Leikur körfubolta og sendir pening heim

„Mér líður vel hérna á Íslandi, fólkið er vinsamlegt og hefur tekið mér vel,“

– segir hin 26 ára Daniela Wallen sem leikur með Keflavík í Domino’s-deild kvenna.

Lífið á Íslandi er talsvert frábrugðið því sem Daniela er vön frá heimalandi sínu, Venesúela.
Þar eru mánaðarlaunin ígildi fjögurra bandaríkjadala og hálfgert stjórnleysi ríkir í landinu.


Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: JPK og úr einkasafni


Daniela í leik með Keflavík í Domino's-deildinni í mars 2021. VF-mynd: Páll Orri


Daniela Wallen Morillo er frá Caracas, höfuðborg Venesúela. Hún er á sínu öðru tímabili með körfuknattleiksliði Keflavíkur. Það má segja að Daniela sé hálfgert undrabarn í körfubolta því hún byrjaði ekki að spila körfu fyrr en hún var orðin fimmtán ára – og hún keppti með landsliðinu sama ár.

Daniela og liðsfélagar í Venesúelska landsliðinu fagna sigri á Kólumbíu. Mynd: fiba.basketball


– Er körfubolti vinsæll í Venesúela?

„Ekki kvennaboltinn en karlaboltinn er frekar vinsæll þar. Kvennaíþróttir eiga erfitt uppdráttar þar, það eru fáir styrktaraðilar og miklu erfiðara að halda úti skipulögðu íþróttastarfi yfir konur en karla.“

Daniela segir Venesúela alls ekki vera karlaveldi en það sé mikill munur á því hversu mikið er lagt í íþróttir kvenna og karla. Það eru þá kannski ekki miklar vonir fyrir ungar íþróttakonur að komast áfram í sinni íþrótt, engu að síður komst Daniela sautján ára gömul í háskóla í Bandaríkjunum, til Kansas. „Í fyrstu var eins og draumur hefði ræst,“ segir hún.

„Foreldrar mínir voru báðir í körfubolta og ég sagði alltaf að ég ætlaði ekki að verða eins og þau. Ég byrjaði í fótbolta tíu ára en hætti að því vegna þes að ég var alltaf að æfa með strákum og það var orðið erfitt, það voru ekki margar stelpur sem voru í fótbolta þá. Ég lék mér stundum í körfubolta en kunni ekki reglurnar eða neitt. Þá prófaði ég í borðtennis í svona eitt ár en að lokum sagði mamma við mig að ég þyrfti að fara að ákveða hvaða íþrótt ég ætlaði að stunda. Ég sagðist þá ætla í körfubolta. Fyrst þjálfaði mamma mig, ég var ekki í neinu liði eða neitt svoleiðis. Svo byrjaði ég að æfa fimmtán ára í fyrsta sinn með liði og sama ár lék ég með landsliði – þetta gerðist mjög hratt.“

Í leik með landsliði Venesúela. Mynd af Facebook-síðu Daniela


Háskólanám í Bandaríkjunum


Að komast í háskólanám var stórt stökk en Kansas var kannski ekki alveg staðurinn fyrir mig. Ég talaði alls enga ensku og enginn talaði spænsku ...

 

