Maður er búinn að vera út um allt

„Mig langar rosalega lítið að vera svona pabbi sem hittir börnin sín bara um helgar ...“

Hörður Axel Vilhjálmsson er lykilleikmaður toppliðs Keflavíkur í Domino’s-deild karla og einnig aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Keflavík sem er í toppbaráttu Domino’s-deildar kvenna. Hörður hefur komið víða við á sínum ferli og telur sig eiga nóg inni, bæði sem leikmaður og þjálfari sem getur miðlað þekkingu og reynslu til yngri leikmanna.


Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: Páll Orri, myndasafn Víkurfrétta og úr einkasafni


Hörður Axel í leik með Keflavík gegn Njarðvík í vetur. VF-mynd: Páll Orri

Lið Keflavíkur eru í toppsætum Domino’s-deilda karla og kvenna, kvennaliðið er jafnt Val að stigum en karlarnir hafa sex stiga forystu á Þór Þorlákshöfn og Stjörnuna nú þegar keppni liggur niðri vegna kórónuveirufaraldursins. Hörður Axel var fyrst spurður hvernig honum litist á stöðuna þessa dagana?

Hörður lék með Njarðvík tímabilið 2007–2008.

„Svona ágætlega en maður veit náttúrlega ekkert hvað er að fara að gerast. Það er mjög óþægilegt,“ segir Hörður Axel.

– Hefurðu trú á að mótið verði klárað eða ætlar sagan að endurtaka sig?

„Nei, ég held það nú ekki. Ég á mjög bágt með að trúa því að þetta verði bara flautað af en ég bjóst svo sem ekki heldur við því á síðasta tímabili. Ég hélt að þá yrði klárað að spila fyrir luktum dyrum en átti alls ekki von á að það yrði bara slökkt á öllu,“ segir Hörður og bætir við að kannski hafi það verið rétt ákvörðun að stoppa mótið strax áður en allt færi niður á við. „En ég veit það ekki.“

– Nærðu að halda þér við, hvernig er æfingum háttað hjá Keflavík núna?

„Við megum æfa með tveggja metra reglu, hver maður með sinn bolta og sína körfu, en það er ekki hægt að fara yfir neina taktík eða svoleiðis æfingar. Þetta eru í rauninni bara svona sumaræfingar. Maður er að reyna að halda dampi svo maður verði tilbúinn þegar þetta byrjar aftur.“

– Er það ekki svolítið erfitt þegar staðan er svona?

„Jú, það er mjög erfitt – og líka bara að halda haus, það er eiginlega erfiðast. Maður veit ekkert hvað verður. Þetta væri þægilegra ef manni hefði verið sagt að þetta yrði tveggja vikna pása og svo byrjað að spila en maður veit ekkert – hvort það verði tvær, þrjár eða sex vikur.

Ég vona nú að það verði byrjað að keppa fljótlega og þá kannski án áhorfenda en það kom mér mjög á óvart hvað mótið var blásið snögglega af um daginn – þannig að maður vill ekki gera sér of miklar vonir heldur.“

– Þú hefur lent í einhverju covid-veseni með landsliðinu, er það ekki?

„Nei, ég er bara búinn að fara þrisvar í svona hefðbundna úrvinnslusóttkví. Tvisvar þegar ég hef komið heim úr landsleikjum og einu sinni eftir að upp kom smit í meistaraflokki kvenna – en ég hef sloppið hingað til. Sjö, níu, þrettán.“

Var orkumikill í kennslustofunni

Hörður Axel var níu ára þegar hann byrjaði að æfa körfubolta hjá Fjölni. Þá bjó hann í Breiðholtinu en hann flutti í Grafarvoginn tíu ára. 

– Af hverju valdirðu körfubolta?

