Allir komu þeir aftur
Allir komu þeir aftur. Er þetta ekki flott lína til þess að byrja pistil? Fæ kannski ekki nóbelsverðlaun fyrir þessa byrjun. En jú, það sem ég á við er að núna eru allir bátar komnir suður til veiða sem hafa verið út landi.
Fyrir utan bátanna sem voru sendir norður, Óli á Stað GK og Guðbjörg GK. Guðbjörg GK er með um 40 tn. í sjö róðrum og Óli á Stað GK með 31 tn. í sjö túrum, enginn mokveiði hjá þeim þarna. Aftur á móti hefur verið hörkuveiði hjá bátunum frá Grindavík og Sandgerði.
Ef við rennum yfir línubátanna þá er Valdimar GK með 217 tn. í tveimur róðrum og mest 119 tonn. Sturla GK 213 tn. í tveimur róðrum, Kristín GK 155 tn, í tveimur og mest 102 tonn. Jóhanna Gísladóttir GK 140 tn. í einum róðri, Hrafn GK 139 tn í tveimur og Fjölnir GK 117 tn. í einum.
Af minni bátunum, þá er Hafdís SU hæstur með 71 tn. í sex róðrum en báturinn rær frá Sandgerði. Sandfell SU er með 68 tn. í sjö. Sandfell SU hét áður Óli á Stað GK og er systurbátur núverandi Óla á Stað GK. Um borð í Sandfelli SU eru þeir feðgar Rafn og Örn sem eru skipstjórar á bátnum og en hann er í eigu loðnuvinnslunar á Fáskrúðsfirði.
Daðey GK með 66 tn. í níu, Dóri GK 55 tn. í fimm róðrum, Hulda GK 45 tn. í sex, Gísli Súrsson GK 43 tn. í fimm, Vésteinn GK 43 tn. í fjórum og mest 19,6 tonn. Auður Vésteins SU 36 tn. í fjórum róðrum.
Sævík GK er með 70 tn. í sjö, Von gK 59 tn. í fimm og mest 13,8 tonn. Dúddi Gísla GK 54 tn. í fimm og mest 15,2 tonn. Bergur Vigfús GK 46 tn. í fimm og mest 13 tonn. Steinunn HF 39 tn. í fimm en báturinn landar í Sandgerði. Beta GK 34 tn. í fjórum.
Síðan eru það enn minni bátarnir, því að tveir bátar úr Sandgerði hafa mokveitt og komið í land má segja kjaftfullir af fiski. Þetta eru Addi Afi GK sem er með 26 tn. í fjórum og mest 8,9 tonn í róðri og Guðrún Petrína GK sem er með 32 tonn í aðeins fimm róðrum eða um sex tonn í róðri. Mest 8,9 tonn í róðri. Birta Dís GK er með 4,9 tonn í einum róðri. Allir bátarnir sem eru nefndir að ofan eru allir á línu.
Ef við kíkjum á netabátanna og byrjum á Bergvík GK þá er hún með 45 tn. í sjö og mest 10,5 tonn í róðri. Erling KE 136 tn. í sjö. Grímsnes GK 86 tn. í átta og mest 20,2 tonn. Maron GK 65 tn. í atta og mest tólf tonn. Þorsteinn ÞH 50 tn. í sex og mest fjórtán tonn. Halldór Afi GK 27 tn. í sjö róðrum og Hraunsvík GK 22 tn. í sjö. Allir netabátarnir landa í Sandgerði nema Hraunsvík GK sem er í Keflavík og Erling KE sem er í Grindavík og Keflavík.
Dragnótabátarnir hafa fiskað vel. Sigurfari GK með 78 tn. í sex og mest 28 tonn. Siggi Bjarna GK 73 tn. í sex og mest 18,3 tonn, Benni Sæm GK 65 tn. Í sex og mest átján tonn. Aðalbjörg RE 22 tn í fjórum róðrum.
Aðalbjörg RE hefur nokkra sérstöðu meðal dragnótabátanna. Því að á meðan að hinir bátarnir eru með stóran hluta af afla sínum þorsk, þá er Aðalbjörg RE að mestu að eltast við kolann og t.d. af þessum 22 tonnum er þorskur aðeins 5,4 tonn. Ýsa 5,7 tonn og koli um átta tonn af aflanum. Enda er kvótastaða Aðalbjargar RE mjög sterk í kolanum. Hún er með um 116 tonna úthlutaðan kvóta í þorski en í kola 159 tonn. Búið er að millifæra á bátinn meiri kvóta og er þá þorskurinn um 180 tonn en kolinn um 390 tonn svo þetta skýrir að miklu leyti af hverju Aðalbjörgin RE fer meira í kolann enn þorskinn.
Og jú kolinn er líka verðmeiri en þorskurinn en alveg hundleiðinlegt að gera að honum. Þegar undirritaður var sjálfur á sjónum og við lentum í kolanum þá kallaði ég hann alltaf sápu, t.d sólkolinn, þótt hann sér verðmætur, þá var hann sleipur eins og sápa.