Þriðjudagur 22. maí 2018 kl. 06:00

X18 - Margrét Þórarinsdóttir: Íbúalýðræði og skólamálin

Hver eru að ykkar mati stærstu kosningamálin í Reykjanesbæ að þessu sinni?

Við teljum það vera Helguvíkina. Við viljum stóriðnað burt og þann meðbyr höfum við fundið frá fólkinu. Síðan er það náttúrulega HSS, það brennur mikið á íbúum og þar þarf að gera einhverjar róttækar breytingar. Við þurfum að fá meira fé inn í sveitarfélagið, við þurfum að sitja við sama borð og önnur sveitarfélög á landinu. Ég verð nú að játa það, að ég varð fyrir vonbrigðum rétt fyrir jól, þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fyrir. Þá var gerð breytingatillaga á fjárlagafrumvarpinu um að HSS fengi um 200 milljónir, löggæslan fengi líka og Reykjanesbrautin, en þessu var því miður hafnað. Það er leitt að sjá það að við hér í samfélaginu getum ekki unnið saman. Þarna sitja menn í ríkisstjórn sem eru í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og þeir felldu þessa breytingartillögu. Þannig við þurfum að breyta og fara að vinna betur saman og þrýsta á ríkisvaldið að veita okkur meira fé.


Hver eru helstu málin sem ykkar flokkur er að leggja fram núna?
Það er íbúalýðræði, við viljum að íbúar bæjarins hafi valkost um að kjósa um stór málefni, til dæmis um Helguvíkina. Það er náttúrulega ekki réttlátt að sveitarfélagið hafi verið svelt, við stöndum ekki jöfn á vígi við önnur sveitarfélög. Þetta er svona það einna helsta. Annars eru það skólamálin, við viljum veita afslátt af máltíðum fyrir börnin okkar og þá erum við að tala um 50% afslátt.


Hver er ykkar skoðun á Helguvík?
Við viljum stóriðjuna í burtu. Miðflokkurinn vill hana í burtu. Við þurfum að semja við United Silicon og Arionbanka um að United Silicon verði selt úr landi. Síðan þarf að semja við Thorsil. Þetta er alltof nálægt íbúabyggð og það varð náttúrulega allt vitlaust í bæjarfélagi þegar United og Thorsil fóru af stað. Þetta er úrelt, það á sér ekki stað í dag að fólk sé með stóriðju í eins og hálfs kílómeters radíus frá bæjarbúum. Við teljum að þetta sé mögulegt, það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og nú er ég að bíða eftir að fá að sjá samninga sem voru gerðir við United Silicon og Thorsil. Við látum lögfræðiteymið okkar sjá um þessa hluti og við viljum að íbúarnir fái að kjósa um hvað sé að gerast. Við í Miðflokknum viljum Helguvíkina hreina og sjáum fyrir okkur allt annað en stóriðju.


Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem fyrirmyndar sveitarfélag í framtíðinni?
Ég sé ferðaþjónustuna blómstra og ég sé hann líka fyrir mér sem heilsubæ. Það er mikil heilsuvakning meðal bæjarbúa. Í Helguvík er hægt að vera með lífræna ræktun og ég sé fyrir mér að það verði engin stóriðja á svæðinu. Ferðaiðnaðurinn blómstrar ásamt því að við erum að framleiða með nýsköpunarfyrirtækjum, eins og þörungaverksmiðjan upp á Keili, sem er frábært framtak. Við hjá Miðflokknum sjáum þetta fyrir okkur þannig.