„Að komast í háskólanám var stórt stökk en Kansas var kannski ekki alveg staðurinn fyrir mig. Ég talaði alls enga ensku og enginn talaði spænsku svo ég var mjög einmana, ég hafði enga þar til að eiga samskipti við og var haldin heimþrá. Ég hringdi í mömmu á hverju einasta kvöldi og sagðist vilja koma heim. Eftir eitt ár í Kansas sagðist ég ekki vilja vera þar áfram og sneri aftur heim. Þetta var 2013 en sá sem og kom mér að hjá Kansas hafði séð mig leika í Mexíkó með landsliðinu og hann reddaði mér tilboði frá háskóla í Flórída árið 2014. Ég hugsaði með mér að Flórída gæti verið góður staður, þar væri mikið um spænskumælandi fólk og ég gæti því átt í samskiptum við aðra svo ég sló til. Þegar ég kom þangað kom í ljós að þetta var lítill bær eins og Keflavík og enginn talaði spænsku,“ segir Daniela og hlær. „Þá sá ég að ég yrði að læra ensku. Í þetta skipti bjó ég á heimavist en í Kansas bjó ég hjá fjölskyldu, á heimavistinni var mun auðveldara fyrir mig að ná enskunni. Allir voru að tala við mig á ensku og þó ég skildi ekkert í byrjun þá kom það fljótt. Núna er ég að reyna að læra íslensku og mér er sagt að mér gangi betur en mörgum erlendu leikmannanna. Spænskan er nær íslenskunni en enskan held ég.“

Daniela lék og lærði í Flórída en flutti svo til Oklahoma þar sem hún lauk námi í almennatengslum og auglýsingagerð. „Það er eitthvað sem ég ætla að leggja fyrir mig þegar ferlinum lýkur,“ segir hún. „Mér líður vel með myndavél í hönd, að taka eitthvað upp. Svo hef ég gaman af vídeóvinnslu og þess háttar. Vonandi legg ég það fyrir mig í framtíðinni.“

Daniela í leik með háskólaliði Oklahoma. Mynd af Facebook-síðu Daniela


Mamma er mín fyrirmynd


„Ég myndi segja að mamma hafi verið mín fyrirmynd,“ segir Daniela. „Hún lék bæði körfubolta og blak í háskóla. Ég var hennar eina barn og hún gerði allt fyrir mig – og ég lærði allt af henni. Í raun byrjaði ég að spila körfubolta fyrir hana og á tímabili var ég að hugsa um að hætta í körfunni. Hún hefði ekki viljað það, maður á aldrei að gefast upp. Þess vegna hef ég flúrað á handlegginn á mér „Never Give up“, til að minna mig á það.“

Eftir nám fór Daniela fyrst í atvinnumennsku til Paragvæ, síðan hefur hún leikið í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi.

„Íslenskur körfubolti finnst mér áhugaverður, hann er harður en það er svipað í Svíþjóð og Finnlandi. Ég er mjög ánægð með liðið okkar. Það er ungt og reynslulítið miðað við mörg önnur sem hafa eldri og reyndari leikmenn innanborðs – en liðið hefur sýnt sig og sannað með vinnusemi. Ég er mjög stolt af liðinu mínu, við erum efstar í deildinni ásamt Val og höfum alla burði til að klára þetta – og ég held að við gerum það. Ég er spennt og hlakka til að geta haldið áfram með deildina.“

Daniela hefur ferðast aðeins um Ísland síðan hún kom hingað, hún hefur m.a. séð Reynisfjöru og farið í Bláa lónið „Mig langar að ferðast meira um landið. Allir staðir á Íslandi eru mjög fallegir. Það er sama hvert maður fer, alls staðar er útsýnið svo fallegt.“

– Áttu þér einhver áhugamál fyrir utan körfubolta?

„Að sofa, telst það með,“ segir Daniela hlægjandi. „Ég hef í raun engin önnur áhugamál en hef gaman af því að teikna. Ég gerði talsvert af því að teikna áður fyrr en hef ekki gert mikið sinnt því undanfarið. Mér finnst gott að sofa.“

Ég var hennar eina barn og hún gerði allt fyrir mig – og ég lærði allt af henni. Í raun byrjaði ég að spila körfubolta fyrir hana og á tímabili var ég að hugsa um að hætta í körfunni. Hún hefði ekki viljað það, maður á aldrei að gefast upp ...

 

Daniela fimmtán ára með móður sinni, Evelyn Morillo: Þær mæðgur voru mjög nánar en Evelyn lést aðeins 51 árs gömul.

