Frumherjar í sjónvarpi

Sigurður Jónsson og Teitur Albertsson unnu hjá AFRTS á Vellinum

Viðtal:
Marta Eiríksdóttir

Ljósmyndir:
Úr einkasafni og Marta Eiríksdóttir

Athugið að smella á myndir til að opna þær og gera stærri.

Varnarliðið fékk leyfi til útvarpssendinga á Keflavíkurflugvelli fyrir liðsmenn sína vorið 1952 og sjónvarpssendinga þremur árum síðar. Ráðamenn þjóðarinnar voru ekki par hrifnir af þessum útsendingum vegna þeirra áhrifa sem þær höfðu á þjóðina. Deilur um útsendingar sjónvarpsefnis á erlendum tungumálum urðu seinna á Íslandi en mest urðu átökin um Kanasjónvarpið svokallaða.

Sendingar náðust í fyrstu lítt út fyrir Vallarsvæðið en eftir að sendistyrkurinn var aukinn árið 1963 gátu flestir íbúar suðvesturhornsins náð dagskránni sem byggðist á bandarískum skemmtiþáttum og kvikmyndum. Þetta féll í góðan jarðveg hjá Íslendingum og festu þúsundir heimila kaup á sjónvarpstækjum.

Víkurfréttir rifjuðu upp gamla tíma Kanasjónvarpsins með þeim félögum Sigurði Jónssyni og Teiti Albertssyni en þeir útskrifuðust báðir frá tækniskóla í Bandaríkjunum og unnu í tugi ára við útsendingar fyrir Varnarliðið.

Fyrstur allra Íslendinga

Sigurður Jónsson var fyrstur Íslendinga til að læra við tækniskóla í Bandaríkjunum og hefja störf hjá AFRTS, sjónvarpsstöð hersins á Keflavíkurflugvelli. Hann segir svo frá:

„Ég hafði verið að vinna á Vellinum eins og margir Íslendingar, vann þar í nokkur ár áður en ég fór einn til Bandaríkjanna árið 1957 og lærði rafeinda- og sjónvarpstækni við tækniskóla í Los Angeles. Það var mjög skemmtilegt. Á þessum tíma, árið 1955–1956, var sjónvarp mjög nýtt hér á Íslandi. Ég hafði séð svona tæki í húsi hjá bandarískum manni sem leigði á Tjarnargötunni en þar var útsendingin öll í snjó, mjög óskýr. Mig langaði að læra þetta og stefndi til Bandaríkjanna í tækninám. Eftir tveggja ára nám ætlaði ég í tölvunarfræði en fór heim um sumarið og kíkti í heimsókn til þeirra á AFRTS, talaði við hermennina sem störfuðu þar og fékk að skoða sjónvarpsstöðina. Þessi heimsókn á AFRTS, en það hét sjónvarpsstöðin þeirra, American Forces Radio and Television Service, var örlagarík því þeir voru með bilað tæki sem þeir báðu mig að kíkja á sem ég og gerði. Ég lagaði tækið fyrir þá og þeir buðu mér starf sem ég þáði. Ég var fyrsti útlendingurinn sem vann hjá þeim og endaði sem tæknistjóri, yfirmaður allra sjónvarpsstöðva í Evrópu sem voru á vegum bandaríska sjóhersins.“

Ætlaði að verða flugmaður

„Ég byrjaði á að læra flug en fékk ekki læknisskoðun til áframhaldandi flugnáms vegna auga. Þessi heimsókn á Kanasjónvarpið leiddi til þess að ég hóf strax störf hjá þeim. Ég hefði ekki getað fengið betra starf og var mjög lukkulegur hjá þeim. Þeir voru fljótir að gera mig að tæknistjóra sjónvarps og útvarps í Keflavíkurstöðinni og fyrir rest endaði ég sem yfirmaður og tæknilegur ráðunautur útvarps- og sjónvarpsstöðva sjóhersins í Evrópu, Nýfundnalandi og Bermúda. Sverrir Ólafsson hafði samband við mig og spurði út í námið. Sverrir og Teitur Albertsson, æskuvinur hans og frændi, voru áhugasamir um sama nám og ég fór í til LA,“ segir Sigurður Jónsson, sem margir þekkja undir viðurnefninu Siggi tíví.

