Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 1. júlí 2019 kl. 07:25

Tommi mættur með Búllubílinn til Reykjanesbæjar í sumar

Hamborgarabúlla Tómasar er mætt til Reykjanesbæjar. Búllubíllinn hefur komið sér fyrir á bílastæðinu við Nettó í Njarðvík og þar verður bíllinn í sumar.

Tómas Tómasson hefur reynslu af því að steikja hamborgara ofan í Suðurnesjamenn. Hann byrjaði á Keflavíkurflugvelli og þaðan fór hann til Grindavíkur og sá um veitingarekstur í Festi í nokkur ár. Árið 1981 opnaði hann Tommaborgara við Hafnargötuna í Keflavík og síðar á Fitjum.

Nú er Tommi, sem er orðinn sjötugur, mættur aftur og er að bregðast við áskorunum íbúa í Reykjanesbæ. Tommi hefur verið hvattur til að opna Hamborgarabúlluna í Reykjanesbæ. Hann ákvað hins vegar að byrja á því að koma með Búllubílinn til bæjarins og kanna viðtökur heimamanna áður en stærri ákvarðanir væru teknar. Hann væri þó með augun opin fyrir hentugu húsnæði en sagðist í samtali við Víkurfréttir bara gefa loðin svör eins og stjórnmálamaður við spurningunni um hvort Búllan væri á leið til bæjarins.

Búllubíllinn opnaði á laugardagsmorgun og alla helgina var mikið að gera og ljóst að Suðurnesjamenn eru móttækilegir fyrir Búllu-borgurum. Tommi segist þó ekkert vera að gera eitthvað nýtt, því fyrir væri nokkrir góðir hamborgarastaðir á Suðurnesjum.

Í spilaranum hér að ofan er viðtal sem Víkurfréttir tóku við Tomma þar sem hann stóð við grillið í Búllubílnum á laugardagskvöld. Í viðtalinu segir hann m.a. frá galdrinum á bakvið góðan hamborgara.

Það logaði vel í grillinu hjá Tomma þegar hann stóð vaktina í Njarðvík á laugardagskvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi

Hver er galdurinn á bakvið góðan hamborgara? Svarið er í myndskeiðinu hér að ofan!

Það var nóg að gera í Búllubílnum alla helgina.