Ekki til nægt rafmagn fyrir gagnaver

Verðum af tækifærum vegna skorts á rafmagni, - segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku

Núna er mikill skortur á rafmagni. Hann birtist fyrst og fremst á sviði gagnavera. Þau vilja meira rafmagn. Gagnaver hafa vaxið í landinu. Ekki kannski eins mikið og einu sinni var spáð en þau hafa vaxið töluvert og nota í dag nokkra tugi megavatta í landinu. Við erum að selja hluta af því. Við erum því miður mjög oft og iðulega að segja: „Nei, því miður“ við gagnaverin. „Við eigum ekki rafmagn fyrir ykkur“. Þá fara þau með sín viðskipti eitthvað annað, til annarra landa. Við verðum af tækifærum út af þessu, segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku en hann segir orkuþörf landsins mikilvægt mál.

Vantar á annað hundrað megavött

Orkuþörf landsins er afar mikilvægt mál. Í endurútgefinni raforkuspá sem var frá 2015 og kom út núna í sumar er talið að á næstu árum, nokkrum árum, inn á næsta áratug, þá þurfi almenni markaðurinn sem við köllum, það er að segja heimili og allt svona hefðbundið atvinnulíf án stórnotenda, á annað hundrað megavött í viðbót inn á næsta áratug.
Þessi orka er ekki til í dag og það er ekki verið að byggja orkuver til þess að mæta þessari þörf í dag, nema mjög litlu leyti. Við erum ekki að framleiða rafmagn hérna, virkja fyrir okkur, heldur til að mæta þörfum samfélagsins og það eru fleiri sem gera það líka, við erum bara hluti af þeim markaði. Við kappkostum að hafa það framboð sem viðskiptavinir þurfa og vilja.

Við erum að tala um mjög umhverfisvæn fyrirtæki, eins og gagnaverin?

Jú, við erum að tala um þjónustu sem við notum öll, í gegnum þessi veflægu tölvukerfi, samfélagsmiðla. Við tölum um Facebook, Snapchat, Instagram og hvað þetta heitir, notar allt saman gagnaver. Við öll sem erum að nota snjallsíma og tölvur, við erum að nota gagnaver, við bara vitum ekki af því. Við vitum kannski ekki öll af því, en við erum að nota þau. Einhvers staðar verða þau að vera. Þau leita meðal annars eftir sanngjörnu raforkuverði og hreinni orku. En framboðið fyrir þau á Íslandi er ekki nægjanlegt. Þau hröklast þá frá og staðsetja sig annars staðar. En þau eru vaxandi á Íslandi og gætu vaxið meira.

Af hverju er þessi staða núna?

Það er orðið mjög þungt í vöfum að koma orkuverkefni á koppinn. Leyfisveitingaferlin eru þung, tímafrek og kostnaðarsöm. Við spilum alltaf eftir því sem við köllum „leikreglur-lýðræðisins“. Það eru reglur í þessu landi um hvernig má gera hlutina. Við förum eftir þeim í einu og öllu, á öllum stigum. Stærri verkefni, þ.e.a.s. tíu megavött eða stærri, þurfa að fara í gegnum rammaáætlun. Síðan þurfa verkefnin að fara í gegnum umhverfismat, skipulagsbreytingar, það þarf að fá rannsóknarleyfi, nýtingarleyfi, orkuvinnsluleyfi og aðlaga deiliskipulag og aðalskipulag sveitarfélags að því sem á að gera. Allt tekur þetta tíma og margt af þessu lendir í kæruferlum, sem að minnsta kosti tefur og veldur ákveðnum óróleika. Við kappkostum að gera alla hluti vel. Öll mannanna verk hafa einhver áhrif á umhverfið. Við þurfum að vanda okkur að gera hlutina eins vel og kostur er og gera bara það sem þarf að gera og ekkert meira en það. Oft eru stærstu ákvarðanirnar þær sem við ákveðum að gera ekki.

Það þarf náttúrulega að ákveða svona mál langt inn í framtíðina með að finna orku?

