Goðsögnin Guðni Kjartans

Ótrúleg afrekaskrá hjá einum sigursælasta íþróttamanni Suðurnesja

Guðni Kjartansson er fyrir löngu orðinn goðsögn í lifanda lífi á Suðurnesjum. Hann var lykilmaður og fyrirliði í gríðarlega sterku Keflavíkurliði sem landaði fjórum Íslandsmeistaratitlum á árunum 1964 til 1973 í fótbolta. Guðni var sömuleiðis kjölfesta hjá landsliðinu um árabil og honum hlotnaðist sá heiður fyrstum knattspyrnumanna að verða kjörinn Íþróttamaður ársins árið 1973. Líf hins sjötuga Guðna er litað af íþróttum en hann lét nýlega af störfum sem íþróttakennari eftir nánast hálfar aldar starf á þeim vettvangi í Njarðvíkurskóla og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann þjálfaði A-landslið karla ásamt því að hafa komið að nánast öllum landsliðum undir hatti KSÍ á rúmlega 30 ára ferli fyrir land og þjóð.

ÍBK Íslandsmeistarar í 4. flokki karla 1959

Í skókassa á Vallargötu

Guðni sleit barnsskónum í gamla bænum í Keflavík en hann bjó lengst af á Hafnargötunni. Hann fæddist á Vallargötu árið 1946 nokkuð fyrir áætlaðan tíma og segir hann blaðamanni frá því að honum hafi verið skellt í skókassa og ofan á ofn strax eftir fæðingu enda aðeins átta merkur að þyngd. Guðni er nýfluttur á Tómasarhaga í Vesturbænum í Reykjavík en þar í nágrenninu eru börnin og barnabörnin flest búsett. Þar náði hann í eiginkonu sína Magneu Erlu Ottesen í gamla daga. Guðni slær á létta strengi og segir að hann sé nú afi í fullu starfi, svona þegar hann losnar af ryksugunni. Hann á þrjú börn og barnabörnin eru orðin sjö. Þau búa öll í um 500 metra radíus frá Tómasarhaganum.

Hafnargatan

„Ég á mjög góðar minningar af Hafnargötunni í Keflavík. Þar var mikið af ungum drengjum sem höfðu mjög mikinn áhuga á íþróttum.“ Það er ekki ofsögum sagt að hæfileikarnir hafi verið miklir í Bítlabænum á þessum tíma en í tveimur næstu húsum við Guðna á Hafnargötunni urðu til sex landsliðsmenn í íþróttum ásamt Guðna sjálfum. Guðni segir mikinn áhuga skýra þessa framleiðslu af afreksfólki í Keflavík á þeim árum þegar hann var að vaxa úr grasi. Þá hafi minna verið um að vera og krakkar voru mestmegnis bara í íþróttum. Guðni segist hafa fylgt eldri drengjunum í hverfinu og fór með þeim á knattspyrnuæfingu þegar hann var sex eða sjö ára. Þá þekktust hverfislið í Keflavík sem oft og tíðum héldu mót sín á milli – og rígurinn var mikill.

Fengu að spila á grasinu hans Óla í Krossinum

Allur frítími var nýttur til þess að spila fótbolta. Í þá daga var leikið á malarvöllum og menn urðu oft ansi rispaðir og blóðugir eftir æfingar og leiki. Guðni og nokkrir félagar af Hafnargötunni voru þó sniðugir og gerðu sér stundum ferð til Njarðvíkur þar sem þeir báðu góðfúslega um leyfi frá Óla í Krossinum til þess að fá að spila á grasvellinum. „Af því að við vorum svo kurteisir að spyrja þá fengum við leyfi. Flestir sem stálust á völlinn voru reknir í burtu eins og skot. Þetta er eins og með Hljómana, hann gaf þeim einmitt leyfi á sínum tíma til þess að æfa í Krossinum,“ rifjar Guðni upp.

