Jólalegasta húsið í Garðinum

Jónatan Ingimarsson og Erla Vigdís Óskarsdóttir eru sannkölluð jólabörn

Jólaævintýri Jónatans Ingimarssonar og Erlu Vigdísar Óskarsdóttur hófst fyrir næstum áratug síðan þegar þau ákváðu að rugla saman reitum og Erla flutti í Garðinn. Þau hafa nú búið sér fallegt heimili í Litla Garðshorni að Gaukstaðavegi 2 í Garði. Þar var Jónatan áður með netagerð og seglasaum. Litla Garðshorn er hins vegar víðförult hús. Það stóð fyrst á mótum Vallargötu og Aðalgötu í Keflavík áður en það var flutt að Bala á Stafnesi. Þaðan var húsið svo flutt að Gaukstaðavegi í Garði þar sem unnið hefur verið að endurbyggingu hússins í sem upprunalegastri mynd. Jónatan segir að húsið hafi verið í hans ætt, Garðshorns-ættinni. Við endurbygginguna hefur Jónatan þó gert ráð fyrir öllu jólaskrautinu og rafmagnsinnstungum hefur verið fjölgað umtalsvert þannig að seríur og rafknúið skraut á nú allt sínar innstungur í stað þess að fjöltengi séu um öll gólf.

Hófst allt með skrauti í eina eða tvær hillur


„Þetta hófst allt með því að við fórum að safna jólaskrauti á eina eða tvær hillur sem við höfðum lausar og síðan hefur þetta þróast og vaxið,“ segir Jónatan. Hann segir að þau Erla fái mikið af sínu jólaskrauti í Kompunni í Keflavík og í Góða hirðinum í Reykjavík og einnig á fleiri stöðum.


„Ætli jólaskrautið okkar sé ekki svona 90% endurunnið,“ segir hann en mikið af því skrauti sem þau hafi safnað hefur þurft smá ást og umhyggju. Þannig hefur Jónatan lagað spiladósir og fengið rafknúið skraut til að virka á ný.
Erla Vigdís segist alltaf hafa verið mikil jólastelpa og hafi komið með talsvert af jólaskrauti í búið. Þau eru reyndar sammála um að þau séu bæði mikil jólabörn. Það fer ekki á milli mála þegar heimilið er skoðað.

– Hvernig jólaskraut er þetta sem þið safnið?
„Þetta er bara allskonar. Mikið af jólasveinum og svo erum við með jólaland sem við erum mjög ánægð með. Það er jólalandið okkar,“ segir Erla.

Jónatan og Erla í jólalegri stofunni á heimili sínu.

Óteljandi munir?


Litla Garðshorn er yfir 100 ára gamalt hús og skrautið á vel við í svona gömlu húsi. Munirnir eru margir. Það hefur verið giskað á að skrautmunirnir séu á milli fimm- og sexhundruð.

„Það er eiginlega ekki vitið hversu margir hlutir þetta eru. Þegar barnabörnin hafa komið hingað þá hafa þau reynt að telja og komist upp í rúmlega 300 hluti en þá gefist upp og mikið eftir. Ætli þetta verði nokkuð talið,“ segir Jónatan og Erla bætir við: „Það tekur mjög langan tíma að setja þetta upp og ennþá lengri tíma að ganga frá því“.

– Eruð þið með einhverja aðferð við að skreyta. Fara munirnir alltaf á sama stað?
„Nei, það er alveg vonlaust. Það er ekki hægt. Það er ný útgáfa fyrir hver jól,“ segir Erla en bætir því við að jólatrén fái alltaf að standa á sama stað.

– Þið skreytið ekki bara inni?

„Það eru einhverjir jólasveinar og fígúrur úti og svo erum við með tröll í glugga. Hérna inni tökum við niður muni og skiptum þeim út fyrir jólaskreytingar“.

– Svo þegar jólin eru búin, þá þarf að pakka þessu öllu niður og setja í geymslu. Þetta tekur örugglega talsvert pláss?

„Já, við erum með gott geymsluloft hér uppi og skrautið tekur mikið pláss og er í mörgum kössum,“ segir Jónatan.

– Endar þetta ekki bara með því að þið hafið opið jólahús allan ársins hring?

„Aaaahhhh..., það er ekki gott. Það væri allt of mikið,“ segir Erla og hlær. „Það er viss spenna að fara í það að taka upp dótið og skreyta“.

Aðspurð segjast þau helst vilja vera búin að skreyta fyrir 1. desember. Þau byrja í rólegheitum en svo er ekki kveikt fyrr en allt er komið.

Erla og Jónatan hafa gaman af því að ferðast og fara mikið um landið á húsbílnum sínum. Þau eru alltaf vakandi fyrir því hvort þau sjái skraut sem þau langar að eignast. Þau hafa samt talað um að nú sé að verða komið nóg en þrátt fyrir það láta þau ennþá undan freistingum.

Reglan um kaupstopp brotin um leið


- Finnst ykkur eitthvað vanta?


„Já, það vantar alltaf eitthvað,“ segir Jónatan og Erla hlær en þegar hún var nýbúin að setja sér reglu um að kaupa ekki meira jólaskraut sá hún fallega upplýsta bamba í Reykjavík sem hún varð að eignast. Þeir standa nú utan við Litla Garðshorn og eru mikil prýði.

Sama dag og blaðamaður Víkur­frétta heimsótti þau í Garðinn þá viðurkenndu þau einnig að hafa aftur fallið á jólaskrautsbanninu og keypt meira skraut í safnið.

– Þetta er greinilega fíkn.

„Já, en þetta er ekkert slæm fíkn,“ segir Erla og Jónatan bætir við: „Það er einhver spilling í gangi hjá okkur“.

Vantar nokkra íslenska jólasveina


Talandi um að eitthvað vanti í safnið, þá eru þau að safna íslensku jólasveinunum og ennþá vantar nokkra í það safn. Þau hafa reyndar verið að fá jólaskraut í pakka um jólin frá börnunum sínum. Þá hefur Erla ekki keypt jólapappír í fimm ár en hún saumar fallega jólapoka utanu m allar jólagjafir sem þau gefa.

– Á þettándanum, þegar jólin eru búin, er þá bara slökkt og öllu pakkað niður?

„Við slökkvum ljósin þá en pökkum þessu bara niður í rólegheitum. Það getur tekið alveg tvær vikur að taka niður allt skrautið og koma því í geymslukassa upp á loft,“ segja þau Erla og Jónatan að endingu.

Í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta er innlit á jólaheimilið í Garðinum þar sem áhorfendur geta fengið að upplifa jólastemmninguna í Litla Garðshorni.