Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 26. mars 2022 kl. 07:59

Ungmennaskipti unglingaráðs Fjörheima

Unglingaráð Fjörheima hefur síðustu mánuði verið að vinna í ungmennaskiptum á vegum Fjörheima og Erasmus+. Hópurinn sem tekur þátt í verkefninu er saman settur af íslenskum og finnskum ungmennum og fór fyrsti partur skiptanna fram í bænum Puumala í Finnlandi.

En hvað eru ungmennaskipti? Ólafur Bergur Ólafsson, umsjónarmaður unglingaráðs Fjörheima, segir ungmennaskipti vera leið fyrir hópa af ungmennum til þess að „kynnast öðrum menningarheimum, taka þátt og í rauninni auka þessa Evrópuvitund.“

Ólafur segir að í þessu verkefni hafi ungmennin alfarið stýrt ferðinni og látið það verða að veruleika. Hugmyndin að verkefninu kviknaði á unglingaráðsfundi árið 2019 en sökum Covid varð töf á skiptunum. „Við byrjuðum að vinna í þessu fyrir alveg tveimur árum en erum bara loksins að komast út núna,“ segir Margrét Norðfjörð Karlsdóttir, formaður ráðsins.

Unglingaráðið sótti um styrk frá Erasmus til að fjármagna verkefnið. Betsý Ásta, fyrrverandi formaður unglingaráðs, segir ferlið hafa verið langt og strangt. „Við unglingaráðið tókum helgi í að skrifa umsóknina og svo þurfti að skrifa aðeins meira þannig að umsóknarferlið tók kannski mánuð,“ segir Betsý. Umsóknin var samþykkt og fengu ungmennin styrk til þess að framkvæma skiptin.

Hópurinn eyddi viku í bænum Puumala í Finnlandi með finnskum ungmennum. Menningarlegur munur er einn af þeim hlutum sem íslensku ungmennin tóku eftir en þau segja samt sem áður að Íslendingar og Finnar eigi margt sameiginlegt. „Við fengum bollur, sem er alveg fyndið út af því að bolludagurinn á Íslandi var á sama tíma og bolludagurinn hérna úti. Þannig við fengum að smakka finnskar bollur og svo fengu þau að smakka íslenskar,“ segir María Rán Ágústsdóttir, markaðsstjóri ráðsins.

Unglingaráðið mun taka á móti finnska hópnum í apríl en þá mun hópurinn ferðast saman innanlands. „Við ætlum að leyfa þeim að koma í ungmennaskipti til okkar og við stjórnum þá svolítið ferðinni. Við ætlum til dæmis að fara með þeim á Bakkaflöt, til Reykjavíkur og svo ætlum við líka að gista í Reykjanesbæ,“ segir Betsý.

Meðlimir ráðsins og umsjónarmenn eru sammála því að ferlið hafi verið lærdómsríkt og skemmtilegt. „Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt ferli, við höfum lært helling og krakkarnir líka. Þó þetta hafi tekið aðeins lengri tíma en var áætlað þá held ég að það sé öllum til góðs að taka þátt í svona verkefni,“ segir Ólafur.