„Lifðu af daginn í dag“

Án vatns og rafmagns óttaðist fjölskyldan um líf sitt á hverjum einasta degi. Fólk ýmist dó vegna hungurs eða árása hersins. Þjóðernishreinsun hafði farið af stað.

Viðtal:

Sólborg Guðbrandsdóttir

Myndir:

Úr einkasafni

Smelltu á myndir til að opna þær og sjá allt myndefnið.

„Í stríðinu í Bosníu og Hersegóvínu árið 1992 voru framdir hrottalegir stríðsglæpir, glæpir gegn mannkyni og þjóðarmorð eins og í Srebrenica þar sem um það bil 8.000 karlkyns hermenn voru myrtir af serbneska hernum. Serbnesk þorp í Srebrenica og þorp þar í kring höfðu verið brennd af bosníska hernum sama ár og þjóðernishreinsað Serba. Mikil átök voru á meðal Króata og Bosníu-múslíma í Mostar, þar sem Króatar sprengdu Ottoman-brúnna í borginni. Í lok stríðsins höfðu yfir 100 þúsund manns verið myrtir og meira en tvær milljónir þurftu að flýja heimili sín vegna ofsókna vegna uppruna síns eða trúarbragða, þar af um ein milljón úr landinu sínu. Ísland var eitt af þeim ríkjum sem tók við flóttamönnum frá Bosníu.“ Jasmina Crnac var þar á meðal en hún flutti til Íslands, vestur á land, ásamt fjölskyldu sinni á milli jóla og nýárs árið 1996, ári eftir að stríðinu í Bosníu lauk. Nokkrum árum áður höfðu frændur Jasminu flust til Íslands og spiluðu hér fótbolta, annar þeirra með Leiftri í Ólafsfirði. Á þessum tíma var Jasmina einungis 16 ára gömul og eftir gríðarlega átakanlega æsku var hún loksins komin í öruggt skjól til Íslands. Baráttan fyrir því að halda lífi sínu og fjölskyldunnar hafði þá staðið yfir í langan tíma sem er eitthvað sem ekki nokkurt barn ætti að þurfa að ganga í gegnum.

Jasmina hitti Sólborgu Guðbrandsdóttur blaðamann Víkurfrétta á Bókasafni Reykjanesbæjar og sagði frá sögu sinni og annarra flóttamanna og innflytjenda sem neyðst hafa að berjast fyrir lífi sínu, flýja heimili sín til að fá að búa við öryggi með fólkinu sem þau elska.

Hluti af heild í Júgóslavíu

„Þegar ég ólst upp þá var ég Júgóslavi. Mér var kennt það í skólanum í fyrsta bekk. Þá var haldin stór hátíð þar sem strákarnir voru í dökkbláum buxum og hvítri skyrtu og stelpurnar klæddust dökkbláum pilsum og hvítri skyrtu. Við fengum svo öll húfu með stjörnu á, eins og er í kommúnistaríkjunum, og settum það heiti að við myndum vernda land og þjóð. Það var svo gaman að upplifa þetta, að vera hluti af einhverri heild. Þarna var verið að gera okkur að þegnum en ekki verið að flokka okkur eftir því hvort við værum Serbar, Króatar eða Bosníumenn,“ segir Jasmina.

Hún ólst upp í 50 þúsund manna samfélagi í borginni Prnjavor í Bosníu. Jasmina er ári eldri en bróðir sinn og fjölskyldan hennar hafði það nokkuð gott í heimalandinu. Móðir Jasminu starfaði sem skósmiður og vann hjá stóru fyrirtæki á meðan faðir hennar var vélfræðingur og starfaði sem yfirmaður. „Við ferðuðumst mjög mikið, fórum í margar útilegur og á hverju einasta ári fórum við á ströndina í tíu daga með stórum vinahóp. Ég þekkti ekkert annað en það að við hefðum það rosalega gott. Okkur skorti aldrei neitt.“

Árið 1991 hófst svo óróleiki í samfélaginu þegar Jasmina var einungis tíu ára gömul.