Í okkar veröld er ekkert mjög langt að hugsa 50 ár fram í tímann. Ef við horfum á orkuspána að þá t.d. þurfum við að vita í dag hvaða orka þarf að vera til í landinu 2030, það eru ekki nema 13 ár þangað til, eiginlega 12 ár. Við þurfum að vita í dag hvaðan sú orka á að koma sem þarf að bætast við markaðinn fyrir almenna orku í landinu og þá er ég ekki að tala um stórnotendur, þá er ég ekki að tala um gagnaver, kísilver, álver eða eitthvað slíkt, heldur bara þennan almenna markað, sem er um 20% af raforkunotkun landsins í dag. Hann þarf að vaxa töluvert inn á næsta áratug og við þurfum að vita í dag hvaðan orkan á að koma ef hún á að vera til. Ef við vitum það ekki og það eru ekki til lausnir fyrir því þá, þá verður raforkuskortur. Í dag er hann til staðar, hann birtist annars vegar í skorti á framleiðslu á rafmagni og hins vegar í skorti á flutningsgetu. Það er mikill skortur á flutningsgetu rafmagns til Vestfjarða. Það er skortur á flutningsgetu rafmagns til Akureyrar. Það er skortur til flutningsgetu víða annars staðar á landinu, sem bitnar til dæmis á fiskimjölsverksmiðjum, sem þurfa þá að brenna olíu.
Það er hjákátleg staðreynd, vil ég segja, að árið er 2017 og við höfum skrifað undir Parísar-samkomulagið. Nýjasta orkuframleiðslan á Vestfjörðum er dísel-knúin og það er verið að hugleiða að byggingu dísel-rafstöðvar á Akureyri til að bæta ástandið.

Hvernig stendur á þessu?

Það hefur ekki tekist að koma á koppinn verkefnum sem styrkja flutningskerfið og auka framleiðsluna. Það hefur bara ekki tekist. Það eru nú fræg mál um raforkuflutnings-kerfið, bæði á Norðurlandi og hér á Suðurnesjum líka. Meira að segja hér á Suðurnesjum, þó hér séu tvö orkuver starfandi, þá er raforku-öryggið ekki eins gott og það á að vera og við viljum hafa það. Það er bara ein lína hingað suður á nes og þær þurfa að vera tvær til þess að ná skikkanlegu öryggi.

Suðurnesja-lína tvö er í uppnámi getum við sagt?

Já, já og búin að vera lengi. Það er ekkert nema tvö, þrjú ár síðan að það fauk bárujárnsplata á háspennulínuna og það varð allt svart á Suðurnesjum.

Þarf skynsamlega umræðu

Og við erum með flugstöðina á Suðurnesjum. Það urðu vandræði þar í þessari bilun.

Já og alls konar iðnað. Ef til dæmis stórnotendur eða orkuver detta út þá hefur það alls konar áhrif í kerfinu og þau geta sum verið til vandræða. Það hefur hreinlega ekki tekist að ná samstöðu um þetta og það er náttúrulega eilífðlega umræðan um jarðstrengi og loftlínur. Jarðstrengir munu verða í mun auknum mæli. Þeir eru að saxa á samkeppnisforskot loftlínanna hvað kostnað varðar. Rekstraröryggi jarðstrengja getur sums staðar verið meira, sérstaklega þar sem veður eru válynd og erfitt að reka loftlínur. En svo eru önnur sjónarmið, eins og hvort betra er að leggja loftlínur yfir hraun á Reykjanesskaganum eða grafa þar jarðstreng. Mín skoðun er sú að sárið sem kemur eftir strenglögn er varanlegra og verra heldur en það sem gerist með loftlínum, sem má taka í burtu. En vissulega eru loftlínur sýnilegar. Það verður bara að taka skynsamlega umræðu um þetta og ákveða. Jarðstrengir eru yfirleitt dýrari, jafnvel töluvert dýrari. Ef við förum þá leið, að leggja þá og auka þar með kostnað við framkvæmdirnar, þá hækkar kostnaðurinn við flutning raforku, þ.e.a.s. þá hækkar verð raforku til notenda.

Nýtingarflokkur ekki endilega virkjun

En rammaáætlun, hvar kemur hún þarna inn?