Frændurnir fylgdu á eftir

„Við Sverrir ákváðum að fara saman út í þetta nám sem Siggi hafði farið í. Sverrir fór með konu og lítið barn en við útskrifuðumst báðir þaðan í nóvember árið 1959. Siggi réði mig fyrst til AFRTS og seinna fékk Sverrir vinnu á sama stað,“ segir Teitur Albertsson, yfirleitt kallaður Teddi.

„Mér fannst ég bera ábyrgð á þeim því ég benti þeim á námið. Teitur fékk strax vinnu hjá AFRTS en Sverrir fékk vinnu við rafeindatækni á öðrum stað á Vellinum til að byrja með. Stuttu seinna urðu umsvifin hjá AFRTS meiri og við fengum leyfi til að ráða einn í viðbót og þá kom Sverrir til starfa. Íslenska sjónvarpið byrjaði einhverjum árum seinna, hófu útsendingar árið 1966 en þá fóru þeir að bera víurnar í okkur alla þrjá enda þá komnir með góða reynslu í þessum tæknimálum. Við Teddi vildum ekki fara til Reykjavíkur en Sverrir ákvað að flytja þangað og starfa hjá þeim á RÚV. Við þrír vorum fyrstu Íslendingarnir sem höfðum lært þessi fræði í Bandaríkjunum og RÚV vantaði svona menn á fyrstu dögum íslenska sjónvarpsins,“ segir Siggi Jóns.

Sextíumenningarnir höfðu áhyggjur af íslenskri þjóð


Eins og margir muna þá birtu sextíu þjóðþekktir einstaklingar opinberlega yfirlýsingu í fjölmiðlum árið 1964, sem var um leið bón til Alþingis, þar sem óskað var eftir því að sjónvarpsútsendingar á Keflavíkurflugvelli yrðu takmarkaðar við Varnarliðið sjálft en næðu ekki til íslensks almennings.


„Sextíumenningarnir skoruðu á ríkisstjórn landsins að loka. Eftir að íslenskt ríkissjónvarp byrjaði árið 1966 breyttust allar aðstæður því herstöðvum hafði verið gefið sýningarefni á meðan framleiðendur þáttanna vildu fá að selja RÚV vegna sýninga þeirra á sjónvarpsefni. Útsendingarstyrkur Kanasjónvarpsins var aukinn árið 1961 því þó nokkuð var af hermönnum í Hvalfirði, í braggaþorpinu þar, að verja olíustöðina. Þegar þetta gerðist fór Kanasjónvarpið að sjást í Reykjavík og þá kom krafa frá hermönnum í Grindavík sem vildu einnig sjá sjónvarpið svo við jukum styrkinn og þá náðu Vestmannaeyingar að sjá. Á þessum árum var Kanasjónvarpið farið að sjást víða um suðvesturhorn Íslands. Þá fóru menn að hafa áhyggjur af íslenskri tungu og þeim áhrifum sem Kanasjónvarpið gæti haft á íslenska menningu. Það var orðið mjög vinsælt að horfa á sjónvarpið, sem auðvitað allir vildu fá að sjá. Fólk fer að kaupa sjónvörp í kjölfarið, fleiri þúsund tæki seljast. Ég segi að Kanasjónvarpið sé móðir og faðir íslenskra sjónvarpssendinga því ef ekki hefði verið fyrir þessar útsendingar þá hefði íslenskt sjónvarp komið miklu seinna. Afturhaldsöflin stjórnuðu því. Það var mjög auðvelt fyrir íslenskt ríkissjónvarp að byrja á sínum tíma því margir áttu orðið sjónvarp, grunnurinn var lagður með Kanasjónvarpinu. Á þessum árum bjuggu margar amerískar hermannafjölskyldur niðri í Keflavík og í fleiri bæjarfélögum á Suðurnesjum. Þetta fólk bjó á meðal okkar en verslaði mat og aðrar amerískar vörur innan Vallarsvæðisins á mun lægra verði. Af tæknilegum ástæðum gat varnarliðið ekki ekki lokað fyrir sjónvarpssendingar að fullu fyrr en árið 1975 þegar sjónvarpssendingar voru komnar í kapal á Vellinum til þess að loka á útsendingar utan svæðisins. Þessi kapall er til enn þann dag í dag og er til dæmis nýttur af Kapalvæðingu,“ segir Siggi og bætir við: „Kanasjónvarpið á Vellinum var deild frá Washington og þarna störfuðu 30–37 amerískir hermenn, allt tæknimenntað fólk og fólk menntað í fjölmiðlafræðum. Ég fékk mínar skipanir frá þessari deild í Washington og árið 1982 sendu þeir mig í þriggja mánaða skóla til að læra stjórnun á útvarps- og sjónvarpsstöðvum á vegum hersins. Það var mjög gott að vinna fyrir herinn og ég var oft sendur út á vegum þeirra á ráðstefnur og námskeið.“

