Hann vaskar upp og skúrar

Njarðvíkurmærin Inga Karlsdóttir fór í vetrarfrí til Kýpur, fann eiginmanninn og hefur búið þar í tæp fjörutíu ár. Rekur grænmetisstað og fyrstu uppskriftirnar komu úr Hagkaupsbók.

Viðtal:
Páll Ketilsson

Ljósmyndir:
Úr einkasafni

Athugið að smella á myndir til að opna þær og gera stærri.

Njarðvíkurmærin Inga Karlsdóttir fór með vinkonu sinni til Svíþjóðar áður en hún varð tvítug og var þar í smá tíma og vann meðal annars hjá Volvo en í vetrarfríi sem þær vinkonurnar fóru í til Kýpur hitti hún manninn sem hún hefur búið með í tæp 40 ár þar í landi. Inga sá stráksa á diskóteki og eftir dans og spjall og bréfaskriftir milli Íslands og Kýpur enduðu þau saman og eiga nú fjögur börn, tvo pilta og tvær stúlkur.

„Það var hræðilega erfitt í byrjun, alveg rosalega erfitt. Líka út af því að foreldrar mannsins míns voru ekkert hrifnir af því að hann væri að fara að giftast útlending. Það var eiginlega rosaleg skömm fyrir þau. Hérna voru allir útlendingar kallaðir Englendingar. Þeir voru þá nýbúnir að koma öllum Englendingum í burtu frá eyjunni og svo voru þeir bara að koma aftur og taka mennina þeirra. En þetta gekk svo bara hægt og bítandi. Tók samt nokkur ár, en ég er ennþá hérna og á góðar vinkonur. Það hjálpaði að eignast góða vini,“ segir Njarðvíkurmærin Inga Karlsdóttir. Hún fagnaði sextugsafmæli sínu á Íslandi síðasta sumar en hún hefur búið á Kýpur í 38 ár og ótrúlegt en satt þá hefur hún rekið grænmetisstað í landi þar sem heimamenn telja að grænmeti eigi bara að borða með kjöti.

Víkurfréttir heimsóttu Ingu til Kýpur haustið 2018 en þá var brúðkaup í fjölskyldunni. Sonur hennar, Elías, var þá að ganga í hjónaband. Gifting er stór viðburður á Kýpur og þá fær unga fólkið peningagjafir sem hjálpa þeim inn í framtíðina. Þúsund manns var boðið í veisluna og á brúðkaupsdaginn er ýmsum hefðum heimamanna sinnt.

Eiginmaður Ingu heitir Demetris Hadjipanayi en börnin þeirra eru synirnir Elías og Yianni og dæturnar Elíza og Kristjana.

Vaskar upp og skúrar

Hvernig eru heimamenn? Eru þeir allt öðruvísi en Íslendingar?

„Já, ég held það. Ég held þeir séu ennþá í því fari að karlmenn ráði öllu og að konurnar fái eiginlega ekki neitt að segja. En ég er bara heppin að þetta gengur hjá okkur. Hann vaskar upp og skúrar líka, fer út með ruslið. Þannig að þetta er allt í lagi, segir Inga og hlær.

Eru karlarnir á Kýpur ekki vanir því?

„Nei, yfirleitt er bara komið inn og beðið eftir að maturinn komi á borðið, að það sé bara hugsað um mann. Þeir eru þreyttir og búnir að vinna allan daginn og konan bara heima. Svona hefur þetta verið í mörg ár.“

Þannig það hefur gengið á ýmsu en þú ert mjög ánægð hérna.

„Já, já, mér líður vel. Fjölskyldan er nákomin, tengdaforeldrum mínum þóttu rosa vænt um mig á endanum og bara stóðu með mér. Þannig að þetta er allt í þessu fína.“

Grænmetisstaður a la „Grænn kostur Hagkaups“

Þú fórst ótroðnar slóðir með því að opna grænmetis veitingastað.

