Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 27. desember 2023 kl. 06:03

Viljum ala upp íslensk börn

„Það vildi þannig til að ég vildi fara erlendis í framhaldsnám og eftir að hafa velt ýmsum möguleikum fyrir okkur, bæði með tilliti til náms, búsetuskilyrða og fjarlægðar frá Íslandi, varð New York lendingin – við erum svo sem ekki fyrstu Íslendingarnir í sögunni til þess,“ segir Gunnar Þorsteinsson en hann og eiginkona hans, Lovísa Falsdóttir, fluttust búferlum fyrir þremur árum og hafa verið í New York síðan.

Lykilleikmaður leggur skóna á hilluna

„Ég kom upphaflega út til að fara í mastersnám í orkuverkfræði, er með bakgrunn í jarðeðlisfræði og vann hjá HS Orku, endaði svo í doktorsnámi í rafhlöðuverkfræði. Alveg óvart, fyrir röð tilviljana endaði ég þar.“

Gunnar segir að námið sé afar spennandi með tilliti til rafbílavæðingar og aukinnar kröfu um endurnýjanlega orkugjafa. „Það eykst þörfin á rafhlöðum og það er miklum fjármunum veitt þessi dægrin í rannsóknir og þróun, þar á meðal í háskólanum. Það þarf marga doktorsnema til að inna þetta allt af hendi. Biden [Bandaríkjaforseti] hefur varið milljörðum bandaríkjadala í það í gegnum frumvarp sem hann kom í gegnum þingið í fyrra, þannig að það er svolítil gósentíð hjá rafhlöðusérfræðingum.“

Gunnar var lengi lykilleikmaður og fyrirliði knattspyrnuliðs Grindavíkur og það kom mörgum á óvart þegar hann tilkynnti að hann væri hættur fótbolta til að halda út í nám.

Gunnar í leik með Grindavík sumarið 2020.

„Núna eru komin rúm þrjú ár síðan ég hætti að spila, þetta líður alveg svakalega hratt. Á Íslandi er maður svo heppinn að hafa tök á því að vera í námi á meðan maður er að spila, svo vann ég líka á meðan ég var að spila. Eitthvað sem annars væri ekki hægt og þess vegna getur maður átt tvo ferla á sama tíma, fótboltaferilinn og atvinnuferilinn. Það er mjög gaman að geta gert bæði, það er einnig mjög krefjandi og ein af ástæðunum fyrir því að ég vildi fara erlendis í framhaldsnám var að mér fannst það vera orðið mjög slítandi. Sérstaklega eftir að vorum farin að stofna fjölskyldu, þá var þetta orðið helst til mikið. Fyrir utan að ég vildi komast og sjá annað umhverfi þá fannst mér tækifæri að gera í raun og veru minna með því að fara út í framhaldsnám, vera bara í því og einbeita mér að því og fjölskyldunni. Það er nógu mikið að vera með alla þessa gríslinga, þegar við fórum út vorum við með tvö börn og erum núna búin að bæta því þriðja við.“

Aðstoðar efnilegt íþróttafólk við að komast í háskóla

Á meðan hann er að leika sér í fótbolta og skóla, ert þú þá bara að sjá fyrir fjölskyldunni?

Lovísa segist vera nokkurs konar framkvæmdastjóri heimilisins en sinnir líka öðrum verkefnum sem henni finnast mjög skemmtileg. „Ég er í smá hlutastarfi frá Íslandi, er einmitt að hjálpa krökkum að komast út í háskólanám á körfuboltastyrk. Þannig að maður er með fullt af boltum á lofti,“ segir Lovísa.

„Við erum miklu meira saman, fjölskyldan, heldur en við vorum heima. Mér fannst, eftir að ég kyngdi stoltinu, einhver samfélagsleg pressa að maður ætti einhvern veginn að vera að klífa stigann sjálf. Við erum bara lið í þessu, hann er að leggja í púkkið fyrir fjölskylduna núna og svo ætla ég að fá að eiga minn tíma þegar ég er búin að skutla og sækja þessum börnum endalaust.

