Hef verið í bandi við laugina síðan ég man eftir mér

Heimsmethafinn Már Gunnarsson hefur meira en nóg fyrir stafni. Hann lætur ekki sjónleysi aftra sér og hefur afrekað meira en flestir þótt ungur sé.

Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: JPK og úr safni Víkurfrétta

Már bætti tæplega þrjátíu ára gamalt heimsmet í 200 metra baksundi á Íslandsmótinu í 50 metra laug sem haldið var helgina 24.–25. apríl síðastliðinn og tvíbætti um leið Íslandsmetið í greininni.


Fyrsta alvöru heimsmetið


Ég æfði kajak þegar við bjuggum úti í Lúxemborg. Það er ógeðslega gaman, alveg æðislegt sport ...


Mikið á sig lagt


Helgin var alger snilld – en þetta er ekki nóg. Ég þarf að bæta mig meira til að eiga möguleika á verðlaunasæti í Tokyo ...

Framundan er stíft prógram hjá Má til að undirbúa sig fyrir Evrópumót og Ólympíuleika. Hann æfir allt að tíu sinnum í viku og segist enn þurfa að bæta sig.

„Helgin var alger snilld – en þetta er ekki nóg. Ég þarf að bæta mig meira til að eiga möguleika á verðlaunasæti í Tokyo og ég hef nokkra mánuði til að gera það.

Feðgarnir Gunnar og Már eru mjög samrýndir og pabbi Más aðstoðar hann í sundinu. VF-mynd: Hilmar Bragi


Það er reyndar mjög gott að vera í svona einstaklingsíþrótt á svona tíma, ég hef nánast getað haldið minni rútínu sem er meira en flestir aðrir íþróttamenn hafa getað ...

Ég æfi svona níu eða tíu sinnum í viku, svo er músíkin að taka sinn tíma líka. Svo hef ég líka svakalegan hóp fólks í kringum mig; Ingi Þór Einarsson, landsliðsþjálfari, Steindór Gunnarsson sem er minn yfirþjálfari, Daði Hildiberg er tæknilegur þjálfari, svo er Gunni (pabbi) með bankið. Helgi Rafn Guðmundson hefur hjálpað mér með styrk og liðleika en því miður höfum við ekkert getað hist eftir að Covid fór í gang.

Það er reyndar mjög gott að vera í svona einstaklingsíþrótt á svona tíma, ég hef nánast getað haldið minni rútínu sem er meira en flestir aðrir íþróttamenn hafa getað.“

Már var útnefndur Suðurnesjamaður ársins 2019 en hann átti sérlega glæsilegt íþróttaár að baki sem náði hámarki á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í London. Þar varð Már einn Norðurlandabúa til þess að komast á verðlaunapall þegar hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m baksundi og vann til bronsverðlauna í greininni. Á árinu 2019 setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Már stefnir ótrauður að þátttöku á Paralympics í Tokyo 2020 en takist það ætlunarverk hans verður það í fyrsta sinn sem hann keppir á leikunum. Már var útnefndur íþróttamaður fatlaðra á Íslandi og hann endaði í 11. sæti í vali á Íþróttamanni ársins á Íslandi. Þá toppaði hann árið á gamlársdag þegar hann var kjörinn íþróttakarl Reykjanesbæjar 2019.

Á myndinni er Páll Ketilsson, ritstjóri VF, að afhenda Má viðurkenningarskjal í tilefni útnefningarinnar. VF-mynd/hilmarbragiTónlistin


Við höfum verið kunningjar síðan við kynntumst fyrir einhverjum tólf árum síðan en erum góðir vinir í dag ...

Már er ekki einungis frábær íþróttamaður heldur hefur hann náð góðum árangri á tónlistarsviðinu, hann hefur gefið út hljómplötu auk þess að samstarfsverkefni hans og tónlistarkonunnar Iva Adrichem hefur vakið mikla athygli undanfarið ár.

„Ég byrjaði í tónlist sjö ára gamall, þegar ég bjó í Lúxemborg, og hef haldið mig við það síðan. Ég hef verið í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í níu ár auk þess að vera mikið að vinna upp á mitt einsdæmi, hef verið duglegur að búa mér til alls konar verkefni.

Núna er ég búinn með miðstig í rythmískum píanóleik og hef bætt við mig söngnámi. Ég átti að taka miðstigið í klassískum píanóleik þegar ég var fimmtán ára en þá hætti ég og skipti yfir í rythmískan. Ég sé svo sem alveg eftir því núna að hafa ekki lokið því prófi.“

– Er það nokkuð of seint?

„Nei, í sjálfu sér ekki. Þá þarf ég bara að læra öll lögin sem þarf í það aftur, ég er búinn að gleyma þeim öllum. Ég les ekki nótur, læri bara eftir eyranu og minni.“

Síðasta sumar vakti flutningur Más og Iva Adrichem á lagi Ragnar Bjarnasonar, Barn, mikla athygli og naut lagið og myndbandið mikilla vinsælda. Þau Iva kynntust á námskeiði hjá Blindrafélaginu fyrir meira en tíu árum síðan.