„Ég man það voru haldnir tónleikar til að halda frið og það var mikið talað um það. Á þessum tíma fór maður í fyrsta sinn að finna það að maður væri aðeins öðruvísi en hinir en í raun og veru skildi ég ekkert hvers vegna. Ég var heillengi að átta mig á því hvers vegna þetta stríð hefði byrjað en í dag, þegar ég hef farið yfir söguna, hef ég áttað mig á þessu.“

Ekkert rafmagn né rennandi vatn

Bróðir Jasminu kom einn daginn heim úr skólanum og hafði þá verið í landafræðitíma. „Allt í einu var farið að kenna honum landafræði þannig að hann lærði hvar Serbarnir byggju og hvaða svæði væri ekki enn búið að ákveða hverjir fengju. Ég skildi þetta ekki og þurfti að spyrja mömmu. Árið 1992 byrjar svo stríðið á fullu.“

Foreldrar Jasminu voru Bosníu-múslimar og þar sem fjölskyldan bjó var hún ekki velkomin. „Þarna byrjaði þetta andlega ofbeldi í mínum heimabæ. Rosalega margir Bosníu-múslimar misstu vinnuna. Smám saman fór svo að verða rafmagnslaust og vatnslaust. Einhverjar línur voru þá klipptar. Rafmagnið kom stundum og þetta var bara upp og niður þangað til það fór alveg og við höfðum ekkert rafmagn né rennandi vatn. Fólk var heldur ekkert í vinnu þannig að samfélagið gekk ekkert.

Samfélagið varð bara ruglað á þessum tíma. Foreldrar mínir misstu vinnuna og við áttum engan pening. Þarna byrjaði þessi hreinsun og við vorum látin fara úr íbúðinni til að tryggja það að einungis serbneska þjóðin gæti búið á þessu svæði.“

Vissu aldrei hver yrði næstur

Fjölskyldan þurfti þá að flytja og finna sér nýjan samastað. Afi Jasminu hafði dáið fyrr um árið og því bjó amma hennar ein. Fjölskyldan fluttist til hennar og bjó í litlu herbergi í skúrnum án rafmagns. „Við fengum nokkurs konar kamínu í herbergið sem hægt var að elda á til að fá hita herbergið og þarna bjuggum við í tvö ár.“


Á þessum tíma var faðir Jasminu neyddur í vinnu frá morgni til kvölds ásamt öðrum Bosníumönnum.

„Hann svaf aldrei heima, heldur á maísökrum eða kartöfluökrum því það var aldrei vitað hvenær hermennirnir kæmu heim, hverja þeir myndu handtaka og af hverju. Það dugði bara að vera Bosníu-múslimi, það þurfti ekkert annað. Sjálfsagt var þetta eins hinum megin, þar sem Bosníu-múslimar héldu svæðinu, en þetta er bara það sem ég upplifði. Það voru auðvitað margir Serbar sem voru Bosníumegin og þurftu líka að flýja og óttuðust um sitt líf.

Við sátum oft heima hjá ömmu með kertaljós og hún setti teppi fyrir gluggana til að það sæist ekki að einhver byggi í húsinu. Hermennirnir hefðu reyndar bara komið ef þeir ætluðu að koma og þá skipti engu máli hvort það væri teppi fyrir gluggunum eða ekki en þetta var svona falskt öryggi.

Ég man sérstaklega eftir þessu í eitt skipti. Þá heyrði ég rosalega mikil læti fyrir utan. Þá náðu hermennirnir nágrannanum sem var við hliðina á okkur en hann kom reyndar aftur heim. Aðrir nágrannar okkar voru teknir og einn þeirra endaði í hjólastól. Svo komu sumir aldrei aftur til baka, það var bara þannig. Ég man vel eftir þessu og þetta þurftum við að lifa við. Við vissum aldrei hver yrði næstur og hvenær þeir kæmu.“

Send heim við landamæri Ungverjalands

Árið 1994 reyndi fjölskyldan svo að komast yfir til Ungverjalands. „Mamma og pabbi áttu einhvern smá pening og við seldum húsgögn sem við höfðum hvort eð er ekkert pláss fyrir. Við borguðum Rauða krossinum og þau borguðu einhverjum mútur til þess að koma okkur út. Við þurftum að múta fólkinu til að komast burt því hermennirnir héldu svæðinu og fylgdust með á leiðinni. Það voru tvær rútur sem fóru og þegar við komum að landamærum Ungverjalands þá komst önnur rútan í gegn en okkar var snúið við. Við fengum ekki að fara og þurftum því að fara aftur til baka í þetta viðbjóðslega ástand. Ég hélt þá virkilega að við myndum ekki lifa lengi.“

