LJÓSIN Í KIRKJUNNI

Nær aldargamlar ljósakrónur eins og nýjar eftir 400 klukkustunda endurbætur

Ljósakrónur Keflavíkurkirkju hafa gengið í endurnýjun lífdaga og eru nú eins og nýjar eftir miklar endurbætur sem unnar hafa verið á þeim í sumar m.a. með aðkomu skjólstæðinga Hæfingarstöðvarinnar í Reykjanesbæ. Þeim voru færðar sérstakar þakkir og veittur styrkur upp á tæpa hálfa milljón króna við ljósamessu í Keflavíkurkirkju á sunnudagskvöld. Það var á þorranum sem Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur Keflavíkurkirkju fékk Hjörleif Stefánsson rafvirkja til að taka að sér endurnýjun á ljósakrónum kirkjunnar. Þær höfðu verið til mikilla vandræða síðustu misseri og perur voru að springa ótt og títt.

Fyrsta og stærsta ljósakrónan tekin niður 22. maí 2019.

„Ég, þessi “trúrækni” maður með mikinn áhuga á ljósum sagðist að sjálfsögðu redda þessu. Þannig var upphafið að mjög skemmtilegu og gefandi verkefni, að hreinsa og endurnýja krónurnar,“ hafði Erla eftir Hjörleifi í ræðu á sunnudagskvöldið.

Eftirfarandi texti er úr samantekt Hjörleifs um verkefnið: Strax á mánudegi var haft samband við Sigurð Ingvarsson í Garði en Hjörleifur hafði spurnir af því að fyrir einhverjum árum hafði hann endurnýjað krónurnar í Útskálakirkju. „Ég ræddi við meðeigendur mína hvort ekki væri spennandi að takast á við þetta. Reynir Ólafsson, meðeigandi og frændi, stökk á vagninn. Við voru sammála að hann og Sigurður tækju kyrrðarstund í Útskálakirkju og skoðuðu krónurnar. Gagn og góðir punktar komu frá Sigurði. Fljótlega eftir Útskálaferð fór ég aftur að setja í gírinn með spennandi verkefni. Skoðaði krónurnar í Keflavíkurkirkju án þess að vera við athöfn. Það er ekki laust við að þá hafi komið upp í hugann: Jæja, hvað varstu núna að koma þér útí. Mér varð strax ljóst að fyrsta verkefnið eftir niðurrif væri að hreinsa krónurnar, hugurinn fór á flug. Hverja ég gæti fengið með mér í þetta þá var nærtækast að hringja í Oddfellow­bróður og bæjarstjóra, Kjartan Má. Eftir að hafa útskýrt verkefnið benti hann á að Hæfingarstöðinni vantaði verkefni fyrir sitt fólk. Ég rauk beint í málið og hafði samband við forstöðufólk þar sem tóku þessu tækifæri á verkefni fagnandi. Fór í að prest og starfsfólk kirkjunnar og boltinn byrjaði að rúlla,“ skrifar Hjörleifur.

Æðri máttarvöld sáu um ljósin

Eftir síðustu fermingar í vor var ráðist í verkið. Strax var tekin ákvörðun um að taka allar þrjár ljósakrónurnar niður með það að markmiði að verkefninu yrði lokið fyrir Ljósanótt. Krónurnar voru fluttar af starfsmönnum Þjónustumiðstöðvar Reykjanesbæjar til Hæfingarstöðvarinnar. „Ég sá strax að það var mikil eftirvænting hjá Hæfingarmiðstöðinni fyrir verkefninu og þá fyrst gerði ég mér fulla grein fyrir hve mikið hafði fallið á þær. Eins var töluvert kertavax frá fyrri öld og mitt mat að þær loguðu í kirkjunni ekki af tæknilegum völdum heldur að æðri máttarvöld hljóti að hafa haldið þeim logandi, svo lélegt var ásigkomulagið á rafbúnaðinum í þeim. Hafist var handa við að taka þær í sundur stykki fyrir stykki og byrja að þrífa. Ýmis efni voru notuð, þar á meðal Hunt’s tómatsósa sem virtist virka mjög vel á fornt kertavaxið,“ skrifar Hjörleifur um verkefnið og bætir við: „Af og til kíktum við á Hæfingarstöðina og var mjög gaman að sjá hve mikil gleði var með verkefnið hjá pússurunum þar“.

