arma og styðja við það að háspennulínan fari í jörð meðfram Reykjanesbrautinni í staðinn fyrir að streitast á móti og leyfa Landsneti að vaða yfir landeigendur sem berjast fyrir hag jarðana innan sveitarfélagsins, sem á endanum gætu orðið mikilvægt byggingarland. Þegar horft er til framtíðar þá hlýtur uppbygging höfuðborgarsvæðisins og suðurnesjanna að þróast í þá átt að byggðin mun tengjast. Þá er Sveitarfélagið Vogar mitt á milli og gæti verið mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu.
Ég held að fólk vanmeti Vatnsleysuströndina, bæði þá mikilvægi hennar nú og framtíðarmöguleika. Það má ekki gleyma því að á Ströndinni eru þrjú af okkar stærstu fyrirtækjum það eru Nesbú, Svínabú Ali á Minni-Vatnsleysu og Samherji fiskeldi á Stóru-Vatnsleysu. Þessi fyrirtæki fá jafn takmarkaða þjónustu og íbúar svæðisins en skila inn töluverðum tekjum til sveitarfélagsins. Ekki má gleyma menningarlegum þáttum Vatnsleysustrandarinnar og Hvassahrauns. Þar er mikil saga sem vert er að skoða og upplýsa fólk um og gæti nýst til ferðaþjónustu.
Við viljum stuðla að því að allir íbúar fái jafna þjónustu óháð staðsetningu þeirra innan sveitarfélagsins.
Andri Rúnar Sigurðsson
3. sæti á D-lista sjálfstæðismanna og óháðra í Sveitarfélaginu Vogum