Hvað er eftirminnilegast?

„Ég segi það sama og Siggi,“ svarar Teddi: „Það var mjög gott að umgangast Kanana og dásamlegt að vinna á sjónvarpsstöð hersins á Vellinum. Það fylgdu þessu oft námsferðalög til Bandaríkjanna. Við vorum að horfa á sjónvarp beint frá Bandaríkjunum á stöðinni upp frá.

Fyrstu árin kom þetta á spólum en svo var þetta gervihnattamóttaka. Það voru alltaf fréttir á hálftíma fresti. Eitt það eftirminnilegasta var árásin á Tvíburaturnana. Það var mjög skrítið þegar við sáum hryðjuverkaárásina á þá turna í New York í beinni útsendingu.“

„Sammála því að 11. september 2001 er dagur sem ekki gleymist. Þarna horfðum við á þessar hryðjuverkaárásir í beinni útsendingu hjá okkur. Ég varð að hringja í aðalstöðina í Washington og spyrja hvað ég átti að gera við útsendinguna því ég varð að fá skipun frá þeim í Bandaríkjunum. Við vorum hluti af Naval Media Center um allan heim en yfirmenn okkar voru í Washington. Þeir sögðu mér að rjúfa ekki útsendingu,“ segir Siggi. „Það var skrítið að sjá þegar seinni flugvélin kom og flaug beint á turninn í New York sem við sáum í beinni útsendingu. Það voru allir sem lamaðir að horfa á þessi ósköp,“ segir Teddi.

Endurmenntun skipti máli

„Við fórum á mörg námskeið því herinn var duglegur að senda okkur í endurmenntun. Það voru fullt af samstarfsmönnum með okkur á vegum sjónvarpsstöðva hersins, eitthvað um 800–900 manns sem unnu með okkur í gegnum árin og dvöldu hér í eitt til tvö ár. Ég hef haldið sambandi við þó nokkuð marga á Facebook,“ segir Siggi.
„Ef við ættum að fara að vinna við sjónvarp í dag þá gætum við það ekki, þó það séu ekki nema tæp tuttugu ár síðan við hættum að vinna við þetta, tækninni hefur fleygt svo fram,“ segir Teddi.

„Nei, við gætum það ekki án endurmenntunar því tækninni hefur fleygt svo hratt fram á þessu sviði. Ég hætti aðeins á undan Tedda að vinna hjá hernum, eða árið 2004, en þeir sendu mig á tvær ráðstefnur á ári til að sjá nýjustu tækin. Á þessum ráðstefnum fékk ég einnig að sjá það sem var í þróun á þeim tíma og eitt af því var flatsjónvarp, svona þunn sjónvörp eins og er nánast inni á hverju heimili í dag, en þetta svona sjónvarp þótti þvílík bylting þá – þetta var árið 1986. Tæknin er orðin svo samanþjöppuð í tækjunum í dag,“ segir Siggi.

„Við erum rafeindatæknimeistarar og þessi störf hjá Kanasjónvarpinu hentuðu okkur því mjög vel. Við vorum ánægðir í vinnu hjá hernum. Launin voru góð og ekki hægt að hugsa sér betri vinnuveitendur,“ segir Teddi.

