Fjölhæfasti Grindvíkingurinn

Pálmar Örn Guðmundsson þjálfar unga knattspyrnumenn, sinnir myndlist, skógrækt, dans og tónlist. Gefur út nýtt lag í hverri viku í 40 vikur.

Ef einhver ætti að fá titilinn fjölhæfasti Grindvíkingurinn þá er Pálmar Örn Guðmundsson örugglega ofarlega á listanum. Hann er menntaður íþróttafræðingur en hefur aldrei kennt fagið í grunnskóla. Hann þjálfar drengi í knattspyrnu, kennir salsadans, málar, sinnir skógrækt og spilar á gítar. Hann verður fertugur á næsta ári og ákvað að gera svolítið skemmtilegt af því tilefni.

Grindvíkingurinn fjölhæfi ákvað að gefa út eitt nýtt lag á viku og setja á tónlistarstreymis-síðuna Spotify í fjörutíu vikur og enda á afmælistónleikum.

Tímamót á fertugsafmælinu 

„Árin færast yfir,“ syngur Pálmar í laginu sem hann flytur fyrir Víkurfréttamenn þegar þeir heimsækja hann til Grindavíkur.

Ertu farinn að telja árin og gráu hárin?

„Mér finnst ég líta mjög vel út, svona miðað við aldur, en yngri verður maður ekki. Ég er að verða fertugur á næsta ári og af því tilefni ákvað ég að taka upp eitt lag í hverri viku í 40 vikur og setja á Spotify. Svo get ég vonandi haldið tónleika í lokin. Það er draumurinn.“

Er langt síðan þú byrjaðir að semja og syngja?

„Ég byrjaði að læra á gítar svona tólf, þrettán ára. Svo þegar ég var fimmtán ára byrjaði maður að hnoða saman einhverjum texta. Ég myndi ekki segja að ég væri einhver svaka textahöfundur en ég get alveg hnoðað í ágætis texta.“

Hefurðu verið að koma fram hér og þar?

„Já, ég er að spila sem svona partý-trúbador og mæti þá í afmæli og vinnustaðapartý, gæsanir, brúðkaup og alls konar og kem þá með lög sem fólk þekkir og reyni að fá það til að syngja með og dansa. Ég hef verið að spila svolítið í Reykjanesbæ og það er alltaf ótrúlega góð stemning. Þar er partý-fólkið, í Bítlabænum. Það er einhver tenging þarna greinilega.“

Þú er menntaður íþróttafræðingur. Af hverju ert þú ekki að kenna leikfimi í þínu bæjarfélagi?

„Ég er alinn upp í Grindavík og fer svo að mennta mig í skóla annars staðar. Svo þegar ég kem til baka þá vantar ekki íþróttakennara og ég enda í almennri kennslu og var í því í alveg tíu, tólf ár. Svo ákvað ég að segja það gott og einbeita mér aðeins að þessu, listinni og gítarnum.“

Tapaði salsa stelpunni 

Þannig að íþróttafræðingurinn er líka myndlistarmaður og kennir líka dans?

„Já, ég er að kenna salsa í Reykjavík. Fyrir nokkrum árum síðan fór ég til Kúbu og var þar í tíu vikur og þvældist um eyjuna. Það voru svona ákveðin tímamót og ég fann að ég þyrfti að breyta eitthvað til. Ég hitti vin minn og hann hafði farið til Kúbu. Hann á konu og börn og sagðist ekki geta farið en sagði við mig: „Þú getur farið“. Það var ekkert að stoppa mig. Ég ákvað að hætta að kenna og skellti mér til Kúbu. Þar lærði ég svona grunn­skrefið í salsa. Ég var þarna að ferðast um og alls staðar er salsa. Ég kynnist því þar en mér fannst svo leiðinlegt að ég kynni ekki að dansa. Í eitt skiptið var ég á leiðinni á nýjan stað og kynnist þessari gullfallegu stúlku í rútunni, við tengjum vel saman og förum að skipuleggja einhverjar ferðir. Svo förum við út um kvöldið og á salsakvöld. Til að gera langa sögu stutta þá hverfur hún út í myrkrið með einhverjum salsa dúdda. Ég hugsaði bara: „Þetta mun ekki gerast aftur. Nú skal ég læra salsa.“

Aftur til Grindavíkur. Ertu búinn að vera að spila eitthvað fyrir Grindvíkinga?

„Nei, voða lítið. En ég segi oft að það geti verið svolítið erfitt að vera kóngur í eigin ríki. Líka sérstaklega þar sem ég hef verið að vinna rosa mikið með börnum og þá er kannski svolítið skrýtið. Ég er mjög mikið á Reykjavíkursvæðinu en ég var á Fjörugum föstudegi í Fish House í Grindavík. Oftast er ég að spila á lokuðum viðburðum, einkasamkvæmum. Það er það sem mér finnst skemmtilegast, þegar fólk er ekki að koma til að hlusta á mig heldur að syngja með mér.“

Mikill knattspyrnuáhugi ungra

Pálmar þykir hafa náð mjög góðum árangri í þjálfun ungra knattspyrnumanna í Grindavík og áhuginn er mjög mikill. Þetta hefur vakið athygli út fyrir bæjarfélagið.

„Já, ég hef þjálfað í mörg ár. Það er mjög skemmtilegt að þjálfa þessa yngstu. Þar er náttúrulega grunnurinn. Ef maður vinnur vel með grunninn þá er hægt að gera ýmislegt seinna. En þó maður sé náttúrulega að búa til fótboltamenn þá snýst þetta um að virkja krakkana, fá þau í íþróttirnar. Ég er með mjög hátt hlutfall krakka að æfa bæði yfir sumar og vetur. Það er árangur í fótbolta líka, að fá krakkana til að vilja vera með. Núna er ég með 6. og 7. flokk drengja og þar eru í heildina um 70 strákar.“

Sérðu einhvern Eið Smára í hópnum?