Barn – Már og Iva

Myndband: Hilmar Bragi Söngur: Iva og Már Hljómborð: Már Gunnarsson Trommur: Þorvaldur Halldórsson Bassi: Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson Gítar: Guðmundur Pétursson Hammondorgel: Þórir Baldursson Saxófónn: Guðjón Steinn Skúlason Trompet: Egill Ýmir Rúnarsson Básúna: Harpa Jóhannsdóttir Upptökustjórn: Arnar Guðjónsson, Ingi von Kessel og María Rún Baldursdóttir Hljóðblöndun: Marian Lech Útsetning: Már Gunnarsson og Þórir Baldursson


„Við höfum verið kunningjar síðan við kynntumst fyrir einhverjum tólf árum síðan en erum góðir vinir í dag. Hún er hámenntuð í klassískum söng og er að klára Listaháskólann núna. Samstarf okkar byrjaði í fyrra með laginu Barn og við höfum verið að troða upp saman síðan þá. Núna vorum við að gefa út nýtt lag, Vinurinn vor, en Hilmar Bragi hjá Víkurfréttum gerði myndband við bæði lögin.“

– Er mikið að gera hjá þér í að koma fram?

„Ekki í Covid en það kemur alltaf eitthvað. Einkasamkvæmi, afmæli, brúðkaup eða jarðafarir. Svo er ég með útvarpsþátt einu sinni í viku sem heitir Unga fólkið og er á Útvarpi Sögu, þættirnir eru líka aðgengilegir í hlaðvarpi. Þetta eru viðtalsþættir þar sem ég fæ til mín ungt fólk á öllum aldri sem hefur sögu að segja eða skarað fram úr á einhvern hátt.“

Vinurinn vor – Már og Iva

Lag: Már Gunnarsson Texti: Engill Bjartur Einisson Upptökustjóri: Stefán Örn Gunnlaugsson Mastering: Marian Leck Kvikmyndun og klipping: Hilmar Bragi Bárðarson Leikstjóri: Sigrún Waage Handrit: Már Gunnarsson og Sigrún Waage Leikarar: Iva, Margrét Helga Jónsdóttir, Már Gunnarsson, Sigrún Waage og Þórhallur Sigurðsson


Tilkynningaskylda ömurleg


Ég hata þegar talað er um „að koma út úr skápnum“ og orðið „hommi“ er ljótasta orð sem til er, mér finnst það hljóma eins og líkþorn eða eitthvað ...

Á síðasta ári talaði Már opinskátt um samkynhneigð sína í viðtali á Stöð tvö, eitthvað sem hann hafði gert opinberlega áður.

„Mér finnst ekki að fólk þurfi að opinbera svona þannig séð, sé ekki alveg tilganginn í því.

Ég held ástæðan fyrir því að ég fór að tala um það var að aðstæðurnar og vettvangurinn þá hafi hæft umræðuefninu. Almennt finnst mér svona tilkynningarskylda ömurleg. Ég hata þegar talað er um „að koma út úr skápnum“ og orðið „hommi“ er ljótasta orð sem til er, mér finnst það hljóma eins og líkþorn eða eitthvað. Sagan hefur gert þetta orð niðrandi finnst mér, þótt aðrir í þessu samfélagi sjá það kannski ekki þannig. Mér finnst það bara hljóma illa, það er ekkert músíkalskt í því – er nokkurs konar tónskratti. Svo finnast mér þessar skilgreiningar óþarfar.“


Dýravinur og bóndi í bæ


Már hefur í meira en nógu að snúast en hann virðist geta búið til tíma til að sinna fleiri áhugamálum en flestir. Hann er mikill dýravinur og hefur byggt hænsnakofa út í garði.

„Já, svo sinni ég mínum hænum. Ég er nefnilega bóndi í bæ,“ segir hann brosandi. „Ég er búinn að eiga hænur núna í eitt ár, elska þær.“

– Eru þá egg í morgunmat alla daga?

„Ég held að ég borði svona fjögur til átta egg á dag. Þær eru ekki ánægðar núna, eru búnar að vera í sóttkví í þrjár vikur út af einhverri fuglaflensu sem er að ganga í Evrópu.

Annara er ég mikill dýravinur og finnst gott að hafa dýr í kringum mig. Ég fæ leiðsöguhund í september og get ekki beðið. Það verður fyrsti leiðsöguhundurinn sem kemur til Reykjanesbæjar, pældu í því.

Þetta er tveggja ára, stór labrador-rakki sem er núna í þjálfun út í Svíþjóð þannig að ég hef ekki enn hitt hann. Ég þarf sennilega að spjalla við hann á „svensku“ þegar hann kemur,“ segir Már og skellir upp úr. Ég er mjög spenntur, ég elska hunda.

Mér finnst samt fyndið að hænurnar mínar hlýða mér betur en margir hundar hlýða eigendum sínum – ég er ekki að grínast. Þær hlýða mér alltaf á innkalli.

Ég gæti ekki átt smáhunda, myndi líklega drepa þá. Ég hef átt tvo hunda hingað til og ég var alltaf að stíga á þá, þeir lifðu það af vegna þess að þeir voru svo stórir og sterkir.“

Hænsnabóndinn og heimsmethafinn Már í hænsnakofanum sínum.