Og hann heldur áfram: „Það varð ljóst er við Reynir höfðum farið yfir krónurnar sundurteknar að mikillar endurnýjunar var þörf á hluta af búnaðinum í krónunum. Þá helst að telja vír, snúrur, perustæði og hvítu stautarnir sem halda við perustæðin. Þeir voru úr postulíni og ekki nothæfir í endursmíðinni. Farið var af stað með að hugsa fyrir festingum á nýjum perustæðum þar sem ekki var hægt að notast við eldri útfærslu. Þá fór Reynir í „brainstorming“. Voru prófaðar ýmsar aðferðir en niðurstaðan fannst eftir mikla leit að skrúfum þar sem mjög gamlar skrúfur voru fyrir og í þokkabót með tommumáli. Þökk sé starfsmönnum Isavia þá fundust skrúfur sem herinn sálugi hafði eftilátið þeim. Tekin var ákvörðun um að láta smíða nýja hólka í perustæðin (hvítu stautarnir) og pólihúða þá hvíta. Þar kom Bergraf-stál að og sá um að skila þeim tilbúnum.

Babb í bátinn

Nú var komið fram í miðjan júlí og hægt að byrja að huga að samsetningu. Babb kom í bátinn. Ekki voru perustæði til er pössuðu nægilega vel. Hófst mikil leit. Loksins fannst það sem gat passað en þurfti samt að setja hvert og eitt perustæði í rennibekk og aðeins að skafa utan af þeim. Nú þurfti snúru sem passaði. Farið var búð úr búð, heildsölu eftir heildsölu. Hugsanlega hægt að redda sögðu sumir en gæti tekið einn til þrjá mánuði en það var ekki í boði. Prófaðar voru ýmsar snúrur. Meira að segja kom upp hugmynd að mála snúru. Í einni af mörgum ferðum í Reykjavík vegna vinnu slæddist ég inn í það sem flestir myndu kalla búð fulla af drasli. Sé snúruna uppi í hillu sem passaði. Keypti lagerinn. Það mál leyst. Enn þurfti að snurfusa við ýmislegt annað. Til að festa snúrurnar áður fyrr var notast við bindigarn. Það þótti ekki góður kostur. Því var leituð uppi föndurbúð sem átti messing-vír sem síðan var notaður til festinga á snúrunum. Á krónunum þurfti að laga kertavaxbolla sem var nánast ónýtur á einum arminum. Við nutum aðstoðar hjá Ása járnsmið og völundarsmið. Hann náði að lagfæra þannig að varla verður tekið eftir. Þá hófst samsetning. Það varð strax ljóst að „atvinnumaðurinn í fægingu“ var ekki ánægður. Það vantaði ljómann á á ljósakrónurnar. Þá var haldið af stað að leita lausna. Þegar hér var komið við sögu var búið að þrífa og pússa í u.þ.b. 200 klukkustundir.

Skjólstæðingar Hæfingarstöðvarinnar hreinsuðu ljósakrónurnar

Ásýndin eins frá kórlofti og gólfi

Þá er gott að eiga bræður. Leitaði til Rúnars Ingibergssonar í Bílbót er var með lausnina; pólera krónurnar. Á sama tíma tók hann að sér að lakka yfir þær að samsetningu lokinni. Því ætti ekki að falla á þær. Hófst þá pólerun og sandblástur þar sem kertavaxið frá fyrstu árum virtist hafa gróið inní málminn. Frændurnir voru sammála að ásýnd krónanna þyrfti að vera eins frá kórlofti og gólfi.

