Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 22. nóvember 2020 kl. 07:30

Vinsælt hreindýr er handsmíðað í Grindavík

Grindvísk hjón láta draumana rætast í nýju pakkhúsi. Veiran mætti rétt eftir opnun verslunar og vinnustofu og hefur haft mikil áhrif hjá Kristinsson. Ástríða í flottu handverki sem er orðið landsþekkt.

„Það er gaman að geta unnið við það sem maður hefur ástríðu fyrir eða hefur gaman af. Árið hefur auðvitað verið sérstakt og erfitt því við vorum nýbúin að byggja nýtt hús með verslun og vinnustofu þegar Covid-19 skall á,“ segir Grindvíkingurinn Vignir Kristinsson en hann og Ólöf Kristín Jensdóttir, eiginkona hans, reka fyrirtækið Kristinsson - handmade í glæsilegu og nýju pakkhúsi við Stamphólsveg í Grindavík.

Vignir er listamaður af guðs náð og fékk í vöggugjöf handverkshendur sem hann hefur notað hefur í gegnum tíðina. Hann hefur starfað hjá trésmíðaverkstæðinu Grindinni í Grindavík og svo reyndi hann sjálfur fyrir sér í innréttingasmíði. Rak um tíma fyrirtækið Krosstré en það gekk ekki alveg upp. Krosstré eiga það líka til að bregðast eins og önnur tré. Hann stundaði sjómennsku með tengdaföður sínum um tíma en svo var kominn tími á að reyna á handverk kappans sem endaði með því að fjölskyldan ákvað að reisa myndarlegt tvílyft hús í Grindavík.

Landsþekkt hreindýr

Það eru ekki margir sem hafa orðið þekktir fyrir hreindýrin sín á Íslandi en Vignir er einn af þeim og dóttir hans á stóran þátt í því. „Þegar það var lítið að gera í innréttingasmíðinni kom dóttir mín með þessa hugmynd að smíða hreindýr. Það má segja að þau hafi fengið fljúgandi start,“ segir Vignir þegar við forvitnuðumst um það hvernig þetta byrjaði hjá honum. Hreindýrasmíðin var síðan um tíma í gömlum og gluggalausum beitningaskúr en draumurinn var að byggja alvöru aðstöðu undir heindýrasmíðina og aðra hluti.

Áður en hann og Ólafía Kristín Jensdóttir ákváðu að láta drauminn rætast og opna verslun og vinnustofu á besta stað í Grindavík hafði handverkið hans verið selt með góðum árangri í mörgum af þekktari hönnunarverslunum landsins á borð við Epal, Rammagerðinni, Mýrinni, Syrusson og víðar. Hreindýrin fóru fyrst í sölu fyrir um áratug en síðan hefur bæst í vöruúrvalið. Hestar, könglar, tré, uglur, hvalsporðar, kertastjakar, skurðarbretti og fleira mætti nefna má sjá má undir merkinu Kristinsson. Svo smíðar Grindvíkingurinn ýmislegt eftir óskum viðskiptavina, borð og fleira og þá hefur hann smíðað leikföng. Tréleikföng eru endingarbetri, fallegri og umhverfisvænni. Vörurnar hjá Kristinsson eru hvítar, svartar og hvíttuð eik. Vignir segist hafa notað mest eik í munina sína en einnig beyki og þá sé hann að fikra sig áfram í hnotu.

Verkefni og ástríða á efri árum

„Við vorum aðallega að hugsa um að koma einhverju í gang sem við gætum sinnt núna á efri árum,“ segir eiginkonan sem stendur vaktina með sínum manni en þau segja að þau hafi fengið ótrúlega mikla hjálp hjá börnum sínum, dóttur og sonum. Synirnir tveir voru með föður sínum í byggingu hússins sem er handsmíðað eins og munirnir sem Vignir gerir. Vinnustofan og verslunin eru á neðri hæð en á efri hæðinni voru þau hjón með draum um að vera með lúxusíbúð fyrir ferðamenn. Sá draumur frestaðist aðeins, m.a. út af heimsfaraldri, en hæðin mun fara í notkun einhvern tíma á næstu mánuðum og verða tilbúin þegar ferðamenn mæta aftur til Íslands. Vignir segir að þegar þau hafi sótt um lóðina hafi skilyrði verið að það væri tvílyft. Falleg hús sem Vignir hafði séð á Hofsósi voru ofarlega í huga hans og hann rissaði upp teikningu af því en Sveinn Valdimarsson í Keflavík fullteiknaði svo húsið.