„Já, herinn var góður vinnuveitandi og borgaði góð laun. Vinnutilhögun og vinnuagi var mikið meiri hjá hernum en við unnum þó samkvæmt íslenskum lögum. Þetta voru góð ár,“ segir Siggi.

„Eftir lokun Kanasjónvarpsins fyrir almenning í landinu sáum við áfram þessa þætti í vinnunni okkar. Kúrekamyndirnar og stríðsmyndirnar voru skemmtileg afþreying. Svo voru það auðvitað þættir eins og Combat og 12 O’Clock High sem voru stríðsþættir. Margir sem sáu Kanasjónvarpið á sínum tíma eiga sér örugglega einhverja uppáhaldsþætti,“ segir Teddi.

„Það er gaman að hafa fengið að upplifa þessa tíma með hernum á Íslandi. Öll áhrif sem þeir höfðu á tónlistarmenninguna í Keflavík lifir ennþá. Útvarpið frá þeim gerði það að verkum að hér í Keflavík grasseraði alls konar tónlist, langt á undan öðrum landsvæðum,“ segir Siggi.

„Svo fannst okkur gaman að fara í klúbbana upp frá, borða matinn og kynnast öllu þessu fólki sem maður kynntist,“ segir Teddi.

Endurfundir árið 2020 hjá fyrrum starfsmönnum AFRTS

„Við lærðum báðir í Bandaríkjunum og hefðum aldrei farið út að læra ef ekki fyrir Kanann. Við áttum ævintýralíf með öllum þeim ferðalögum sem starfinu fylgdi. Margir hermenn hafa viljað koma til Íslands eftir þetta ævintýri. Árið 2020, í september á næsta ári, er ákveðið að vera með Naval Media Center Reunion en þá vilja menn hittast aftur eftir öll þessi ár. Þarna verður fullt af fólki sem við Teddi þekkjum en ég er í sambandi við svo marga því ég var mun meira að ferðast vegna vinnunnar. Ég er ákveðinn í að mæta á þennan endurfund, en þú Teddi, kemurðu ekki með?,“ spyr Siggi og Teddi segist ætla að hugsa málið.

Það var frábært að fá að spjalla við þessar goðsagnir, mennina sem ruddu leiðina, fyrstir allra Íslendinga til að starfa við útsendingar sjónvarps á vegum bandaríska hersins.

Deilur um Kanasjónvarpið

Ýmsum sveið það sárt að bandarískt sjónvarpsefni væri aðgengilegt stórum hluta þjóðarinnar en ekki innlend dagskrá á íslensku. Stjórnarandstöðuflokkarnir og hópar menntamanna sáu Kanasjónvarpinu flest til foráttu og töldu það vettvang fyrir Bandaríkjamenn til að koma áróðri á framfæri og jafnframt ógn við íslenska menningu, tungu og sjálfstæði.
Sextíu áhrifamenn undirrituðu í mars 1964 áskorun um að sendingar skyldu takmarkaðar við Keflavíkurstöðina og tíu sinnum fleiri háskólastúdentar gerðu slíkt hið sama í febrúar 1966. Einstaklingarnir voru sextíu talsins en það þótti táknrænt í ljósi þess að þingmenn landsins voru einnig alls sextíu. Þeim þótti það vansæmandi fyrir Íslendinga, sem sjálfstæða menningarþjóð, að heimila einni erlendri þjóð að reka hér á landi sjónvarpsstöð. Nærri því fimmtán þúsund íslenskir stuðningsmenn Keflavíkursjónvarpsins skrifuðu þá undir áskorun þar sem slíkum takmörkunum var mótmælt og þeirri skoðun lýst að íslensku þjóðerni væri engin hætta búin.