Keflvíkingar eignuðust sína fyrstu Íslandsmeistara í knattspyrnu í 4. flokki árið 1959 ásamt því að aðrir flokkar komust í úrslit sama ár. Guðni ásamt fleirum þar áttu eftir að mynda kjarna meistaraliða framtíðarinnar í Keflavík. „Þá varð til metnaður í mörgum okkar fyrir því að ná árangri. Eftir að við verðum svo Íslandsmeistarar árið 1964 þá er ekki aftur snúið.“

Sparkar með fótunum en spilar með höfðinu

Guðni Kjartansson

Guðni hóf að leika 16 ára með meistaraflokki en hann þótti mikið efni. Eftir að hann hafði leikið í nokkur ár með meistaraflokki dvaldi hann um stund hjá stórliði Arsenal ásamt Ástráði Gunnarssyni, félaga sínum úr Keflavíkurliðinu. Í þá daga voru nánast engir útlendingar í ensku deildinni og því erfitt að komast þar á samning. Guðni segir að fyrst og fremst hafi hann hugsað um að nýta þennan tíma til æfinga að vetri til. „Við áttum alveg í fullu tré við þessa menn. Það voru þó vissir þættir þar sem mér fannst við ekki nógu sterkir í. Þeir voru rólegir á boltanum, þeir voru mjög öruggir.“ Guðni gerði sér ekki miklar vonir um að verða atvinnumaður í fótbolta en vonaðist að sjálfsögðu til að svo yrði.

Guðni hóf ferilinn sem miðjumaður. Hann lék jafnvel sinn fyrsta landsleik sem miðjumaður. Hann var svo færður í vörnina í leik með 23 ára landsliðinu og var eftir það færður í stöðu bakvarðar. Í þeirri stöðu lék hann meðal annars í frægasta landsleik Íslandssögunnar sem var 14-2 tapið gegn Dönum 1967. Það var síðan Hólmbert Friðjónsson, þjálfari Keflvíkinga, sem færði Guðna í stöðu miðvarðar þar sem hann myndaði eitrað tvíeyki ásamt Einari Gunnarssyni í gullaldarliði Keflvíkinga. „Mitt hlutverk var að koma í veg fyrir að andstæðingarnir skoruðu og mér líkaði það ágætlega.“ Einhverjir hafa haft orð á því í gegnum tíðina að Guðni hefði vel getað spilað framar á vellinum enda þótti hann teknískur og snöggur. „Að mínu mati var ég samviskusamur leikmaður. Sérstaklega á seinni árum var ég farinn að spila með höfðinu dálítið mikið. Þú sparkar með fótunum en spilar með hausnum.“

Gullöld í Keflavík

Gullöld í Keflavík

Aðrar íþróttir en fótbolti höfðu ekki náð fótfestu á Suðurnesjum á þessum tíma. Körfuboltinn hafði ekki náð álíka vinsældum og nú til dags. Því bar fótboltinn höfuð og herðar yfir aðrar íþróttir hvað varðar vinsældir. „Svo er það þannig að við náum árangri. Um leið og þú nærð árangri þá fylgir hópur á eftir,“ segir Guðni en bætir við að um leið geti það verið galli, enda verður erfitt fyrir unga leikmenn að komast inn í slík lið.

Guðni var fyrirliði og leiðtogi í gegnum gullaldarárin. Honum er ofarlega í huga hve samstilltur hópur Keflvíkinga var á þessum árum. „Þetta var gífurlega sterkur hópur af mannskap sem ætlaði sér að ná árangri. Það lá við að mönnum sem voru með vesen hafi verið hent úr hópnum.“ Þegar Guðni var kjörinn knattspyrnumaður ársins og íþróttamaður árins árið 1973 segist hann sjálfur hafa tekið við þessu verðlaunum fyrir hönd Keflavíkurliðsins sem landaði Íslandsmeistaratitli það árið. „Það er erfitt að taka einn úr hópnum og verðlauna hann. Því miður var ekki hægt að verðlauna allt liðið, en að mínu mati þá hefði allt liðið átt að fá verðlaunin.

Ég lít á það þannig að þetta hafi bara verið félagar mínir og ég var gerður ábyrgur fyrir að taka við verðlaununum,“ segir Guðni hógværðin uppmáluð. Hann var þó aldrei í betra formi en árið 1973. „Já ég var að toppa á þessum tíma. Síðan bara meiðist ég árið eftir það. Það voru alvarleg meiðsli og ég varð að gjöra svo vel að segja stopp.“ Hann hafði þá leikið 31 landsleik í röð, eða alla leiki síðan hann var fyrst valinn í landsliðið. Guðni segir meiðslin hafa verið erfið en hann lendir þá í því, eins og hann segir sjálfur frá, að færa sig yfir í þjálfun. Hann lék sitt síðasta tímabil árið 1976 og þá sem spilandi þjálfari Keflavíkur, en þá höfðu tvö tímabil farið í súginn hjá Guðna sökum meiðsla. Reyndar náði Guðni að leika einn leik árið 1978 en hann var þá þjálfari liðsins. Þá vantaði reynslubolta í vörnina þar sem Gísli Torfason þurfti frá að hverfa. Guðni sagðist aðeins spila leikinn ef allir leikmenn samþykktu það. Það gerði karlinn og stóð sig með prýði sem sweeper.