Hún skiptir náttúrulega mjög miklu máli, búin að vera hér við lýði í allnokkurn tíma og er ágætis hugmynd, þar sem faglega á að meta þá kosti sem eru í skoðun, hvort það eigi að leyfa áframhaldandi skoðun á verkefnum og þau fara þá í nýtingarflokk, í biðflokk eða í verndarflokk. Það eru kvaðir á sveitarfélög að fylgja þessari flokkun með tilliti til skipulagsmála, þ.e.a.s. ef verkefnið er í nýtingarflokki á sveitarfélagið að gera ráð fyrir því í sínu skipulagi og sama ef það er í verndarflokki, þá á það að gera ráð fyrir því. Mér þykir pólitík hafa blandast of mikið í umræðu og ákvarðanir um rammaáætlun og á kostnað faglegheitanna. Þetta er ágætt verkfæri en það þarf að fara vel með það. Norðmenn hafa aflagt sína rammaáætlun, fannst ekki þörf á því lengur og ekki ganga nógu vel upp. Ég er alveg sáttur með rammaáætlunina ef hún er bara rétt nýtt sem verkfæri. Hins vegar, það að verkefni fari í nýtingarflokk rammaáætlunar þýðir ekki endilega að það verði virkjað. Það þýðir að það má skoða það áfram og það þarf að fara í gegnum skipulagsmál, umhverfismat og svo framvegis og framvegis og náttúrulega hagkvæmlega athugun að það borgi sig að gera þetta. Þannig að rammaáætlun er í sjálfu sér fín svo lengi sem henni er rétt beitt.

Hvaða lausn sérðu á þessari raforkuþörf á næstu áratugum ef það verður ekki brugðist við?

Það gæti náttúrulega farið svo ef verkefnin komast ekki áfram að það verði hreinlega bara skortur á rafmagni til smáiðnaðar til dæmis og raforkuverð mun náttúrulega hækka, lögmálið um framboð og eftirspurn gildir, ef það er skortur á framboði þá hækkar verð. Þá getur verð til heimila og fyrirtækja almennt hækkað. Við erum að vinna í nokkrum verkefnum, aukningu framleiðslu á Reykjanesi, við erum nýbúin að hefja framkvæmdir við fyrstu vatnsaflsvirkjun HS Orku, austur í Biskupstungu, Brúarvirkjun í Tungufljóti, sem er tæp tíu megavött. Það er sem sagt fyrsta vatnsaflsvirkjun okkar, þar sem framkvæmdir eru hafnar. Sú raforka fer inn á almenna markaðinn og hjálpar okkur að afla þeirrar orku sem okkar viðskiptavinir þurfa. Þetta eru líka kostnaðarsamar framkvæmdir, það þarf að fjármagna þetta og í því skyni höfum við núna nýverið gengið frá fjármögnunarsamningi við Arion banka, í fyrsta skipti stór langtímafjármögnun hjá innlendum banka, sem er mikið fagnaðarefni. Við notum þennan samning til þess m.a. til að greiða upp eftirstöðvar skulda við erlenda banka og fjármagna Brúarvirkjun og næstu stig framkvæmda á Reykjanesi. Það er mikið fagnaðarefni að ná svona samningi við innlenda banka.

Hvað með verkefnin á Reykjanesi þar sem þið eruð með Reykjanesvirkjun og hafið einnig verið með tilraunaverkefni í djúpborun?

„Það hefur gengið svona svolítið upp og niður á Reykjanesi. Þar höfum við lent í því að framleiðsla hefur minnkað en hún hefur aukist á ný. Við erum ennþá að læra á auðlindina en ég er þess sannfærður um að Reykjanesvirkjun muni ná fullu afli innan fárra ára og að hún verði stækkuð, þannig að það verði ekki meira tekið upp úr auðlindinni, heldur að það verði betri og meiri nýting á því sem upp kemur. Þar geti bæst inn svona 30 megavött í svokallaðri lágþrýstivél, sem ráðgert er að setja upp á Reykjanesi, að nýta þá vökva, sem kominn er upp til yfirborðs og er ekki nýttur í fyrstu tveimur vélunum sem eru til staðar í dag, með örlítið breyttri tækni.“

Getið þið náð í endalausa orku á Reykjanesi? Endurnýjar þetta sig alltaf?

