Eldgos, andlát og ógnvekjandi tilviljanir

Hann er best þekktur sem tónlistarmaður en Smára Guðmundssyni er fjölmargt til lista lagt. Hann segir frá því sem á daga hans hefur drifið en Smári var m.a. landsliðsmaður í knattspyrnu áður en alvarlegt bílslys batt endi á knattspyrnuferilinn.

Viðtal: Jóhann Páll Kristbjörnsson
Ljósmyndir: JPK og úr einkasafni

Smári Guðmundsson rekur útgáfufyrirtækið Smástirni í Suðurnesjabæ. Hann er fæddur og uppalinn Sandgerðingur, einn fjögurra systkina, þeirra Pálmars, Fríðu Dísar og Særúnar sem öll hafa verið tengd tónlist í gegnum tíðina. Nýjasta afurð Smára er að koma út þessa dagana, söguplatan Apótekarinn sem gerist á Suðurnesjum á sama tíma og eldgos geisar þar.

 

Fyrsta giggið.


Ég var með svakalegan sviðsskrekk og bjó bara til karakter sem hét Mystery Boy til að koma mér á svið ...Frá frumsýningu söngleiksins Mystery Boy. Smári og Fríða Dís haldast í hendur lengst til hægri.


Söngleikurinn Mystery Boy var valin áhugasýning ársins 2018 og sýnd í Þjóðleikhúsinu í kjölfarið. Umsögn dómnefndar um sýninguna var svohljóðandi:

„Sýning Leikfélags Keflavíkur á Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson, í leikstjórn Jóels Sæmundssonar, er afar metnaðarfullur, nýr íslenskur söngleikur þar sem fjallað er á óvenjulegan hátt um mikilvæg málefni. Verkið er byggt á reynslu höfundar af því að fara í áfengismeðferð, en útfærslan er afar frumleg og djörf. Fantasíukennd nálgun höfundar við efnið er til þess fallin að gera efnið aðgengilegt og skemmtilegt fyrir nútímaáhorfendur. Um leið er fjallað um sígild viðfangsefni eins og ástina, frelsisþrána, óttann, átök um völd, baráttu góðs og ills, mannleg samskipti og það að upplifa sig á einhvern hátt utangarðs. Tónlistin er skemmtileg og vel flutt af hljómsveit og söngvurum, sem einnig standa sig vel í leik. Leikfélag Keflavíkur fær sérstakt hrós fyrir að ráðast af miklum metnaði í uppsetningu á nýju verki, með nýrri tónlist, þar sem þátttakendur leggja líf og sál í uppsetninguna.“

Smelltu hér til að hlusta á söngleikinn Mystery Boy.


KlassartSystkinin Smári og Fríða Dís stofnuðu saman hljómsveitina Klassart og hafa getið sér gott orð á vettvangi íslenskrar dægurlagatónlistar. Þau hafa gefið út þrjár breiðskífur; Bottle of Blues, Bréf frá París og Smástirni. Sú fyrsta var gefin út árið 2007 en þriðja plata þeirra kom út 2014.

Systkinin Fríða Dís og Smári skipa hljómsveitina Klassart.– Hvernig er með Klassart, eruð þið hætt eða er þetta „on going project“?

„Já, þetta er eitthvað sem verður alltaf til. Klassart er orðið það stórt nafn en núna erum við bara í smá pásu. Fríða Dís er að vinna í sínu, sinni experimental-tónlist. Klassart er meira svona íslensk dægurlagaklassík – sem við elskum líka að gera. Við munum pottþétt gera aðra plötu þegar við erum búin að komast frá þessum málum sem við erum að vinna í. Ég er að klára Apótekarann og Fríða sína tónlist. Það verða þá svona klassísk, íslensk dægurlög sem er alveg frábært að vinna í og um leið svolítið snúið.“

– Er það efni sem Klassart flytur allt frumsamið?

