Við höfum átt gott líf á Suðurnesjum

Konráð Lúðvíksson, kvensjúkdómalæknir, er kominn á eftirlaun. Hann segir alla daga vera laugardaga núna enda er maðurinn frjáls, ræður frítíma sínum sjálfur og nýtur þess að vera meira með fjölskyldunni.

Konráð Lúðvíksson, kvensjúkdómalæknir, er kominn á eftirlaun. Hann segir alla daga vera laugardaga núna enda er maðurinn frjáls, ræður frítíma sínum sjálfur og nýtur þess að vera meira með fjölskyldunni.

Konráð átti farsælan læknaferil og efalaust eru margar konur sem minnast Konráðs með hlýhug enda hefur hann komið að mörgum fæðingum og aðgerðum en undirsérgrein hans sem kvensjúkdómalæknis tengdust vandamálum í neðri þvagvegum kvenna, eins og þvagleka, leg- og blöðrusigi og þvagærasýkingum svo nokkuð sé nefnt.

Blaðakona Víkurfrétta mælti sér mót við Konráð einn fagran vetrarmorgun þegar hann var nýkominn heim úr sundi og þjálfun hjá Janusi.

Fyrsti kvensjúkdómalæknir margra kvenna á Suðurnesjum

„Gjörðu svo vel, fáðu þér brauð með reyktum silungi sem ég veiddi í sumar. Te eða kaffi?“ segir Konráð um leið og hann býður til sætis í eldhúsinu og fer að laga til kaffi. „Konráð, mig langar að rekja úr þér garnirnar,“ segir blaðakona í upphafi samtals. „Já, já. Þú mátt alveg gera það, ég er nýbúinn að fara í ristilspeglun og þær eru hreinar í mér,“ svarar Konráð kíminn.

„Konráð, ég man vel þegar þú varst nýfluttur til Keflavíkur og við vinkonurnar rétt rúmlega tvítugar, komnar á þann aldur sem mælt er með að konur fari í kjallaraskoðun. Við vorum rosalega feimnar við þetta og töluðum um það okkar á milli hvernig maðurinn gæti skoðað allar þessar konur og hvað eiginkonunni fyndist um þetta starf hans.“ Konráð brosir við athugasemd blaðakonu. „Já, ég hef þreifað á mörgum konum enda var þetta starfið mitt, að hjálpa og lækna, sérsvið mitt voru kvensjúkdómar, með sérþekkingu á neðri þvagfærum kvenna. Sjálfsagt hafa einhverjir gárungarnir öfundað mig af því að brauðfæða mig á þessari nánd við konur. Þegar ég fór úr læknasloppnum þá var vinnu minni lokið,“ segir Konráð og er sjálfsagt ekki óvanur þessum vangaveltum þeirra sem ekki þekkja betur til starfa kvensjúkdómalækna.

En yfir í söguna, hvaðan ertu Konráð?