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá byrjaði ég í handbolta, fannst það alveg geðveikt. Svo var það bara svo dýrt að það var eiginlega ekki í boði heima fyrir. Þá ætlaði ég ekki að æfa neitt en ég var með svo mikla orku í kennslustofunni að kennarinn minn bað mömmu og pabba að finna einhverja íþrótt fyrir mig svo ég fengi útrás. Hjalti, stóri bróðir minn, var að æfa körfu hjá Leikni þannig að ég bara fylgdi honum. Ég prófaði æfingar hjá Leikni en þar voru svo margir flokkar að æfa saman og ég varð eitthvað lítill í mér að æfa með strákum sem voru þremur, fjórum árum eldri en ég sjálfur. Þá fór ég yfir í Fjölni þar sem var haldið mun betur utan um hlutina og ég fékk alveg frábæran yngri flokka þjálfara sem byrjaði með mig – þá fannst mér þetta alveg frábært.“

– Hefurðu átt einhverjar fyrirmyndir í gegnum tíðina?

„Já, ég hef átt endalaust af fyrirmyndum. Hjalta til að byrja með, svo var maður alltaf að horfa í kringum sig og skoða leikmenn sem kannski voru líkari manni sjálfum. Arnar Freyr [Jónsson], sem lék lengi með Keflavík, er jafnaldri Hjalta og ég elti Hjalta á öll mót og fylgdist þá með Arnari. Jón Arnór, Teitur, Logi og fleiri kappar hérna heima eru líka leikmenn sem ég leit mjög upp til.“

Arnar Freyr Jónsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur, var ein af fyrirmyndum Harðar.

Ég fór til Kasakstan í eitt tímabil og konan mín og dóttir voru einar heima í þrjá, fjóra mánuði. Þá fékk ég nóg ...

Hörður Axel í leik með Astana sem hann lék með í Kasakstan. Mynd: vtb-league.com

Hefur leikið körfubolta í sjö löndum

Hamingjan geislar af stækkandi fjölskyldu. Hörður og Hafdís hittust fljótlega eftir að hann kom til Suðurnesja, þau eiga nú von á sínu öðru barni.

Hörður kom átján ára gamall til Suðurnesja og lék þá eitt tímabil með Njarðvík. Þá hafði hann farið í atvinnumennsku til Spánar, kom svo heim aftur og kláraði tímabilið með Fjölni þar sem hann gerði vel og var farinn að fá athygli hér heima. Hann var varla kominn til Suðurnesja þegar leiðir hans og Hafdísar Hafsteinsdóttur lágu saman. 

„Við Hafdís erum eiginlega búin að vera saman frá því að ég kom hingað suður eftir. Ég kom í ágúst 2007, við hittumst fyrst í september og höfum verið saman síðan.“

– Þú hefur spilað víða en hvað stendur upp úr?

„Já, ég hef spilað í sjö löndum. Maður er búinn að vera út um allt; Spáni, Þýskalandi, Grikklandi, Tékklandi, Ítalíu, Kasakstan, Belgíu og auðvitað á Íslandi. Tíminn í Þýskalandi var sennilega bestur, innan vallar og utan. Við vorum þar í þrjú ár, ég og konan mín vorum þá barnlaus en við fluttum svo heim á sínum tíma af því að við vorum að fara að eignast barn og vildum hafa meiri staðfestu í lífinu. Ég fór til Kasakstan í eitt tímabil og konan mín og dóttir voru einar heima í þrjá, fjóra mánuði. Þá fékk ég nóg og ákvað að spila hér á Íslandi.

Ég veit ekki hvað tekur við. Mín hugsun var að fara aftur út og við vorum farin að spá í það, nota körfuboltann til að komast í svona meiri ævintýramennsku en atvinnumennsku – en svo er hún ólétt aftur svo það var bara tekið út af borðinu. Núna er ég bara að spá í hvað maður gerir eftir að maður hættir þessum boltaleik.“

Núna er ég bara að spá í hvað maður gerir eftir að maður hættir þessum boltaleik ...

– Er þá ekki málið að snúa sér að þjálfun á fullu?

„Jú, það heillar náttúrlega og mér finnst ég hafa margt fram að færa sem þjálfari – og hef kannski fengið staðfestingu á því í þau þrjú ár sem ég hef verið að þjálfa. Hins vegar er tíminn sem fer í þetta og vinnutíminn ekkert mjög fjölskylduvænn. Mig langar rosalega lítið að vera svona pabbi sem hittir börnin sín bara um helgar. Þannig að ég þarf að finna einhverja lausn á því.