Þegar fjölskyldan kom aftur til baka áttu þau ekki krónu enda höfðu þau eytt öllum peningnum sínum í að reyna að komast til Ungverjalands. „En svo var það þannig að hermennirnir vildu losna við Bosníumenn af svæðinu svo við vorum keyrð yfir á „Bosníu-svæðið“. Við fórum aftur í rútu og máttum bara taka fjórar töskur með okkur, engar myndir, engar persónulegar eignir, bara föt. Eftir tveggja og hálfs tíma keyrslu var stoppað á torgi og hleypt úr rútunni þar sem fleiri þúsundir manns voru. Við vorum sett í flóttamannabúðir í skóla með þúsund öðrum í 40 stiga hita, án vatns og rafmagns. Við vorum þarna í einhverja þrjá daga en mamma og pabbi gátu ekki hugsað sér að búa þarna með öllu þessu fólki.“

Foreldrar Jasminu fengu þá mann í bænum, sem kunni einhverjar krókaleiðir, upp og niður fjöll og dali, til að koma fjölskyldunni á annan stað þar sem þau töldu sig velkomin. „Þegar við komum þangað stóðum við bara úti. Við þekktum engan og þurftum að finna yfirgefið hús sem við gætum búið í á meðan stríðsástandið gengi yfir.“

Fólk dó vegna hungurs og sprengja

Um kvöldið kom gömul kona auga á fjölskylduna og bauð þeim gistingu. Fjölskyldan dvaldi hjá henni í tæpa viku og fann að lokum hús serb­neskrar stelpu sem var líka að flýja heimili sitt. Þau gerðu samning við hana og fengu að búa í húsinu þar til hún kæmi aftur til baka. „Við bjuggum í þessu tvíbýli í tvö ár en þarna var ofbeldið ekki bara andlegt. Þarna var fólk að deyja, bæði úr hungri og vegna sprengjanna sem komu reglulega.“

Þessum tveimur árum lýsir Jasmina sem þeim verstu í hennar lífi. Fjölskyldan var ekki velkomin á svæðinu, upplifði fordóma, átti ekki fyrir mat og nauðsynjavörum og óttaðist um öryggi sitt á hverjum degi. „Þarna var ég lögð í gróft einelti. Ég fékk aldrei frið frá strákunum og var stanslaust áreitt. Ég átti ekki fyrir skóm og það fannst aldrei rétt skónúmer fyrir mig hjá Rauða krossinum þannig að ég var í ónýtum skóm með stórum rifum og þurfti að labba í 40 mínútur í skólann, í snjó og bleytu, kom rennandi blaut og þurfti að sitja þar í sex klukkutíma þar til skólinn var búinn.

Á sumrin átti ég kannski skó en þeir pössuðu ekki þannig ég kom heim með blöðrur á fótunum, fullar af blóði. Ég vildi ekki láta sjá mig berfætta í skólanum þannig ég varð bara að troða mér í eitthvað. Ég fór alltaf krókaleiðir af því á sumrin var rosalega heitt að labba á malbikinu í 40 stiga hita. Þá var best fyrir mig að labba á lestarteinunum sem voru úr tré. Svo var stuttur spotti þar sem ég þurfti að labba á grasinu og yfir einn þjóðveg og þá hélt ég á skónum og labbaði berfætt yfir grasið og heim.“

Sigtaði maðkana úr hveitinu

Á þessum tíma var gríðarleg fátækt í samfélaginu og fólk dó úr hungri. „Maturinn sem við fengum var túnfiskur, hveiti, fetaostur og sykur. Þegar ég hef heyrt fólk kvarta yfir því að hafa fundið maðk í hveitinu sínu og gert mikið mál úr því hlæ ég. Í þessi tvö ár þá borðaði ég nánast ekkert annað en hveiti með möðkum í. Þá sigtaði maður þetta bara og bakaði brauð, oftast nær ekki með neinu öðru nema einstaka sinnum kartöflur.

