Fegurðin í smáatriðunum

Áhugaljósmyndarinn Einar Lars Jónsson er mikill náttúruunnandi og endurspeglar falleg smáatriði úr náttúrunni í verkum sínum – hluti sem við hin veitum ekkert endilega athygli.

Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: JPK og úr einkasafni.

Flestir tengja nafn Einars Lars Jónssonar við knattspyrnu en þessi knái Keflvíkingur hefur  haft knattspyrnuþjálfun hjá Keflavík að aðalstarfi í meira en áratug. Lars hefur tvær alþjóðlegar þjálfaragráður UEFA A og UEFA ELITE. Hann er auk þess með B.A. gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og lærði ítölsku við Ca ́Foscari háskólann í Feneyjum.

Lars hætti hins vegar allri þjálfun síðasta haust og lét gamlan draum rætast – í honum blundar nefnilega hlið sem fáir þekkja en Lars er náttúruunnandi og áhugaljósmyndari með næmt auga fyrir smáatriðunum sem við hin tökum sjaldnast eftir. Myndirnar hans eru einstakar og hefur hann opnað vefsíðuna larz.is með myndum sínum.

„Ég hef haft þessa ljósmyndadellu síðan svona 2006,“ segir Lars þegar hann er spurður út í áhuga sinn á ljósmyndun. „Þetta byrjaði fyrst á gamla Nokia-samlokusímann minn. Þá var ég með símann á lofti að taka mynd af hverju sem er, vinir og fjölskylda skildu ekkert í mér. Myndefnið var mjög fjölbreytt, allt sem hafði litadýrð, falleg form og áferð vakti athygli mína. Ég var mestmegnis að skoða þetta smáa og reyna að taka eftir fegurðunni sem er allt í kring. Þetta eru nærmyndir af náttúru.“ 

– Ertu búinn að dufla við þetta síðan 2006 – í tólf, þrettán ár?

„Þetta lagðist nú í dvala í svolítinn tíma. Ég var „all in“ þarna fyrst en svo átti fjölskyldan og fótboltinn hug minn allann, ég var bara þar. Þetta blundaði samt í mér en maður hugsaði alltaf: „Þetta er svo mikið bull – að hanga út í móa, takandi myndir af einhverju grjóti.“ Það var svolítið hlegið að þessu og flest nei-in voru svona í kringum mann. „Þetta er ekki nógu öruggt“ og „þú ert ekki að fara að verða einhver listamaður“ svo ég setti þetta til hliðar. Þetta hefur samt alltaf verið þarna og ég get bara ekki hugsað um þetta lengur – ég þarf bara að koma þessu frá mér. Mér líður vel þegar ég er að skapa og mér finnst gaman að fara einn út að labba í einhvers konar náttúruskoðun. Maður er ekki á leiðinni neitt heldur bara að skoða umhverfi sitt, að vera í núinu. Tilfinningin þegar maður er einn í náttúrunni er mögnuð, athyglin eykst gríðarlega og stundum fara hárin að rísa og ef einhver kemur að manni í þessu ástandi þá getur manni brugðið alveg þvílíkt,“ segir Lars og það skín í gegn hversu mikla ástríðu hann hefur fyrir þessari listsköpun sinni. „ Núna er kominn tími og ég ákvað  að opna heimasíðuna með hjálp góðra manna. Svo er ég búinn að vera að láta hina og þessa vita af síðunni og það er búin að vera svolítið traffík á henni upp á síðkastið.“

– Ertu þá ekki að undirbúa sýningu?

„Jú, mig langar að gera það. Það er kannski bara rökrétt framhald myndi ég halda. Ég hef selt nokkrar myndir en það kostar peninga að halda svona sýningu og ég verð að nota ágóðann af myndunum til þess að fjármagna sýninguna. Stefnum á það í sumar.“

– Ertu að selja mörg eintök af hverri mynd?

„Ég ætla að selja 52 eintök af hverri mynd.“

– Af hverju 52?

„Fimm og tveir gera sjö og talan sjö er mér  mikilvæg. Svo hefur þetta eitthvað með vikurnar, fæðingardag og fleira að gera. Það er eitthvað við töluna sjö sem heillar mig.” Ég ætla að gera fimm myndir í hámarksstærð t.d. [90 sm x 135 sm], þannig að þær verða í aðeins veglegri útgáfu heldur en hinar 47. Ef það myndi gerast að ég yrði einhvern tímann eitthvað nafn, þá myndi ég fækka eintökunum en við byrjum þetta svona. Næsta sería af myndum yrði kannski 25.

Óþekkur (Keflavík  40cm x 30cm) og Hjálmur (Atlavík, 66cm x 50cm). (Smellið á myndirnar til að stækka þær)


Pappírinn sem myndirnar eru prentaðar á er mjög vandaður. Hann er mattur og virkar stundum eins og það sé einhver þrívídd í myndunum. ,,Mér finnst myndirnar koma enn betur út á pappírnum en þær gera á skjánum,“ segir Lars og blaðamaður getur tekið undir það því hann velti einmitt fyrir sér hvort einhver áferð væri á myndunum.