Guðni var alltaf til fyrirmyndar jafnt innan- sem utanvallar. Hann hefur þ.a.m. aldrei snert áfengi eða tóbak. „Ég held að flestir í liðinu hafi verið að hugsa um það að vera tilbúnir í næsta leik. Það var því aldrei vesen á mönnum. Það var í okkar leikmönnum að vera tilbúnir í leikinn.“ Keflvíkingum var fúlasta alvara með að ná árangri. Árið 1974 var þjálfarinn George Smith ráðinn til starfa. Hann hafði þann háttinn á að menn fengu aðeins að fíflast á æfingu og léttleiki sveif yfir vötnum. Nokkrir leikmenn liðsins komu þá að máli við Guðna fyrirliða og sögðu að þetta gengi ekki lengur. „Við nennum ekki að mæta á æfingar í svona fíflagang. Við erum komnir hérna til þess að ná árangri,“ sögðu Keflvíkingar.

Árið 1973 eru sjö leikmenn af ellefu sem spiluðu landsleik það árið. „Við vorum með gott lið en við vorum með sérstaklega góðan þjálfara sem kenndi okkur að hugsa leikinn,“ en þar á Guðni við Englendinginn Joe Hooley. Keflavík fór taplaust í gegnum það tímabil og lyfti Íslandsbikarnum.

Keflvíkingar tókust á við risa Evrópu

Kornungur Guðni tók þátt í fyrsta Evrópuleik Keflvíkinga gegn ungverska liðinu Ferencvaros. Þar lék Guðni í fyrsta sinn gegn alvöru stórstjörnu, Florent Albert sem síðar varð knattspyrnumaður Evrópu. „Ég hafði víst sparkað hann aðeins niður og ætlaði að fara að biðjast afsökunar. Þá skyrpti hann bara á mig. Það var mín fyrsta reynsla af topp leikmanni.“

Keflvíkingar spiluðu síðar gegn Everton þar sem margir þekktir leikmenn voru innanborðs. Keflvíkingum tókst að skora tvö mörk gegn Everton og þótti það mikið afrek gegn sterki liði. Enski boltinn var vinsæll á Íslandi og því var það mikill viðburður þegar þessi lið heimsóttu landann.

Tottenham voru næstu risar sem Keflvíkingar tókust á við í Evrópukeppni. Þar var nánast landsliðsmaður í hverju rúmi. Guðni segir að stemningin í Keflavík hafi verið ótrúleg í kringum þessa Evrópuleiki. Áhorfendur fylgdu jafnvel liðinu í útileikina.

Real Madrid voru næstu andstæðingar Keflvíkinga í Evrópu. Guðni man vel eftir því að spila fyrir framan tugþúsundir áhorfenda á hinum fræga Bernabeau leikvelli Spánverjanna. Guðni var svo í liði Keflavíkur sem mætti skoska liðinu Hibernian. „Við vorum með sterkt lið þarna og áttum möguleika á að komast áfram. Við reyndar töpuðum 1-0 úti og gerðum svo jafntefli.“ Það var þekkt saga þá að Joe Hooley hafði farið í fýlu eftir að Keflvíkingar urðu Íslandsmeistar árið 1973 eftir að Keflvíkingar fengu á sig fjögur mörk í síðasta leik mótsins gegn Breiðabliki. Hann hafði svo varla talað við nokkurn mann þegar kom að leiknum gegn Hibs. Leikmenn voru ekki ánægðir með Hooley í fyrri leiknum og báðu hann vinsamlegast um að mæta ekki í leikinn í Keflavík. Greinilega samheldinn hópur sem lét engan komast upp með neitt múður.