Mamma og pabbi voru vön að rækta alls konar grænmeti og fengu að rækta lauk, kartöflur og kál og það var borðað á veturna. Á þessu lifðum við. Stundum fengum við hrísgrjón og einstaka sinnum pasta. Það var sparimatur, soðið pasta. Ég borðaði ekkert kjöt eða fisk í þessi fjögur ár. Það var ekki þvottavél og ég fór ekkert í sturtu þegar mér sýndist. Það var svo margt sem var ekki þarna sem fólk telur sjálfsagt í dag. Þetta var stríðsástand og það versta var þegar við þurftum að sitja í skjóli í myrkrinu þegar það komu viðvörunarmerki um að verið væri að sprengja.“

Íbúarnir fengu þó ekki alltaf viðvaranir og stundum komu sprengjurnar mjög óvænt.

„Í eitt skipti þá var ég heima að læra og bróðir minn var úti með frænda sínum. Þeir voru jafngamlir. Upp úr þurru, fyrir ofan húsið okkar, kom sprengja og það hrundi allt. Þakið af húsinu hrundi, ljós af veggjunum, ég datt af stólnum og þetta var ógeðslega mikið. Þá hafði komið sprengja og þeir frændurnir hentu sér ofan í skurð. Þeir voru heppnir. Einhverra hluta vegna vissu þeir það, og við lærðum það snemma, að þeir skyldu henda sér ofan í skurð. En börn nágranna míns lifðu þetta ekki af,“ segir Jasmina og brestur í grát.

„Fyrirgefðu,“ bætir hún við. „Þetta er alltaf jafn erfitt.“

Neyddist til að leita sér hjálpar

Á tímabili urðu sprengjurnar allt að 3.500 á dag. Jasmina telur sig þó hafa búið við mikil forréttindi þar sem hún hafi upplifað einungis brotabrot af þeim hryllingi sem margir aðrir í samfélaginu sínu upplifðu. Stríðinu lauk svo árið 1995 með svokölluðu Deiton-samkomulagi, þar sem forsetar Bosníu, Króatíu og Serbíu hittust í Bandaríkjunum og skrifuðu undir friðarsamning sem átti að stöðva bardaga í Bosníu í þrjú ár. Með samningnum tókst að binda enda á blóðbaðið í Bosníu.

Hálfu ári eftir að Jasmina fluttist til Íslands fæddist dóttir hennar, Azra, þegar Jasmina var einungis 16 ára gömul. „Ég var alltaf kvíðin. Ég myndaði kvíða í stríðinu og einhvern veginn hefur hann alltaf verið í mér. Þegar við bjuggum í Bosníu var ég stöðugt hrædd, ekki bara um sjálfa mig heldur allt saman, hvað yrði um fjölskyldu mína og vini mína. Þegar við fluttum til Íslands hugsaði ég alltaf að ég þyrfti að hafa plan B ef það skyldi eitthvað gerast, þar til ég uppgötvaði það að ég byggi í friðsamlegu landi, ég þyrfti ekki að vera hrædd en það var bara búið að byggja þessa hræðslu í mér þannig að það myndaðist kvíði sem ég ýtti alltaf frá mér. Mér fannst þetta vera aumingjaskapur svo ég vann aldrei úr þessu.“

Þar til Jasmina varð 29 ára gömul. „Þá lenti ég í veikindum og þá runnu á mig tvær grímur. Þá vissi ég að ég þyrfti að fara að vinna í mínum málum, fór á Reykjalund, hitti sálfræðing þar og greindist með áfallastreituröskun og ofsakvíða. Ég vann í mínum málum og var hjá sálfræðingnum í þrjú ár að fara yfir hlutina sem ég hafði lent í. Á þessum tímapunkti var ég líka að skilja. Ég var farin að fá ofsakvíðaköst og gjörsamlega gekk af göflunum heima en ég neitaði að fá hjálp. Ég var í algjörri afneitun þar til ég hrundi niður í vinnunni og þurfti að viðurkenna að ég gæti ekki unnið fullan vinnudag lengur. Ég var þá skólaliði í skólanum í Ólafsvík fyrir vestan og var alveg komin á botninn. “

Fjölbreytni er af hinu góða

Í dag er Jasmina með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og lokaritgerðin hennar fjallaði um stöðu kvenna í Bosníu og Herzegovinu. Hún er gift Einari Bjarnasyni og á fjögur börn, þau Özru, Harun, Dzana og Benjamín.