„Öll móðurættin mín rekur sig til Suðurnesja. Amma mín, Eydís Guðmundsdóttir, var fædd á Nesjum en afi minn, Vilhjálmur Chr. Hákonarson, frá Stafnesi, sonur Hákonar Eyjólfssonar, óðalsbónda, og konu hans Guðrúnar. Langalangömmubróðir minn var Vilhjálmur Chr. Hákonarson í Kirkjuvogi. Allt voru þetta þjóðkunnir einstaklingar síns tíma, sem mörkuðu djúp spor í þjóðlífi og lífsbaráttu á Suðurnesjum í heila öld. Afi og amma gerðu sér bú á Hafurbjarnastöðum því amma var myrkfælin og þreifst ekki á Stafnesi. Þar voru tíðir skipsskaðar, eftir strandlengjunni allri. Margir urðu einnig úti á Miðnesheiði og fólki fannst vera reimt á þessu svæði. Það má segja að ég hafi alist upp á Garðskaga að hluta, því ég var þar á sumrin frá fimm til tólf ára aldurs hjá ömmu og afa og síðar móðurbróður. Þessi nærvera við náttúruna hafði mikil áhrif á mig og gerði mig að þeim unnanda náttúrunnar sem ég er í dag. Vilhjálmur afi minn var sigldur maður en faðir hans var mjög efnaður landeigandi og stórútgerðarmaður. Langafi hefði í dag flokkast með fjárfestum en hann átti Kolbeinsstaði, Vallarhús, Sandhól, þar sem golfvöllur Sandgerðinga er í dag, og einnig hluta af Apavatni, jörðina, Laxárdal í Hreppum, eignir í Hafnarstræti, svo nokkuð sé nefnt. Amma var í festum á meðan afi minn ferðaðist út í lönd. Hann stundaði meðal annars laxveiðar og gullgröft í Alaska, þótt afrakstur þess væri fjárhagslega lítill, eða svo sem eins og einn lítill gullmoli, sem fór í hring handa ömmu. Sá týndist fljótlega. Svo þegar hann kom heim stofnuðu þau til fjölskyldu. Ég naut þess að vera hjá þeim í sveitinni á Garðskaga, kom snemma á vorin og var fram á haust. Á þeim tíma var ekkert rafmagn á Hafurbjarnastöðum, vatnið var sótt í brunn, olíulampar lýstu upp myrkrið og kamar, fjaran, eða fjósið nýttist til að skila af sér líkamlegum afurðum. Þarna var fjárhús og fjós, kýr, kindur og hænsni. Ég hafði gaman af því að taka þátt í bústörfunum því búskapur þess tíma krafðist mikils vinnuafls, enda allur háður handafli. Náttúran gat verið óvægin, sjórinn gekk stundum upp á land svo skafa þurfti túnin af þara og skeljasandi áður en heyskapur gat hafist. Afi var mikill tungumálamaður. Hann stofnaði fyrstu lúðrasveitina í Keflavík og rak verslun þar í bæ, lagði drög að fyrsta flugvellinum á Suðurnesjum, ofan á skeljakambinn úti á Garðskaga, sem Bretar notuðu í seinni heimstyrjöldinni. Hann þekkti vel Miðnesheiðina og var síðar fenginn til ráðgjafar um staðsetningu Háaleitisflugvallar, sem í dag er Keflavíkurflugvöllur,“ segir Konráð og rifjar upp söguna.

Sótti kindur í fangelsið í Keflavík

Það muna sjálfsagt einhverjir eftir því þegar kindur og hestar voru á vappi í bæjarfélögum Suðurnesja á árum áður. Þá voru afmörkuð hólf ekki eins algeng og nú. Konráð á skemmtilegar minningar um þetta.

„Kindur voru vaðandi um alla Miðnesheiði og yfir í bæjarfélögin í kring. Fólk í Keflavík vaknaði við það að kindurnar voru búnar að éta blómin í görðunum þeirra að morgni og þá var lögreglan kvödd til aðstoðar. Hún fangelsaði rollurnar, setti þær í fangaklefa á lögreglustöðinni í Keflavík. Þá þurfti að leysa þær út. Ég minnist þess að fara til Keflavíkur með frænda mínum, leysa út kindurnar hans afa úr fangelsi og fara með þær heim. Í búskapnum var vagnhesturinn Gráni nýttur í allt áður en vélvæðing hófst. Hann dró skítakerruna, slátturvélina og síðar rakstrarvélina. Á honum var farið með mjólkina upp á brúsapall þegar dráttarvélin komst ekki í gang en hesturinn bilaði aldrei. Gráni blessaður, ættaður úr Garði, átti það til að sleppa frá okkur í garðana í heimahögum og éta þar blóm,“ segir Konráð og við skellum upp úr. Já, það er af sem áður var þegar dýrin stór og smá voru á vappi í bæjunum. Gráni komst í Lesbók Morgunblaðsins fyrir þær sakir að vera elsti hestur landsins sem sögur fara af, kominn vel yfir sextugt, ennþá vel tenntur, enda át hann skeljasand með grasinu. Við bræður, Vilhjálmur og ég, heygðum hann undir Langagarði, þar sem húsfreyjan á Hafurbjarnastöðum var grafin upp, landnámskonan, sem nú hýsir Þjóðminjasafnið í formi beinagrindar.“

Fuglamerkingar í ríkidæmi Garðskaga

Konráð nýtur þess að rifja upp sveitasæluna á Garðskaga forðum daga og segir að fuglamerkingar með frænda hans hafi líklega kveikt enn betur í áhuga hans fyrir náttúrunni.

