Sá eini með viti í fjölskyldunni

– segir Sandgerðingurinn ­Ástvaldur Ragnar Bjarnason en hann er sá eini í fjölskyldunni sem heldur með Liverpool.

Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: JPK og úr einkasafni

Ástvaldur er uppalinn í Sandgerði og hefur aldrei búið annars staðar. Hann er mögulega einn mesti íþróttaáhugamaður sem sögur fara af en þeir sem fylgjast eitthvað með íþróttum á Suðurnesjum hafa efalaust séð til hans á leikjum en Ástvaldur er manna duglegastur að mæta á leiki sinna uppáhaldsliða, Reynis og Keflavíkur, og hann setur það ekki fyrir sig að fylgja sínum liðum langar vegalengdir til að horfa á þau spila. Ástvaldur tók á móti Víkurfréttum á heimili sínu í Sandgerði og við spjölluðum um lífið og tilveruna.


Spastískur með fjórlömun


Ástvaldur fæddist þann 12. september 1992 og er því 29 ára gamall. Hann fæddist fyrir tímann og varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu og fékk heilablæðingu tíu daga gamall. Ástvaldur glímir við spastíska lömun (cerebral palsy, CP) sem er einnig kölluð heilalömun og orsakast af heilaskaða sem verður á fósturstigi eða við fæðingu. Í tilfelli Ástvalds er um fjórlömun að ræða, þ.e. lömunin herjar á alla útlimi hans og Ástvaldur þarfnast því aðstoðar við sínar daglegu athafnir en hann lætur það ekki stoppa sig í hafa gaman af lífinu.

Ástvaldur hefur komið sér vel fyrir í vistlegu raðhúsi í Sandgerði þar sem hann býr einn og fyrsta spurning er hversu lengi hann hafi búið þar.

„Ég er búinn að vera hér í tvö ár. Fékk afhent á laugardagsmorgni, fór þá að skoða og koma mér fyrir og fór bara ekkert aftur heim til mömmu,“ segir Ástvaldur brosandi.

Damon Johnson og Ástvaldur fyrir mörgum árum síðan. Damon gaf Ástvaldi áritaða treyju sína sem er innrömmuð upp á vegg.

Ástvaldur með hluta glæsilegu safni sínu af íþróttatreyjum.
VF-myndir: JPK


Gott að alast upp í Sandgerði


Hluti af safni verðlaunagripa Ástvalds.

Hvernig var að alast upp í Sandgerði?

„Það var rosalega gott. Ég gekk í Grunnskóli Sandgerðis og var alla skólagönguna með mínum jafnöldrum í bekk.“ Ástvaldur segir það hafa verið ótrúlega gaman og hann eigi marga vinir eftir það, það sé mikils virði.

Eftir grunnskóla fór Ástvaldur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þaðan sem hann útskrifaðist af starfsbraut og afreksbraut.


Elskar íþróttir


Það er heljarinnar útbúnaður sem Ástvaldur notar í boccia. Hann keppir í rennuflokki og varð Íslandsmeistari á dögunum.

Ástvaldur er sjálfur duglegur við að stunda íþróttir og hann æfir boccia með íþróttafélaginu Nes sem fagnar einmitt 30 ára afmæli á útgáfudegi þessa tölublaðs, þann 17. nóvember. Hann byrjaði að æfa með Nes í kringum sex ára aldurinn og fór beint í boccia en var fyrst líka aðeins í sundi. Ástvaldur er nýkrýndur Íslandsmeistari (Suðurlandsmeistari) í rennuflokki í boccia en í þeim flokki hafa keppendur aðstoðarmann sem stillir miðið eftir skipunum.

„Ég hef mjög gaman af boccia, það er svolítið erfitt að keppa. Sigurpáll frændi aðstoðar mig, hann er mjög góður,“ segir Ástvaldur sem var tiltölulega nýkominn með svakalega flottan keppnisbúnað þegar Covid byrjaði og síðan þá hefur ekkert verið keppt.