„Ég er á allt öðrum stað í lífinu í dag. Ég segi nú ekki að kvíðinn sé farinn, ég held hann verði alltaf en ég ræð við hann. Ég hef breyst svolítið mikið. Ég þurfti að læra að takast á við öll þau áföll sem ég er búin að ganga í gegnum í lífinu og vann úr þeim. Í dag get ég verið ég sjálf sem eru algjör forréttindi. Það að leita mér hjálpar gerði mér kleift að klára námið og taka fullan þátt í samfélaginu, að geta staðið á mínu,“ segir hún.

Jasmina telur það mikilvægt að við sem Íslendingar gerum okkur grein fyrir forréttindum okkar og reynum að bera virðingu fyrir hverju öðru. „Í dag bregst ég oft harkalega við umræðunni um flóttafólk og hælisleitendur í samfélaginu en það er ástæða fyrir því. Flóttafólk og hælisleitendur sem koma hingað hafa flestir upplifað algjörar hörmungar. Það er enginn manneskja sem flýr heimilið sitt af því bara. Það er ástæða fyrir því. Myndu Íslendingar rífa upp alla fjölskylduna frá landinu sínu til að sækja um hæli eða flóttamannastatus annars staðar af því það er svo gaman? Rífa þau upp frá sínum rótum, frá þeim sem þau þekkja, flytja í allt annað samfélag sem þau þekkja nákvæmlega ekki neitt, með allt annarri menningu og eiga ekkert stuðningsnet þar? Flóttafólk hefur ekkert stuðningsnet þegar það kemur til Íslands. Ef við ætlum að senda þau, eins og margir segja: „Í gáma og aftur heim til sín“, og tala um heilu hópana sem glæpamenn, það kalla ég mannvonsku,“ segir Jasmina og bætir við að ef íslenskt samfélag væri svona fullkomið þá þyrftum við ekki á fangelsum að halda hérlendis. Það sé hins vegar ekki raunin.

„Það tekur þig þrjár mínútur á netinu að finna upplýsingar ef þig langar að fræðast. Það eru bjánar alls staðar, sama í hvaða samfélagi það er. Það eru alltaf einhverjir sem skemma fyrir hinum. En við erum ekkert að alhæfa um til dæmis Bandaríkjamenn en segjum svo að hælisleitendur og flóttafólk sé upp til hópa glæpamenn sem vilji leggjast á kerfið. Hvers konar orðræða er það? Það voru sautján þjóðerni í mínum heimabæ, öll með sínar kirkjur og hátíðir. Fjölbreytni er ekki slæm, hún er mjög góð. Fólk er annað hvort gott fólk eða vont fólk og sem betur fer hef ég hingað til nánast bara kynnst góðu fólki. Það skiptir ekki máli hvort þú sért hávaxinn, feitur, strákur, stelpa, samkynhneigður, trans, hvítur, svartur eða hvað sem er. Annað hvort ertu góð manneskja eða ekki og þá skipta þessir hlutir nákvæmlega engu máli.“

„Öðruvísi en hinir múslimarnir“

Jasmina var einungis fjórtán ára þegar hugsanir hennar á hverjum einasta degi snerust um það að lifa daginn af. „Mér var ítrekað hótað nauðgun af fullorðnum hermönnum. Ég gat ekki labbað í skólann, verið í pilsi, lifað eðlilegu lífi. Ég þurfti alltaf að vera í felum því ég var flóttamaður, ung kona, eftirsóknarverð, á besta aldri, viðkvæm fyrir öllu. Á sama tíma var ég að þroskast og uppgötva heiminn og hann var bara hræðilegur. Það var ekkert eðlilegt við þetta, bara ekkert.“

Jasmina segist hafa fallið vel inn í hópinn á Íslandi sem flóttamaður. „Þar sem ég er hvít kona og tala góða íslensku þá er ég oftast tekin út fyrir svigann. Þegar það er verið að tala um mál flóttafólks í kringum mig þá er ítrekað sagt við mig: „Já en þú ert öðruvísi“. Ég er ekkert öðruvísi. Þegar ég segi fólki að ég sé múslimi þá verður það rosalega hissa og bætir því við að ég sé ekkert „eins og hinir múslimarnir“. Þannig er svolítið umræðan á Íslandi, við og þið, en hverju ætlum við að ná fram með því? Það þurfa ekki að vera tveir hópar á móti hvor öðrum. Við þurfum þetta sameiginlega, að reyna að vinna hlutina saman. Ef við setjumst bara niður og finnum það sem við erum sátt við, þá náum við kannski utan um þetta. Hvað get ég lært af þér og hvað getur þú lært af mér? Það græða allir á því.“