„Ég átti merkilegan móðurbróður, Hákon Vilhjálmsson, sem hefði sjálfsagt fengið „greiningu“ í dag en hann stóð fyrir fuglamerkingum sem við sendum upplýsingar um til Náttúrugripasafns Íslands. Þannig kviknaði líklega áhugi minn fyrir náttúrunni. Menn vissu ekkert um ferðir farfugla á þessum tíma en þarna vorum við mitt í ríkidæmi farfugla á Garðskaga. Farfuglarnir voru í fjörunni og við fönguðum þá og merktum. Ef þessir fuglar fundust dauðir eða voru skotnir erlendis var farið með fuglamerkið á Náttúrugripasafn svæðisins sem sendi upplýsingar til Náttúrugripasafns Íslands og okkur bárust síðan upplýsingar um afdrifin. Þannig söfnuðust smám saman upplýsingar um aldur fuglanna og ferðir þeirra. Garðskaginn var og er mikil fuglaparadís. Þangað komu fuglaáhugamenn úr öllum heimi til að dvelja í styttri og lengri tíma. Þeir gistu iðulega heima á Hafurbjarnastöðum og voru með aðstöðu í útihúsum. Móðurbróðir minn var 22 árum eldri en ég en í samskiptum okkar var enginn aldursmunur. Eftir vélvæðingu ók ég, þá átta ára gamall, Ferguson dráttarvél og Dodge Weapon, fyrrum herbíl þegar með þurfti. Frændi reykti vafðar sígarettur eða pípu. Ég vildi prófa, svo hann dró fram gamlan koparrörbút úr blöndungi með fittings, tróð í tóbak og gaf mér að mér að reykja pípu sex ára gömlum því við vorum jafningjar. Kaffi var líka daglega á morgunverðarborðinu. Amma lánaði hreppnum fjármuni til að flýta fyrir lagninu símans sem var fésbók þess tíma. Hver bær hafði sína hringingu, við á Hafurbjarnastöðum vorum með tvær langar og tvær stuttar, Einar í Klöpp var með þrjár stuttar. Hringingin sem slík fól ætíð í sér spennuaugnablik. Það var alltaf hægt að lyfta upp tólinu og hlusta. Ef óvarlega var að farið gat hávær rödd öskrað: „Hunskist þið úr símanum Hafurbjarnastaðapakk.“ Sumrin voru barnshuganum ætíð björt og nóttin var til. Vorið kom, þá fórum við á stórstreymisfjöru um páskaleytið og stungum rauðmaga undir steini, hlustuðum eftir sporðaslætti hans á yfirborði í lognskyngdu lóni, með Snæfellsjökul handan flóans í allri sinn dýrð, á meðan æðurinn kurraði í fjöruborðinu. Og svo kom krían, þessi dásamlegi fugl sem ferðast 36.000 kílómetra frá Suðurskautslandinu til Íslands, til þess eins að nýta hér ljósið sem orkugjafa og sandsílabúskap við strendur landsins til fæðuöflunar. Kvenfuglinn sest á stein þegar ástarlífið hefst og karlinn kemur með síli í nefinu og færir henni. Þá er allt tilbúið fyrir dýrðina. Þau hófu þessa ferð í byrjun mars og eru nú mætt um leið og sumarið. Á þessum tíma þegar ég var drengur var öll Miðnesheiðin og strandlengjan búsvæði hennar. Sílamáfurinn og aukin byggð þjappaði henni saman svo hún gæti auðveldlega varið sig. Norðurkotið og Fuglavíkin eru í dag hennar draumalendur á Suðurnesjum. Þessi fugl átti í hjörtum fjölskyldunnar sérstakan sess.“

Móðir mín, Ingibjörg Vilhjálmsdóttir, skáldmælt, orti til hennar eftirfarandi ljóð árið 1962:

Þú ert komin káta kría,
komin heim á vængjum skýja,
nú mun öll mín ólund flýja,
eftir langan vetur.
Engum vorsins fugli fagna ég betur.

Hrekur burtu deifð og dróma,
djarfa raustu láttu hljóma,
sittu heil í sólar ljóma,
sæl á fornum slóðum.
Fagna ég góðum vini vegamóðum.