„Á fyrstu plötunni var allt efni frumsamið fyrir utan eitt lag. Önnur platan var með tvö tökulög, þar á meðal Gamli grafreiturinn sem er gamall kántríslagari. Síðasta platan var öll frumsamin og það var stefnan, að hafa allt frumsamið.“


Dauðinn og eldgos er sögusvið ApótekaransAnnað handrit Smára, söguplatan Apótekarinn, er að líta dagsins ljós þessa dagana. 

„Vínillinn var pressaður út í Berlín en handritið var prentað hér heima. Viðtökurnar hafa verið frábærar, ég prentaði þrjú hundruð eintök og hundrað eintök eru þegar farin. Ef maður lítur á sölutölur síðustu ára þá er það alveg frábært en þessi „physical“ sala er ekki það mikil í dag, stærstu plöturnar eru að seljast í einhverju fimm hundruð til þúsund eintökum – þetta er allt komið í skýið.

Skissa af Apótekaranum sem Smári teiknaði.


Ég ætla að byrja á því að gefa Apótekarann bara út í handriti og á vínil og leyfa þeim sem eru búnir að kaupa vínilinn að fá forsmekkinn áður en þetta fer á streymisveiturnar.“

– Eru einhverjar hugmyndir uppi um að setja Apótekarann á svið?

„Upprunalega hugmyndin var að koma sér inn í kvikmyndabransann, að semja tónlist fyrir kvikmyndir. Skrifa handrit, semja tónlistina og rétta leikstjóranum: „Hérna, gjörðu svo vel“ – en þær hugmyndir eru uppi. Þetta er kannski ekki beint söngleikur heldur meira leikrit með mikilli tónlist – platan er eiginlega bara „soundtrack“.“

Sögusvið Apótekarans á sér stað á Suðurnesjum og á sama tíma geisar þar eldgos, segir Smári. Sagan fjallar um dauðann og hvort það sé hægt að sigrast á honum.

„Dauðinn er svo dularfullur, þótt hann sé það eina sem er víst í lífinu þá ríkir samt svo mikil dulúð yfir honum. Sagan fjallar um apótekara sem hefur helgað líf sitt því að sigrast á dauðanum,“ segir Smári um söguna. „Að þetta eldgos skuli hafa farið í gang núna var vissulega skemmtileg tilviljun en þá var þetta jafnframt mjög erfitt því ungur frændi minn var að ganga í gegnum erfið veikindi og lést á sama tíma, aðeins nítján ára gamall. Þannig að þetta var svolítið skrítið tímabil, ég verð að játa að mér fannst erfitt að vera að auglýsa eitthvað verk sem fjallaði um þetta málefni á meðan þessi harmleikur var að eiga sér stað í fjölskyldunni.

Ég ræddi þetta við fjölskylduna mína sem sagði mér að nota þetta, náttúran væri að veita mér þetta tækifæri og ég ætti að notfæra mér það. Það er undarlegt að hugsa til þess að þessar tilviljanir skuli koma upp á sama tíma og sagan sem ég byrjaði að skrifa fyrir mörgum árum síðan er loksins að koma út. Svolítið ógnvekjandi en skemmtileg tilviljun.“

Að þetta eldgos skuli hafa farið í gang núna var vissulega skemmtileg tilviljun en þá var þetta jafnframt mjög erfitt því ungur frændi minn var að ganga í gegnum erfið veikindi og lést á sama tíma, aðeins nítján ára gamall ...Vinnur með Leikfélagi Keflavíkur


„Núna er ég að fara að vinna með Leikfélagi Keflavíkur sem er að setja upp tónlistarsýningu. Ég og Björgvin Ívar Baldursson verðum tónlistarstjórar við uppsetningu á hundruðustu sýningu Frumleikhússin og ætli ég reyni ekki þá að lauma handritinu að þeim. Það væri allavega gaman að setja það upp.“

Smári segist í raun hafa byrjað á verkinu áður en hann skrifaði handritið að Mystery Boy. Hann gerði svo hlé á Apótekaranum á meðan vinnan við Mystery Boy var í gangi en fluttist svo til Berlínar þar sem hann bjó í hálft ár og kláraði handritið að Apótekaranum í samstarfi við grískan handritshöfund.