„Það eru allavega margir sem vilja það. Það er fullt af efnilegum strákum og spennandi að fylgjast með þeim. Það er svo skemmtilegt við þjálfuna, að sjá þá vaxa áfram eftir að maður er hættur með þá. Þá halda þeir áfram og blómstra.

Það er fín fótboltaaðstaða í Grindavík, meðal annars knattspyrnuhús.

„Jú, áður vorum við í íþróttahúsinu yfir veturinn. Ég brosi ennþá yfir þessu húsi, Hópinu. Líka bara þekkjandi það þegar maður var sjálfur að æfa í gamla daga á mölinni, þetta er allt annað.“

En þið þurfið að ná Grindvíkingum aftur upp í efstu deild. Hvað finnst þér um hugmyndina að sameina einhver lið hér á Suðurnesjum?

„Ég er eiginlega ekkert rosalega spenntur fyrir því. Við náttúrulega elskum að vinna Keflavík og það ýtir okkur áfram. Þeir örugglega elska það að vinna okkur líka. Ég held að það sem við þyrftum að gera væri að vera í meira samstarfi með leikmenn í þessum efstu liðum, láta vera aðeins meira flæði.“

Þú ert líka í myndlist. Hvernig í ósköpunum ferðu að þessu öllu saman?

„Ég bara veit það ekki. Ég var svona týpískur krakki sem var alltaf að teikna og lita en ég sá enga framtíð í því, komandi af sjómönnum. Ég sá það ekki fyrir mér að þetta væri eitthvað sem hægt væri að vinna við. Ég byrjaði svo aðeins í þessu, málaði mynd og setti á Facebook sem var þá töluvert nýlegt árið 2009. Ég fékk þá einhver „læk“ og komment. Þau voru fimm talsins og ég átti tvö af þeim en mér fannst það mjög hvetjandi samt sem áður. Þarna sá ég að ég gæti málað og komið því á framfæri þar. Það var svolítið hvetjandi. Ég sá þar tækifæri og hef verið að selja eitthvað af myndum.“

Ég myndi samt ekki segja að ég gæti eitthvað lifað á því en svona með. Ég er að þjálfa, spila á gítarinn og svo hef ég þetta svona með, sel eina og eina mynd.“

Hvar sækir þú hugmyndir í myndir og tónlist? Upplifir þú Reykjanesið og Suðurnesin sem myndefni?

„Já, algjörlega. Reykjanesið er falin perla. Við föttum oft ekki alveg hversu mikil fegurð þetta er. Þetta er eitthvað sérstakt. Það er einhver fegurð í hrauninu.“

Stíllinn í málverkunum þínum er sérstakur. Maður gæti haldið að þetta væri ljósmynd. Hvernig ferðu að þessu?

„Ég nota rosa mikið símann. Ég geng mikið um Reykjanesið og er áhugamaður um fjallgöngur. Ég tek myndir á símann og svo vinn ég út frá því. En það er ekki markmiðið mitt endilega að mála þetta eins og ljósmynd. Ef þú ætlar að mála eins og ljósmynd, af hverju ekki þá bara að hafa ljósmynd? En við hrífumst samt svolítið af þessum „faktor“. Ég reyni að gera þetta flottara en ljósmynd. Þetta er akríl. Ég byrjaði þar og hef átt smá erfitt með að skipta yfir í olíu.“

Grindavík er frábær

Pálmar er formaður Skógræktarfélags Grindavíkur og er áhugasamur um trjárækt. „Selskógur er aðal svæðið í Grindavík. Mér finnst þetta mjög áhugavert. Þó ég sé áhugasamur um trjárækt þá þýðir það ekki að ég vilji hafa skóg alls staðar en klárlega á ákveðnum stöðum. Við eigum klárlega að passa upp á hraunið, að það njóti sín. Mér finnst við ekki eiga að eyðileggja það heldur leyfa því að njóta sín en hafa tré á ákveðnum stöðum, þar sem það á við.“

Ferðu niður á bryggju til að ná þér í hugmyndir í myndirnar?

„Ég hef málað einhverjar myndir tengdar sjávarútvegi. Maður er alltaf með einhverjar hugmyndir. Mig langar mjög að búa til einhverjar flottar sjóaramyndir.“

En textarnir? Eru engir sjóaratextar í lögunum þínum?

„Ég hef ekki samið mikið af þeim. Bróðir minn samdi texta og ég vann lag út frá því fyrir áhöfn Kristrúnar RE, það var skemmtilegt verkefni. Ég held það gæti verið gaman að gera einhverja sjóaratexta. Bræður mínir eru báðir á sjó. Pabbi er reyndar hættur á sjó. Hann var alla sína ævi á sjó svo það væri gaman að gera fallegan texta þeim til heiðurs“.

Þú valdir allt aðra línu en pabbi þinn og bræður.

„Fólk spyr mig stundum hvort ég sé ættleiddur. Það er örugglega skrýtið að koma úr sama hreiðri en vera allt öðruvísi.“

Ertu ánægður hér í Grindavík?

„Já, mér finnst Grindavík frábær staður. Það er ekkert allt fullkomið hér, frekar en annars staðar, en við höfum ótrúlega margt gott. Ég geng rosalega mikið hér og Þorbjörn er, alveg hlutlaust, eitt skemmtilegasta útivistarsvæði landsins. Þó maður sé búinn að búa hér alla ævi eiginlega þá er maður alltaf að upplifa nýja hluti í náttúrunni í kring,“ segir Pálmar að lokum.