Núna er barn númer tvö á leiðinni. Fyrir eigum við eina fjögurra ára stelpu, Hörpu Margréti, og í þetta skipti er strákur á leiðinni, þannig að maður er bara orðinn góður.“

Fjölskyldan í fjöruferð. Hörður Axel, Hafdís og dóttir þeirra, Harpa Margrét Harðardóttir.

Seinni ár hef ég litið meira til þess að gefa eitthvað af mér, ekki bara vera í körfubolta og búa yfir allri þeirri vitneskju og reynslu sem ég hef aflað mér. Mig langar að gefa af mér til yngri leikmanna og kenna þeim það sem ég kann ...

Mikill munur á körfuboltanum síðustu ár

Hörður Axel er aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Keflavík, hér leggur hann á ráðin með Önnu Ingunni Svansdóttur á hliðarlínunni. Mynd: Karfan.is

Maður reynir alltaf að finna eitthvað til að hafa forskot á andstæðingana, ég er allavega þannig ...

„Seinni ár hef ég litið meira til þess að gefa eitthvað af mér, ekki bara vera í körfubolta og búa yfir allri þeirri vitneskju og reynslu sem ég hef aflað mér. Mig langar að gefa af mér til yngri leikmanna og kenna þeim það sem ég kann – og vara þá við þeim leiðum sem maður fór sjálfur og klikkuðu kannski.“

– Hvað þarf góður körfuboltamaður/-kona til brunns að bera?

„Fyrst og fremst sterkan haus. Sérstaklega ef þú ætlar þér eitthvað meira en að spila hérna heima, þetta er rosalega harður heimur og það er ennþá ýmislegt sem vantar upp á hérna heima ef þú ætlar að vera tilbúinn til að taka næsta skref. Það er samt alveg himinn og haf á milli þess körfubolta sem er spilaður hér núna en áður en ég fór út.

Þetta er orðið allt annað, meiri atvinnubragur. Ef maður tekur sem dæmi undirbúning fyrir leiki þá er varla hægt að bera það saman. Þetta er ekki lengur þannig að menn bara mæti á æfingu, stimpli sig inn og stimpli sig út, bara til að fá útrás. Það er miklu meiri pæling á bak við það sem allir eru að gera núna, sem gerir þetta miklu skemmtilegra og að miklu meiri skák en bara að fara úr buxunum og byrja að spila.“

– Er körfuboltinn full vinna hjá þér?

„Já, ég myndi í rauninni ekki hafa tíma í neitt annað. Ég er náttúrlega að spila með meistaraflokki karla, er með meistaraflokk kvenna og stúlknaflokk. Ég meina vídeóvinnan fyrir hvern leik eru einhverjir tugir klukkutíma, konan væri löngu farin ef ég væri að gera eitthvað annað.“

– Þannig að menn liggja tímunum saman yfir leikjum og greina þá.

„Maður reynir alltaf að finna eitthvað til að hafa forskot á andstæðingana, ég er allavega þannig. Ég vil vera vel undirbúinn áður en ég mæti í leikinn þannig að manni líði þægilega vitandi hvað muni virka og hvað ekki – frekar en að finna út úr því í leiknum sjálfum. Fækka óvæntu uppákomunum. Eins og ég sagði hef ég verið út um allt, hef leikið í sjö löndum og það hafa verið mismunandi áherslur eftir þjálfurum og löndum. Maður hefur tileinkað sér hvernig körfubolta maður vill spila sjálfur og þessi tími hefur mótað mig bæði sem leikmann og þjálfara.

Ég held að ég geti spilað svolítið lengi á ágætis standard, það fer bara eftir því hvernig meiðsli og hugarfar verða. Ég hef sloppið rosalega vel við meiðsli, hef aldrei meiðst þannig að ég hafi misst af leikjum. Líkaminn er í mun betra standi núna en síðustu þrjú, fjögur ár þannig að ég á nóg inni og hef ekki yfir neinu að kvarta.“