Þetta er ekki endalaust en þetta er endurnýtanlegt. Ef við myndum hætta að reka virkjunina á Reykjanesi myndi svæðið jafna sig til fyrra horfs. Það er nauðsynlegur þáttur í rekstri jarðhitavirkjana á háhitasvæðum að draga niður í vatnsborði svæðisins til þess að auka gufumyndun. Ef við hins vegar hættum að reka þetta, lokum holunum þá hækkar vatnsborðið aftur, það tekur svolítinn tíma, hækkar hratt fyrst og er svo lengi að ná upprunalegu jafnvægi, en það er enginn skaði skeður, alls ekki. Það má stundum líkja þessu við, ef við hugsum okkur stöðuvatn með bleikjustofni í, hversu mikið má veiða á hverju ári án þess að skaða stofninn þannig að hann nái að viðhalda sér og hvað gerist svo ef þú hættir að veiða? Þetta jafnar sig aftur. Þetta eru svona hliðstæður. Það þarf að finna jafnvægið. Þegar maður byrjar þá veit maður það ekki, maður hefur hugmyndir um það byggðar á rannsóknum og prófunum.

Nýir möguleikar í djúpborun

Síðan höfum við stigið stærra skref inn í kannski nýja tíma í jarðhitanýtingu sem er djúpborunarverkefni, þar sem við förum niður fyrir núverandi vinnslusvæði, má kannski segja svolítið af forvitni til að gá hvað er þar fyrir neðan. Það er svolítið dýr forvitni, þetta kostar mjög mikið. Þetta verkefni tókst stórkostlega, s.s. að bora holuna. Síðan á eftir að koma í ljós hvað hún getur gefið, en svona til samanburðar þá er hitastigið á auðlindinni í Svartsengi 240 stig, það er 300 stig á Reykjanesi, en við höfum mælt vel yfir 400 stiga hita í djúpu holunni á Reykjanesi, sem teygir sig niður á yfir 4.600 metra dýpi á meðan aðrar holur ná niður á 2.500 til 3.000 metra. Þetta gæti leitt til nýrra tíma í jarðhitanýtingu á heimsvísu, svo stórt er málið, en það á eftir að koma í ljós hvort það tekst. Þetta er rannsóknar- og þróunarverkefni. Alveg gríðarlega spennandi og íslenskur jarðhitaiðnaður er mjög þekktur um allan heim hvað jarðhita varðar, enn frekar eftir þessa borun á Reykjanesi, sem stóð frá ágúst í fyrra fram í janúar á þessu ári. Mjög spennandi verkefni.

Virkjun á Vestfjörðum nauðsynleg

En svo höldum við áfram til þess að mæta þörfinni og eiga til raforku. Þá er gjarnan hollt að hugsa hvar sé skynsamlegt að framleiða meira rafmagn í þessu landi. Það getur verið heppilegra að framleiða rafmagn á ákveðnum stöðum til að ná meira jafnvægi í flutningskerfinu og þá er augljóst að það væri afar gagnlegt fyrir landið að framleiða meiri raforku á Vestfjörðum. Í því skyni erum við, í gegnum félag sem við eigum hlut í, Vesturverk á Ísafirði, að skoða virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, sem er mjög umdeilt mál að sumra mati. Það þarf að styrkja flutningskerfið á Vestfjörðum. Það er óásættanlegt raforkuöryggi og ástand á Vestfjörðum. Það hamlar í dag atvinnuuppbyggingu á öllum Vestfjörðum alveg gríðarlega. Ein leiðin væri bara að styrkja flutningskerfið til Vestfjarða og fá rafmagnið einhvers staðar annars staðar frá. Það kostar milljarða eða milljarða tugi að gera það. Ég sé ekki fyrir mér að einhver ríki eða einhver fari bara að borga það sem styrk til að laga ástandið. Það hefur ekki gerst og ég sé það ekki gerast. Þess vegna er lang skynsamlegasta leiðin að horfa á ásættanlega og skynsamlega nýtingu auðlinda innan Vestfjarða, sem eru til staðar, framleiða rafmagn þar. Flutningur þess rafmagns mun borga þessi flutningsmannvirki, þ.e.a.s. til að flytja rafmagn eftir kerfinu þarf að borga, það kostar augljóslega að flytja rafmagn, og þær tekjur sem skapast af flutningi rafmagnsins borga þessi mannvirki á ásættanlegum tíma. Þess vegna væri mjög eðlilegt fyrsta skref að virkja Hvalá í Ófeigsfirði, leggja háspennustreng, ekki loftlínu, yfir Ófeigsfjarðarheiði, þá vestur í Ísafjarðardjúp og þaðan tengja síðan suður á Barðaströnd eða til Kollafjarðar, þá er komin tenging við línuna til Vestfjarðar, Mjólkárlínu. Síðan vinna að því að tengja úr Djúpinu út til Ísafjarðar, til þess að Vestfirðingar nái langþráðri hringtengingu flutningskerfisins, sem er brýn vöntun á. Eina leiðin til að þetta sé efnahaglega sjálfbært er að virkja innan svæðisins til þess að skapa tekjur til þess að borga þessi mannvirki.