„Ég er búin að vera með grænmetis veitingastað í tíu ár. Þetta var svolítið öðruvísi, ég var fyrst að koma með svona stað. En fólk tók vel í þetta, virkilega vel, þó þau væru kannski ekki grænmetisætur eða svoleiðis. Þeim fannst voða gaman að koma og smakka. Ég hef ekki heyrt neitt leiðinlegt, bara gott.“ Hvernig datt þér í hug að gera þetta? „Mig langaði nú alltaf að gera eitthvað. Mér var allavega hrósað fyrir að elda svo vel þannig að ég ákvað að fara út í það að elda og sjá til hvernig það myndi ganga. Mig langaði alltaf að búa til svona grænmetis veitingastað, þó svo ég sé ekki hundrað prósent grænmetisæta sjálf þá finnst mér rosa gott að fá mér grænmetismat. Ég bara skellti mér út í þetta. Ég sá þennan stað, hann var auglýstur í blaði hérna. Ég sótti um og fékk húsnæðið, sem var alveg frábært. Ég vildi koma með nýjung inn á markaðinn og þeim leist vel á það, að það væri einhver að koma inn með nýjar hugmyndir.

Mótttökurnar voru síðan bara góðar.“ Inga segir að í húsnæðinu sem hún fékk hafi áður verið gamalt kaffihús. „Það var hérna kona, áður en ég kom, sem eiginlega dó á staðnum. Hún vann hér dag og nótt. Svo þegar þetta var auglýst þá sótti ég um og spurði hvort ég mætti ekki breyta því, ég hefði svo margar hugmyndir. Ég skrifaði þetta allt niður og þeim leist bara vel á. Svo var náttúrlega basl að koma breytingunni í gegnum kerfið. Heimamenn voru pínu erfiðir og vildu ekki gefa mér leyfi til þess að vera með grænmeti en ég fékk svo mikla hjálp frá bænum líka. Þetta komst sem betur fer í gegn að lokum.“

Hvaðan kom þessi hugmynd hjá þér að fara út í grænmeti? Fannst þér það vanta?

„Mér fannst það vanta af því það er svo mikið grænmeti hérna. Mér fannst verða að koma eitthvað nýtt, ekki bara þessa hefðbundnu baunarétti með tómatsósu. Ég verð að segja eins og er, að fyrsta bókin sem ég átti var Hagkaupsbókin, Grænn kostur. Ég byrjaði á því að elda upp úr henni. Það gekk rosalega vel. Svo verða þetta allt þínar uppskriftir á endanum með öllum breytingunum, því það er ekki hægt að nota allt hráefnið sem er til dæmis notað á Íslandi. Maður verður eiginlega að breyta til og nota hráefnið sem er til hér á Kýpur. Það er rosalega mikið af grænmeti hér. Það er ekkert svo dýrt en þegar maður er að búa til grænmetisrétti þá þarf maður rosalega mikið af grænmeti þannig þetta kemur eiginlega bara upp á móti því sem þú ert að borga fyrir kjötmeti og annað.“

Dætur Ingu, þær Kristjana og Elíza hafa verið móður sinni til halds og trausts á veitingastaðnum sem hefur vakið athygli, m.a. fjölmiðla í borginni Nikusíu þar sem fjölskyldan býr.

„Dæturnar hjálpa alveg rosalega mikið. Svo er ég með eina sem hjálpar við eldamennskuna. Við eldum saman og bökum og svoleiðis. Svo sjá stelpurnar um að brosa til kúnnanna og bera fram matinn, vera indælar.“

Inga er með opið á veitingastaðnum fimm daga vikunnar en er með lokað á sunnudögum og mánudögum.

En hvað er vinsælasti rétturinn?

„Vinsælasti rétturinn er lasagna með eggaldin og fetaosti. Svo er það líka moussaka sem er kýpverskur réttur, svipaður grænmetisborgurum. Það er svona það vinsælasta.“

Réttirnir á veitingastað Ingu kosta flestir tíu til tólf evrur og sumum heimamönnum þykir það jafnvel dýrt.

„Já, sumum finnst þetta dýrt en ég bara get ekki lækkað þetta. Við erum búin að vera með sama verð í fleiri ár, ekkert lækkað í kreppunni og ekkert hækkað, eins og þau segja, í góðærinu.“

Inniveður á sumrin

Ætlar þú að verða gömul hérna?