Lítilmagna vörn þú veitir,
varga, þegar herja sveitir,
sjálfan krumma brögðum beitir,
berð á örgum kjóa.
Orka býr í álfakroppnum mjóa.

Sérfræðinám í Svíþjóð

Konráð Lúðvíksson fullorðnaðist og fór í sérfræðinám til Svíþjóðar. Árið 1984 flutti Konráð ásamt fjölskyldu til Keflavíkur. Tímarnir hafa sannarlega breyst því Konráð minnist á hversu erfitt það var á þessum tíma að fá stöðu við Landspítalann. Í dag er það auðveldara, því aukin sérhæfing og kröfur krefjast meiri mannafla. Auk þess kjósa margir útskrifaðir, íslenskir læknar að búa áfram erlendis eftir sérnám, m.a. vegna óhóflegs vinnuálags hér heima.

„Eftir sjö ára nám í Svíþjóð togaði Ísland í okkur heim aftur, því römm er sú taug sem rekka dregur. Þetta land er land frelsisins. Náttúran er svo yfirgengilega sterk á Íslandi. Ættartengslin toga líka. Við sáum þessa stöðu kvensjúkdómalæknis við Sjúkrahús Keflavíkurlæknishéraðs auglýsta og létum slag standa, þótt vitað væri að hér yrði maður svo sannarlega að standa með sjálfum sér faglega. Í minningunni var Keflavík þess tíma einhver ljótasti bær á Íslandi, með svartri ímynd bæði félagslega og umhverfislega og síst vel tilfallin til að hefja lífsbaráttu fyrir tiltölulega nýútskrifaðan kvensjúkdómalækni, vitandi að við tæki uppbygging og stöðugar vaktir. Það var ekki auðvelt að koma heim sem sérfræðingur, allir vildu á Landspítalann og læknar sáu þann stað sem ljós heimsins. Sigurður Magnússon, prófessor og yfirlæknir, gaf manni eiginlega vink um það sem þyrfti að gera til að komast inn. Mín leið var að taka undirgrein í kvensjúkdómum, sérmennta mig í vandamálum tengdum neðri þvagvegum kvenna, eins og þvagleka, leg- og blöðrusigum svo og þvagfærasýkingum. Markmiðið var að komast heim, flestir vildu komast heim og vinna hér á landi. Eins og áður hefur komið fram höfðu Suðurnes mjög neikvæðan orðstír. Barnadauði var hærri hér, tíðari fósturlát, sérstakur, sjaldgæfur vanskapnaður tengdur þvagfærum, ákveðin mál sem fóru fyrir Alþingi, mál sem tengdust yfirborðsvatninu sem fólkið var að drekka hér á svæðinu, sennilega mengað vegna starfsemi hersins. Þá ríktu ekki vatnsverndarlög. Eftir að ný vatnsveita var hér lögð hvarf þessi meinsemd úr umhverfinu. Þrátt fyrir allt það neikvæða umtal sem bærinn hafði á sér á þeim tíma og að Keflavík væri ekki vænlegasti kosturinn þá ákváðum við samt að flytja hingað því okkur langaði heim til Íslands. Við byrjuðum á að leigja einbýlishús á Faxabraut. Þetta var erfitt tímabil í bæjarfélaginu, útgerð var að þynnast út og töluvert atvinnuleysi. Það var dálítið menningarsjokk að koma hingað í skólana með börnin okkar þrjú, hið yngsta eins árs. Við vildum taka þátt í samfélaginu, höfðum okkar viðmið frá Svíþjóð og fannst við geta yfirfært þau á þetta nýja samfélag. Ég tók virkan þátt í foreldrafélögum barna og gagnfræðaskólans, auk vímulausrar æsku. Útvarpsfréttir eftir helgar voru ekki jákvæðar fyrir svæðið. Maður sá það einnig glöggt að herinn hafði mikil áhrif á bæjarlífið í Keflavík, miklu meiri en fólk gerði sér almennt grein fyrir. Siðferðið var sérstakt og menn fengu „lánað“ frá hernum. Tiltölulega fáir sóttu sér langskólanám, kannski vegna þess að herinn hafði óendanlega þörf fyrir vinnuafl og saug það til sín með hærri launatilboðum. Bílar voru stærri, jólaljósin blikkandi og litrík, mikið af ókláruðum húsum fannst manni og ekki bætti veðráttan, rokið, fyrstu upplifun manns af dvölinni hér. Það tekur heila kynslóð að breyta þessum orðstír sem Keflavík hafði á sér. Kona mín, Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir, starfaði sem líffræðikennnari á unglingastigi við Holtaskóla og seinna sem sérfræðingur við Þörungaræktarfyrirtækið Bio Process í Höfnum, auk þess að sjá um Frístundaskóla Reykjanesbæjar fyrstu starfsárin. Síðar hefur hún einnig tekið þátt í uppbyggingu safnaðarstarfs Keflavíkurkirkju og verið formaður sóknarnefdar síðastliðinn átta ár. Við hjónin eyddum öllum okkar frístundum með börnum okkar, börðum í sundlaugabakkana, sátum í Suzuki-tónlistartímum með þeim og tókum þátt í félagsstarfi þeirra. Eydís, dóttir okkar, endaði á því að „synda” alla leið til Ástralíu þar sem hún giftist sundmanni og ílengdist. Með fullri virðingu fyrir því umbótastarfi sem bæjarstjórnir hvers tíma beita sér fyrir urðu hér mikil straumhvörf þegar Árni Sigfússon kom sem eldmóður og tók við kefli bæjarstjóra á miklum umbrotatímum í bæjarfélaginu. Hann varð bæjarfélaginu sem vítamínssprauta með áherslu sína á mannræktarstefnu, umhverfisstefnu, menntamál og menningarmál. Þó að það hafi kostað sitt þá verður að viðurkennast að Árni breytti ásýnd samfélagsins til góðs. Tónlistariðkun hefur alltaf verið eitt af séreinkennum þessa svæðis. Kanaútvarpið gerði sitt fyrir bítlabæinn. Hermann Eiríksson og Herbert H. Ágústsson buðu upp á ókeypis tónlistarnám fyrir börn og lögðu grunninn að þeim fyrirmyndar tónlistaskóla sem hér er starfræktur,“ segir Konráð.