Sætta sig ekki við leikreglur

Er erfið umræða um þetta mál?

Mér þykir þessi umræða ekki erfið en mér finnst hún vera svolítið komin út í skurð ef ég má bara tala hreina íslensku. Öll mannanna verk hafa áhrif á umhverfið, alveg sama hvað við gerum. Við þurfum að vanda til verka og við þurfum að fylgja því sem við köllum leikreglur lýðræðisins. Við þurfum að fylgja lögum og reglum um það hvernig svona verkefni eru gerð. Mér þykir svolítið eins og sumir sætti sig ekki við leikreglurnar og séu ósáttir ef verkefnin komist þar í gegn. Vatnsaflsvirkjun eins og Hvalárvirkjun hefur áhrif á umhverfið. Vatni er safnað í lón, sem eru í dag stöðuvötn, og já, þau munu stækka. En það verða ekki búin til ný vötn. Vatnsrennsli í fossum mun minnka, já, það er rétt, en það er afturkræft. Það er hægt að stýra rennsli þannig að fossar séu sýnilegir, til dæmis yfir ferðamannatímann. Það eru almennt ekki ferðamenn í vetrarbyljum á Ófeigsfjarðarheiði, en þeir eru á sumrin. Það er reyndar ekkert mjög auðvelt að komast þangað, en virkjunarframkvæmdir þýða vegabætur. Það verður miklu betri vegur yfir í Ófeigsfjörð og það verður vegur yfir Ísafjarðardjúp, sem að Strandarmenn bíða flestir spenntir eftir, það eiginlega vantar þá vegtengingu. En þetta hefur áhrif, en mannvirkin sjálf verða öll neðan jarðar. Pípan sem flytur vatnið niður í stöðvarhúsið er jarðgöng. Stöðvarhúsið er inni í fjallinu og svo jarðgöng frá stöðvarhúsinu og út í ós árinnar aftur. Þannig að það eina sem sést á því er, eigum við að segja, dyr á fjallinu, þar sem hægt er að komast inn í stöðvarhús. Vötnin munu stækka, já, en þetta verða falleg fjallavötn. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að það muni stóraukast ferðamannastraumur um þetta svæði. Það er þekkt á Íslandi á mörgum stöðum að vinnubúðir virkjanaframkvæmda enda sem hótel, á mörgum stöðum á landinu, og ég sé fyrir mér þjónustu við ferðamenn upp á Ófeigsfjarðarheiði, þar sem menn geta þá keyrt þangað upp eftir, skoðað náttúruna, gengið á Drangajökul eða yfir til Hornstranda eða hvert sem þeir vilja og aftur til baka, fengið gistingu, mat, þjónustu. Ég sé þess vegna fyrir mér bátasiglingar á þessum vötnum. Þetta skapar gríðarleg tækifæri.