Ég bara veit það ekki,“ segir Inga og hlær en það gerir hún oft í spjallinu, er henni mjög eðlislægt. „Ég er búin að segja við manninn minn að hann verði að fara mjög vel með mig því ég væri búin að heyra það að konur sem búa í útlöndum vilji fara heim svona um áttrætt. Þannig að hann er búinn að lofa því.“

Hvernig hefur þér gengið að halda sambandi við fjölskyldu og vini, verandi þrjátíu og átta ár í útlöndum?


„Bara vel. Þegar ég hitti þau er eins og ég hafi hitt þau í gær. Mér finnst bara svo mikill kærleikur á milli okkar að það er alveg sama hversu langt er á milli okkar.“

Það er nú svolítið öðruvísi veður hérna.

„Já, sumrin eru mjög erfið af því að hitinn getur farið upp í fjörutíu, fjörutíu og fimm stig, þannig að þetta verður svona „innihúsaveður”, fyrir okkur sem búum í Nikosíu. Ef maður væri nær sjónum þá væri þetta kannski aðeins öðruvísi.“

Hvernig myndirðu lýsa hinum hefðbundna Kýpverja? Lifir hann allt öðruvísi lífi en Íslendingur?

„Hér er til dæmis ennþá þannig að maður lifir eiginlega bara fyrir börnin sín, að byggja fyrir þau hús, kaupa bíl ef þeim vantar og svoleiðis. Þannig að það er kannski aðeins öðruvísi. Ég veit að Íslendingar hjálpa börnunum sínum rosalega mikið en þegar börnin hér fara að heiman þá fara þau bara í hús sem er tilbúið.“

Saknar þú aldrei Íslands?

„Ég gerði það fyrstu tuttugu árin. Þá saknaði ég Íslands og fólksins en núna sakna ég fólksins, meira en endilega Íslands sem lands. Mér finnst það erfiðast. Ef ég ætti ekki ættingja á Íslandi þá myndi ég kannski aldrei fara þangað. Það er fólkið sem gerir landið.“

Marga sem langar til Íslands


Hvað segja viðskiptavinirnir? Vita þeir að þú ert íslensk?

„Já og þeim finnst það frábært. Það eru allir að segja við mig hvað þau langi að fara til Íslands. Þau spyrja mig hvert sé best að fara og hvað þeir eigi að gera á Íslandi. Þá fer maður alveg í kleinu og þarf að fara að gúggla og vita hvað er að ske til að geta sagt fólki hvað það eigi að gera. Ég er alltaf með íslenska bók og leyfi þeim að kíkja í bókina og skoða. Það eru rosalega margir sem vilja fara til Íslands. Þegar við fórum í gær út að labba með frændsystkinunum þá var lögreglumaður sem sagði: „Tvö hundruð þúsund Íslendingar og þið eruð öll hér. Þetta var svolítið gaman.“

Njarðvíkingurinn segist ekki fylgjast náið með gangi mála á Íslandi nema það sem tengist fjölskyldunni en hún reynir að koma af og til heim til Íslands.

„Kannski á svona þriggja, fjögurra ára fresti. En kaupið er lágt hérna á Kýpur. Um leið og ég segi að ég ætli að fara til Íslands þá vilja allir fara með, þá er ég að tala um krakkana. Það eru allir láglaunaðir þannig að maður verður eiginlega að hjálpa til. Maður safnar bara í nokkur ár og þá geta allir komið með.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við að koma til Íslands núna?

„Bara rólegheitin, mér finnst það alveg indælt. Það er enginn að stressa sig. Mér finnst alveg æðislegt að geta komið inn til einhvers, hitta frænku mína og þurfa ekkert að vera að gera boð á undan mér. Það finnst mér æðislegt.“

En hvernig gengur unga fólkinu, eins og þínu, að byggja upp fjölskyldu í þessu landi?