Pólítísk átök um HSS

Bærinn breyttist með árunum og þau hjónin eignuðust heimili á klettaborg í Heiðarhorni, á einum hæsta punkti Keflavíkur. „Ein af forsendum konu minnar til flutnings hingað var að hún sæi út á sjóinn. Hún er borin og barnfædd í Önundarfirði, hafði sjóinn daglega fyrir augum og lék sér á ströndinni. Við fengum augastað á þessu húsi sem lengi hafði staðið sem útveggir einir, leikvangur barna um árabil. Við ókum hingað gjarnan sunnudagsrúntinn og létum okkur dreyma. Þegar Hjörtur Zakaríasson mætti til okkar eitt kvöldið á Faxabrautina og bauð húsið falt til byggingar og búsetu hríslaðist um okkur fögnuður, kláruðum við húsið árið 1987 og höfum búið hér síðan. Mörgum stundum eyðum við í garðinum sem aldrei verður fullmótaður, ræktum þar grænmeti og rósir. Lífið í Keflavík hefur verið okkur gott á margan hátt og við áttum glæstan feril hér. Á Suðurnesjum fékk ég að iðka það sem ég hafði lært, það sem lífið færir manni. Þegar ég tók til starfa á Sjúkrahúsi Keflavíkur þá var Kristján Sigurðsson yfirlæknir, hafði verið frá árinu 1971 og var fram til ársins 1992 þegar hann lét af störfum. Kristján var þessi sómamaður og allra hugljúfi, maður sem hafði góða nærveru. Kristján var barn síns tíma, hafði mikla reynslu, enda gerði hann allt, hvort sem það var botnlangaaðgerð eða aðgerð á konum, og var mjög fimur skurðlæknir á árunum fyrir tíma nútímaskurðtækni. Heilbrigðismálin hafa breyst og þróast á öllum þessum árum en það hefur alltaf blásið um sjúkrahúsið. Mikil pólítísk áhrif frá öllum sjö sveitarfélögunum á Suðurnesjum voru í gegnum sjúkrahúsið. Það þótti vegsemd að ná í sæti í stjórn sjúkrahússins, sem var bæði gott og vont því landslagið breyttist við hverjar kosningar. Ef þjónustan var ekki í þökk fólksins þá fór það inn í pólítíkina. Það voru haldnir reglulegir stjórnarfundir þar sem málefni sjúkrahússins voru tekin fyrir. Minnihlutinn í bæjarpólitíkinni gagnrýndi stöðugt störf meirihlutans. Sennilega hafði neikvæð áhrif á þær fjárveitingar sem ríkið var tilbúið að veita svæðinu því yfirvöld landsins sögðu að fólkið hér hefði herinn og betur borguð laun vegna hans. Daggjöldin ákváðu fjárveitingar ríkisins,“ segir Konráð og manni dettur í hug hvort þetta viðhorf stjórnvalda sé staðnað gagnvart Suðurnesjum? Hvort draugar fortíðar séu enn að hafa áhrif á fjárveitingar til svæðisins, þrettán árum eftir brotthvarf hersins?

