„Að standa vaktina“!
Undarlegt orðalag „ einhvers fulltrúa“ Reykjanesbæjar hefur verið til umfjöllunar hjá bæjarstjórum „minni“ sveitarfélaganna á Suðurnesjum síðustu daga, en á vef Víkurfrétta þann 7. maí s.l. er greint frá ársreikningi Reykjanesbæjar fyrir árið 2008.
Undirritaður hefur ekki lagt það í vana að svara dylgjum eða ræða áherslumun í ákvörðunum kjörinna sveitarstjórnarmanna hér á Suðurnesjum en hinsvegar eru ummælin sett fram með þeim hætti að sjónarmið Sandgerðisbæjar verða að koma fram að þessu tilefni.
Öll sveitarfélögin stóðu vaktina og tóku upplýsta ákvörðun um að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja.
Meirihluti Reykjanesbæjar hafði um það forgöngu að kalla Geysi Green til sögunnar hér á Suðurnesjum og sú ákvörðun ein og sér hafði afgerandi áhrif á þróun mála hér á svæðinu.
Reykjanesbær seldi hlutafé fyrir 2.5 milljarð króna og hafði sú ákvörðun þar með óbein áhrif á, að hin sveitarfélögin seldu einnig stóran hlut af sínu hlutafé.
Um þetta tímabil væri hægt að skrifa nokkrar fræðigreinar m.a. um samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum, áherslur ríkisstjórnarflokkanna og ekki síst faglegar forsendur þeirra sem standa nú vaktina fyrir sína bæjarbúa, sín bæjarfélög. En slíkar greinar verða að bíða betri tíma.
Að standa vaktina, það orðalag í skýringum á neikvæðri stöðu ársreiknings Reykjanesbæjar hefur vakið hörð viðbrögð og vísast hér í greinar bæjarstjóranna Róberts frá Sv. Vogum, Oddnýjar frá Sv. Garði og Jónu Krístínu frá Grindavíkurkaupstað.
En í Víkurfréttum þann 7. maí stendur orðrétt: „Reykjanesbær stóð vaktina þegar önnur sveitarfélög seldu hlut sinn í Hitaveitunni og lögðu hagnað á ávöxtunarreikninga.“
Af þessu tilefni er rétt að rifja það upp að þegar ríkið ákvað að selja 15% hlut sinn í HS var það skilyrt að hvorki sveitarfélögin eða aðrir opinberir aðilar gætu boðið í hlutinn.
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hafði hinsvegar ákveðið að auka sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja en umrædd ákvörðun ríkisvaldsins breytti þeim áformum snarlega. Það var skoðun margra sveitarstjórnarmanna að hlutafjárlög hefðu þarna verið brotinn en sú saga verður ekki rakinn hér.
Það fór svo, eftir nokkurt umrót, að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum seldu mismikinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja.
Uppbygging í sveitarfélögunum hefur hinsvegar notið góðs af þessum fjármunum og það er ljóst að Reykjanesbær hefur notið góðs af sinni sölu enda hefur bæjarfélagið tekið breytingum sem og önnur sveitarfélög á Suðurnesjum frá þessum tíma til hins betra.
Ákvörðun bæjarfulltrúa Sandgerðisbæjar byggðist m.a. á neðanrituðu.
1. Nýjar áherslur með tilkomu Geysi Green Energy.
2. Áherslur ríkisvaldsins á sölu til annarra en opinberra aðila.
3. Miklar fjárfestingar HS á næstu árum.
4. Aðkoma að stjórn takmörkuð við litla eignaraðild í nýju rekstrarformi þ.e. hlutafélagi.
5. Miklar væntingar heima fyrir til breytinga í umhverfi og þar með framkvæmdum.
6. Miklar væntingar til aukinnar þjónustu.
7. Einnig hafði það óbein áhrif að Reykjanesbær átti hlut í Geysi Green Energy og það fyrirtæki bauð einstaklega gott verð í hlut Sandgerðisbæjar.
Í ljósi þessara aðstæðna ákvað sveitarfélagið að selja sinn hlut og standa vakt um heildar hagsmuni bæjarbúa.
Öll sveitarfélögin hafa haft stóran hlut sjóða sinna á innistæðureikningum hjá SpKef. Fjármununum hefur verið haldið á svæðinu til að verja hagsmuni íbúanna.
Peningarnir hafa verið í vörslu SpKef og þar með stuðlað að betri lausafjárstöðu sparisjóðsins. Ef þeir hefðu ekki verið til staðar er óvíst um afdrif sjóðsins í því fárvirði sem hefur geysað í fjármálum þjóðarinnar.
Sandgerðisbær hefur því staðið vaktina með öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum bæði er varðar heildarhagsmuni svæðisins sem og fyrir eigin íbúa sem búa við hvað lægstu þjónustugjöld og útsvar sveitarfélaga um þessar mundir.
Þjónustustig Sandgerðisbæjar er einnig að umfangi meira miðað við sambærileg sveitarfélög.
Sveitarfélagið hefur ekki slegið sér upp á þessum mikla stuðningi við Spkef eða samfélagið hér á Suðurnesjum. Við látum verkin tala. Okkur er falið sem sveitarstjórnarmönnum að standa vaktina.
Kveð hér með góðri sumarkveðju til þeirra sem eiga og eru ráðnir eða kjörnir til að standa vaktina á Suðurnesjum.
Sigurður Valur Ásbjarnarson,
bæjarstjóri Sandgerðisbæjar.