Daniela hefur flúrað „Never Give up“ á handlegginn til að minna sig á orð mömmu sinnar. VF-mynd: JPK

Heima eru mánaðarlaun kannski eins og fjórir bandaríkjadalir á mánuði, það er erfitt að lifa af á þannig launum. Ég hef vinnu og get sent fjölskyldu minni pening til að létta undir hjá þeim ...

 


Verðbólga og stjórnleysi


Daniela vill vera sem lengst hérna en ástandið í heimalandi hennar er bágborið. Efnahagurinn hefur verið á niðurleið síðasta áratuginn og hálfgerð stjórnarkreppa ríkir í landinu. „Efnahagsástandið í Venesúela er slæmt. Eftir að Hugo Chaves, fyrrum forseti landsins, lést og Maduro tók við hefur allt farið niður á við. Hann er ekki einu sinni með neina menntun og kann ekkert að stjórna. Þegar Hugo féll frá tók hann eiginlega bara við en hann veit ekkert hvað hann er að gera.

Ég vil vera hérna eins lengi og ég get. Ástandið heima er flókið og þar er gríðaleg verðbólga, fólk þarf yfirleitt að vinna í mörgum vinnum til að hafa ofan í sig. Heima eru mánaðarlaun kannski eins og fjórir bandaríkjadalir á mánuði, það er erfitt að lifa af á þannig launum. Ég hef vinnu og get sent fjölskyldu minni pening til að létta undir hjá þeim.“

Þegar talið berst að Covid í ­Venesúela segir Daniela að ástandið þar sé slæmt og fari versnandi. „Þá komum við aftur inn á það að ríkisstjórnin hefur enga stjórn á hlutunum, þetta er eiginlega stjórnlaust. Venesúela hefur hvorki aðgang að lyfjum né bóluefni til að glíma við kórónaveiruna, þetta er fátækt ríki og aftarlega á listanum. Ég bið fólkið mitt að fara varlega en á sama tíma þarf það að vinna til að lifa af. Þannig breiðist þetta út, neyðin rekur fólk út að vinna. Það er milli steins og sleggju – á það að vera heima og svelta eða fara út að vinna og taka sénsinn á að smitast ekki.“

Daniela segist nokkurn veginn tilheyra lægri miðstétt en talar um að það hafi verið gott að alast upp í Caracas. „Það var gaman – en þar var rosalega mikill hraði á öllu, mér fannst ég alltaf vera að flýta mér. Umferðin, allir á hlaupum og allt gerðist mjög hratt en í samfélaginu sem ég ólst upp í voru íbúarnir mjög samrýndir og vingjarnlegir, það var gott að vera þar sem barn en ...,“ segir Daniela og ypptir öxlum.

– Sérðu fyrir þér að flytja aftur til Venesúela þegar ferlinum lýkur?

„Úff, þessu er erfitt að svara. Ég meina, ég hugsa um það. Þarna er fjölskyldan mín, vinir og mamma var þarna en eftir að hún lést hef ég hugsað um að reyna frekar að flytja fjölskylduna til mín – frá Venesúela, þ.e. ef ástandið hefur ekki batnað til muna.“

Ég vil vera hérna eins lengi og ég get. Ástandið heima er flókið og þar er gríðaleg verðbólga, fólk þarf yfirleitt að vinna í mörgum vinnum til að hafa ofan í sig ...

 


Stærsti vandi Venesúela


Venesúela hefur hvorki aðgang að lyfjum né bóluefni til að glíma við kórónaveiruna, þetta er fátækt ríki og aftarlega á listanum ...

 

Nicolás Maduro (t.h.), forseti Venesúela, gegndi stöðu varaforseta Hugo Chávez (t.v.) þegar hann féll frá árið 2013. Þá tók Maduro við forsetastöðunni og hefur verið við völd síðan. Daniela hefur ekki mikið álit á Maduro og segir hann stóran hluti vanda Venesúela. Mynd: venezuelanalysis.com