Fæðingardeildin ruddi brautina

„Ég ásamt samstarfsfólki mínu, á þeim tíma, með Sólveigu Þórðardóttur, ljósmóður við hlið mér, lögðum sérstaka áherslu á að hafa andrúmsloftið heimilislegt á fæðingardeildinni og að feður væru alltaf velkomnir. Deildin var opin og mjög vinsæl. Þegar ég kom heim frá Svíþjóð hafði ég þessar hugmyndir um fæðingardeildina í farteskinu og þetta þóttu byltingarkenndar hugmyndir en góðar. Ég lagði upp með það að læknir væri viðstaddur við hverja fæðingu. Konur komu alls staðar af landinu til að fæða börnin sín hjá okkur. Tæknivæðingin sem hafði hafið innreið sína í fæðingaferlið var hér tekin inn, sársauki og öryggi fengu sérstaka athygli. Við lögðum áherslu á mannlega þáttinn. Yfir 90% vanfærra kvenna af Suðurnesjum fæddu á fæðingardeildinni, aðeins fyrirburafæðingar voru sendar inneftir. Þegar mest lét fæddust hér 306 börn á ári. Flestar konur skírðu börnin sín áður en þær fóru heim og átti fæðingardeildin fimm skírnarkjóla sem velunnari saumaði til að lána. Við reyndum að taka þátt í lífi fólks, bæði í sorg og gleði, þar er oft stutt á milli. Við stofnuðum félagsskap um sorg og sorgarviðbrögð, Bjarma, með séra Ólaf Odd Jónsson sem okkar klett. Viðbrögð við fósturmissi voru á þessum tímum óræð og þokukennd. Þeirri umgjörð var breytt með því að líta á sömu augum og ástvinamissi. Létum við smíða litla kistla og efna til athafnar í líkingu við hefðbundna útför. Foreldrar handfjötluðu fóstrin og áttu samverustundir, með eða án okkar starfsfólksins. Kapella sjúkrahússins þjónaði lykilhlutverki á þessum tímum. Við vorum brautryðjendur í þeirri aðferðarfræði. Á fæðingardeildinni var stofnað Brjóstavinafélag og mikil áhersla lögð á brjóstagjöf. Fæðingardeildin þjónaði vel samfélaginu hér á þessum tíma og gerir enn fyrir þær sem þurfa ekki að hafa lækni viðstaddan fæðingu. Allt er breytingum undirorpið. Skurðsvið sjúkrahússins finnst mér í minningunni hafa staðið á hátindi árið í kringum aldamótin 2000, þegar við vorum með átta skurðsérgreinar og skurðstofan var nýtt til hins ýtrasta. Þegar nýja skurðstofan opnaði á þriðju hæðinni hélt ég í einfeldni minni að hagur og orðstír HSS yrði að eilífu tryggður með öflugri heilsugæslu og aðgengi að stoðþjónustu til að taka við þegar á reyndi. Reyndin varð önnur. Þessi rúm tvö ár sem hún var starfrækt gekk illa að manna svæfingarþjónustuna og einkastofnanir, sem höfðu þá risið, tóku til sín sérfræðingana sem áður störfuðu hér. Ég kom mér upp neti svæfingalækna frá öllum Norðurlöndunum til að halda uppi starfseminni, sótti þá gjarnan á flugvöllinn og kom þeim fyrir í leiguhúsnæði sem við höfðum yfir að ráða. Síðan urðu tíð skipti á framkvæmdastjórum og síðustu þrír voru utanaðkomandi, stjórnin var einnig skipuð utanbæjarfólki sem var afdrifaríkt mitt í öllu þessu samhengi. Við áttum stórkostlega skurðstofu en niðurskurður eftir hrunið leiddi til þess að lögð var meiri áhersla á bráðaþjónustu og heilsugæslu, annað fékk minna vægi,“ segir Konráð alvarlegur í bragði.