Hann er duglegur að æfa en Ástvaldur er sá eini hjá Nes sem er í rennuflokki. „Það er dálítið ömurlegt að vera einn í flokki, einmanalegt,“ segir hann en bætir við að honum finnist gaman að hitta aðra iðkendur og félagsskapurinn er góður. „Æfingar eru að vísu bara einu sinni í viku og mættu vera oftar.“

Hefurðu alltaf verið mikill áhugamaður um íþróttir, hvernig byrjaði það?

„Já, alveg síðan ég var lítill. Fótbolti og körfubolti eru í uppáhaldi og ég geri ekki upp á milli þeirra,“ segir Ástvaldur sem mætir á flestalla leiki með Reyni og Keflavík. Hann fer út um allt og á alla leiki sem hann getur farið á. Það verður stundum höfuðverkur ef bæði lið spila á sama tíma, þá fer það eftir stöðu og mikilvægi leiksins hvor verður fyrir valinu.

Ástvaldur er manna duglegastur að mæta á leiki sinna uppáhaldsliða, Reynis og Keflavíkur, og hann setur það ekki fyrir sig að fylgja sínum liðum langar vegalengdir til að horfa á þau spila. Ástvaldur tók á móti Víkurfréttum á heimili sínu í Sandgerði og við spjölluðum um lífið og tilveruna.Keflavík vann. Ástvaldur sáttur með sigur Keflvíkinga á KR í VÍS-bikar karla í körfubolta.


Dæmigerður dagur


Ástvaldur er á fullu allan daginn. Hann vaknar snemma, er sóttur rúmlega sjö alla morgna og fer á Hæfingarstöðina.

Hvað er gert þar?

„Setið og horft út í loftið,“ svarar hann um hæl. „Það mætti vera meira að gera og fjölbreyttara starf. Oftast er manni stillt upp fyrir framan sjónvarpið – ég get alveg eins hangið heima fyrir framan sjónvarpið.“

Þegar heim er komið er farið í að skipuleggja restina af deginum. Skoða hvenær og hvar næsti leikur verður, ekkert annað en íþróttir komast að. „Fótbolti, körfubolti, karla, kvenna eða deild – það skiptir ekki máli. Er tilbúinn að horfa á handbolta ef ekkert annað er í boði,“ segir Ástvaldur sem veigrar sér ekkert við því að fara á Sauðárkrók, Akureyri eða til Vestmannaeyja og sjá liðin sín spila. Ástvaldur varð einmitt veðurtepptur í Eyjum í eina þrjá daga árið 2013 þegar hann fór á Keflavíkurleik.

Pabbi hans rifjar upp að eitt skiptið hafi þeir verið á Hvolsvelli og Ástvaldur segir: „Ég skal sofa í bílnum og þá getum við lagt af stað klukkan sex í fyrramálið og skroppið á Egilsstaði!“ Þá voru Reynismenn að fara keppa þar. Pabbi hans sagði nei.

Ástvaldur milli Jóa, bróður síns, og Bjarna, pabba síns.

Þá var Ástvaldi tilkynnt það á sjúkrahúsinu í Keflavík að hann væri kominn á endastöð. Það var bara spurt: „Hvort viljið þið klára lífið hér eða fara í bæinn?“Sagður kominn á endastöð


Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, og Ástvaldur eru miklir mátar. Sindri rifjaði upp þegar hann fékk símtal á Facebook frá Sigurbergi Elíssyni árið 2019 til þess að gefa honum færi á að kveðja Ástvald. Sindri var þá staddur á Höfn og brunaði beint í bæinn – það voru sem betur fer ekki endalokin og þeir eru ennþá bestu vinir.

Við erum helstu aðdáendur Ástvalds

Til marks um það í hversu miklum metum Ástvaldur er innan íþróttahreyfingarinnar á Suðurnesjum þá tileinkaði Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflavíkur á þessum tíma, í viðtali við Fótbolta.net Ástvaldi Ragnari sigur liðsins á Njarðvík þar sem hann stóð í þessari erfiðu baráttu.

„... mig langar til þess að tileinka þennan sigur honum Ástvaldi Ragnari Bjarnasyni, okkar helsta stuðningsmanni sem á í mikilli og erfiðri baráttu og mikilvægari heldur en við áttum hér í kvöld og hann er okkar helsti stuðningsmaður og við erum allir hans helstu aðdáendur á móti.“