Lars hefur mest verið að taka myndir á Suðurnesjum. „Ég fer á Bergið, í fjörurnar, út á Stafnes og víðar. Svo hef ég farið eina ferð austur þegar ég var að vinna fyrir KSÍ, þá þurfti ég að ferðast um allt landið og ég nýtti tækifærið og heimsótti Ásbyrgi og Atlavík. Þetta hefur ekki verið þannig að ég farið í sérstakar ferðir út á land eingöngu til að mynda, ég hef frekar gripið tækifærið þegar það gefst. Kannski er komin tími til þess núna, loksins þegar þetta er orðið raunverulegt. Það eru svo margir fallegir staðir á Íslandi sem mann langar að ljósmynda. Svo er það líka listin að finna fegurðina í ljótleikanum, ég hef tekið margar myndir af ryði sem er að brotna niður eða hlutum sem eru jafnvel við það að rotna. Þar er oft mikið myndefni að finna.“ 

– Þú hefur ekki verið einn af þessum tólf þúsund sem fóru að klappa hvalnum og mynda?

„Nei, ég gerði það ekki. Ég að spila golf í Leirunni og það var þvílíkur straumur af fólki þar, maður var í því að segja fólki að hvalurinn væri ekki í Leirunni heldur við golfvöllinn í Sandgerði,“ segir Lars og brosir.

Náttúruöfl (Atlavík, 50cm x 90cm), Samstaða (Spánn, 40cm x 60cm) og Wee (Spánn, 40cm x 30cm). (Smellið á myndirnar til að stækka þær)


Falda fjársjóði er víða að finna

Fenris. Ljósmyndin er tekin inn í bergið þegar verið var að meitla í það fyrir Skessuhelli. VF-mynd: JPK

– Þannig að þú ert hættur allri þjálfun og þetta tekið við?

„Ég er alla vega atvinnulaus sem stendur, svo neyðin kennir naktri konu að spinna. Ég hef þetta og mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa. Það er ekkert öllum sem finnst þetta flott en ég hef samt trú á þessu. Þetta er líka eitthvað sem heltekur mig, þegar ég er að vinna í þessu þá gleymi ég stað og stund. Mér líður vel í sköpunarferlinu og langar að gera meira.“

Lars segist hafa ferðast mikið með foreldrum sínum sem barn, “ég held að þessi náttúruskoðun hafi byrjað þar. Svo bjó ég á Heimavöllum 7 og hafði móann í bakgarðinum hjá mér. Þá var maður oft úti í móa, klifrandi í trönum og alltaf skoðandi eitthvað. Þegar ég fer út að mynda þá er ég í fjársjóðsleit, það er falinn fjársjóður víða. Ég myndi ekki segja að það væri einhver djúp merking að baki myndanna, ég er bara að reyna að fanga fegurð. Ég sé fallega liti, áferð og sérkennileg form sem gefa ákveðna möguleika. Það er hægt að segja að megnið af myndunum séu abstrakt-myndir. Túlkunin er opin, þú sérð eitthvað en ég gæti kannski séð eitthvað allt annað. Mér finnst það áhugavert að myndirnar veki ímyndunaraflið. Ég vinn ljósmyndirnar mismikið í tölvunni, styrki liti, kalla fram skugga eða birtu. Sumar spegla ég en aðrar ekki og mjög misjafnt hvað fólki finnst um þær en yfirleitt finnur það eitthvað við sitt hæfi því þær eru fjölbreyttar.“

Þótt stutt sé síðan Lars setti síðuna í loftið hefur hann selt þó nokkur af verkum sínum. Sem dæmi hefur Arion banki keypt verk eftir hann. „Listavinir Arion banka keyptu mynd eftir mig, eitt af fjörutíu verkum sem mörg hver voru eftir mjög þekkta listamenn. Ég er mjög stoltur af því að hafa komist í þann hóp.“

Larz með zetu

– Segðu mér, af hverju larz.is með zetu?

„Helsta ástæðan fyrir því er hreinlega að lars.is var upptekið. Mamma vildi hins vegar skíra mig Einar Larz með zetu en mannanafnanefnd vildi ekki leyfa það. Þannig að mútta er mjög sátt við þetta.“

Ljósmyndirnar á Larz.is eru teknar víðar en á Suðurnesjum: Titan (Atlavík, 40cm x 60cm), Seiðkarl (Reykjavík, 40cm x 60cm) og Lost (Staðarfell, 40cm x 60cm). (Smellið á myndirnar til að stækka þær)


Lars með fjölskyldunni sinni, Hönnu Rún Viðarsdóttur, Óliver (sextán ára), Þórunni Önnu (þrettán ára), Ólöfu Rún (ellefu ára) og Einari Steini (átta ára).

Villtist af leið

„Ég villtist af leið og náði ákveðnum botni árið 2010. Það endaði í meðferð á Staðarfelli þar sem ég gekk mikið um svæðið og tók myndir, það var ákveðin þerapía fólgin í því.

Ég byrjaði þetta venjulega djamm þegar ég var sextán ára, svo ágerðist það bara og maður náði sér ekki ein hvern veginn út úr þessari rútínu. Svo var maður allt í einu kominn á einhvern stað sem ég vildi ekki vera á. Ég var búinn að kynnast kærustunni minni, henni Hönnu Rún Viðarsdóttur, og eignast með henni þrjú börn áður en ég stoppaði. Ég hefði örugglega ekki stoppað nema af því að hún hjálpaði mér, hún hefur staðið þvílíkt með mér í gegnum erfiða tíma. Þannig að ég á henni mikið að þakka – og auðvitað mömmu og pabba,“ segir náttúruunnandinn Lars að lokum.“

Á heimasíðunni Larz.is er hægt að líta á glæsilegar myndir Einars Lars Jónssonar.