Lokun skurðstofu HSS afdrifarík

Almannarómur segir að HSS sé verbúð nýútskrifaðra lækna. Unglæknar fari þangað í þjálfun en vilji ekki búa í bæjarfélaginu til frambúðar. Þeir koma til að þéna góðan pening í stuttan tíma og þess vegna getur fólk á Suðurnesjum ekki fengið fastan heimilislækni eins og íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Næst veltum við upp spurningunni um hvers vegna það gangi svona illa með rekstur og mannaforráð HSS í dag. Konráð segist ekki vilja blanda sér í þær umræður enda hættur störfum. Hins vegar sé svæðið viðkvæmt starfsumhverfi.
„Á haustmánuðum árið 2002 hurfu héðan af vettvangi til dæmis allir starfandi heilsugæslulæknar, tólf að tölu, eftir langvarandi réttinda- og launadeilu við heilbrigðisyfirvöld og skildu eftir sig sviðna jörð. Þá urðum við fórnadýr réttindabaráttu og þurftum að krafsa okkur upp úr jörðinni á ný. Þetta tímabil var kannski mitt erfiðasta á starfsferlinum. Togstreita var á milli heilsugæslu og skurðsviðs undir lokin, áður en skurðstofu var lokað. Hið opinbera kerfi lokar á víðtæka starfsemi stofnunar sem hefur þjónað íbúum svæðisins í 70 ár. Ég lagðist í tveggja vikna depurð þegar ákveðið var að loka skurðstofunni og fannst dagar mínir taldir hjá stofnuninni. Ég ákvað í kjölfarið að yfirgefa vinnustaðinn minn hjá HSS og fékk ákveðin fráhvarfseinkenni, var búinn að skila löngu dagsverki og taldi mig hafa átt farsælan feril. Sjálfsagt tók það sinn toll af sálinni að vera búinn að þjóna svo mörgum, sjá mörk lífs og dauða og gleðjast og þjást með samferðafólki mínu hér á Suðurnesjum. Líf þess var mitt líf,“ segir Konráð, sem var líklega ekki einn um að fyllast depurð yfir þessum málalokum skurðstofunnar.

Byggði upp öflugt starf á Akranesi

Konráð átti góð ár í starfi alveg þar til skurðstofu var lokað 1. maí 2010 og starfsfólki sagt upp störfum en þá lagðist hann sjálfur í sorg. Fljótlega réði hann sig til Akraness og byggði þar upp öflugt starf á kvennadeildinni í byrjun ásamt Edward Kiernan . Konráð lét af störfum þar, 70 að aldri, eftir að hafa fundið verðuga arftaka til að taka við keflinu.
„Mér fannst ég alls ekki tilbúinn að leggjast í helgan stein og gat ekki hugsað mér að yfirgefa skurðþekkingu mína. Ég hafði samband við Akranes og þeir réðu mig strax. Það er allt annað samfélag á Akranesi, á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Menn hafa horft til Akraness sem fólki hefur fundist fá meira fé frá ríkinu en Akranes hefur verið lánsamt því þar hefur afbragðs starfsfólk unnið á heilbrigðisstofnuninni í gegnum árin, þar sem stöðugleiki, föst búseta lækna hefur skipt sköpum. Á Akranesi búa tveir svæfingalæknar og halda uppi sólarhringsvöktum sem hefur mikla þýðingu fyrir HVE. Ég bjó einnig á Akranesi á meðan ég var á vöktum. Það kom fyrir að ég tók með mér konur af Suðurnesjum í bílinn á leið upp eftir til að framkvæma á þeim aðgerðir á Akranesi. Þess á milli sinnti ég sérfræðiþjónustu og mæðravernd hér heima. Mér tókst að kenna það sem ég kunni á Akranesi, áður en ég lét af störfum en ég vildi að þekking mín færi áfram. Ég fékk að upplifa góðan endi á mínu faglega lífi á Akranesi og fyrir það er ég eilíflega þakklátur. Þar endaði ég feril minn,“ segir Konráð.