Hún segist þakklát fyrir það að hafa fengið að alast upp í tveimur samfélögum, það sé mikilvæg lífsreynsla sem hún komi til með að búa yfir alla ævi. „Ég get alltaf tekið það góða frá báðum. Það er bara spurningin, hvað ætla ég að læra af þessu? Hver er lexían? Í stríðinu þurfti ég að læra að bjarga mér og verða sjálfstæð. Það eru eiginleikar sem hjálpa mér í dag. Mér finnst gott að hafa einhver þægindi, eiga gott hús, flottan bíl og fleira. Það auðveldar mér lífið en mér væri alveg sama ef ég ætti þetta ekki á morgun. Við erum allt of upptekin af efnislegum þáttum sem skipta engu máli en gleymum fólkinu algjörlega.“

Útlendingar auðga íslenska menningu

Varðandi umræðuna sem brýst gjarnan út hérlendis þegar ungir, einhleypir karlmenn sækja um hæli á Íslandi telur Jasmina mikilvægt að staldra aðeins við. „Karlmenn í Bosníu voru drepnir þegar það var ekki hægt að nýta þá í herinn og til að tryggja það að þeir fjölguðu ekki börnum. Það er ástæða fyrir því að karlmenn flýja og mér finnst ótrúlegt skilningsleysi gagnvart þessum málaflokki. Þetta er mjög algengt í stríðsástandi. Konurnar eru oft með börn með sér og ef þær þurfa að flýja þá skilja þær börnin ekki eftir heldur taka þau með sem er mun erfiðara. Þá er líklegra að ná að senda karlmenn úr landi til að lifa af og hjálpa svo konunum að koma til landsins til þeirra. 25 ára maður með háskólamenntun sem er tilbúinn að koma hingað, setjast að og eignast fjölskyldu, haldið þið að hann borgi ekki til baka til samfélagsins þegar þetta er búið, bæði í tekjum og í menningunni sjálfri? Vill Ísland bara loka sig af og vera eitt og sér? Það er mjög gott að átta sig á því við hvaða forréttindi maður býr.“

Hælisleitendur vilja almenn mannréttindi rétt eins og við Íslendingar og Jasmina bendir á á að þetta snúist ekki um að opna landamærin upp á gátt og hrúga öllum til landsins. „En ef við getum bjargað einu mannslífi þá er það þess virði. Það er hræsni að tala um að vilja hafa Ísland fyrir Íslendinga en vilja samt fá þúsundir útlendinga til að vinna láglaunastörfin í landinu til að við hin getum haft það gott. Allur heimurinn þarf að tala saman og bjarga þessu fólki. Það er hægt.“

Talin sem síðasta sort

Aðspurð hvort Jasmina hugsi stundum um það, hvar hún væri stödd í lífinu, hefði fjölskyldan verið eftir í Bosníu í stað þess að flytja til Íslands eftir stríðið, telur hún að hún væri sennilega illa stödd.

„Það er fátækt í Bosníu og búið að rústa öllu stjórnarkerfinu. Í dag væri ég eflaust atvinnulaus kona en líklega með háskólamenntun. Ég væri örugglega bara heima að elda mat eins og flestar. 60% kvenna í Bosníu útskrifast úr háskóla en einungis 30% kvenna fara út á vinnumarkaðinn. Það er engin framtíð fyrir konu úti í Bosníu og ég tala nú ekki um sem fráskilin kona. Þá væri ég talin sem síðasta sort.“

Hún segir mikilvægt að þeir einstaklingar, sem eru hvað mest fordómafullir í garð flóttafólks, endurskoði sjálft sig.

„Ég tilheyri íslensku samfélagi og ég læt ekki neinn segja mér neitt annað. Ég hef eiginlega alltaf verið þannig að mér er sama um það sem öðrum finnst um mig. Þetta snýst bara um að veita fólki tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi, það er það eina sem ég bið um.“