Við reynum að draga lærdóm af því sem gerst hefur hérna á Reykjanesskaganum, í auðlindagarðinum, þar sem það var algjörlega ófyrirséð hvað myndi gerast. HS Orka rekur hér tvær virkjanir. Hjá okkur starfa rúmlega 60 manns. Það starfa þúsund manns í fyrirtækjunum í Auðlindagarðinum, í Bláa Lóninu, Carbon Recycling, Matorku, Stolt Sea Farm, Hausttak, Háteig og svo framvegis. Það eru ný verkefni í smíðum í dag, ekki bara hugmynd á borðinu, heldur beinlínis í smíðum. Kotland er með stór áform úti á Reykjanesi. Hér er verið að byggja verksmiðju í Svartsengi til þess að hreinsa gas úr gufunni og breyta gasinu í söluvöru sem markaðurinn þarf, koltvísýring, sem í dag er fluttur inn til landsins, framleiddur með jarðefnaeldsneyti og fluttur með skipum sem brenna olíu á leiðinni hingað. Það væri þá nær að nýta kolsýruna sem kemur úr jarðhitagasinu og nota hana inn á markaðinn. Það er reyndar gert að hluta til á Íslandi í dag en það er líka flutt inn kolsýra.

Þú sérð alveg fyrir þér auðlindagarð á Vestfjörðum?

Já, öðruvísi en á Reykjanesi. En skynsamlega, heilstæða nýtingu á auðlindunum sem skapar tækifæri. Ferðaþjónustuvinkillinn, í tengslum við orkuvinnslu, er þekktur víða á landinu og hvergi meira en akkúrat í Svartsengi. Þar er Northern Light Inn hótelið hérna við hliðina á okkur og Bláa Lónið, beint afsprengi orkuvinnslunnar. Svæðin verða aðgengilegri. Tökum Hengilsvæðið, þar sem Hellisheiðavirkjun og Nesjavallavirkjun eru. Þar er stóraukið aðgengi og umferð ferðamanna um svæðið eftir að virkjanirnar komu, af því að aðstaðan er miklu betri. Þetta sé ég fyrir mér geta gerst í Krýsuvík, í Eldvörpum, og vel að merkja í Eldvörpum, af því ég nefni þau, því þau eru eitt af þeim verkefnum sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar.

Það var að koma fram gagnrýni frá samgönguráðherra um áhyggjur af nýtingu þessara svæða.

Já, hann nefndi reyndar stefnuborun og tilfelli málsins er það að það mun enginn, hvorki við né aðrir, snerta gígaröðina í Eldvörpum. Nýting auðlindarinnar undir Eldvörpum yrði nýtt með stefnuborun. Það mun enginn snerta gígaröðina. Við viljum það ekki, við vinnum þetta í þéttu samstarfi við Grindavíkurbæ. Það ætlar enginn að snerta hana. Þessari stefniborun og tæki verður beitt og til þess að nýta hana. Það er alveg ljóst. Það verður ekkert orkuver reist við gígana.

Þannig þú sérð möguleika á þessum stöðum?

Já, já, ég sé það. Ef við nýtum ekki þessi tækifæri og förum skynsamlega í gegnum umræðuna þá verður orkuskortur í landinu og verð mun hækka. Það þýðir ekkert að segja bara: „Það má ekki gera þetta og það má ekki gera þetta,“ án þess að segja hvað á að gera. Við notum öll rafmagn, við notum öll gagnaver, við notum öll ál, við notum öll kísil, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við þurfum þetta. Svo má líka deila um hvort sé betra að framleiða ál eða kísil á Íslandi eða einhvers staðar annars þar sem jarðefnaeldsneyti er jafnvel breytt til þess að framleiða þessar vörur, eða framleiða þær hér eða annars staðar þar sem það er gert með hreinni orku. Það komu áhugaverðar tölur, sem ég sá nýlega, um það að mengun frá Kína berst á tiltölulega fáum klukkutímum yfir til Íslands með háloftavindum. Við búum í heimsþorpinu, við verðum að hugsa þannig ef við ætlum að ná einhverjum skynsamlegum árangri. Við megum ekki setja blöðkur á augun og horfa of þröngt. En við eigum að passa okkur vel, hvað við gerum og hvað við ákveðum að gera ekki. Allt sem við gerum hefur einhver áhrif, við þurfum að vega þau og meta. Er vatnið í fossunum á Vestfjörðum mikilvægara en fólkið sem býr á Vestfjörðum? Ég spyr. Sem getur ekki skapað atvinnutækifæri. Er kjarrið í Teigsskógi mikilvægara en fólkið sem er að reyna að búa á Vestfjörðum og fær ekki almennilega vegi? Við verðum að taka þessa umræðu af einhverju viti.