Ótalmargt hefur gerst á knattspyrnuferli Guðna - bæði gott og slæmt. Aðspurður um það eftirminnilegasta á knattspyrnuferlinum rifjar Guðni upp sorgaratvik sem gerðist í landsliðsferð í Englandi. „Þá hrapaði leikmaður okkar fram af svölum og lést. Það er atvik sem situr alltaf í mér,“ rifjar hann upp. Leikmennirnir sem Guðni hefur mætt á ferlinum skipta fleiri hundruðum en þar eru sumir eftirminnilegri en aðrir. „Þar er mér minnisstæður leikmaður að nafni Johan Cruyff. Þar var á ferðinni topp leikmaður sem við áttum í miklum erfiðleikum með að stoppa,“ en Hollendingurinn Cruyff er jafnan talinn einn besti leikmaður allra tíma.

Vildi betri vinnubrögð hjá landsliðinu

Guðni hafði gríðarlega mikinn metnað sem þjálfari. Hann fór fljótlega á námskeið í Englandi eftir að hann snéri sér að þjálfun. Það verður til þess að hann er fenginn til þess að aðstoða landsliðsþjálfara. „Eftir það er ekki aftur snúið. Ég tek svo við starfi landsliðsþjálfara og starfa fyrir KSÍ í yfir 30 ár.“ Ferill Guðna hjá KSÍ er stórmerkilegur og eflaust eru margir sem ekki gera sér grein fyrir öllu því sem Guðni hefur afrekað þar innanhúss. „Mér fannst að ef ég væri í starfi hjá félagi þá yrði það að vera fullt starf. Ég var alltaf að kenna líka og vildi ekki sleppa því starfi. Þannig hentaði það vel að starfa hjá KSÍ samhliða kennslunni.“ Þegar Guðni tók við A-landsliði karla árið 1980 var hann að hefja störf í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Slíkt myndi kannski ekki tíðkast hjá landsliðsþjálfara nú til dags. „Lars Lågerbeck er reyndar líka kennari, en hann hætti áður en hann tók við landsliðinu,“ segir Guðni og hlær. Guðni viðurkennir að það hafi verið erfitt að sinna báðum þessum störfum. Hann náði mjög góðum árangri sem landsliðsþjálfari en hélt þó ekki áfram með liðið. „Mér fannst þurfa betri vinnubrögð í kringum landsliðið, eins og kannski enn er verið að tala um í dag. Mig vantaði vissa menn sem voru ekki til staðar. Því hafði ég ekki áhuga á að standa í svona málum.“

Guðni tók síðar við 21 árs liði karla og hefur hann komið að flestum aldursflokkum landsliða karla og kvenna á undanförnum áratugum. Árið 2006 tók Guðni að sér stöðu aðstoðarþjálfara hjá A-landsliði kvenna. Að sögn þeirra sem þekkja til þá átti Guðni stóran þátt í mikilli velgegni liðsins sem fór á tvö Evrópumót undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar og Guðna. „Mér fannst gott að vera bak við sviðsljósið og ræða málin þar. Ég var oft fenginn til þess. Þannig gat ég sinnt minni vinnu en fylgt landsliðinu eftir.“ Á löngum þjálfaraferli hefur Guðni þjálfað flest okkar besta knattspyrnufólk. Hefði hann viljað gera hlutina öðruvísi á einhvern hátt? „Segir maður það ekki alltaf? Maður hefði átt að gera þetta eða hitt. Ég er þó mjög ánægður með það sem ég hef verið að gera. Það er ekkert endilega spurning um hvað mér finnst heldur frekar hvað öðrum finnst. Ég get síðan setið heima og tuðað yfir því sem ég hefði átt að gera. Þú breytir því ekkert, þetta er búið.“ Guðni er mjög lukkulegur með ferilinn en hann sér þó eftir því að hafa ekki náð að koma titlinum í Vesturbæinn árið 1991 en þá voru KR-ingar búnir að bíða ansi lengi eftir þeim stóra. „Nú er ég fluttur í Vesturbæinn en hef tjáð KR-ngum að það séu ekki leyfð félagsskipti, ég er því ennþá í Keflavík,“ segir Guðni og brosir.