„Það er ekki auðvelt út af því að kaupið er svo lágt, sérstaklega eftir kreppnuna. Þó allt sýnist vera á uppleið þá er þetta erfitt fyrir unga fólkið. Fólk er að fá mánaðarlaun frá kannski fimm hundruð evrum upp í þúsund, ekki meira. Þegar þú ert svo að leigja íbúð þá er það komið upp í helminginn af því, kannski fjögur hundruð evrur. Þannig að það er ekkert auðvelt. Það er erfitt fyrir þau að ákveða að byrja að byggja upp fjölskyldu.“

Þegar þú horfir til baka, 38 ár á Kýpur, er eitthvað sem þú hefðir vilja gera öðruvísi?

„Þetta er svolítið erfið spurning sko. Hefðir þú spurt mig fyrir svona fimmtán árum þá hefði ég sagt: Já, ég hefði aldrei komið hingað. En bara út af því að maður hættir að sjá þetta neikvæða og byrjar að halda í allt þetta jákvæða frá Íslandi, sem mér finnst sérstaklega í okkar fjölskyldu suðurfrá. Ég held mikið upp á það góða sem maður hefur frá Íslandi, það er gott fólk þaðan.“

Um fimmtíu vinir og ættingjar Ingu mættu til Kýpur til að koma í brúðkaupið.

Það hlýtur að hafa verið gaman?

„Alveg æðislegt. Ég bjóst nú ekki við svona mörgum. Ég vildi bjóða öllum og vonaðist til að einhverjir myndu koma. En þetta er alveg frábært, alveg meiriháttar. Mér finnst bara eins og ég sé með svona einka ættarmót. Ég elska þau öll.“

Er gott menntakerfi á Kýpur?

„Já. Ég held að það sé ágætt. Flestir hér fara til dæmis til Englands í háskóla, þó svo það séu margir háskólar hér. En ég veit að það hafa nokkrir komið frá Íslandi og eru hér í læknisfræði. Ég held reyndar að flestir séu of menntaðir. Það eru margir sem fara í háskóla og síðan í mastersnám. Þá eru miklu meiri líkur á að þeir fái betri vinnu. Þegar kreppan kom þá heyrði maður að fólk sem var kannski með doktorsgráðu í líffræði fékk ekki vinnu. Þetta var erfiður tími og þau sóttu um vinnu í sjoppu og þá var sagt: „Nei, þú ert of menntaður til þess að vera hér, að selja sígarettur og svoleiðis. Atvinnuleysi er mikið hérna.“

Það er bresk tenging við Kýpur, vinstri akstur og fleira.

„Já, eyjan var náttúrlega undir Bretum í fleiri ár og svo loksins þegar þeir fóru þá komu Tyrkirnir og tóku helminginn af eyjunni 1974. En Bretarnir byggðu rosalega margt upp. Þeir byggðu sjúkrahúsin upp og byggðu eiginlega upp lögkerfið, sem var ekkert áður. Þetta var meira eins og í Grikklandi, þar sem það var bara borgað undir borðið. Þannig að þeir skildu eitthvað gott eftir sig hérna.“

Minnist heimahaganna

Inga minnist æskunnar í Njarðvík með hlýhug og það hafi verið gaman að alast upp í Njarðvík. Hún missti föður sinn barnung og Elín Þórðardóttir, móðir hennar náði þó að gefa fjórum börnum sínum gott uppeldi.

„Okkur skorti aldrei neitt. Mamma vann mjög mikið til að láta dæmið ganga upp. Skólaárin voru skemmtileg og ég ætlaði mér aldrei að flytja til útlanda.“

Inga og börn hennar komu til Íslands í sumar og fögnuðu með henni og ættingjum og vinum heima á Íslandi sextugs afmælinu. Þau fóru á flesta af vinsælustu ferðamannastöðum landsins og börn Ingu voru alsæl.

„Þau náðu að sjá flesta vinsælustu staðina. Við fórum í Bláa Lónið, um Suðurlandið og auðvitað Reykjanesið sem þeim fannst frábært. Þeim fannst svo gaman á Íslandi að dæturnar sögðust vilja vera eftir á Íslandi. Það segir allt.“