Óskabarn kauptúnsins

Sundhöllin í Keflavík á sér mikla sögu - Húsnæðið er til sölu og gæti hlotið þau örlög að vera jafnað við jörðu

Sundhöllin í Keflavík á sér langa og merka sögu. Hún var tekin í notkun sem útilaug árið 1939 og þótti þá mikil bylting fyrir kauptúnið Keflavík. Byggt var yfir laugina eftir teikningum frá húsameistaranum sjálfum, Guðjóni Samúelssyni árið 1950. Jafnan var sundhöllin nefnd óskabarn kauptúnsins. Þar lærðu þúsundir Suðurnesjamanna að synda á sínum tíma en allri starfsemi var hætt í sundlauginni árið 2006. Nú er húsnæðið til sölu og óvíst um afdrif þessa sögufræga húss.

Það er ekki á hverjum degi sem sundlaug rekur á fjörur fasteignasala. „Nei það er sjaldgæft. Landsbankinn eignaðist þetta hús fyrir einhverjum árum síðan en enginn hefur sýnt þessu áhuga fyrr en allt í einu núna,“ segir Guðlaugur H. Guðlaugsson fasteignasali. Hann telur Reykjanesbæjar sem eru þar með æfingaaðstöðu hafa viljað halda húsinu áfram. Eins hafa listamenn sýnt því áhuga að kaupa húsið og opna þar vinnustofu. Vel gæti farið svo að húsið yrði rifið en til stendur að byggja íbúðarhúsnæði á lóðinni þar sem gamli Jökull var á sínum tíma, við hlið sundhallarinnar. Guðlaugi þætti það synd að húsið myndi fá að fjúka. „Mér finnst þetta rosalega fallegt hús sem ætti að fá að standa.“ Hann er á því að bærinn ætti að kaupa húsið og koma því í upprunalegt form. „Af því að það er búið að klæða það og byggja við þessa heitu potta þá átta menn sig ekki á því hvað þetta er merkilegt hús. En um leið og kannski stendur til að rífa það þá heyrast raddir,“ segir Guðlaugur.

Fylltu laugina með sjó úr slökkviliðsdælunni

Sturlaugur Björnsson man þá daga þegar ekki var búið að byggja yfir sundlaugina. Hann er sérstakur áhugamaður um sögu Keflavíkur og rifjar upp þegar Keflvíkingar lærðu að synda í Grófinni, þar sem nú er smábátahöfnin. Á þessum árum var það oft spurning um líf og dauða að kunna að synda. Sjálfur lærði hann að synda í Sundhöllinni. „Þetta þótti mikil upplyfting og var hún vel sótt,“ segir Sturlaugur. Á þeim fyrstu 43 opnunardögum þegar laugin var tekin í notkun árið 1939 mættu um 5000 gestir í laugina. Íbúafjöldi í Keflavík var um 1.271 og því má áætla að hver íbúi hafi brugðið sér fjórum sinnum í laugina þetta fyrsta sumar sem laugin var í notkun. Flestir til þess að synda, sóla sig eða leika sér. Þó var laugin einnig notuð sem baðstaður, enda engin vatnsveita í Keflavík á þeim tíma.

Það þótti mikið mannvirki þegar byggja átti yfir laugina. Vígslan var mikil hátíð og var vel sótt af bæjarbúum. „Ég man að mikill sundkappi kom hérna úr bænum, en hann klifraði upp á reykháfinn sem var hérna og stakk sér í laugina. Það þótti feikilegt afrek,“ en sjö ára strákur úr Keflavík vígði svo laugina með fyrsta sundsprettinum. Bæjarbragurinn breyttist mikið með tilkomu laugarinnar. „Þetta hafði mikla þýðingu fyrir bæjarfélagið. Bæði upp á öryggi sjómanna og íþróttir. Hér var mikið af fólki sem stundaði sund,“ rifjar Sturlaugur upp. Staðsetning laugarinnar vekur kannski furðu nú til dags en ærin ástæða var fyrir henni á sínum tíma.

„Sundlaugin er staðsett þarna þar sem ekki voru vatnsveitur eða holræsi í Keflavík. Þarna er stutt í sjóinn og gott upp á frárennsli, eins sem auðvelt var að dæla sjó upp í laugina, það var gert með slökkviliðsdælunni á sínum tíma.“ Laugin var því full af sjó lengi vel, sem hitaðaður var eilítið upp með koksi. Í sögu Keflavíkur er ritað svo um sundlaugina.

„Frá því hafist var handa við undirbúning hennar hafði það verið ljóst að þetta fyrirtæki var óskabarn allra kauptúnsbúa og fjársöfnun til laugarinnar gekk ákaflega vel.“ Rausnarlegar gjafir bárust úr öllum áttum. Þörf fyrir slíka sundlaug var mikil í Keflavík. Bæði hvað varðar hollustu sundíþróttarinnar og líka af hreinlætisástæðum eins og áður segir. Aðsóknin jókst jafnt og þétt með árunum.
 