Mikill gæfumaður

Konráð og Ragnheiður Ásta eiga þrjú börn, Eydís er læknir og býr í Ástralíu, Magnús er skurðlæknir og yfirlæknir á Landspítala og yngsta dóttirin, Hanna Björg, lögfræðingur hjá Orkustofnun, sú eina sem býr í Reykjanesbæ.
„Ég er mikill gæfumaður. Fjölskyldan er það sem skiptir öllu máli þegar upp er staðið. Ég á alveg guðdómlega fjölskyldu og börnum okkar hefur vegnað vel. Tengdabörn okkar eru hreinustu gersemar. Við hjónin eigum forsjóninni fyrir að þakka að tímabundnir erfiðleikar hafa þróast farsællega. Nú erum við að endurupplifa góða tíma með því að vera með barnabörnum okkar, ýmist til að berja aftur sundlaugabakkana eða tengjast tónlistarnámi þeirra. Ég og litla afastelpan mín, Eydís, átta ára, erum að æfa okkur að spila á píanó og hún kemur hingað til okkar eftir skóla flesta daga. Fjölskyldan er samhent og við ætlum að vera saman um jólin hér á Íslandi. Eydís og fjölskylda koma hingað yfir jól og áramót. Nú hef ég meiri tíma til að sinna fjölskyldunni og einnig áhugamálunum. Ég hef gaman af því að renna fyrir fisk. Skógrækt hefur átt hug minn í mörg ár og var ég með í að endurvekja Skógræktarfélag Suðurnesja og hafa stofnað Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands. Maður þarf að finna farveg fyrir ræktunaráhugann. Ég hef verið að hlúa að Aldingarði æskunnar ásamt félögum mínum í Garðyrkjufélaginu, reit í skrúðgarðinum sem okkur var úthlutað. Þar höfum við verið að hreinsa burt illgresi, setja niður ávaxtatré og nú nýverið mikið magn haustlauka með hjálp leikskólabarna. Ég fór til bæjarins og spurði hvort þeir ættu ekki spildu sem við gætum lagt alúð við og væri nálægt leikskólum bæjarins. Sumardaginn fyrsta árið 2019 fengum við garðinn og þar höfum við plantað með börnum tré og runna, ávaxtatré og blóm. Það er hollt fyrir börn að kynnast ræktunarstarfi. Á leikskólum bæjarins er yndislegt framsækið starfsfólk sem hefur tekið þátt í þessu verkefni og fleiri hafa komið að Aldingarði æskunnar. Við höfum sótt um styrki og fengið og ætlum okkur stóra hluti í samstarfi við bæinn okkar. Rótarýklúbbur Keflavíkur, sem ég gegni forsetaembætti fyrir öðru sinni, er verndari þessa verkefnis og hefur þar lagt hönd á plóg,“ segir Konráð og er greinilega ánægður með þetta verkefni.

Að hafa góð áhrif á samfélagið

„Ég er frjáls maður, allir dagar eru laugardagar. Nú er ég kominn á eftirlaun. Ég sakna starfsins míns, það er vont en venst. Mér finnst ég samt vilja halda áfram að sinna þessu samfélagi, hafa góð áhrif og taka þátt. Ekki bara þiggja heldur líka gefa. Við hlökkum til að eiga jólin saman og erum búin að panta þrjú hús á Akureyri á nýársdag, eftir formlegt jólahald, en þá ætlum við öll á skíði. Fjölskyldan verður saman um jól og áramót og byrjum einnig nýja árið saman. Barnabörnin eru átta og þau eru bestu vinir og nærast hvert á öðru. Þetta er okkar gæfa,“ segir Konráð að lokum.