Ómur frá Jamestown úr hljóðfærum Jóns Marinós

Fiðlusmiðurinn Jón Marinó Jónsson í viðtali

Jón Marinó Jónsson húsasmíðameistari frá Keflavík ákvað fyrir nokkrum árum að venda kvæði sínu í kross, hætta sem húsasmíðaverktaki með rúmlega tuttugu karla í vinnu og fara í nám í fiðlusmíði á Bretlandseyjum. Jón Marinó starfar í dag sem fiðlusmíðameistari og rekur verkstæði í Reykjavík þar sem hann smíðar hljóðfæri og annast viðgerðir á strengjahljóðfærum.

Jón Marinó hefur smíðað nokkrar fiðlur og einnig selló.

Sálir og bassabjálkar í hljóðfærunum eru úr timbri sem fannst um borð í Jamestown skipinu sem strandaði á Höfnum á Reykjanesi árið 1881. Hljóðfærin sem hann hefur smíðað munu sameinast í Bergi í Hljómahöll föstudaginn 1. nóvember nk. Þá mun strengjakvartettinn Spúttnik leika á strengjahljóðfæri Jóns Marinós.

Á dagskránni er strengjakvartett eftir Joseph Haydn, Spiegel Im Spiegel eftir Arvo Part og verkið Horfin æska eftir Jón Marinó sjálfan.

Strengjakvartettinn skipa þær Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir, Diljá Sigursveinsdóttir, Vigdís Másdóttir og Gréta Rún Snorradóttir. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Reykjanesbæ og Tónlistarfélagið. Aðgangur ókeypis.

Hér að neðan er viðtal við hljóðfæraleikarana sem skipa strengjakvartettinn.

Í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á Hringbraut og vf.is var rætt við Jón Marinó um hljóðfærin sem hann smíðaði úr viðnum úr Jamestown. Jón kynntist viðnum þegar hann rak verktakafyrirtækið Fjölina sf. í Keflavík sem fékk það verkefni að gera upp elsta hús Keflavíkur, Þorvarðarhús við Vallargötu.

Viðtalið við Jón í heild sinni er hér í spilaranum að neðan.

Við framkvæmdirnar féllu til nokkrir plankar en klæðningin utan á Þorvarðarhúsi var úr skipsstrandinu. Um borð í Jamestown, sem rak mannlaust að landi við Hafnir árið 1881, voru 100.000 plankar sem átti að nota undir járnbrautir á Englandi. Þegar Jón Marinó fór í fiðlusmíðanámið var honum hugsað til þessara planka því gamall viður hentar einstaklega vel í smíði á strengjahljóðfærum. Hann setti sig því í samband við Ólaf Ásmundsson, í Þorvarðarhúsi og fékk að eiga plankana sem hafa síðustu ár orðið að strengjahljóðfærum einn af öðrum.

Jón Marinó með strengjakvartettnum Spúttnik en hann skipa þær Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir, Diljá Sigursveinsdóttir, Vigdís Másdóttir og Gréta Rún Snorradóttir.

Hærra, minn guð, til þín leikið á hljóðfæri sem Jón Marinó hefur smíðað úr efnivið sem hann fékk úr Jamestown.