Húsið merkara en myndlistasýning

Eins og svo margir Keflvíkingar þá lærði Hafsteinn Ingibergsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja í Reykjanesbæ, að synda í gömlu Sundhöllinni. Hann varð svo síðar forstöðumaður sundlaugarinnar síðustu níu árin sem hún var starfrækt sem sundlaug. Undir það síðasta voru þar einungis skólasund, sundæfingar og vatnsleikfimi fyrir eldri borgara. „Það voru skrýtnir tímar þegar það var verið að leggja þetta mannvirki niður, enda sögufrægt hús. Við vorum þó komin með aðra glæsilega aðstöðu og Sundhöllin var orðin barn síns tíma.“ Hafsteinn minnist þess ekki að rætt hafi verið um nýtt hlutverk hússins á þessum tíma. „Það var þó talað um það fljótlega eftir að það var selt til einkaaðila að húsið yrði rifið. Boxið var þarna á undanþágu.“

Hafsteinn rifjar upp að árið 2007 var haldin myndlistasýning í Sundhöllinni á Ljósanótt. „Flestir sem þangað komu voru að skoða húsið sjálft. Það segir manni að þetta hús hefur mikla þýðingu fyrir Keflvíkinga. Fólk var þarna að skoða hvar það stakk sér úr gluggunum og talaði sérstaklega um svörtu og hvítu flísarnar í búningklefunum.“ Hafsteinn er á því að sérstakur andi sé í húsinu. Hann sæi jafnvel fyrir sér að íþróttaminjasafn bæjarins fengi þar aðsetur.

Gamlar innréttingar eru enn til staðar í búningsklefum og í afgreiðslu enn þann dag í dag og má finna nasaþefinn af gömlu stemningunni í loftinu. Sundhöllinni var lokað árið 2006 en þá fékk Hnefaleikarfélag Reykjaness aðstöðuna til afnota.

Mikið partýstand um helgar

Hildur Kristjánsdóttir vann í Sundhöllinni frá 17 ára aldri í um tíu ára skeið. Hún vann þar með yndislegu fólki að eigin sögn. Sérstaklega minnist hún á Hafstein Guðmundsson, Jóhönnu konu hans og Brynju dóttur þeirra, en Hafsteinn lyfti grettistaki í sundinu eins og hann gerði í fótboltanum. „Þarna á ég rosalega góðar minningar,“ rifjar Hildur upp en hún segir þarna hafa verið mikið líf og fjör. „Það er þó ein slæm minning frá þessum tímum. Það var þegar ég var að labba niður í bæ, 18 ára gömul og krakkarnir bentu á mig og kölluðu mig kerlinguna í sundlauginni,“ segir Hildur og skellihlær.

„Það var mikið partýstand um helgar,“ segir Hildur og hlær. Þá mætti fólk af skemmtistöðunum og í heitu pottana til þess að halda fjörinu gangandi. Allt var þetta auðvitað í leyfisleysi og starfsfólkinu til ama. „Mér finnst þetta fyndið núna en fannst það ekki fyrir 40 árum síðan,“ bætir hún við og skellir upp úr. Það kom fyrir að fólk hafi hreinlega fengið sér lúr inn í búningsklefum, eftir að að hafa fengið sér aðeins of mikið í staupinu. Húsið sjálft á sérstakan stað í hjarta Hildar eins og margra heimamanna.

„Mér fannst þetta æðislegt hús og það má alls ekki rífa það til þess að byggja eitthvert hótel eða hvað það nú er. Við eigum að varðveita þetta. Alveg eins og með Hljómahöll, af hverju ekki íþróttahöllin, þar sem við getum varðveitt allar íþróttaminningar okkar?“

Einhverjir eru á því að það megi alls ekki rífa bygginguna þar sem hún er sú eina á Suðurnesjum sem húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, hefur hannað. Sundlaugin var byggð á árunum 1937-1939 en byggt var yfir hana síðar og árið 1950 var hún tekin í notkun sem innilaug.

Í Faxa var ritað árið 1962:

„Ungir og gamlir Keflvíkingar og utanbæjarmenn hafa lært þar sund og iðkað þar íþrótt íþróttanna, sundið. Æskan, sem alizt hefur upp með lauginni, ber nú hróður byggðarlagsins út um landsbyggðina með sundafrekum sínum. Sundhöllin er glæsi- legur vitnisburður þess hvað hægt er að gera, ef samstilltur vilji fólksins er fyrir hendi. Til „óskabarnsins", sundhallarinnar, hefur hver lagt sinn skerf og eining hefur ávallt ríkt um framkvæmdina, jafnvel innan hreppsnefnda og bæjarstjórna, er setið hafa þetta tímabil.“