Þá hefur því verið blandað í umræðuna að Hvalárvirkjun sé virkjun fyrir stóriðju. Það er algjörlega af og frá. Til þess er virkjunin einfaldlega ekki nógu stór. Í þessari spá um raforkuaukningu á næstu árum þá þyrfti landið eina svona Hvalárvirkjun á svona þriggja ára fresti til þess að mæta þörfinni. Ef Hvalárvirkjun verður að veruleika, sem ég trúi að verði, þá mun drjúgur hluti rafmagnsins fara strax til notkunar á Vestfjörðum og eftir tiltölulega skamman tíma, kannski tíu ár, kannski lengra, tuttugu ár, þá mun allt rafmagnið frá henni vera notað á Vestfjörðum. Ég hef aldrei skilið umræðuna um að það sé vont að flytja raforku út af einum landshluta. Ég hef nefnilega aldrei heyrt neinn andmæla því að það sé flutt inn til einhvers annars landshluta. Ég skil ekki þessa umræðu.

Þér finnst umræðan hafa verið svolítið einsleit í þessu hjá umhverfissinnum.

Ég virði sjónarmiðin um náttúruvernd og ég er náttúruverndarmaður sjálfur. Við kappkostum að vanda okkur alla leið. Það hefur verið sagt í umræðunni um Hvalárvirkjun að það hafi verið gerðar svo og svo miklar breytingar á verkinu eftir aðkomu okkar, að verkin séu orðin miklu stærri og slíkt. Nei, hún hefur ekki stækkað eftir aðkomu okkar, en já, við höfum breytt henni til þess að minnka umhverfisáhrifin.

Hvernig horfir forstjóri HS Orku til aukinnar rafbílavæðingar?

Það þarf að hlaða þessa bíla. Það þarf rafmagn, það rafmagn verður ekki til í snúrunum. Það þarf að skipuleggja kerfið þannig að bílar séu hlaðnir á þeim tíma sem raforkunotkun er almennt minnst. Það þarf ákveðna innviðabreytingu í því, þ.e.a.s. það þarf að setja nútíma raforkumæla á flest öll heimili í landinu. Þeir eru í flestum fyrirtækjum. HS Veitur hafa stigið stór skref í að breyta mælavæðingunni, uppfæra mælavæðinguna á sínu svæði, á Suðurnesjum og Hafnarfirði, Árborg og Vestmannaeyjum, og langt á undan öðrum veitufyrirtækjum í þeirri þróun. Í raun og veru þýðir þetta það að þegar við keyrum heim til okkar í lok vinnudags og setjum bílinn í samband, að þá byrjar hann ekki að hlaða fyrr en eftir kvöldmat. Með svona mælingum er hægt að stýra því, þ.e.a.s. ef þú verður að hlaða hann á kvöldmatartíma, þá er einfaldlega rafmagnið dýrara. Það á að vera það. En svo á nóttunni á það að vera ódýrara, af því að þá er verið að nýta framleiðslugetuna og flutningsgetuna á rafmagninu þegar það er pláss fyrir það í kerfinu. En þegar aflið er mest, gjarnan á matartímanum, þá verður það að vera dýrara til þess að stýra notkuninni. Þetta getur þá líka þýtt það að fólk setur þvottavélarnar í gang á kvöldin og dreifir notkuninni. Það er gott fyrir allt kerfið, það gagnast öllum, vegna þess að þá þarf að virkja minna en ella, ef við stýrum þessu svona. Það þarf að framleiða rafmagnið fyrir rafbílana.

Þarf þessi rafbílavæðing miklu meiri raforku heldur en er í dag?