Í upphafi ætluðum við bara að vera hérna í ár og þetta var svakalega planað hjá okkur. Ég var fastráðin flugfreyja og við vorum búin að plana að eignast barn númer tvö. Maður má ekki fljúga þegar maður er óléttur þannig að ég ætlaði bara að fara í veikindaleyfi, taka síðan fæðingarorlof og flytja svo heim – en síðan kom Covid og það breyttust öll okkar plön, landið alveg lokað fyrstu tíu, ellefu mánuðina eftir að við fluttum, engar heimsóknir og svoleiðis, þannig að við vorum að ákveða með framhaldið þegar honum býðst þetta doktorsnám. Hvort við vildum vera áfram og í raun og veru fá að upplifa borgina eins og við höfðum séð fyrir okkur áður en Covid kom. Svo er ég bara að eignast þessi börn af því að ég fæ ekkert vinnuleyfi. Þess vegna er þessi hérna,“ segir Lovísa sem bendir á Svölu, fimm mánaða, og hlær.

Lovísa segir að fjölskyldan verji meiri tíma saman núna en þau gerðu heima á Íslandi.

Þú segir að þú sért að hjálpa krökkum við að komast út í nám, er það þá bara körfuboltinn eða eru það fleiri íþróttir sem þú ert að sinna?

„Ég vinn hjá Ansa Athletics og við erum búin að koma krökkum út í golfi, sundi, körfubolta og frjálsum. Eins og Gunnar segir: „Ef ég hefði getað borgað einhverjum til að sjá um þessa pappírsvinnu og það sem fólk þarf að standa í ...,“ þá erum við að sjá um það og í rauninni að nýta þetta net sem við erum búin að byggja upp af íþróttaþjálfurum sem eru að skoða íþróttamenn um allan heim. Þetta er náttúrulega rosalega stór markaður, það er ekki eins og Bandaríkin séu ekki nógu stór fyrir. Við höfum fengið fólk til okkar þar sem foreldrar eru að reyna að græja þetta sjálfir en það er rosalega erfitt að brjótast inn á þennan markað, það er svo gott að vera með fólk eins og okkur sem eru búin að setja af stað sambönd við marga skóla. Þannig að við erum núna með tengsl sem fólk getur nýtt sér til að nýta sér okkar þjónustu og okkar tengslanet fyrir krakka sem hafa drauma um að komast í þetta stóra umhverfi sem háskólaíþróttirnar eru. Það eru auðvitað golfarar eða frjálsíþróttamenn sem sjá í hyllingum að geta verið í golfi allt árið eða úti að hlaupa í betra veðri heldur en gengur og gerist heima á klakanum.“

Það vita kannski ekki allir en Lovísa er systir Jönu Falsdóttur sem leikur með körfuknattleiksliði Njarðvíkur í Subway-deild kvenna.

„Hún er algjörlega að brillera þessa dagana. Það er geggjað að fylgjast með henni og hún er einmitt að skoða það að fara út. Það er mjög erfið vinna fyrir mig því ég er að sjá um klippingar á vídeóum fyrir þessa krakka, ég er alltaf að byrja að klippa en svo kemur annar betri leikur þannig að ég þarf að færa aftar það sem ég er búin að klippa. Ég veit aldrei hvar ég á að byrja, það verða alltaf betri og betri leikir hjá henni,“ segir Lovísa sem fer ekki leynt með álit sitt á systur sinni.

Marel á háhesti á Jönu frænku.

Lovísa, þú ert Keflvíkingur en þú, Gunnar, Grindvíkingur.

„Það fer svolítið eftir því hver spyr hvort ég sé Vestmanneyingur eða Grindvíkur. Ég fæddist í Eyjum og flutti til Grindavíkur þegar ég var sjö ára og spilaði svo seinna með ÍBV,“ segir Gunnar. „Ég er einhvern veginn með sinn hvorn fótinn í báðum byggðarlögum.“

„Pabbi sagði alltaf að dóttir hans væri með Vestmanneyingi,“ skýtur Lovísa inn í en Falur Harðarson, pabbi hennar, lék lengi með Keflavík. „Honum fannst ekki við hæfi að ég væri með Grindvíkingi.“

Krefjandi að gegna engu hlutverki

Gunnar hóf sitt nám í jarðeðlisfræði áður en rafhlöðuverkfræðin varð fyrir valinu. Alinn upp að hluta til í Vestmannaeyjum, þeirri miklu goseyju, er þá ekki eðlilegt að hugsa heim þegar fréttir af stöðu Grindvíkinga fóru að berast?