Smári sótti um og tók þátt í samstarfi í gegnum Erasmus+, sem er styrkjaáætlun á vegum Evrópusambandsins. Hann fór út til Berlínar þar sem hann vann sem hljóðmaður.

„Þetta er hugsað sem skiptivinna sem báðir aðilar þurfa að hagnast á. Ég fór þarna út og vann sem hljóðmaður við upptökur á útvarpsleikritum og viðtölum. Við tókum upp mjög skemmtilega viðtalsseríu við fólk sem hafði upplifað fall Berlínarmúrsins, hafði búið austan megin en býr núna vestan megin. Þarna kynntist ég þessum handritshöfundi og sýndi henni handritið. Nú við kláruðum það í sameiningu og skrifuðum auk þess barnabók saman. Hún heitir The Little Elephant og ég held að hún sé að koma út núna á næstu mánuðum. Þetta var skemmtilegt samstarf og við eigum eftir að vinna meira saman.“


Slysið gerði út um knattspyrnuferilinn


Smári játar að hann sé mjög mikill aðdáandi enska boltans og Liverpool. „Ég alveg les sjúkraskýrslur, horfi á æfingar og svona dæmi – og hef alveg rosalega gaman að þessu. Það er búið að vera svolítið töff að vera Liverpool-aðdáandi, ég man óljóst í minningunni þegar þeir urðu meistarar 1990. Síðan er þetta bara búin að vera erfið fjallaganga og mikið „heart brake“ en maður hefur alltaf staðið með þeim. Þetta var alveg rosalegt þegar þeir urðu svo meistarar og maður getur ekki lýst þakklætinu fyrir að hafa fengið þennan mann í brúnna,“ segir Liverpool-aðdáandinn Smári og talar þá um Jürgen Klopp, framkvæmdastjóra Liverpool, sem gerði liðið að Englandsmeisturum árið 2019 eftir langa og stranga eyðimerkurgöngu.

„Þegar þeim fataðist flugið um daginn og töpuðu sex, sjö leikjum á heimavelli. Maður gat ekkert sagt, hann má gera hvað sem er með þetta lið – hann má falla þess vegna. Hann gerði þá að meisturum.“

Smári lék sjálfur fótbolta, bæði með Reyni og Val og hann spilaði einnig leiki með unglingalandsliðinu. Þá var Ejub Purasevic tekinn við Val en hann hafði verið að þjálfa Reyni. Þegar hann tók síðan við Val tók hann Smára með yfir. 

Síðan gerist það að Smári lendir í alvarlegu bílslysi nítján ára gamall, fór fjórar veltur á veginum milli Keflavíkur og Sandgerðis.

„Ég var einn í bílnum en var í belti, sem var ekkert algengt á þessum tíma, og er þakklátur fyrir það. Á þessum tíma var ég á fullu í boltanum og spilaði með unglingalandsliðin og Val, ég lék meira að segja með Arnóri Guðjohnsen,“ segir hann og glottir. „Ég var fyrirliði Reynis og spilaði þar til ég varð 24 ára en eftir bílslysið var ég alltaf slæmur í bakinu og náði mér aldrei, á endanum þurfti ég að hætta.“

– Ertu búinn að jafna þig núna?

„Já, þetta tók svolítið á og ég fór í gegnum tímabil þar sem ég var alltaf að bíða eftir að einhver læknir myndi koma með töfralækninguna. Það var bara ekki svarið við þessu. Það var ekki fyrr en ég tók þetta í mínar hendur, fór grimmt í sjúkraþjálfun og fór að synda mikið. Þannig náði ég þessu góðu en ég þarf alltaf að halda mér við, þarf að gera mínar æfingar, teygja og halda mér í góðu formu. Ég þarf að passa upp á svefninn og að liggja ekki of lengi. Þetta helst allt í hendur og er eilífðarverkefni. Núna er ég alltaf í klossum – það hjálpar.“

Smári þótti efnilegur knattspyrnumaður og lék með unglingalandsliði Íslands.