Þetta þarf svolítið meira. Það þarf að gera ráð fyrir þessu. Það þarf að framleiða. Við skulum segja, ef við stýrum notkuninni eins og ég var að lýsa, inn á nætur tíma og lága álagstíma í kerfinu, þá þarf ekki að virkja fyrir öllu þessu, heldur að hluta til og annað nýtir þá lága álagstíma í kerfinu að öðru leyti. En þetta skiptir máli, já, ég er ekki með nákvæmar tölur um þetta, enda eru þetta allt saman spár, en það þarf að gera ráð fyrir þessu líka og það er sérstaklega um það fjallað í Orkuspánni. Menn vaða pínulítið blint í sjóinn með það en það eru gerðar áætlanir og svo kemur í ljós hvernig það gengur eftir og hversu hratt markaðurinn mun kaupa þessa bíla.

Við Íslendingar búum náttúrulega við mjög lágt orkuverð í öllum samanburði og hreina orku að auki. Það eru mikil gæði fyrir íslenskt samfélag. Við þurfum að halda þeirri þróun áfram. Við getum ekki leyft okkur að segja: „Það á ekki að virkja neitt meira“. Það verður að segja: „Hvernig eigum við að bregðast við þörfum samfélagsins?“ Ég endurtek, við erum ekki að virkja fyrir okkur. Við erum að virkja fyrir þá sem vilja fá orkuna og nota hana.

Ferðaþjónustan, hún þarf meira rafmagn, er það ekki?

Það er alveg verulega mælanlegt í kerfinu. Ferðaþjónusta þarf rafmagn. Veitingastaðir, hótel og alls konar starfsemi í ferðaþjónustu þarf rafmagn. En ferðaþjónustan þarf ekki að fara í umhverfismat og ferðaþjónustan greiðir ekki auðlindagjöld, eins og til dæmis orkuiðnaður gerir. Við greiðum auðlindagjöld í Svartsengi og á Reykjanesi og af vatnsaflsvirkjunum okkar þegar þær fara í gang. Ef svæðið er tekið frá, segjum fyrir ferðaþjónustu og það er  ákveðið að nýta það ekki til orkuvinnslu, sem annars hefði greitt auðlindagjöld og gjöld og tekjur til sveitarfélaganna, á þá ekki ferðaþjónustan að gera það sama? Á hún ekki líka að fara í umhverfismat? Ég bara spyr eins og maðurinn sagði.

Er mengun frá flugvélunum?

Já, við getum lesið um það. Ætli það sé ekki orðin meiri mengun frá flugvélunum á Keflavíkurflugvelli heldur en álverunum í landinu. Hún er verulega mikil. Hún er hins vegar ekki inni í bókhaldi landsins af því að þetta er millilandaflug, hún er tekin sér. Það er mengun frá bílunum í dag, skipunum, við erum að horfa á þetta allt saman. við eurm líka að vinna að því að koma hreinni orku í samgöngur, bæði í rafmagnsbílunum og eins og hér í Svartsengi, þar sem Carbon Recycling hefur byggt hér verksmiðju sem framleiðir metanól, sem er notað sem íblöndunarefni í bensín. Allt hráefnið sem Carbon Recycling fær kemur héðan frá jarðvarmaorkuverinu í Svartsengi. Þetta er algjörlega stórkostlegt. Þetta er hluti af auðlindagarðinum. Þetta sá enginn fyrir á sínum tíma þegar þetta var að byrja. Ef að nútíma kröfur hefðu verið við lýði þegar orkuvinnsla byrjaði í Svartsengi, þá fullyrði ég að Bláa Lónið hefði aldrei orðið til. Það hefði aldrei verið leyft að fleyta vökvanum út í hraun og bíða eftir því að hann myndi hverfa ofan í jörðina, úr því varð Bláa Lónið. Þá hefðu verið gerðar kröfur, eins og í dag, um að skila öllum vökvanum niður aftur. Þá hefði aldrei orðið til blátt lón. Bláa Lónið hefði einfaldlega ekki orðið til, ég fullyrði það. Það þarf að vanda sig svolítið í hugsuninni og ítrustu kröfur má hugsa skynsamlega. Við viljum gera alla hluti vel og alla hluti rétt.