Guðni hefur alltaf þótt mikill fótboltaheili en hann hugsar leikinn öðruvísi en margir aðrir. „Ég horfi öðruvísi á fótbolta. Ég er oft að fylgjast með því hvað er að gerast þar sem boltinn er ekki og hvaða áhrif það getur haft á leikinn.“ Guðni er mikill keppnismaður og honum er hjartans mál að sigra. „Maður vildi vinna en ég var ekki þannig að ég færi í fýlu í marga daga ef við töpuðum. Mér finnst stundum að fólk verði að geta sagt, þetta var mér að kenna. Það er allt í lagi að gera mistök. Ég geri bara mistök og læri af þeim. En gerðu eins fá og þú getur.“

Starf kennarans ákaflega gefandi - fyrir utan launin

Kennarinn Guðni hóf störf í Njarðvíkurskóla nýútskrifaður úr Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1970. Hann vann í tíu ár við skólann og líkaði ákaflega vel. „Þar var karfan númer eitt. Þarna var alveg topp íþróttafólk og ég hafði mjög gaman af því að kenna yngri krökkunum.“ Fyrst um sinn fór kennsla fram í Krossinum sáluga sem var vinsæll dansstaður á þessum árum. Það eru kannski ekki margir sem vita af því en Guðni var einn af frumkvöðlunum í körfuboltanum en hann lék með liði Keflavíkurflugvallar og síðar Njarðvíkingum. Eins var hann frambærilegur í handbolta og var m.a. valinn í landsliðsúrtak í þeirri grein. „Ég er mjög ánægður með að hafa starfað sem kennari, svona fyrir utan launin,“ segir Guðni og hlær. „Í þessu starfi sérðu árangur. Þú sérð nemendur blómstra og ná tökum á ýmsum íþróttum. Þetta er mjög gaman og nemendur gefa manni alveg gífurlega mikið.“


Guðni varð sjötugur síðasta laugardag en hann er mjög vel á sig kominn ef frá eru skilin gömul meiðsli í hné frá fótboltadögunum. Hann hefur því ekki stundað líkamsrækt sjálfur síðan ferlinum lauk þar sem hann á erfitt með að hlaupa. Guðni hefur verið meira og minna í kringum íþróttir allt sitt líf. Það hefur gefið honum margt. „Það er mikil ánægja að vera í kringum ungt fólk. Spila með því og vera í hóp. Vinátta sem verður til ásamt ótalmörgum félögum og kunningjum sem maður kynnist. Ég verð þó að viðurkenna að það er erfitt fyrir fjölskyldumann að vera alla tíð í þessu. Þú þarft að eiga konu sem er sammála því að þú sért að stunda þetta. Þetta verður bara að vinnast í sameiningu.“


Afrekaskráin er löng og litskrúðug hjá Guðna. Íþróttamaður ársins, kennari, þjálfari landsliðsins og fyrirliði landsliðsins um árabil. Leiðtogi í einu sigursælasta liði Íslandssögunnar í fótbolta. Guðni hefur á ferli sínum leiðbeint og mótað þvílíkan fjölda ungmenna að annað eins er fáheyrt hérlendis. Hann stefnir nú að því að njóta þess að vera sestur í helgan stein og verja tíma með fjölskyldu sinni. „Ég kvíði ekki neinu í ellinni, enda hljóta þeir að fara að hækka ellilífeyrinn,“ segir Guðni að lokum og skellir upp úr.

Elti börnin í Vesturbæinn

Guðni er nýfluttur á Tómasarhaga í Vesturbænum í Reykjavík en þar í nágrenninu eru börnin og barnabörnin flest búsett. Þar náði hann í eiginkonu sína Magneu Erlu Ottesen í gamla daga. Hann á þrjú börn og barnabörnin eru orðin sjö. Þau búa öll í um 500 metra radíus frá Tómasarhaganum.

Árið 2006 tók Guðni að sér stöðu aðstoðarþjálfara hjá A-landsliði kvenna. Að sögn þeirra sem þekkja til þá átti Guðni stóran þátt í mikilli velgegni liðsins sem fór á tvö Evrópumót undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar og Guðna.

Landsliðsmaður fyrir lífstíð

Guðni í einu verkefninu fyrir landsliðið. Þarna var Guðni aðstoðarþjálfari Atla Eðvaldssonar. Við hlið Guðna er svo goðsögnin Ásgeir Sigurvinsson.

#  #  #  #  #

Viðtal: 
Eyþór Sæmundsson

Myndir:
úr einkasafni, frá Byggðasafni Reykjanesbæjar,
Knattspyrnusamandi Íslands og Keflavík, íþrótta- og ungmennafélagi.

Innslagið Sjónvarps Víkurfrétta 
er unnið af Eyþóri Sæmundssyni sem ræddi við Guðna
og Hilmari Braga Bárðarsyni sem kvikmyndaði og klippti.

Gamalt myndefni í sjónvarpsinnslagi 
er frá Byggðasafni Reykjanesbæjar, KSÍ, Keflavík og af Youtube.