Ríkissjónvarp hóf útsendingar 1966

Þessar deilur urðu til að flýta fyrir stofnun Ríkissjónvarpsins sem hóf útsendingar 30. september 1966. Yfirmenn Varnarliðsins skáru þá á hnútinn með því að tilkynna að hermannasjónvarpið yrði takmarkað við Keflavíkurflugvöll, þar sem samningar þess um sýningar á ókeypis sjónvarpsefni væru háðir því að engar aðrar sjónvarsstöðvar sendu út á dreifisvæðinu. Þess má geta að á upphafsárum Ríkissjónvarpsins voru enskir knattspyrnuleikir sýndir með lýsingum enskra þula en það mun hafa komið til af því að leikirnir bárust hingað til lands á filmum þar sem lýsingarnar voru ekki á sérstakri hljóðrás. Kynning íslensks þular, Bjarna Felixsonar, á leikmönnunum fór þó á undan enska textanum.

Reglum breytt vegna EES

Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu varð nauðsynlegt að breyta ákvæði útvarpslaganna um þýðingarskylduna, enda var tilskipun Evrópubandalagsins sem miðaði að því að afnema höft á dreifingu sjónvarpssendinga innan Evrópu tekin upp í reglusafn EES. Í maí 1993 samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á útvarpslögum þar sem þýðingarskylda íslenskra sjónvarpsstöðva á erlendu efni var lögfest en hún hafði áður verið reglugerðarbundin. Þýðingarskyldan braut ekki í bága við EES-samninginn, þar sem aðildarríkjunum var heimilt að setja sér strangari reglur um dagskrá sjónvarpsstöðva sem þau hefðu lögsögu yfir teldu þau það nauðsynlegt vegna tungumálastefnu sinnar. En vegna reglna EES var beint endurvarp óstyttrar og óbreyttrar dagskrár erlendra sjónvarpsstöðva hins vegar undanþegið þýðingarskyldunni. Þannig var opnaður möguleiki á því að bjóða upp á áskrift að erlendum sjónvarpsrásum hér á landi, sem bæði Stöð 2 og Síminn gerðu innan fárra ára í gegnum fjölvarp og breiðband.

Menn hræddust amerísk áhrif á íslenska tungu og þjóð

Í bókmennta- og menningartímaritinu Helgafell birtist eftirfarandi grein árið 1954 sem lýsir vel áhyggjum ráðamanna vegna útvarpssendinga varnarliðsins:

„Ekkert minnir almenning á Íslandi jafnoft á nærveru Bandaríkjamanna sem útvarp þeirra á Keflavíkurflugvelli. Frá rismálum til miðnættis sendir það út boðskap sinn og er efni þess mörgum kærkomið til þess að fylla upp í hinar löngu þagnir íslenska útvarpsins. Satt að segja er hávaðinn í Keflavíkurstöðinni orðinn svo snar þáttur í skynheimi mikils hluta þjóðarinnar, einkum yngri kynslóðarinnar. Niðurstöður vikulangrar athugunar á efni Keflavíkurútvarpsins eru, svo vægilega sé komizt að orði, dálítið raunalegar. Þær sýna að meginstofn dagskrárinnar er dansmúsík, sú og jazz, sem glymur í eyrum víða, þar sem maður kemur á íslensk heimili og vinnustaði en fullur helmingur dagskrárinnar á virkum dögum, er helgaður slíku efni, sígild tónlist heyrist þar sárasjaldan. Mjög lítið er þar um fyrirlestra til fróðleiks og skemmtunar. Ætla mætti að hlustendur væru eintómir eirðarlausir og óþroskaðir unglingar. Guðsorð er nokkuð um hönd haft á hverjum degi og sunnudagsmorgnar að mestu helgaðir guðsþjónustu. Eins og til að vega á móti öllum þessum andlegheitum er hlustendum gefinn óvenju kraftmikill skammtur af morðsögum og æsandi leikritum á sunnudagskvöldum. Það er engin leið að útiloka þessa lágmenningu frá íslenzku þjóðinni. Hin þjóðlega alþýðumenning er hætt að veita neitt verulegt viðnám. Sú hætta vofir yfir að hér vaxi upp menningarsnauð lágstétt, ef ekki er spyrnt við fótum.“ (úr bókinni Ísland í aldanna rás 1900–2000, Öldin öll í einu bindi.)