„Þú getur séð fullt af hönnunar­vörum, til dæmis frá Danmörku, með miða á sem stendur að þær séu framleiddar í Kína – en það er ekki þannig hjá okkur. Ég held að það hjálpi okkur eitthvað. Við leggjum áherslu á að þetta er íslensk framleiðsla.“

Vinnustofa, verslun og gisting

„Við sáum fyrir okkur að þetta gæti farið saman að vera með vinnustofu og verslun og flotta gistiastöðu á efri hæðinni. Það var smá spurning með klæðningu á þakið en ég vildi ekki bárujárn og við enduðum á því að klæða það með plönkum, tvær sinnum níu. Okkur fannst það koma vel út og ég er í skýjunum með útkomuna,“ segir Vignir en húsið er 250 fermetrar með hæðunum tveimur. Þeir feðgar báru síðan tjöru á húsið sem kemur afar vel út svona dökklitað. Staðsetningin þótti líka góð, að vera við hlið á vinsælum veitingastað (Salthúsinu) sem margir sækja. „Við fengum talsvert af heimsóknum frá ferðamönnum hingað fljótlega eftir opnun í desember í fyrra en svo kom veiran og þá stöðvaðist það,“ segir Ólafía og þegar hún er spurð út í ævintýri þeirra hjóna segir hún að ástríða bóndans sé mikil í verkefninu. „Það fannst mörgum þetta skrítið þegar var verið að reisa húsið. Svolítið eins og Nói og örkin hans. Fólki fannst þetta eitthvað skrímsli en minn maður hafði trú á þessu og nú sér fólk að Nói hafði eitthvað til síns máls. Árið hefur frá upphafi Covid-19 verið erfitt en við höfum þó fengið mjög góðar móttökur frá heimamönnum og fólki utan svæðis. Við erum þakklát fyrir það. Það komu hópar hér í byrjun og fannst gaman að koma inn í hönnunarverslun og geta séð hvernig framleiðslan fer fram. Við vonumst til að þetta eigi eftir að koma aftur þegar staðan á veirutímum lagast.“

Handunnið á Íslandi

Þegar Vignir eru spurður út í smíðina þá færist okkar hægláti maður allur í aukana og sýnir blaðamönnum VF ýmislegt en aðaláherslan er á gæði og vandað handverk. Sjá má ýmis smáatriði sem okkar maður leggur áherslu á til að gera flotta gjafavöru. Hann smíðaði tvær vélar til að pússa og gera fínvinnuna sem er tímafrek, eins og til dæmis í hreindýrunum. Vignir brosir þegar hann er spurður hvort hann gæti ekki gert þetta hraðar og á ódýrari hátt með því að senda vörurnar til framleiðslu í Kína. „Þá væri ég heldur ekki að gera sem mér finnst skemmtilegt. Það er frábært að geta gert það. Þú getur séð fullt af hönnunarvörum, til dæmis frá Danmörku, með miða á sem stendur að þær séu framleiddar í Kína – en það er ekki þannig hjá okkur. Ég held að það hjálpi okkur eitthvað. Við leggjum áherslu á að þetta er íslensk framleiðsla.“ 

– En hvað með að hefja rekstur á svona fyrirtæki í dag?

„Ég held að menn þurfi að vera léttruglaðir að gera það. Veiruárið hefur reynt á okkur eftir mjög góða byrjun. Við höfum fengið mikla hvatningu víða að og konurnar í verslunarmiðstöðinni hér í Grindavík hafa bent mörgum á okkur. Þetta er þungur róður en við ætlum að gefa þessu séns. Þetta er það sem okkur langar að gera.,“ segir Vignir Kristinsson.

Kristinsson hjónin í versluninni.

Skurðarbretti eru til í mörgum gerðum, kertastjakar og fleira.

Uglurnar vekja athygli.

Séð inn í verslunina á jarðhæð pakkhússins í Grindavík.

Ólafía Kristín aðstoðar viðskiptavini.