„Maður er eiginlega rétt að jafna sig á áfallinu. Ég var við störf hjá HS Orku þegar þessir atburðir á Reykjanesskaga hófust árið 2020 og þá vorum við mikið að velta þessu fyrir okkur. Það var ekki áfall þá en það kom á óvart, sem það ætti náttúrulega ekki að gera, svona jarðhitasvæði bera með sér að það sé einhverskonar kvika eða aukahiti í jörðinni, en okkur brá mjög mikið og svo hefur þetta verið áframhaldandi þróun. Fram að atburðunum núna var þetta í rauninni búið að spilast eins vel og hægt er. Það er að segja gosin komu upp á góðum stað, bara þessi svokölluðu túristagos, en það er einnar stærðargráðu munur núna sem er þess valdandi að ...,“ hér var Svölu farið að leiðast í viðtalinu og náði að slá pabba sinn út af laginu og hann missti þráðinn eitt augnablik.

„Ég var alveg búinn að vera frekar slakur yfir þessu því þróunin hafði verið mjög áþekk því sem hafði verið í undanförnum þremur viðburðum – en svo virðist þetta hafa verið stærra og skoti tekist að brjóta sér leið þarna í Sundhnúkagígaröðinni. Ég var ekki viðræðuhæfur í nokkra daga þarna á eftir. Maður er svo ótrúlega agnarsmár gagnvart náttúruöflunum og náttúrulega allt manns fólk þurfti að flýja og var bara heimilislaust. Þessi ótrúlega óvissa er á allan hátt alveg hræðileg.“

Er þá ekki svolítið erfitt að vera staddur í annarri heimsálfu þegar fjölskylda manns og vinir eru nánast á vergangi ef það má segja það?

„Jú, klárlega – ekki það að ég ætli að láta þetta snúast um mig en einhvern veginn hugsar maður alltaf hlutina út frá sjálfum sér. Mér fannst svolítið krefjandi fyrst að gegna engu hlutverki. Þegar ég var hjá HS Orku var ég kannski að vakta jarðhitakerfið. Ef ég hefði verið á Íslandi þá hefði maður getað hjálpað fólkinu sínu og vinum sínum að sækja dót, skjóta skjólshúsi yfir fólk. Fyrst og síðast að vera til staðar.

Ef ég tek smá hliðarspor; karl faðir minn, Þorsteinn Gunnarsson, borgarritari, er náttúrlega Vestmanneyingur í húð og hár. Hann upplifði það að flýja Vestmannaeyjar ‘73 og hann sagði sjálfur, því borgin gat tekið á móti bæjarskrifstofunum í Grindavík og því öllu batteríi, að honum þótti gott að geta alla vega lagt eitthvað að mörkum. Að horfa á þetta úr fjarlægð er maður auðvitað rosalega lánsamur að vera ekki í þeirri stöðu að vera heimilislaus eða það sé gríðarleg óvissa með framtíðina. Maður á mjög erfitt með að horfa upp á ættingja og vini, mörg þeirra eiga bara mjög erfitt með þetta.“

Frídögunum á Íslandi fækkar

Gunnar og Lovísa eru að verða búin að búa í New York í þrjú ár. Þau segja frídögunum sem þau verja á Íslandi fækka stöðugt eftir því sem þau komast betur inn í hlutina en fjölskylda þeirra og vinir eru dugleg að heimsækja þau.

„Við erum orðin fimm manna fjölskylda þannig að það er meiriháttar batterí að flytja fólk á milli heimsálfa og við erum svo ótrúlega heppin með bakland í báðar áttir að fólk hefur verið mjög duglegt að koma til okkar. Við höfum í sífellt meiri mæli verið að leggja það á fólk að koma til okkar, frekar en við að koma heim,“ segir Gunnar. „Ekki það að við séum hingað komin til að vera. Við viljum ala upp íslensk börn og það er ýmislegt sem þú færð bara úr umhverfinu. Ég á stundum svolítið erfitt með það þegar peyjarnir, fimm og þriggja, fara að væla og vilja fara inn af því það er smá rigning. Hafandi alist upp í Grindavík og Vestmannaeyjum þar sem ef þú ferð ekki út í roki og rigningu, þá ferðu aldrei út.“

Gunnar og Lovísa hafa ekkert ákveðið í því hvenær þau snúi heim á ný, það fer bara eftir því hvernig veður og vindar blása, en þau setja stefnuna á að flytja heim til Íslands til að ala upp íslensk börn.

Peyjunum líður vel í góða veðrinu.

Lengra viðtal við hjónin má sjá í spilaranum hér að neðan og YouTube-rás Víkurfrétta.