Nú var hægt að fara að setja saman. Þá tók æðruleysið við, þolinmæði og dútl. Stangirnar sem halda krónunum voru í gegnun áratugina margmálaðar eins kúlurnar sem eru á stöngunum. Farið var með þær í Bílbót. Hófst þá leit að málningu sem líktist messinginu í krónunum en stangirnar eru úr járni. Við þessar pælingar tóku starfsmenn Bílbótar við að skoða hvað væri undir málningunni á kúlunum. Voru þær sýruþvegnar og komu í ljós þessar bráðfallegu messingkúlur sem þá voru póleraðar og lakkaðar,“ skrifar Hjörleifur.

Gekk brösuglega að koma ljósakrónunum upp

Samsetning og dútl við ljósakrónurnar var reglulega allan ágústmánuð. Perurnar sem höfðu verið pantaðar voru komnar, sérstakar led-perur sem eru einmitt eru ætlaðar í kirkjukrónur. Um miðjan ágúst voru litlu krónurnar tilbúnar til uppsetningar. Þær voru fluttar samsettar í Bílbót til lökkunar. Samsetning á stóru ljósakrónunni var hafinn og þá kom í ljós að ekki var sami frágangur á tengingum og þeim litlu. Fór Reynir af stað með hugmynd til Plexiglers sem þeir leystu mjög vel af hendi. Í lok ágúst voru þær allar klárar til uppsetningar og stóra krónan fulllökkuð. Nú skildi ráðast í að setja þær upp. Byrjað á litlu krónunum.

„Gekk það vægast sagt brösuglega. Eitthvað var ekki rétt með stangirnar og ekki gekk að láta þær falla við loftið. Pása var tekin þann dag og rýnt í samsetninguna. Við frændur áttum erfitt með svefn þessa nótt. Búið var að rýna í myndir og punkta. Fyrir einhverja tilviljun sé ég um morguninn að dóttirin, Sigrún Ýr, setti like á einhvern viðburð í Keflavíkurkirkju og fylgdi mynd sem greinilega staðfesti að stangirnar sneru öfugt. Okkur var farið að gruna þetta, organistinn sagðist vera með gullfiskaminni þrátt fyrir að hafa látið þær margsíga mundi hann þetta ekki. Nú tókum við krónurnar niður, snerum stöngunum og allt smellpassaði. Þá var komið að þeirri síðustu og stærstu. Hún var flutt í bíl frá Skúla í Vökvatengi og stóð aftan úr bílnum og vakti furðu hjá vegfarendum. Á þessum tímapunkti var kallað til fólksins hjá Hæfingarstöðinni til þess að vera viðstödd og skrá endahnútinn á þessu svo mjög gefandi verkefni,“ skrifar Hjörleifur.

„Það var eitt sameiginlegt með öllum sem við leituðum til með aðstoð. Allir aðstoðuð með velvilja og án gjalds. Vinnuframlag okkar eigenda Nesrafs til verkefnisins er gjöf til Keflavíkurkirku. Á öllum þessum ferli kom upp hugmynd að nota þetta samfélagsverkefni einnig til þess að styðja við starfsemi Hæfingarstöðvarinnar. Fermingarárgangur 1945 í Keflavík, ÆCO, Stuðlaberg, K. Steinarsson, Trésmiðja TSA og Víkurfréttir studdu verkefnið.

Þau sem helst komu að verkefninu:

Nesraf; Hjörleifur Stefánsson og Reynir Jens Ólafsson. Hæfingarstöðin; Skjólstæðingar og starfsmenn. Bergraf-Stál; Bjarni Daníelssson og Jónas Lúðvíksson. Bílbót; Rúnar Ingibergsson og starfsmenn. Vökvatengi; Skúli Ásgeirsson og Bjarki Sigurðssson. Isavia snjódeild; Ásgeir Húnbogason. Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar. Vélsmiðja Ásmundar Sigurðssonar. Plexigler; Kristinn Daníelsson. Víkurfréttir; Hilmar Bragi og Páll Ketilson. Starfsfólk Keflavíkurkirkju. Erla Guðmundsdóttir. ÆCO, Trésmiðja TSA. Stuðlaberg. K.Steinarsson.