Sparkvissar systur

Íris Una og Katla María Þórðardætur

Keflvíkingar eiga tvo fulltrúa í 17 ára landsliði kvenna í fótbolta sem heldur til Skotlands síðar í mánuðinum. Þarna eru á ferðinni eineggja tvíburasysturnar Íris Una og Katla María Þórðardætur. Þær eru á síðasta ári í Grunnskólanum í Sandgerði þar sem þær ólust upp. Þrátt fyrir ungan aldur eru þær þegar orðnar lykilleikmenn í Keflavíkurliðinu sem var grátlega nærri því að komast upp í efstu deild síðasta sumar. Þær eru ákaflega samrýndar og eru öllum stundum saman. Þær ná vel saman á vellinum og finnst gott að vita af hvor annarri til stuðnings. Þær eru á því að kostir þess að vera tvíburi séu mun fleiri en gallarnir. „Maður er alltaf með einhvern með sér og er aldrei einn,“ segja þessar samstíga systur.

Þær fengu fregnir af landsliðskallinu á Facebook. Íris var þá að horfa á æfingu og var að skoða símann sinn. Þá sá hún að búið var að velja lokahópinn. Hún kallaði því á systur sína sem var að spila og færði henni fréttirnar við mikinn fögnuð beggja.

Aðeins fjögurra ára voru þær farnar að sparka í bolta. „Við höfum ekki stoppað síðan,“ segir Katla en þær systur fylgjast vel með fótbolta og styðja við Liverpool í enska boltanum. Það er reyndar tilkomið frá pabba þeirra sem skráði þær meira að segja í stuðningsklúbbinn. Þær eru sammála um flest allt sem við kemur fótbolta. Raunar eru þær sammála um mjög margt og líkar á þann hátt eins og útlitslega. Þær eru báðar á því að Messi sé bestur í heimi og í fermingargjöf fengu þær að fara til Barcelona til þess að sjá goðið spila.

Mikil samkeppni er á milli systranna en þær eru báðar ákveðnar og ætla sér að ná árangri.
„Það er alveg erfitt að vera tvíburi í íþróttum. Það er samkeppni á milli okkar,“ segir Íris og Katla tekur undir. Þær eru þó á því að það hafi gert þær báðar betri. Báðar hafa þær mikið keppnisskap og stundum fer allt í háaloft þegar þær leika sér saman í fótbolta.

Verður okkar sumar

Þær hafa spilað í nánast öllum stöðum á vellinum en telja sig hafa fundið sína fjöl í núverandi stöðum. Árangur Keflvíkinga á síðasta sumri vakti mikla athygli og var liðið aðeins einum leik frá því að komast í efstu deild.

„Við bjuggumst ekki við því að vera að keppa um Pepsi-deildarsæti. Þetta var geggjað sumar,“ segja þær nánast í kór. Þær setja stefnuna á efstu deild bara strax núna í sumar. Systurnar segja skemmtilegan anda ríkja í þessu unga liði og eru margar ansi efnilegar að koma upp á sama tíma. „Við komumst upp, þetta verður okkar sumar,“ segir Katla ákveðin við blaðamann. Þær æfa mjög stíft, jafnvel tvisvar á dag þegar styrktaræfingar eru teknar með. Að sögn systranna hefur metnaðurinn aukist hjá Keflvíkingum eftir að góður árangur náðist síðasta sumar.

Báðar eiga þær sér draum um að komast til Bandaríkjanna og spila þar í háskólaboltanum. Þangað stefna þær auk þess sem þær sjá fyrir sér að eiga farsælan landsliðsferil framundan.

Þjálfarinn ruglast stundum á þeim systrum og skammar þá ranga systur. Þær skemmta sér vel yfir þessu og nýta sér það stundum að vera líkar til þess að hrekkja fólk. Aðallega í skólanum. „Þegar það er verið að kenna mér um eitthvað, þá er gott að segja að Íris hafi gert þetta,“ segir Katla og hlær.